Í dag, 18. júní, eru liðin 200 ár frá einni frægustu orrustu mannkynssögunnar, við Waterloo í Belgíu, þar sem herveldi Napóleons Bonaparte var endanlega brotið á bak aftur. Tugþúsundir manna (og 15 þúsund hross) lágu í valnum þegar orrustunni, sem stóð í nokkra klukkutíma, lauk. Allir þekkja nafn foringjans sem beið lægri hlut í þessum blóðuga bardaga en færri vita nöfn sigurvegaranna. Belgar hafa látið gera sérstakan minnispening í tilefni tímamótanna. Frakkar reyndu að koma í veg fyrir útgáfuna, en líkt og Napóleon forðum biðu þeir þar lægri hlut.
Íbúum borgarinnar Charleroi, 46 kílómetrum sunnan við Brussel, leist ekki á blikuna þegar Napóleon Bonaparte birtist þar um miðjan júní 1815 með 125 þúsund hermenn sína og 25 þúsund hesta. Um hádegisbil 15. júní hélt hersingin af stað í átt að Brussel. Á þeirri leið er bærinn Ligny og þangað var komið 84 þúsund manna herlið Prússa undir stjórn Gebhard Leberecht von Blücher.
Napóleon skipti liði sínu upp þannig að um það helmingur þess stefndi til Ligny en hinum hluta liðsins ætlaði Napóleon að tefla gegn tæplega 70 þúsund manna liði (Bretar, Hollendingar og Belgar) undir stjórn Wellingtons hershöfðingja sem hafði komið sér fyrir við Quatre Bras, skammt fyrir sunnan Waterloo. Blücher vissi að þrátt fyrir að lið sitt væri fjölmennara var her Napóleons betur vopnum búinn en hann batt hinsvegar vonir við að Wellington hershöfðingi (Arthur Wellesley) kæmi sér til aðstoðar. Keppikefli Napóleons var hins vegar að þessir tveir herir næðu ekki að sameinast gegn sér.
Til bardaga kom milli liðssveita Wellingtons og Napóleons við Quatre Bras, báðir drógu sveitir sínar til baka en Wellington, sem var þrautreyndur hershöfðingi, fór með stærstan hluta liðsafla síns til Waterloo og kom sér þar fyrir.
Orrustan við Ligny
Þótt bardaginn við Ligny 16. júní 1815 falli iðulega í skuggann af orrustunni við Waterloo tveimur dögum síðar á hann ekki skilið að falla í gleymskunnar dá. Þarna vann Napóleon Bonaparte sinn síðasta sigur í orrustu en það var þó vart nema hálfur sigur. Í þessari orrustu missti Napóleon um það bil 12 þúsund manns og úr liði Blüchers féllu álíka margir. Blücher sjálfur slasaðist talsvert eftir að hestur hans varð fyrir skoti og hershöfðinginn lenti undir honum. Lið Blüchers hörfaði undan sveitum Napóleons sem taldi ranglega að allur vindur væri þar með úr her Prússa. Blücher, sem var tæplega 73 ára, hafði hins vegar ekki sagt sitt síðasta orð en stefndi fljótlega liði sínu í áttina að Waterloo, til liðs við Wellington og sveitir hans.
Stytta af hertoganum af Wellington í London. Önnur þekkt stytta er í Glasgow. Mynd: EPA
17. júní 1815
Þegar sveitir Napóleons ætluðu að sækja fram gegn her Wellingtons við Quatre Bras þar sem barist var daginn áður (16. júní) gripu þær í tómt. Napóleon ætlaði þá að beina sveitum sínum í átt að Waterloo en þá gerði úrhellisrigningu og tún og akrar sem hersveitirnar fóru um urðu á augabragði ein forarvilpa sem varð nánast ófær og ferð hersveitanna með níðþungar fallbyssur sóttist seint. Segja má að þarna hafi veðrið gengið í lið með Wellington sem vonaðist til að sveitir Blüchers næðu fram til Waterloo áður en her Napóleons léti til skarar skríða. Úrhellið gerði Blücher líka erfitt fyrir. Dagurinn leið án þess að til átaka kæmi.
Orrustan við Waterloo
18. júní var Wellington hershöfðingi snemma á fótum. Hann skrifaði Blücher bréf þar sem hann útskýrði stöðuna og sagði að ef hersveitir Blüchers næðu ekki fram í tíma myndi hann(Wellington) hörfa í áttina til Brussel. Hraðboði reið með skilaboðin og kom með það svar frá Blücher að her sinn, að minnsta kosti hluti hans, myndi ná til Waterloo í tæka tíð.
Napóleon snæddi morgunverð með hershöfðingum sínum. Nokkrir þeirra höfðu efasemdir um hernaðaráætlun Napóleons en hann sagði allar slíkar áhyggjur ástæðulausar, Bretarnir væru ekki miklir hermenn og Wellington ekki mikill herstjórnandi. Þegar svo bárust fréttir af því að her Blüchers væri á leiðinni sagði Napóleon að sá gamlingi (Blücher) færi nú ekki hratt yfir og hann þyrfti að minnsta kosti tvo daga í þetta ferðalag, ef hann kæmist þá alla leið. Napóleon hafði ætlað her sínum að ráðast gegn sveitum Wellingtons klukkan níu um morguninn en úrhellisrigning varð til þess að ekki var blásið til atlögu fyrr en skömmu fyrir hádegi. Kannski varð þessi töf völd að ósigri Napóleons.
Napóleon Bonaparte. Málverkið er eftir franska listamanninn Jacques-Louis David. Mynd: EPA
Erfitt er að sjá fyrir sér atburði þessa dags, enda segja sagnfræðingar gjarna að engin orð geti lýst þeim hryllingi sem þarna átti sér stað. Hermenn úr liðum beggja féllu þúsundum saman og særðir og dauðvona lágu í forinni án þess að fá nokkra aðstoð, tróðust jafnvel undir í atganginum. Þúsundir hesta lágu um allan vígvöllinn, margir þeirra helsærðir, aðrir dauðir.
Þegar leið á daginn virtist her Napóleons vera að ná yfirhöndinni og Wellington undirbjó undanhald sinna manna. En þá bárust þær fréttir að gamli prússneski hershöfðinginn Blücher væri að nálgast með sveitir sínar. Þetta olli því að Napóleon gat ekki beitt öllum liðsstyrk sínum gegn her Wellingtons því nú var að honum sótt úr tveimur áttum. Þegar hersveitir Blüchers náðu til Waterloo varð Napóleon fljótlega ljóst að baráttan væri töpuð og um átta leytið um um kvöldið kom skipunin til manna hans að nú skyldi hver og einn bjarga sér eins og best hann gæti. Orrustan var töpuð.
Foringinn sjálfur komst við illan leik undan á flótta og tilkynnti formlega afsögn sína í París fjórum dögum síðar. Napóleon bárust jafnframt fregnir af því að Prússar ætluðu sér að ná honum, lifandi eða dauðum, og ætlaði þá að reyna að komast á skip til Ameríku. Bretar handtóku Napóleon áður en af því varð og fluttu síðar til eyjarinnar Sankti Helenu þar sem hann lést 5. maí 1821 tæplega 52 ára, farinn að heilsu. Margir sagnfræðingar hafa sagt og skrifað að með ósigri Napóleons við Waterloo hafi verið endi bundinn á frönsku byltinguna og stórveldisdrauma Frakka. Bretar hafi jafnframt andað léttar.
Wellington hershöfðingi, sem hafði tekið þátt í 60 orrustum, snéri sér að stjórnmálum og var um tíma forsætisráðherra Bretlands. Hann lést 83 ára gamall 1852. Blücher hershöfðingi settist að í Krobielowice í suðvesturhluta Póllands og lést þar tæplega árið 1819, tæplega 77 ára að aldri.
Waterloo í dag
Allir sem koma til Waterloo skynja anda sögunnar. Straumur fólks til að skoða þetta sögufræga svæði hófst í raun strax daginn eftir orrustuna. Þá streymdu Belgar á staðinn til að sjá með eigin augum ummerkin eftir hildarleikinn. Daglega kemur fjöldi fólks til Waterloo til að sjá þessar sögufrægu slóðir. Á staðnum er sögusafn og minjagripaverslun, og stutt kvikmynd sem lýsir gangi orrustunnar er sýnd margoft á hverjum degi í sérstökum kvikmyndasafni. Margir klöngrast líka þrepin 226 upp á Ljónahæðina svonefndu „Butte de Lion“ en þaðan er mjög gott útsýni yfir svæðið þar sem orrustan fór fram. Hæðin er 43 metra há, keilulaga, og gerð úr jarðvegi af svæðinu. Styttan, ljón sem lætur aðra framloppuna hvíla á hnetti, er steypt í brons.
- júní ár hvert er sett á svið sýning þar sem líkt er eftir orrustunni 1815. Þátttakendur eru ár hvert um fimm þúsund og mikill fjöldi fólks streymir þennan dag til Waterloo til að fylgjast með. Að þessu sinni búast skipuleggjendur við um 200 þúsund áhorfendum.
Minnispeningurinn umdeildi sem Belgar létu gera. Mynd: EPA
Minnispeningurinn umdeildi
Til að minnast þess að 200 ár eru nú liðin frá orrustunni við Waterloo ákváðu belgísk stjórnvöld að láta gera sérstakan minnispening, að verðgildi tveggja evra. Þessi hugmynd féll í grýttan jarðveg meðal Frakka sem sögðu að slíkur peningur myndi einungis ýfa upp gömul sár og í dag hefði Evrópa þörf fyrir samstöðu en ekki ágreining vegna gamalla deilumála og átaka. Auk þess mættu aðildarlönd evrunnar ekki láta slá sérstaka mynt nema hún hefði annað verðgildi en venjuleg evrumynt. Þetta ákvæði, um annað verðgildi, ákváðu Belgarnir að notfæra sér og létu slá sérstakan minnispening, 70 þúsund stykki, verðgildið er 2.5 evrur. Við þessu útspili Belga áttu Frakkar ekkert svar.