Táningar á flótta frá Afganistan

Herdís Sigurgrímsdóttir
Meirihluti afganskra flóttamanna sem hafa sótt um hæli í Evrópu á þessu ári eru táningsstrákar undir 18 ára aldri sem koma án forráðamanna.
Meirihluti afganskra flóttamanna sem hafa sótt um hæli í Evrópu á þessu ári eru táningsstrákar undir 18 ára aldri sem koma án forráðamanna.
Auglýsing

Síðustu vikurnar hefur nýtt land verið að sigla fram úr Sýrlandi í flóttamannatölfræðinni. Það er reyndar varla hægt að tala um nýtt flóttamannaland, því Afganistan tróndi lengi vel á toppi listans yfir flesta landsmenn á flótta utan eigin landamæra. Fyrir tæpu ári síðan tók Sýrland þetta dapurlega toppsæti, sem Afganistan hafði þá haldið óslitið í rúma þrjá áratugi. Sýrlendingarnir voru lengi vel fjölmennastir í yfirfylltum gúmmíbátunum til Grikklands, en nú eru Afganirnir líka farnir að fjölmenna til Evrópu. Á öðrum ársfjórðungi í ár komu 13% hælisumsókna í ESB-löndunum frá Afgönum, en á tíma í fyrra voru Afganir einungis um 5% hælisleitenda. Þetta helst í hendur við vaxandi ofbeldi og vonleysi í Afganistan. Meirihluti afganskra flóttamanna sem hafa sótt um hæli í Evrópu á þessu ári eru táningsstrákar undir 18 ára aldri sem koma án forráðamanna. 

Börn og unglingar í meirihluta

Í Svíþjóð eru 64% þeirra Afgana sem hafa sótt um hæli fyrstu tíu mánuði ársins undir 18 ára aldri og komu án fylgdar fullorðinna. Þó að sýrlenskir flóttamenn séu á heildina litið 80% fleiri en afganskir, þá eru börn og táningar án fylgdar nærri 5 sinnum fleiri frá Afganistan en frá Sýrlandi. Í Noregi lætur nærri að 6 sinnum fleiri afgönsk börn og táningar hafi sótt um hæli án forráðamanna, heldur en sýrlenskir jafnaldrar þeirra. 55% afganskra hælisleitenda í Noregi á þessu ári eru ólögráða og fylgdarlausir. 

Flestir hinna fylgdarlausu eru strákar á aldrinum 14-17 ára en stúlkum fer fjölgandi. Sumir lögðu upp í ferðina án fylgdar fullorðinna en aðrir hafa misst fjölskylduna á leiðinni. Fyrri hópurinn stendur betur að vígi en sá síðari; er betur búinn undir það sem fyrir hendi ber. Þeir sem glíma við ástvinamissi til viðbótar við minningar um martraðakennt ferðalag eru berskjaldaðri og eiga erfiðara með að fóta sig.  

Auglýsing

Graf

Ofbeldissagan endurtekur sig

Í Afganistan hafa verið vopnuð átök óslitið frá 1980, hvort heldur sem er staðbundin eða alltumlykjandi. Fólk sem nú er 35 ára hefur aldrei upplifað að það ríki friður í landinu þeirra. Vonin sem margir höfðu eftir 2001 er nú að blikna. Alþjóðaaðstoðin fer þverrandi, stríðsátökin breiða úr sér og hríðin harðnar. Talibanar eru að klofna í tvær fylkingar, íslamska ríkið að sækja í sig drengir veðrið og aðrir hryðjuverkahópar, gamlir og nýir, halda áfram að berjast bæði innbyrðis og allir sem einn við öryggissveitir afganska ríkisins. Við þetta bætist að gamlir stríðsherrar eru farnir að safna liði og fægja rifflana. 

Varaforseti landsins, hinn alræmdi Rashid Dostum, er á ný lagstur í hernað með sínum einkasveitum gegn hryðjuverkahópum á heimaslóðunum í Norðvestur-Afganistan. Staðan er í stuttu máli flókin og versnandi. 

Sífellt fleiri óbreyttir borgarar missa lífið í átökunum. 2014 var metár og allt bendir til að enn fleiri verði fyrir kúlum og sprengjum í ár. Að auki færast mannrán og morð á grundvelli þjóðarbrots og trúar í aukana. Þjóðflokkurinn Hazara er sérstaklega uggandi. Þeir eru flestir sjíamúslimar og hafa því iðulega orðið fyrir ofsóknum ofbeldishópa. Þess gætir nú þegar, enn á ný. 

Afganir eru brennda barnið sem forðast eldinn. Þeir sjá í hvað stefnir; þekkja það allt of vel af sárri raun. Þeir sem hafa á því nokkur tök eru farnir að hugsa sér til hreyfings. Gleymum því ekki að margir með afganskt ríkisfang hafa lengi verið flóttamenn í nágrannalöndunum Íran og Pakistan, sem og öðrum löndum. Það er mjög ótrygg staða, erfitt að draga fram lífið og stöðugar hótanir um að verða sendur heim. Í síðustu viku tilkynnti Pakistan að nú væri nóg komið og kynnti tveggja ára áætlun um að senda alla afganska flóttamenn aftur til heimalandsins. Margir þessara hafa verið í Pakistan í 30 ár. Guardian sagði einnig nýlega frá því að Íran sendi afganska flóttamenn til Sýrlands til að berjast við hlið sýrlenska hersins.  

Hvers vegna flýja svona margir ungir?

Í Afganistan hefur fjölskyldan mikil áhrif í lífi einstaklinganna og eldri meðlimir taka gjarnan stórar ákvarðanir fyrir hönd hinna yngri eða hefur í það minnsta mikil áhrif á þeirra eigin ákvarðanir. Þannig er það í tilviki margra þessara unglinga. Fjölskyldan hefur sent þá af stað, safnað peningum eða fengið lánað, til þess að einn úr fjölskyldunni eigi möguleika á betri framtíð. Vonir um betri atvinnumöguleika og rýmri fjárforráð í nýju landi eru hluti af ástæðunni. Margir hugsa sér eflaust einnig að sá sem fer, geti unnið og sent peninga heim þegar harðnar í ári hjá fjölskyldunni. En þetta er ekki bara gróðaáætlun. Farid Ghiami vinnur með ósjálfráða táningsflóttamönnum sem fengið hafa hæli í Noregi. Hann útskýrir fyrir Kjarnanum að það að senda unga menn úr landi sé í og með hugsað til að bjarga lífi þeirra og framtíð. Afganskar fjölskyldur vita af sárri raun að þegar átökin harðna, þá eru ungir menn bæði skotskífur og markhópar ofbeldisaflanna. Þegar ofbeldismenn kveðja dyra, þá er ungum mönnum stillt fyrst upp við vegginn. Í nauð eða af nauðung ganga margir til liðs við hópana, af því það er enga aðra vinnu að fá eða af því annars bíður þeirra bráður dauði. Farid kom sjálfur til Noregs sem flóttamaður frá Afganistan í lok síðustu aldar.

Glanssögur á Facebook

Margir í Afganistan gera sér ekki grein fyrir öllum hættunum sem leynast á veginum, útskýrir Farid, og aðrir Afganir sem Kjarninn ræðir við taka undir það. 

Á samfélagsmiðlunum kemur nánast einvörðungu fram að grasið sé grænna hinu megin, ekki að leiðin þangað sé háskaleg. Margir sem að heiman fara finnst þeir bera skyldu gagnvart fjölskyldunni; þetta verði að heppnast. Þeir freistast til að leyna erfiðleikunum á leiðinni og fegra myndina af nýju lífi á nýjum stað. Smyglarar sem hafa lifibrauð af að selflytja fólk birta glanssögur af gulli og grænum skógum sem bíða á Vesturlöndum. Þeir gefa villandi upplýsingar um útlendingalöggjöf Evrópulandanna, til að láta sem möguleikarnir á hæli og landvistarleyfi séu meiri en þeir eru. 

Sagan af Ali Farid segir okkur einnig söguna af hinum 16 ára Ali, sem kom nýverið til Noregs, aleinn. Fjölskyldan hans og hann tóku ákvörðunina í sameiningu. Þegar talibanar voru við völd 1994-1996 flúðu foreldrarnir frá Kabúl til Mazar-e-Sharif í Norður-Afganistan. Lífið var erfitt. Nú þykir foreldrunum staðan í Afganistan farin að líkjast þeim tímum uggvænlega mikið. Þau vita að unglingsstrákar eins og Ali eiga á hættu að vera þvingaðir til að ganga í uppreisnarsveitir eða hreinlega að vera drepnir af því þeir tilheyra ákveðnu þjóðarbroti eða þjóðfélagshópi. Saga Alis speglar veruleika margra af fylgdarlausu táningsflóttamönnunum.

 

Foreldrar hans líta sem svo á að með því að senda hann úr landi séu þau ekki einungis að gefa honum möguleika á bjartari framtíð, heldur hreinlega að gefa honum líf. Þau eru að bjarga honum frá hættunum sem þau þekkja. Þau grunar ekki hvaða hættur bíða hans á förinni. Ali ferðast með bílum, bátum, vörubílum, rútum, lestum og á tveimur jafnfljótum. 

Leiðin liggur gegnum Íran, Tyrkland, Grikkland, Búlgaríu, Rúmeníu, Austurríki, Þýskaland, Danmörku, Svíþjóð og loks til Noregs. Á leiðinni upplifir unglingurinn Ali margt sem ásækir hann síðan. 

Martraðakenndar minningar

Á tíu tíma göngu frá Íran til Tyrklands liggur leiðin í gegnum skóg og yfir fjall í kolniðamyrkri. Það eru engin ljós, til að landamæraverðir sjái ekki til þeirra. Ali er þar í hópi 50 flóttamanna á öllum aldri. Fátt af göngufólkinu var undirbúið undir svo langa og erfiða göngu en smyglararnir slógu fólk sem var að þrotum komið. Allur matur og vatn var búið og enginn vissi hversu langa leið þau ættu fyrir höndum. Fáir þorðu að spyrja smyglarana, bæði út af tungumálaörðugleikum en þó sérstaklega til að forðast barsmíðar að óþörfu. 

Og svo var það bátsferðin til Grikklands. Fjölskylda Alis sendi smyglurunum peninga, 2500 dollara. Þeir lofuðu góðum og öruggum báti. Ekki fleiri en 10 farþegar, sögðu þeir, en þá kostar farið líka meira. Á ströndinni það kvöld er samt rúmlega 23 flóttamönnum hrúgað saman í lítinn gúmmíbát. Enn á ný ferðast fólkið í niðamyrkri. Mönnunum í hópnum er skipað að róa frá landi, til að mótorhljóðið kæmi ekki lögreglunni á sporið. Þeir róa í drjúga stund og eru komnir langt frá landi þegar fólkið uppgötvar að það er alls enginn utanborðsmótor á bátnum. Þarna er orðið verra í sjóinn og fólkið eys með öllu tiltæku. Allir um borð eru orðnir gegndrepa og kaldir. Það kemur til slagsmála og einhver eða einhverjir detta í sjóinn. 

Þá tekur fólkið eftir að loftið er að leka úr gúmmíbátnum. Allir lenda í köldum og dimmum sjónum. Ali missir þá litlu von sem hann átti eftir, hatar foreldrana, sjálfan sig og lífið allt. Getur lífið í Evrópu verið svona mikils virði? Í kringum hann öskrar dauðhrætt fólkið og biður bænir. Börnin gráta hástöfum. 

Þau halda hópinn, fljótandi í björgunarvestum í myrkum sjónum og eftir drjúga stund heyra þau þyrluhljóð. Þeim er bjargað í land af tveimur grískum lögreglubátum. Lögreglumennirnir vilja helst skila þeim aftur í land í Tyrklandi en fólkið biður um hæli, svo það er sent til eitt af risastórum skráningarstöðum á grísku ströndinni. Ali stansar stutt og heldur áfram ferðinni. Eftir sex mánaða ferðalag kemur hann til Noregs, aleinn með erfiðar minningar, tilfinningar og áhyggjur.

Erfitt og auðmýkjandi aldursmat Í staðinn fyrir hina öruggu höfn sem hann hélt að Noregur myndi verða, upplifir hann móttökurnar sem auðmýkjandi. Hann er yfirheyrður og þuklaður af öryggisfólki. Hann þarf að fara í ýmiss konar rannsóknir á líkama og sál til að reyna að staðfesta hversu gamall hann er. Síðan er hann sendur á milli hælisleitendahúsa án þess að hafa neina stjórn yfir eigin örlögum eða íverustað. Norskar reglur skylda hælisleitendur til að búa á þar til gerðum gististöðum á vegum ríkisins. 

Hvað ertu eiginlega gamall? 

New York Times hefur eftir þýskum landamæravörðum að 1. janúar 1999 sé áberandi algengastur skráðra afmælisdaga hælisleitenda þessa dagana. „Einmitt! Þú og allir vinir þínir eru 17 ára,” segir lögreglumaður á landamærastöðinni í Passau í Þýskalandi. “Veistu hvað ég heyri þetta oft á dag?” Í grein New York Times er einnig góð lýsing á algengum aðferðum við aldursmat á táningum. Margir hælisleitendur segjast vera undir 18 ára aldri. Sumir eru í alvöru svo ungir. Aðrir nota það efalaust sem yfirskyn. Ólögráða hælisleitendur fá mildari meðferð og meiri stuðning; hversu mikill munurinn er fer eftir móttökulöndum. Í Afganistan er heldur alls ekki óalgengt að fólk viti ekki hvenær það var fætt. Þar er engin þjóðskrá eða ígildi kirkjubóka sem halda utan um fæðingardaga eða aldur fólks. 

Það er hins vegar engin þörf á að draga í efa að það eru margir óharðnaðir unglingar og börn, margir á aldrinum 11-14 ára, sem koma einir til Vesturlanda þessa dagana. Sumir fóru einir af stað eða með jafnaldra. Aðrir hafa misst foreldrana á leiðinni. Þeir eiga það sameiginlegt að þurfa mikla aðstoð til að komast yfir erfiða lífsreynslu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Samherji kannar hvernig afsökunarbeiðnir leggjast í landann
Þátttakendur í viðhorfahópi Gallup fengu í vikunni sendar spurningar um Samherja. Fyrirtækið, sem baðst tvívegis afsökunar fyrr í sumar, virðist fylgjast grannt með almenningsálitinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None