110 prósent formaður var yfirskriftin á grein sem birtist í tímaritinu Fagbladet 3F 16. júní árið 2017. Tilefnið var sextugsafmæli formanns samtakanna 3F. Fagbladet 3F kemur að jafnaði út átta sinnum á ári, upplagið hverju sinni 270 þúsund eintök og dregur nafn sitt af samtökunum 3F. Þessi samtök voru stofnuð árið 2005 þegar tvö stéttarfélög sameinuðust. 3F (Fagligt Fælles Forbund) eru ein fjölmennustu samtök launafólks í Danmörku og þar er jafnt að finna faglærða og ófaglærða, samtals tæplega 270 þúsund manns. Innan 3F eru 64 félagsdeildir um allt land. Fagbladet 3F hóf göngu sína sama ár og 3F samtökin voru stofnuð og hefur allt frá byrjun lagt höfuðáherslu á málefni sem varða málefni launafólks og jafnframt vandaða rannsóknarblaðamennsku.
Byrjaði snemma í verkalýðsmálum
Eins og áður hefur komið fram varð Per Christensen formaður 3F sextugur árið 2017. Af því tilefni birti Fagbladet 3F langa lofgrein (orðalag Berlingske) um formanninn, hann hafði þá gegnt formennskunni í 4 ár.
Per Christensen er fæddur í Álaborg, trésmiður að mennt. Eftir að námi lauk hóf hann störf hjá sementsverksmiðjunni Aalborg Portland. Hann lét fljótt að sér kveða í samtökum starfsmanna og eftir fimm ára starf hjá sementsverksmiðjunni var hann kosinn trúnaðarmaður á vinnustaðnum. Nokkru síðar var hann kosinn varaformaður félags starfsfólks í sementsiðnaðinum í Álaborg.
Maður margra stjórna
Þegar samtökin 3F urðu til árið 2005 hóf Per Christensen, sem hafði þá um árabil setið í stjórn annars aðildarfélaganna, störf á aðalskrifstofu samtakanna í Kaupmannahöfn. Árið 2013 var hann kosinn formaður 3F, var einn í framboði. Formennskunni í 3F fylgdu ýmis ábyrgðarstörf, þar á meðal formennska í bankanum Arbejdernes Landsbank og lífeyrissjóðnum Pension Danmark, sem bæði hafa sterk tengsl við samtök launafólks. Þar að auki hefur Per Christensen setið í stjórn LO (danska alþýðusambandsins) sem í dag heitir FH (Fagbevægelsens Hovedorganisation).
Ennfremur situr hann í stjórn Konunglega leikhússins, í stjórn Sund og Bælt, fyrirtækisins sem annast rekstur Eyrarsunds- og Stórabeltisbrúnna og Femerntengingarinnar milli Danmerkur og Þýskalands. Per Christensen situr sömuleiðis í stjórn Evida en það fyrirtæki rekur gasdreifikerfið í Danmörku. Stjórnarsetan í þessum þremur síðastnefndu er launuð og á síðasta ári fékk hann greitt jafngildi 11 milljóna íslenskra króna fyrir þessi „aukastörf“.
110 prósent formaður
Í greininni sem birtist í Fagbladet 3F á afmælisdegi Per Christensen 16. júní 2017 undir yfirskriftinni 110 prósent formaður var honum lýst sem einstaklega duglegum morgunhana. Hann færi á fætur við fyrsta hanagal, eða jafnvel fyrr, og byrji daginn á hlaupatúr eða í æfingasalnum í aðalstöðvum 3F skammt frá aðaljárnbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn. Ekki nóg með að hann mæti fyrstur allra á morgnana, hann er líka sá sem fer síðastur heim. Hann er líka mjög duglegur að heimsækja félagsdeildir víða um land og hitta félagsmenn. Með puttann á púlsinum eins og það var orðað í blaðinu.
Þótt 3F séu ópólitísk samtök launafólks hafa þau eigi að síður mikil pólitísk áhrif og sterk tengsl við flokka jafnaðarmanna, Socialdemokraterne. Í áðurnefndri grein er farið mörgum orðum um þátt Per Christensen í því að efla tengsl verkalýðshreyfingarinnar við þingmenn og hann hafi stýrt mörgum hagsmunamálum í höfn.
Í afmælisgreininni var ekki minnst einu orði á fjölskyldumál Per Christensen. Fram kom í greininni að hann hefði alla tíð haldið fjölskyldu sinni og einkalífi fyrir utan kastljós fjölmiðla. Fyrir skömmu kom í ljós að fyrir því voru ríkar ástæður.
Grein í dagblaðinu B.T.
Klukkan 19.30 föstudagskvöldið 21. janúar sl. birtist á vefsíðu dagblaðsins B.T. löng grein með yfirskriftinni „Fagboss levede vildt dobbeltliv i årevis: Dannede par med flere kvinder, som intet vidste“. Sem kannski mætti þýða: Verkalýðsleiðtogi lifði ótrúlegu tvöföldu lífi árum saman. Konur sem hann bjó með vissu ekkert.
Tveimur tímum áður en greinin sjálf birtist hafði Per Christensen skrifað á Facebook síðu sína útskýringu (hans orðalag) og ósk um fyrirgefningu þeirra kvenna, sem hann hefði svikið, og fjölskyldna þeirra. Góðvinur Per Christensen, Jan E. Jørgensen þingmaður Venstre flokksins, skrifaði samstundis að hann (Per) ætti umsvifalaust að útvega sér lögfræðing og stefna B.T. fyrir að snuðra um einkalíf hans. Slíkt varði við lög um friðhelgi einkalífsins.
Svo las þingmaðurinn greinina í B.T. og þá var engu líkara en hann hefði breyst í hinn þekkta álitsgjafa Ragnar Reykás „þegar ég skrifaði Per Christensen á Facebook hafði ég ekki lesið greinina í B.T. Ég ætla ekki að verja Per Christensen, sem hefur hegðað sér eins og svín. En ef lögin um friðhelgi einkalífs ná einungis til fólks sem enginn þekkir og hefur áhuga á og myndi ekki skrifa um, þá eru þessi lög einskis virði“. Síðan heldur þingmaðurinn áfram „svo er spurningin hvort þetta varðandi Per Christensen teljist einkamál eða opinbert mál“. Og bætir við að „sé það rétt, sem fram komi í greininni, að hann hafi notað íbúð 3F í eigin þágu sé málið opinbert“. Fleiri þingmenn, og ýmsir aðrir, voru fljótir til að lýsa stuðningi við Per Christensen en sneru svo við blaðinu eftir að hafa lesið greinina.
Margfaldur í roðinu
Áðurnefnd grein sem birtist á vefsíðu B.T föstudagskvöldið 21. janúar sl. vakti mikla athygli, að ekki sé fastar að orði kveðið. Í þessari löngu blaðagrein var flett ofan af tvöföldu líferni Per Christensen og frásögnin er lyginni líkust. Verkalýðsleiðtoginn hafði árum saman lifað tvöföldu lífi og að minnsta kosti tvisvar búið með tveimur konum á sama tíma. Öll dönsku dagblöðin hafa í liðinni viku fjallað um þetta ótrúlega mál. Lang ítarlegustu umfjöllunina er að finna á síðum B.T. og Berlingske en blaðamenn beggja þessara blaða, sem eru í eigu sama útgefanda, höfðu lengi unnið að undirbúningi greinarinnar og í framhaldinu fleiri greinum sem birst hafa í liðinni viku, um sama efni.
Skrifaði til stjórnar 3F
Per Christensen varð formaður 3F árið 2013, en var áður háttsettur starfsmaður samtakanna. Árið 2008 tók hann upp samband við konu að nafni Laila Kildesgard, hana nafngreinir Berlingske í sinni umfjöllun. Það samband stóð til 2014. Laila Kildesgaard, segir að á sama tíma hafi hann verið í sambandi með annarri konu. Þegar hún komst að því sleit hún sambandinu og skrifaði til stjórnarmanna 3F og sagði frá sambandi sínu við Per Christensen og tvöföldu lífi hans Hún beindi því til stjórnarmanna hvort maður sem lifði svona lífi væri sá rétti til að vera í formennsku fyrir fjölmennum samtökum launafólks. Skömmu síðar hafði lögmaður 3F samband við konuna og lét að því liggja að hún skyldi halda þessu fyrir sig.
Giftur og bjó samtímis með annarri
Árið 2016 giftist Per Christensen. Það kom hinsvegar ekki í veg fyrir að hann stofnaði síðar til sambands við aðra konu. Þegar eiginkonan og ,,hin konan“ komust, svo að segja á sama tíma síðastliðið haust, að þessu tvöfalda líferni, skildi eiginkonan við Per Christensen og ,,hin konan“ kastaði honum á dyr. Þær skrifuðu í sameiningu bréf til stjórnar 3F og sögðu frá málinu. ,,Stjórnin verður að ákveða hvort hún vilji aðhafast eitthvað en það er mikilvægt að stjórninni sé ljóst hvernig formaðurinn komi fram“. Á sama tíma endursendi Laila Kildesgaard tölvupóstinn sem hún hafði sent stjórninni árið 2014. Hún fékk það svar frá 3F að um einkamál væri að ræða og ekki meira um það að segja.
Stjórnarfundur 22. desember og afsögn
Þegar kom fram í nóvember var Per Christensen ljóst að farið væri að ,,hitna undir honum“ og sömuleiðis var stjórnin áhyggjufull. Málið kæmi örugglega upp á yfirborðið, blaðamenn B.T. væru á fullu að vinna að því komast til botns í kvennamálum formannsins og það væri ekki gott fyrir stjórnina að þegja þunnu hljóði. Ákveðið var að boða til fjarfundar aðalstjórnar 22. desember.
Á þessum fundi sagði Per Christensen frá tvöföldu líferni sínu. Að sögn eins stjórnarmanna var því líkast að formaðurinn væri að lesa eins konar tilkynningu og stjórnarmönnum gafst ekki færi á að spyrja hann spurninga. Í aðalstjórninni sitja 88 en helmingur þeirra tók þátt í fundinum. Einn fundarmanna sagði að sér hefði virst Per Christensen tala um hátterni sitt sem framhjáhald fremur en tvöfalt líferni. Sami stjórnarmaður sagði að Per Christensen hefði virst sannfærður um að þetta mál myndi fljótt gleymast og hann gæti haldið áfram sem formaður.
Ekki voru allir í stjórninni á þeirri skoðun og í tölvupóstum milli stjórnarmanna var greinilegt að Per Christensen naut ekki trausts, og sömu sögu var að segja hjá 12 manna framkvæmdastjórn.
Sl. þriðjudag, 25, janúar tilkynnti Per Christensen afsögn sína. Það gerðist á stjórnarfundi sem boðað hafði verið til í skyndi. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á þann árangur sem hann hefði náð í störfum sínum og ásakaði blöðin, bláu pressuna eins og hann komst að orði, um að snuðra um einkalíf sitt. Hann tilkynnti svo afsögn sína og gekk á dyr.
Flókinn lygavefur
Í B.T. er mjög ítarleg umfjöllun um hið tvöfalda líf Per Christensen. Birtir eru bútar úr viðtölum við þrjár þeirra kvenna sem hann bjó með. Í frásögnum þeirra kemur fram að lygavefurinn hafa verið úthugsaður og skipulegur. Hann ferðaðist mikið vegna vinnunnar og það átti þátt í því að auðvelda honum að leyna slóðinni, hann sagði kannski annarri konunni að hann þyrfti að sækja ráðstefnu á tilteknum stað en fór þá beina leið til hinnar konunnar. Og svo framvegis.
Í pistli sem þessum er engin leið að fara yfir þessa ótrúlegu sögu en hér er hægt að fræðast meira um hið tvöfalda líf Per Christensen og frásagnir kvenna sem B.T. ræddi við vegna umfjöllunar blaðsins.