Á Landspítala starfa 162 lífeindafræðingar. Helmingur þeirra er 58 ára eða eldri og fjórðungur verður 64 ára eða eldri á þessu ári. Á næstu árum þarf Landspítali því að ráða þónokkurn fjölda lífeindafræðinga. Í ár útskrifast 11 nemendur með BS gráðu í lífeindafræði frá Háskóla Íslands. Til að fá starfsréttindi þarf auk BS gráðunnar að taka eitt ár í diplómanámi á meistarastigi og munu 6 nemendur útskrifast með starfsréttindi í ár. Störf lífeindafræðinga eru margvísleg innan heilbrigðisstofnanna, en þar starfa lífeindafræðingar m.a. við erfðarannsóknir og fósturskimanir, almennar blóðrannsóknir, krabbameinsgreiningar, greiningar á sýkingarvöldum, greiningar á ónæmisfræðisjúkdómum, stjórnun hjarta- og lungnavéla í hjartaaðgerðum, hjartaómanir o.fl. Fjöldi lífeindafræðinga starfar einnig í einkareknum fyrirtækjum, m.a. við þróun lyfja, eftirlit, gæðastjórnun, greiningu á innihaldi matvara o.fl.
Grunnlaun nýútskrifaðs lífeindafræðings sem hefur störf á Landspítala eru samkvæmt stofnana- og kjarasamningum kr. 295.944. Til að tryggja öryggi sjúklinga meiga nýútskrifaðir lífeindafræðingar á Landspítala ekki taka vaktir fyrr en eftir 6-12 mánuði í starfi. Því þurfa nýútskrifaðir að láta sér grunnlaunin duga, þar til þeir geta híft launin upp með næturvinnu og bakvöktum.
Á rannsóknarsviði voru framkvæmdar tæpar 2 milljónir rannsókna fyrir utan allar myndgreiningar árið 2014. Til vinnslu þessara sýna er nauðsynlegt að hafa lífendafræðinga að störfum. Erfiðlega gengur að ráða nýútskrifaða lífeindafræðinga til starfa á Landspítala og veldur það því að starfstéttin eldist, álag á starfsmenn eykst, hætta á mistökum eykst og biðtími lengist. Mikilvægt er að endurnýjun hefjist strax því annars stöndum við frammi fyrir því að glata verðmætri þekkingu eldri starfsmanna.
Minnihluti nýútskrifaðra lífeindafræðinga hefur störf á Landspítala. Grunnlaun lífeindafræðinga sem vinna á öðrum ríkisreknum stofnunum en spítölum landsins eru hærri. Aðrar stofnanir bjóða einnig betri vinnutíma, þar sem spítalar landsins eru einu vinnustaðir lífeindafræðinga sem krefjast vaktavinnu.
Verkfall Félags lífeindafræðinga, sem er hluti af BHM, hefur nú staðið yfir frá klukkan 8 til 12 á virkum dögum síðastliðnar 5 vikur. Áhrif þess að lífendafræðingar leggi niður störf hálfan dag eru mikil; ekki er hægt að vinna öll sýni sem koma inn, sjúklingar þurfa að bíða lengur eftir niðurstöðum og greiningar á sjúkdómum tefjast. Ljóst er að staðan í heilbrigðiskerfinu er slæm en ef ekkert er að gert mun hún versna hratt á næstu árum. Þó svo að lífeindafræðingum þyki sárt að fara í verkfall er það nauðsynlegt vegna þess að nýliðun í þessari stétt er lítin sem engin eins og staðan er í dag og því verður að breyta. Eðlileg nýliðun er nauðsynleg ef mögulegt á að vera að reka nútíma heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Höfundar eru lífeindafræðinemar sem eru annars vegar , að klára fjórða ár og hins vegar að klára þriðja ár. Báðar íhuga þær alvarlega að flytja til Norðurlanda að loknu námi til að geta unnið í betra starfsumhverfi á launum við hæfi.