Fyrir jól urðu talsverðar umræður um Vin, dagsetur fyrir geðraskanir, vegna áforma borgarstjórnar Reykjavíkur um að loka því í sparnaðarskyni. Margir tjáðu sig af mikilli vanþekkingu, þar á meðal Einar Þorsteinsson forseti borgarstjórnar í Fréttavaktinni á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, þar sem hann sagði þessa starfsemi hafa byrjað sem sjálfboðaliðaverkefni af hálfu Rauða krossins og starfsemin í húsinu sé þess eðlis að ekki þyrfti endilega fagfólk til þess að sinna því.
Í ár eru 30 ár síðan Rauði kross Íslands opnaði Vin sem hét þá Athvarf fyrir geðfatlaða. Var þetta fyrsta úrræðið sem opnað var gagngert til að draga úr félagslegri einangrun og stuðla að valdeflingu þeirra sem staðinn heimsóttu og voru kallaðir gestir á þeim tíma. Í kjölfarið opnuðu deildir Rauða krossins á viðkomandi svæðum athvörfin Dvöl í Kópavogi, Læk í Hafnarfirði og Lautina á Akureyri, sem þessi sveitarfélög hafa nú tekið yfir.
Því hefur verið haldið fram að Vin hafi verið starfrækt af sjálfboðaliðum og vissulega er Rauði krossinn sjálfboðaliðahreyfing og í Vin starfaði frá upphafi öflugur sjálfboðaliðahópur sem var góð viðbót við starfsemina. En í Vin voru ráðnir starfsmenn frá byrjun, þrír í fyrstu og einum bætt við eftir nokkur ár. Þetta var fagfólk á sviði geðhjúkrunar og/eða með reynslu af geðmeðferð. Fljótlega voru gestirnir um og yfir 30 á dag og voru flestir þeirra mjög virkir í starfseminni.
Það má segja án þess að hallað sé á neinn að í Vin hafi verið unnið frumkvöðlastarf með því að vinna samkvæmt nýjum straumum og viðhorfum svo sem batastefnu og valdeflingu fólks með geðrænan vanda.
Það verður að halda til haga að þegar Vin var stofnað voru enn svokallaðar langlegudeildir á Kleppi, þar sem fólk hafði búið jafnvel áratugum saman. Meðferðin einkenndist af forræðishyggju og samfélagsgeðþjónusta var lítil sem engin. Gestir og starfsfólk Vinjar voru virk í að kynna sér það nýjasta í straumum og stefnum málefnisins og með góðum stuðningi Rauða krossins voru haldin málþing og vinnustofur í samvinnnu við ýmsa aðila, meðal annars um samfélagsgeðþjónustu í samvinnu við Sainsbury Centre for Mental Health og um vinnu með raddir í samvinnu við Hearing Voices Org. Einnig var virkt samstarf í tilefni alþjóðlegs geðheilbrigðisdags og ekki má gleyma ferðum á fundi Rauða krossins um land allt þar sem starfsemin var kynnt og frætt um málefnið.
Allt þetta má lesa í 10 ára skýrslu Vinjar og væntanlega á fleiri stöðum. Ég nefni líka að Rauði kross Íslands var í samvinnu við Rauða krossinn í Hvíta Rússlandi (Belarus) um stofnun og rekstur á opnu húsi í Minsk að fyrirmynd Vinjar og er sú starfsemi nú í lykilhlutverki varðandi breytingar og umbætur á sviði geðþjónustu þar í landi.
En allt er breytingum undirorpið og það á við um starfsemi eins og Vinjar. Bæði hefur úrræðum fjölgað gífurlega miðað við fólksfjölda, hugmyndafræði og þjónusta þróast og Reykjavíkurborg tekið við starfseminni. Það er ekkert óeðlilegt að hugað sé að breytingum, spurt og spekúlerað í nýtingu og fjármunum og hvernig þeir nýtist sem best þeim sem á þurfa að halda. Það er í verkahring velferðarsviðs borgarinnar og borgarstjórnar.
Að ákveða að loka Vin er ekki eitthvað sem notendur og starfsmenn eiga að heyra um í fjölmiðlum, það er gríðarlegt virðingarleysi og skilningsleysi á aðstæðum þeirra. Svo stóra ákvörðun þarf að undirbúa í langan tíma á faglegan hátt og í góðri sátt og samvinnu við þau sem málið varðar. Það er lágmarkskrafa að forsvarsmenn borgarinnar kynni sér málið af kostgæfni.
Höfundur er geðhjúkrunarfræðingur og fyrrum forstöðumaður Vinjar.