Eiffelturninn
Auglýsing

Hryðjuverkin í París á föstudagskvöld, þar sem hryðjuverkamenn Íslamska ríkisins myrtu að minnsta kosti 129 saklausa borgara og særðu mikinn fjölda, hafa kallað fram sterk viðbrögð út um allan heim. Áberandi eru hófstillt viðbrögð þar sem lögð er áhersla á að láta ekki þessa atburði verða vatn á myllu haturs og tortryggni. Slíkt leiði til enn meira ofbeldis, lokaðra samfélags og megi í reynd túlka sem sigur ódæðismannanna.

Hitt heyrist líka, að nú verði að herða tökin gegn óværunni Íslam, beita meiri hörku ef takast eigi að kveða hana niður. François Hollande Frakklandsforseti lýsti yfir „miskunnarlausum“ aðgerðum gagnvart Íslamska ríkinu á fundi með yfirstjórn franska hersins morguninn eftir ódæðin.

Hér stendur ekki bara Frakkland heldur heimurinn frammi fyrir erfiðri grundvallarspurningu þar sem miklu skiptir í hvora áttina vötn muni falla. Það er skiljanlegt að þjóðarleiðtogar sýni hörð viðbrögð og grípi til sterkra orða á ögurstundu, því ekki vilja menn vera vændir um linkind í þessum efnum. Hætta er þó á því að ef of hratt er fram gengið, gætum við horft upp á stigmögnun stríðsátaka og þá er verr af stað farið en heima setið.

Auglýsing

Hvers vegna hryðjuverk, hvers vegna Frakkland?

Á því er engin ein skýring, nefnt hefur verið að mikill fjöldi innflytjenda í Frakklandi hefur átt erfitt með aðlögun að samfélagi sem er mis- og stéttskipt þar sem mikil ólga ríkir undir niðri. Jafnframt hafa Frakkar haft sig einna mest í frammi meðal Evrópuríkja í hernaðaríhlutunum í Mið-Austurlöndum og Afríku. Þeir hafa tekið þátt í hernaði gegn öfgasinnuðum íslömskum hópum í Írak en jafnframt gengið til liðs við þau ríki sem berjast gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi. M.a. gerði franski herinn loftárásir á olíuhreinsunarstöð undir stjórn Íslamska ríkisins í síðasta mánuði.Aðsetur efri deildar franska þingsins í Luxemborgargarðinum í París. Mynd: Bjarni Bragi Kjartansson.eftri 

Harðar yfirlýsingar Hollande Frakklandsforseta eru því tæplega alveg nýjar eða óvæntar fréttir fyrir Íslamska ríkið, sem hefur fyrir allnokkru lýst yfir heilögu stríði við Vesturlönd. Dráp á saklausu fólki eru í raun heldur ekki nýjar fréttir því samkvæmt ársgömlum tölum höfðu Bandaríkjamenn gert 47 drónaárásir á undanförnum árum sem beint var að tilteknum leiðtogum Talíbana í Pakistan og Jemen. Af þessum 47 mönnum eru nokkrir enn á lífi en árásirnar hafa kostað meira en 1100 manns lífið, saklausa borgara – í einni slíkri árás létust 128 manns, þar af 14 börn.

Frakkar hafa reyndar ekki verið atkvæðamiklir sjálfir í drónaárásum og hér er ekki alls ekki reynt að réttlæta hin hræðilegu voðaverk sem framin voru á föstudagskvöldið, þótt mikilvægt sé að skoða hvað geti búið þarna að baki.

Hvernig er hægt að bregðast við?

Það er enginn skortur á stríðsæsingamönnum og m.a. hefur einn frambjóðenda í forvali Repúblíkana til forsetaframboðs í Bandaríkjunum kallað eftir aukinni hörku gagnvart hryðjuverkamönnum, eins og loftárásum þar sem aflétt er kröfum um að forðast mannfall almennra borgara.

Kröfur um aðgerðir geta verið háværar og það er hægara sagt en gert fyrir þjóðarleiðtoga að freistast ekki til blása í herlúðra, því herfarir í nafni frelsis og lýðræðis eru prýðilegt eldsneyti á bál pólitískra vinsælda. Þó er ljóst að sporin hljóta að hræða því slíkar herfarir hafa sjaldnast gengið vel né getið af sér frið, hvað þá kveðið ofbeldisöflin niður til lengdar. Það hefur nefnilega komið á daginn að fílabyssan virkar ekki eins vel og margir vilja meina á mýflugnagerið.Bandarískur hermaður horfir úr þyrlu á flugi yfir Afganistan.

Orð Hollande um stríð og miskunnarlausar aðgerðir minna óþægilega á orð George W. Bush Bandaríkjaforseta í kjölfar hryðjuverkanna á Bandaríkin 11. september árið 2001, þegar lýst var yfir stríði á hendur hryðjuverkum, „War on Terror“. Sú herför hefur almennt þótt mikið feigðarflan og sýnt hefur verið fram á að þær aðgerðir og innrásin í Írak séu í raun orsök og það sem knúið hefur framgang Íslamska ríkisins.

Árásirnar voru notaðar til að réttlæta stríðið gegn hryðjuverkum. Þá fórust tæplega 3000 manns og tjón var hátt í 180 milljarðar bandaríkjadala. Þær tölur blikna þó í samanburði við vanhugsaða innrás í Írak þar sem um 4500 bandaríkjamenn létust og yfir 32 þúsund særðust. Í því tilgangslausa stríði féllu einnig hundruð þúsunda Íraka auk þeirra sem eiga um sárt að binda — í stríði sem kostaði þrjár billjónir dollara, sem er 17 falt tjónið af árásunum 11. september 2001.

Hið mjúka vald

Ljóst er því að hernaðarmáttur mun ekki duga einn og sér gegn þeirri ógn sem steðjar frá Íslamska ríkinu, því þrátt fyrir að henni sé nú lýst sem þeirri mestu sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir, er hernaðarmáttur samtakanna minni en tveggja herdeilda í Bandaríska hernum. Vert er að skoða hið mjúka vald og hvernig nýta má kenningar um það í þessari baráttu. Nú kunna einhverjir að hrista hausinn í vantrú — eins og það þýði eitthvað að bjóða svona öfgamönnum hinn vangann.

Joseph S. Nye, virtur fræðimaður í alþjóðasamskiptum við Harvard háskóla, sá sem mest hefur mótað umræðuna um hið mjúka vald, segir vald vera getuna til að láta hegðun annarra lúta vilja sínum. Hann segir í grunninn vera þrjár leiðir til þess: þvingun með beinu valdi, með umbun og loks með aðlöðun – hinu mjúka valdi – þar sem tilvist og hegðun tiltekins einstaklings, hóps eða leiðtoga laðar að fólk, þjóðir eða ríki, sem vilja fylgja fordæmi hans.

Hið mjúka vald er þá í raun andstæða hins hefðbundna valds sem byggir á hernaðarmætti. Nærtækt er að taka dæmi af Bandaríkjunum, því um leið og þau búa yfir gríðarlegum hernaðarmætti þá eiga þau mikið af hinu svokallaða mjúka valdi. Bandaríkin hafa dregið fólk að frá öllum kimum heimsins og getið af sér eitt öflugasta mennta- og menningarsamfélag veraldar.

Þegar sagan er skoðuð kristallast einmitt sá sannleikur sem smám saman hefur verið að renna upp fyrir fólki, að hernaðarmáttur er ekki endilega best til þess fallinn að leysa deilumál og binda enda á átök. Þær misheppnuðu herfarir sem Bandaríkjamenn hafa lagt í á undanförnum áratugum hafa frekar veikt stöðu þeirra sem heimsveldis en hitt, því þær hafa grafið undan því mjúka valdi sem Bandaríkin búa yfir.

Hvernig verður hið mjúka vald til?

Hið mjúka vald á sér m.a. uppsprettu í menningu ríkis eða þjóðar og þá í þeim hluta hennar sem verkar aðlaðandi í augum annarra. Um getur verið að ræða menningu í víðum skilningi en einnig hefðbundinn skilning á menningu og listum — og ekki síst dægurmenningu. Frakkland og París eru til að mynda gríðarlega eftirsóknarverðir staðir í augum umheimsins og ástæða þess er að einhverju leyti dægurmenningin eða ímynd hennar, eðalvín, sælkeramatur, húsin og fegurð mannlífsins í heild. 

Jafnframt byggir hið mjúka vald á þeim pólitísku gildum sem ástunduð eru heima og heiman. Frakkar geta sem dæmi stært sig af því að þar sé vagga lýðræðisins en þó má spyrja hvort misskipting í samfélagi þeirra, sér í lagi borgum sé að koma þeim í koll nú. Þeir hafa jafnframt ætíð lagt áherslu á að vera framarlega á hernaðarsviðinu, m.a. með uppbyggingu kjarnorkuvopna, að miklu leyti til að auka vægi og virðingu landsins á alþjóðavísu.Af Pont du Carrousel yfir Signu í París, Louvre á hægri hönd. Mynd: Bjarni Bragi Kjartansson

Í þeirri viðleitni hafa Frakkar sannarlega ekki komið fram sem boðberar frelsis, jafnréttis og bræðralags – en þó má ekki gleyma því að Frakkar voru mjög andvígir innrás Bandaríkjamanna í Írak og hlutu virðingu fyrir þá afstöðu sína þegar upp var staðið.

Á meðan Bandaríkjamenn hafa lagt áherslu á hernaðarlega uppbyggingu og vopnavald má segja að Evrópa í heild sé á ákveðinn hátt ímynd hins mjúka valds í heiminum. Þar hafa framlög til hernaðaruppbyggingar farið minnkandi með árunum og hefur fólk lagt sig fram um að þróa friðsamlegar lýðræðishugmyndir öðrum til fyrirmyndar. Norðurlöndin eru þar framarlega í flokki og má m.a. vísa í viðbrögð norskra yfirvalda í kjölfar ódæðisverkanna í Útey og Osló árið 2011.

Ennfremur getur hið mjúka vald verið sprottið úr utanríkisstefnunni, þegar hún er álitin lögmæt og talin hafa einhverskonar móralskt yfirvald. Smáríki geta þannig skapað sér vægi (og vald) í alþjóðasamskiptum með skýrri stefnu þar sem orð fylgja athöfnum, því eins og komið hefur fram þá er grunnstefið í mjúku valdi það að hinir vilji gera og vera eins og þú. Rannsóknir hafa einmitt sýnt að meira að segja Bandaríkin geta lagað utanríkisstefnu sína að þeim gildum sem höfð eru í heiðri hjá nánum samstarfsríkjum. Barack Obama lýsti því nýlega yfir að líta megi á Norðurlöndin sem fyrirmynd og ef fleiri ríki færu að ráði þeirra, væru vandamál heimsins færri.

Gagnrýni

Kenningar um hið mjúka vald hafa m.a. verið gagnrýndar fyrir að vera of teygjanlegar til að vera nothæfar og Niall Ferguson svo gott sem afskrifar hið mjúka vald á þeim forsendum að það sé mjúkt. Á sama hátt segja sumir erfitt að meta mikilvægi hins mjúka valds fyrir ríki vegna þess hversu erfitt sé að mæla vægi þess — öfugt við t.d. hernaðarmátt sem mæla má í fjölda orrustuþota eða kjarnaodda. 

Nye telur þetta misskilning því það leiði menn í ógöngur að halda að aðeins það sem hægt sé að missa á tærnar á sér (eða varpa á borgir) hafi einhverja vigt. Það sé vel mögulegt að mæla hið mjúka vald, það megi auðveldlega mæla menningarleg og diplómatísk áhrif, m.a. með skoðanakönnunum. Jafnframt sé ekki jafn auðvelt að mæla vægi vopnavalds eins og haldið hafi verið fram. Í því samhengi má benda á að Bandaríkjamenn töpuðu fyrir N-Víetnam þrátt fyrir að hafa gríðarlega hernaðarlega yfirburði.

Hugsjónir verða ekki brotnar á bak aftur með vopnavaldi

Vestrænt samfélag og hugsunarháttur er síður en svo fullkomið og eitthvað sem allir jarðarbúar eiga að laga sig að, en þó er mikilvægt að verja óumdeild gildi samfélagsins sem m.a. snúast um mannréttindi. Svo virðist að hversu mikið sem menn vígbúast þá verða hugsjónir seint brotnar á bak aftur með vopnavaldi. Raunar má nefna Íslamska ríkið sem dæmi um einmitt þetta. Þótt veikja megi starfsemi samtakanna með beitingu vopna tímabundið, munu vopn seint eyða hugmyndafræðinni sem að baki liggur eða leiða til sigurs. Ef hugsað er til lengri tíma virðist leiðin til að kveða niður öfgaöfl frekar vera sú að laða „hina“ til að vilja verða eins og „við“ – það er mergurinn málsins.  

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBjarni Bragi Kjartansson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None