Þegar frægir útlendingar koma hingað grípur oft um sig ákveðið fár og þá sérstaklega þegar erlendir þjóðhöfðingjar mæta. Við höfum þó alltaf tekið á móti þeim með stakri prýði, sama hver á í hlut. Hér er farið yfir 10 eftirminnilegustu opinberu heimsóknirnar á Íslandi.
10. David Ben Gurion – 1962
Hinn aldni forsætisráðherra og landsfaðir Ísraelsríkis heimsótti Ísland ásamt konu sinni Paulu og fylgdarliði í september 1962. Forsætisráðherrann Ólafur Thors tók á móti þeim á Reykjavíkurflugvelli og upphófst þá ein undarlegasta ástarsaga íslenskra utanríkismála. Ólafur og Ben Gurion urðu miklir mátar og gátu vart slitið sig frá hvorum öðrum. Þeir jusu stanslaust lofi hver á annan og grínuðust mikið, báðir með hárgreiðslu sem minnti helst á brjálaða vísindamenn úr bíómyndum. Þeir gerðu mikið gys að andstæðingum sínum. Ólafur sagði að stjórnarandstaðan hér á landi væri verri en Arabar, Ben Gurion sagðist þó glaður vilja skipta. Ben Gurion hjónin fóru víða. Þau heimsóttu m.a. Háskóla Íslands, Þjóðminjasafnið, Stjórnarráðið, Þingvelli og borholu í Hveragerði. Í samtölum við fjölmiðla var mest rætt um trúmál og tilurð Ísraelsríkis.
9. Nicolae Ceausescu – 1970
Þann 12. október árið 1970 komu leiðtogi rúmenska kommúnistaflokksins, Elena kona hans og fylgdarlið skipað mörgum ráðamönnum og fréttamönnum í tveggja tíma en þó opinbera heimsókn til landsins. Þau voru á leið til Bandaríkjanna til að sitja afmælisfund Sameinuðu Þjóðanna. Ceausescu hjónin heimsóttu Bessastaði í boði Kristjáns Eldjárn og Nicolae hélt ræðu á rúmensku sem var samstundis þýdd á ensku. Á þessum tíma þótti Ceausescu meðal framsæknustu og sjálfstæðustu leiðtoga Austur-Evrópu og vestrænir leiðtogar bundu töluverðar vonir við hann. Á níunda áratugnum olli misheppnuð efnahagsstjórn hans rúmensku þjóðinni eiginlegri hungursneyð. Ceausescu varð einn hataðasti einræðisherra veraldar. Þegar kommúnisminn í Evrópu hrundi árið 1989 voru rúmensku forsetahjónin leidd fyrir aftökusveit.
8. Richard Nixon og Georges Pompidou – 1973
Forsetar Bandaríkjanna og Frakklands hittust á fundi í Reykjavík sumarið 1973 til þess að ræða samskipti ríkjanna í Atlantshafsbandalaginu en þau höfðu verið stirð um nokkuð skeið, þá sérstaklega á valdatíma Charles De Gaulle. Forsetarnir flugu báðir yfir Vestmannaeyjar til að sjá gosið í Heimaey sem enn stóð yfir. Þegar þeir lentu spilaði Lúðrasveit Reykjavíkur þjóðsöngva Íslands, Frakklands og Bandaríkjanna áður en forsetarnir gengu á fund forseta Íslands og annarra ráðamanna í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Leiðtogafundurinn var svo haldinn í Kjarvalsstöðum sem voru þá nýbyggðir. Herstöðvaandstæðingar gengu þúsundum saman í friðsamlegri mótmælagöngu frá Alþingishúsinu að Sjómannaskólanum en gríðarleg öryggisgæsla var á svæðinu. Forsetarnir flugu svo heim strax eftir fundinn.
7. Jóhannes Páll páfi II – 1989
Hinn pólski Jóhannes Páll II varð fyrsti páfinn til þess að sækja Norðurlöndin heim. Það gerði hann í júnímánuði árið 1989. Þegar hann kom til Íslands hafði hann kynnt sér íslenska sögu, goðafræði og sérstaklega kristnitökuna árið 1000. Hann tók þátt í samkirkjulegri guðsþjónustu á Þingvöllum en aðalviðburðurinn var messa við Landakotskirkju. Pallur var reistur fyrir páfa framan við kirkjuna og þúsundir manna sóttu messuna. Athöfnin var ákaflega íburðarmikil. Kaþólskir helgigripir voru fengnir að láni frá Þjóðminjasafninu og nunnurnar úr Karmel klaustrinu í Hafnarfirði stráðu rósablöðum framan við fætur páfa þegar hann gekk að pallinum. Páfi þótti þó hinn alþýðlegasti og rabbaði við almenning utan dagskrár. Hann blessaði stóran stálkross sem stendur nú hjá sumarbúðum skáta við Úlfljótsvatn.
6. Lýðveldishátíðin – 1994
Þann 17. júní árið 1994 var 50 ára afmæli lýðveldisins fagnað um allt land og sérstök hátíðardagskrá var skipulögð á Þingvöllum. Tugþúsundir streymdu að og gríðarmikil umferðarteppa myndaðist svo að margir misstu af allri hátíðinni. Þeir sem komust á Þingvöll lentu í mikilli rigningu en hátíðardagskráin tókst þó ágætlega. Hápunktur hátíðarinnar voru ávörp Norrænu þjóðhöfðingjanna sem allir voru samankomnir. Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands, Margrét Þórhildur II Danadrottning, Haraldur V Noregskonungur, Karl XVI Gústaf Svíakonungur, Artti Ahtisaari forseti Finnlands og makar þeirra. Haraldur átti tregafyllstu ræðuna enda áttu Íslendingar og Norðmenn í fiskveiðideilu á þessum tíma. Karl Gústaf sló aftur á móti í gegn og þótti fyndinn. Norrænir þjóðhöfðingjar hafa margoft komið hingað til lands áður en þetta var í fyrsta skiptið sem þeir heimsækja landið allir í senn.
5. Willy Brandt – 1967
Brandt var utanríkisráðherra Vestur-Þýskalands þegar hann heimsótti landið ásamt eiginkonu sinni þann 24. júní 1967. Verðandi Nóbelsverðlaunahafinn Brandt hafði lengi verið borgarstjóri Vestur-Berlínar og átti seinna eftir að verða kanslari. Hann var á ferð um Norðurlönd til þess að ræða utanríkis-og efnahagsmál. Emil Jónsson utanríkisráðherra tók á móti honum á Reykjavíkurflugvelli og Brandt fundaði svo með nokkrum ráðherrum og Ásgeiri Ásgeirssyni forseta. Brandt færði Íslendingum þá Berlínarbjörninn, styttuna sem nú stendur við Hellusund. Hann hélt svo merkan blaðamannafund þar sem hann ræddi m.a. um Evrópubandalagið og utanríkisstefnuna gagnvart Sovétríkjunum og Austur-Þýskalandi. Brandt sem var einn af merkustu stjórnmálamönnum 20. aldarinnar átti eftir að heimsækja landið tvívegis í viðbót áður en hann lést árið 1992.
4. Winston Churchill – 1941
Í miðjum hildarleik seinni heimstyrjaldarinnar var Ísland hernumið af Bretum. Forsætisráðherrann goðsagnakenndi kom í stutta og jafnframt fyrirvaralausa heimsókn til landsins þann 16. ágúst eftir að hann hafði fundað með Bandaríkjaforsetanum Franklyn Roosevelt á herskipi á Atlantshafi. Churchill kom ásamt syni Roosevelts, Franklyn yngri og mörgum breskum herforingjum. Þeir héldu að Alþingishúsinu þar sem Churchill ávarpaði fjölda manns sem var þá saman kominn. Veifaði hann sínu fræga V-merki sem stendur fyrir sigur (eða Victory). Churchill hélt svo að Suðurlandsbraut þar sem hann var viðstaddur mikla hersýningu. Auk þess heimsótti hann aðstöðu breska flughersins hér á landi og hverasvæðin að Reykjum í Mosfellssveit. Churchill þótti hinn vinalegasti í allri heimsókninni, alþýðlegur og ræðinn. Hann hélt sama dag af landi brott á herskipi sínu.
3. Kristján IX – 1874
Árið 1874 var 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar fagnað og þá kom Danakonungur í fyrsta sinn til landsins. Kristján IX kom ásamt yngsta syni sínum Valdimari og fylgdarliði á tveimur skipum, Jótlandi og Heimdalli, þann 30. júlí að Reykjavíkurhöfn. Landshöfðinginn Hilmar Finsen tók á móti þeim og bærinn skartaði sínu fegursta, fólk var prúðbúið og flaggað var við flest hús. Konungur sótti messu í dómkirkjunni og var svo viðstaddur hátíðardagskrá í Öskjuhlíð. Hleypt var úr fallbyssum til heiðurs konungi en óhapp varð við skotin og tveir dátar misstu hönd. Svo var haldið upp á Geysi og loks Þingvelli þar sem fjölmenn þjóðhátíð var haldin þann 6. ágúst. Á hátíðinni var m.a. keppt í glímu, kórar sungu og drukkið fram á nótt. Konungur hélt svo vitaskuld ræðu. Hann hélt svo tvo dansleiki í Reykjavík áður en hann hélt aftur heim þann 10. ágúst.
2. Elísabet II – 1990
Komu Elísabetar drottningar og Filippusar prins var beðið með mikilli eftirvæntingu á Íslandi. Heimsóknin var í boði forseta Íslands, Vigdísar Finnbogadóttur. Fjöldi fólks safnaðist saman í miðborg Reykjavíkur og voru börn og ungmenni áberandi mörg. Fólk flaggaði bæði íslenska og breska fánanum til heiðurs konungshjónunum og klappaði mikið fyrir þeim. Þau tóku því þó af miklu æðruleysi, þóttu íburðarlítil í klæðnaði og alþýðleg í framkomu. Drottningin gaf sig á tal við marga en á þessum tíma skildu ekki allir ensku. Þau heimsóttu marga staði, m.a. Árnastofnun, Listasafn Íslands, Nesjavelli og Þingvelli þar sem drottningin gróðursetti tré. Haldið var síðdegisboð í konunglegu snekkjunni Brittanníu og svo kvöldverðarboð á Hótel Sögu. Við Reykjavíkurhöfn var svo hleypt af 21 fallbyssuskoti til heiðurs konungshjónunum.
1. Leiðtogafundurinn í Höfða – 1986
Leiðtogafundur Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta og Mikhails Gorbachev aðalritara Sovétríkjanna bar að með einungis 10 daga fyrirvara. Fundurinn var liður í viðræðum ríkjanna um fækkun kjarnorkuvopna í Evrópu. Gríðarleg fjölmiðlaathygli beindist strax að landinu og öryggisgæsla hefur sennilega aldrei verið meiri. Um 400 fylgdarmenn og um 1000 blaðamenn komu til landsins. Leiðtogarnir funduðu í Höfða við Borgartún eins og frægt er orðið en engin formleg niðurstaða náðist. Þó er talið að fundurinn hafi skipt sköpum til lengri tíma séð því að ári seinna var mikilvægur afvopnunarsamningur undirritaður milli ríkjanna. Forsetafrúin Nancy Reagan var ekki með í för en Raisa Gorbachev kom með og stal senunni meðan leiðtogarnir funduðu. Hún heimsótti m.a. Laugardalslaug, Breiðholtið, Árbæjarsafn og Þingvelli og heillaði land og þjóð upp úr skónum.