Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var í kastljósinu í liðinni fréttaviku sem fyrr. Fyrst fyrir að skipa starfshóp til að kanna millilandaflug á Egilsstöðum og Akureyri. Næst fyrir að leggja fram þingsályktunartillögu um viðbyggingu við Alþingishúsið, byggingu nýrrar Valhallar á Þingvöllum og að gefa þjóðinni hús undir stofnun Árna Magnússonar í fullveldisafmælisgjöf 1. desember 2018. Kostnaðurinn er áætlaður á anna tug milljarða króna og því héldu margir að um aprílgabb væri að ræða, enda greint frá tillögunum í fjölmiðlum að morgni 1. apríl.
Svo reyndist ekki vera, ekki frekar en þegar forsætisráðherrann viðraði þær hugmyndir sínar að selja húsnæði Landsspítalans við Hringbraut undir hótelstarfsemi með gróða og byggja nýjan spítala á lóð Ríkisútvarpsins við Efstaleiti að kvöldi sama dags. Forsætisráðherrann virðist reyndar ekki hafa kveikt á því að Reykjavíkurborg á lóðirnar sem spítalinn er staðsettur á og því myndi sala þeirra ekki skila neinu í ríkiskassann. Auk þess virðist honum hafa tekist að gera alla sem starfa innan heilbrigðisgeirans fokilla með yfirlýsingu sinni, enda ljóst að flutningur á staðsetningu nýs spitala myndi tefja uppbyggingu hans um nokkur ár.
Margir eru þeirrar skoðunar að Sigmundur Davíð hafi enn og aftur opinberað hversu vanhæfur forsætisráðherra hann sé með frammistöðu sinni í vikunni. Í bakherberginu hafa ýmsir hins vegar viðrað þá kenningu að um vel heppnaða smjörklípu sé að ræða. Í síðustu vikum hafi miklar brotalamir í stjórnarsamstarfinu opinberað sig, meðal annars með framlagningu frumvarpa Eyglóar Harðardóttur um breytingar á húsnæðiskerfinu, sem fjármála- og efnahagsmálaráðuneytið undir stjórn Sjálfstæðismanna er að stöðva. Auk þess stendur ríkisstjórnin frammi fyrir gríðarlega stórum og erfiðum málum strax eftir páska, á borð við makrílkvótafrumvarpið, umræður um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald Evrópusambandsviðræðna og fordæmalausum ófriði á vinnumarkaði með tilheyrandi verkföllum. Samhliða er á stefnuskránni að stíga stór skref í átt að afnámi hafta.
Kenning bakherbergismanna er sú að Sigmundur Davíð hafi ákveðið að taka fókusinn af þessum málum í umræðunni og beina gonum að sér tímabundið. Þau mál sem hann valdi til þess séu öll þess eðlis að engin muni muna eftir þeim í næstu kosningum. Þetta gefi ríkisstjórninni tækifæri til að vinna í vari að stóru málunum.
Svo bara eftir að koma í ljós hvort um vanhæfni eða stjórnkænsku var að ræða.