Í kvöld ráðast úrslitin í Spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur. Er þetta í 31. skiptið sem keppnin fer fram en í kvöld gerast þau undur og stórmerki að meðal keppenda verða þrír piltar og, viti menn/konur, þrjár stúlkur. Þetta er í fyrsta sinn sem fjöldi kven- og karlkeppenda er í jafnvægi. Á 31. keppnisári.
Flestir vilja líklega tengja þessar gleðifréttir við ákvörðun sem var tekin af stýrihópi Gettu betur en í honum sitja fulltrúar þeirra skóla sem stóðu sig best árið á undan. En það er meira sem kemur til. Átakið Gettu betur stelpur, sem hóf göngu sína fyrir réttum tveimur árum, á mun meira í þessum glæsilega árangri en tillagan um kynjakvótann. Það er alltaf gleðilegt þegar til verður grasrótarhreyfing sem ætlar sér að hreyfa við hlutunum. „Bottom-up“ breytingar eru líklegri til að verða varanlegri en „top-down,“ í öllu falli alltaf meira kúl. En það þarf samspil á milli. Sitji allir sem fastast í stólum sínum komast einfaldlega ekki nýir rassar að. Þú þarft ekki Nóbelsverðlaun í eðlisfræði til að fatta það.
Sem leiðir mig að því: Þessi pæling um mikró-heim Gettu betur-nördisma er dæmi. Dæmi um hvernig heimurinn er. Makró-heimurinn, sko.
Staðreyndin er nefnilega sú að þegar stýrihópur Gettu betur tók fyrir tillögu um kynjakvóta, var einn skóli sem setti sig á móti tillögunni. Útskýrði fulltrúi skólans (sem var kvenkyns) afstöðu sína í stuttu máli svona: „Það er niðrandi fyrir kynsystur mínar sem komast inn í liðin á næstu árum að einhverjir muni telja það vera vegna kynjakvótans. Stelpan sem kemst í liðið af því hún var hæfust vill ekki vera kölluð „kvótastelpan“.“
Gott og vel. Viðkomandi stelpa ætti að hafa samviskubit yfir því að komast í Gettu betur.
Ég ætla þá að spyrja spurningar. Hafa þeir keppendur í Gettu betur, í nútíð og fortíð, sem hafa jafnframt getnaðarlim, ekki bullandi samviskubit yfir því að hafa komist í liðið yfir höfuð? Vitandi það að samfélagið kenndi þeim að það væri kúl að vera í sjónvarpi og það væri kúl að vera gáfaður á sama tíma og samfélagið kenndi stelpum að það væri kúl að hvetja strákana áfram, að það væri kúl að vera skotin í þeim og horfa á þá aðdáunaraugum? Að vera á hliðarlínunni, í besta falli hluti af skemmtiatriðinu milli spurninga. Hugsa þessir keppendur einhvern tímann út í það, að ef jafn margar stelpur hefðu fengið sömu hvatningu og þeir, þá hefði jafnvel verið stelpa í stólnum þeirra? Fá þessir keppendur samviskubit yfir því að hafa samið sjálfir öll forprófin fyrir keppnisliðin í Gettu betur, bókstaflega skrifað leikreglurnar eftir eigin höfði? Hve margar stelpur komust ekki í Gettu betur-liðið því þær kærðu sig kollóttar um hver var í marki hjá Manchester United á undan Peter Schmeichel? Eða einfaldlega því þær voru ekki vinir, eða kunningjar þeirra liðsmanna sem voru i liðinu árið á undan, sem höfðu einmitt verið vinir, eða kunningjar þeirra sem voru þar á undan. Sjitt hvað það eru örugglega margar stelpur! Fá karlkyns keppendur í Gettu betur samviskubit yfir því að vita að skólar þeirra hafa, í 31 ár, aðeins nýtt sér brotabrot af þeim mannauði sem var fyrir hendi, sem hefði mátt nýta til að hámarka árangur í keppninni?
Persónulega fengi ég samviskubit, myndi ég þiggja starf og þyrfti alltaf að hugsa um að möguleikar helmings umsækjenda hefðu verið takmarkaðir.
En, hei. Auðvitað erum við öll fórnarlömb þess kynlega kerfis sem ól okkur upp. En það þýðir ekki að við þurfum að lifa við það. Þetta samviskubit hjálpar engum. Ekki satt?
Bara, pæling.
Annars, til hamingju með eðlilegt jafnvægi í úrslitum Gettu betur! Það var tími til kominn. Þessi mikróheimur Gettu betur-nördismans er nefnilega, ykkur að segja, miklu skemmtilegri þegar hlutirnir eru í jafnvægi. Allir eru sammála. Keppendurnir líka. Auðvitað!
Og vitið þið hvað, ég er 100% viss um að það gildi einnig um hinn stóra heim. Makró-heiminn.
Höfundur er spurningahöfundur og aðstoðardómari við Gettu betur 2014 og 2015.