Íslenskur vinnumarkaður hefur löngum komið mér undarlega fyrir sjónir. Ég hef frá því á bestu árum mínum þar átt erfitt með að átta mig á hvað það er sem skiptir máli.
Nú þegar ég er komin á miðjan aldur skil ég enn minna.
Ég er 59 ára gömul – verð sextug á næsta ári. Það er langt síðan ég lærði að ég hef ekki lengur sjálfdæmi um hvað ég hefst að í lífinu. Á íslenskum vinnumarkaði – íslensku viðskiptalífi í það minnsta sem er sá starfsvettvangur sem ég valdi mér - er maður orðinn ónýtur fimmtugur. Það er ekkert nýtt. Þannig hefur það verið mjög lengi eða frá því ég starfaði sjálf við ráðningar á níunda áratug síðustu aldar. Um þetta er samt ekki enn talað. Aldursfordómar eru ekki bara leyfilegir – þeir eru sjálfsagðir á Íslandi 21. aldar.
Nú spyr ég landa mína að því – hvað á ég að gera?
Starfsöryggi á Íslandi er ekki til.
Á Íslandi þykir sjálfsagt að segja upp fólki fyrirvaralaust fyrir engar sakir. Skiptir engu máli þó það sé komið á sextugsaldur. Vinnuveitendur eru frjálsir að því að gera það sem þeim sýnist og það er litið á það sem mjög mikilvæga grundvallarreglu almenns vinnumarkaðar í landinu.
Nú reyna Sjálfstæðismenn að koma þessari sömu reglu á á opinberum markaði líka. Finnst það ótækt að hinn opinberi markaður geri kröfu um áminningar sbr. frumvarp sem lagt var fram á haustþingi um að þær skuli lagðar af.
En það er ekki allt.
Ég hef lengst af minnar starfsævi starfað á almenna markaðnum þ.e. þeim einkarekna. Þar hefur sú grundvallarregla verið algjörlega skýr að maður ræður sig til starfa á reynslutíma í 3 mánuði og eftir það er maður fastráðinn. Gríðarlega mikilvæg regla sem gefur launþeganum sjálfdæmi um veru sína hjá viðkomandi vinnuveitanda. Þ.e. hann er í föstu starfi þar til annað hvort hann segir upp með 3ja mánaða fyrirvara eða er sagt upp með 3ja mánaða fyrirvara. Þessi regla gefur viðkomandi ákveðið öryggi sem er gríðarlega mikilvægt og maður er svo sem alla jafna ekki að hugsa mikið út í. Fyrr en maður kynnist öðru…
Tímabundnum ráðningum. Hjá hinu opinbera á Íslandi hefur þetta ráðningarform tíðkast um langt skeið að mér er sagt og er orðið ráðningarformið í mörgum tilvikum. Þetta ráðningarform þýðir að þú ert algjörlega réttindalaus. Ert ráðin tímabundið í einhverja mánuði og getur átt það á hættu að fá ekki fastráðningu og þurfa frá að hverfa án nokkurrar greiðslu sem venjulega myndi kallast uppsagnartími.
Þetta ráðningarform þykir semsagt sjálfsagt orðið að viðhafa hjá hinu opinbera á Íslandi – hvort sem um ræðir ráðningar ríkisvaldsins eða Reykjavíkurborgar (þekki ekki fyrirkomulag þessa hjá öðrum sveitarfélögum). Ráðningar þar sem starfsmennirnir eru algjörlega réttindalausir.
Fram hefur komið að Sólveig Jónsdóttir formaður Eflingar ekki bara sagði upp öllu starfsfólki á skrifstofu Eflingar í vor heldur réði starfsmenn inn tímabundið… til hálfs árs. Ekki hægt að skilja þann gjörning öðruvísi en hann sé hugsaður sem fordæmi sem sjálfsagt sé að almenni markaðurinn viðhafi.
Ég spyr – hvað á þetta að þýða? Hvernig stendur á því að stéttarfélögin í landinu láta þetta viðgangast og gera ekkert í málinu? Þykir þeim og þykir okkur þetta bara í lagi og hið besta mál? Vita þau ekkert hvaða þýðingu starfsöryggi hefur? Vita þau hvernig það er að fá ekki fastráðningu eftir kannski 1 eða 2 ár í starfi og vera þannig hent út réttindalausum? Ætlum við að þróa vinnumarkaðinn í þessa átt lengi enn?
Vinnumarkað þar sem launþeginn hefur ekki lengur sjálfdæmi um sinn starfsferil heldur þarf að lifa í ótta um stöðu sína frá degi til dags?
Vinnumarkað þar sem vinnuveitandinn hefur tögl og hagldir en launþeginn er peð?
Vinnumarkað hins sterka?
Ég læt staðar numið hér að sinni en fleiri greinar um sama málefni munu fylgja í kjölfarið.
Höfundur er áhugamaður um stjórnmál.