„Á haustdögum árið 2002 var Aflið stofnað af nokkrum kjörkuðum konum, konum sem sumar eru enn starfandi þar, jafnvel með litlum sem engum hléum, nú í 11 ár. Starfið tekur sinn toll og ekki allir þola álagið og í ofanálag að þurfa að berjast fyrir hverri krónu er ekki boðlegt.“Þetta skrifaði Sigrún Sigurðardóttir, doktorsnemi í lýðheilsufræðum, í blaðagrein vorið 2013.
Sóley Björk Stefánsdóttir, gjaldkeri Aflsins.
Þá hafði ég nýlega tekið sæti í stjórn Aflsins. Ég er ein af þeim heppnu konum sem hafa ekki orðið fyrir alvarlegu kynferðis- eða kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni. Ég hef því mikið lært á síðustu tveimur árum en þrátt fyrir að margt mjög sláandi hafi borið að augum og eyrum þennan tíma stendur eitt upp úr; hversu ótrúlega tæpt rekstur Aflsins stendur og hversu ótrúlega blint ríkisvaldið er að trúa því að örfáar konur muni geta sinnt þessum störfum til lengdar af hugsjóninni einni saman.
Hvernig hefur þetta þá gengið upp öll þessi ár? Mitt svar er: Það hefur alls ekki gert það. Hvert ár sem líður færir okkur nær því að þessar konur gefist upp. Hvernig er til dæmis hægt að komast upp með það að greiða konu 20.000 kr. verktakagreiðslu á mánuði fyrir að sinna símavakt allan sólarhringinn alla daga?
Konurnar sem starfa fyrir Aflið hugsa mun meira um skjólstæðinga sína en peninga og hafa í raun tekið þegjandi þeim niðurskurði á framlagi ríkisins sem orðið hefur frá hruni þrátt fyrir að skjólstæðingarnir séu nú margfalt fleiri. Það hefur því verið forgangsatriði að koma þeim skilaboðum til stjórnvalda að verði rekstrarfé ekki aukið er ólíklegt að Aflið muni starfa í mörg ár til viðbótar.
Sóknin hófst með því að velferðarnefnd Alþingis kom í heimsókn til Aflsins, þar sem staðan var kynnt. Það var augljóst að nefndarfólk var mjög slegið yfir stöðu Aflsins. Fundinum var fylgt eftir með tölvupósti á alla nefndarmeðlimi. Í kjölfarið barst okkur tölvupóstur frá formanni nefndarinnar, sem hófst á orðunum: „Við í velferðarnefnd gerum okkur grein fyrir að staða Aflsins er alvarleg.“ Þetta var 7. júlí 2014.
Skemmst er frá því að segja að við glöddumst mjög við að velferðarnefnd skyldi sýna málinu svo mikinn skilning og tvíefldumst í þeirri hugsjón að bjarga starfsemi Aflsins með því að koma ráðamönnum í skilning um mikilvægi starfseminnar og alvarlega fjárhagsstöðu Aflsins.
Eygló Harðardóttir velferðarráðherra ber ábyrgð á þeirri ákvörðun að skera fjárframlög til Aflsins við nögl. Hver eru skilaboð hennar til landsbyggðarinnar með þessu? Er það ekki þess virði fyrir okkur sem samfélag að berjast gegn ofbeldi og styðja þolendur?
Við sendum bréf til þingmanna og áttum fundi og símtöl við þá þingmenn sem sýndu málinu áhuga, en þar má sérstaklega nefna Brynhildi Pétursdóttur og Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Við skrifuðum greinar í blöð og töluðum okkur hásar á alls konar fundum, sveitarstjórnarfólk talaði máli okkar inni í þingflokkum, bæjarstjórinn á Akureyri ræddi málið sérstaklega á fundi með þingmönnum kjördæmisins og svo mætti lengi telja.
Á alþjóða mannréttindadeginum, 10. desember síðastliðnum, í kjölfar 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi, var sett af stað söfnun undirskrifta við bréf til þingmanna þar sem farið var fram á aukin fjárframlög til Aflsins.
Við söfnuðum saman umsögnum frá samstarfsaðilum okkar, þ.e. lögreglunni á Akureyri, slysa- og bráðamóttökunni, geðdeild sjúkrahússins, Símey, Kvennaathvarfinu í Reykjavík og fleirum, sem staðfestu mikilvægi starfsemi Aflsins.
Óhætt er að segja að við höfum fengið samfélagið til að tala máli okkar. Þess vegna urðu vonbrigðin ólýsanleg þegar bréf barst frá velferðarráðuneytinu síðastliðinn föstudag um að framlag ríkisins til rekstrar Aflsins árið 2015 yrði þrjár milljónir. Þetta er einni milljón minna en framlag ríkisins til rekstrarins árið 2014.
Þetta er ekki síst einkennilegt þegar borin eru saman framlög ríkisins til Stígamóta og Kvennaathvarfsins í Reykjavík en þessi samtök fengu 150 milljónir til að halda úti sinni mikilvægu þjónustu, og eru ekki ofalin af því.
Eygló Harðardóttir velferðarráðherra ber ábyrgð á þeirri ákvörðun að skera fjárframlög til Aflsins við nögl. Hver eru skilaboð hennar til landsbyggðarinnar með þessu? Er það ekki þess virði fyrir okkur sem samfélag að berjast gegn ofbeldi og styðja þolendur?