„Við erum ekki fullsköpuð þó við séum búin að setja fram sóknaráætlunina. Ég vil meina að þetta sé svona svipað eins og flugtak og vonum að við lendum á mjög góðum stað en að flugferðin verði líka ánægjuleg. Það verða mótaðar tillögur og fluttar á vorþingi.“ Þetta sagði Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra þegar hún kynnti sóknaráætlun ríkisstjórnar Íslands í loftlagsmálum til næstu þriggja ára í dag. Þar greindi Sigrún einnig frá því að hún væri í 20 ára gömlum fötum. Það væri mikilvægt að endurnýja.
Sóknaráætlunin er ekki útfærð heldur byggir að mestu á markmiðum, vegvísum og ómótuðum hugmyndum. Ekki er tilgreint hversu mikið áætlunin á að kosta og ekki er minnst einu orði á stóriðju í sóknaráætluninni, en stærstur hluti endurnýjanlegrar orku Íslands fer til slíkrar auk þess sem fjölmörg orkufrek stóriðjuverkefni eru í pípunum eða framkvæmdir við uppbyggingu þeirra þegar hafnar.
Þá er ekkert talað um sértækar aðgerðir um losun gróðurhúslofttegunda í þéttbýli, til dæmis með auknum ríkisstyrkjum til uppbyggingar almenningssamgangna og þéttingu byggðar, sem er til þess fallin að draga úr losun vegna samgangna.
Lögð fram í tengslum við Parísarfundinn
Sóknaráætlunin byggir á 16 verkefnum, þar af átta sem er ætlað að draga úr nettólosun á Íslandi í samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og landnotkun. Fjögur verkefnanna miða að því að efla samstarf Íslands við önnur ríki við að draga úr losun og takast á við afleiðingar loftlagsbreytinga.
Ekki er gert ráð fyrir að sóknaráætlunin sé miðstýrð eða að hún komi í staðinn fyrir núverandi aðgerðaáætlun til að draga úr nettólosun, sem er ætlað að tryggja að Ísland standi við skuldbindingar sínar samkvæmt Kýótó-bókuninni til 2020. Settir verða ábyrgðarmenn fyrir verkefnin og óskað verður eftir framvinduskýrslu um hvert verkefni á næsta ári.
Sóknaráætlun er sett fram í tengslum við 21. aðildarríkjafund Loftslagssamningsins í París (COP21), þar sem reynt verður að ná hnattrænu samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir 2030.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra var einnig á kynningarfundinum í dag. Hann sagði í samtali við Kjarnann að honum loknum að það væri mjög mikilvægt að Ísland taki á sig skuldbindingar á fundinum í París. „Við verðum að sýna fram á þá þróun sem við höfum séð á Íslandi, bæði í hafinu og í jöklunum okkar. Við verðum að benda þeim á möguleikana, til dæmis jarðhita. Og tengja þetta svo að sjálfsögðu við jafnréttismál og þessi þverlægu mál. [...] En það skiptir mestu máli að stóru ríkin, Bandaríkin, Brasilía, Indland, Kína og fleiri, axli þá ábyrgð sem þeim ber. Þau eru mestu áhrifavaldar í heiminum í dag á loftslagsmál.“
Kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir
Sigrún staðfesti í samtali við Kjarnann að ekki liggi fyrir kostnaðaráætlun fyrir sóknaráætlunina. „Það á eftir að nákvæmlega að setja krónur og aura á hverju verkefni fyrir sig.“ Aðspurð hvort hún telji að það sé til nægt fjármagn til að fjármagna öll þessi verkefni sagði Sigrún að hún hafi aldrei vitað til þess að einhverjum hafi fundist hann hafa fengið nóg af peningum. „Ég er nú samt þeirrar gerðar, og hef í gegnum allt mitt líf, ekki haft af mikið af peningum að segja. En verkefnin geta náð árangri með samhjálp margra. Þannig vil ég líta á það. Ég vil líta á þetta þannig að við erum að breyta um hugsun. Við stöndum á þröskuldi nýrra tíma. Í þessu samvinnuferli er ég sannfærð um að við náum árangri. Ef maður vill ná því markmiði þá nær maður því markmiði.“
Gildandi markmið sett aftur fram
Viðauki sem birtur hefur verið með sóknaráætluninni er fjórar blaðsíður. Í honum er fjallað stuttlega um þau 16 verkefni sem ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir.
Athygli vekur að ekkert þeirra átta verkefna sem ráðast á í til að draga úr nettólosun gróðurhúslofttegunda á Íslandi eru útfærð nema að mjög litlu leyti. Í viðaukanum segir að aðgerðaráætlun um orkuskipti verði lögð fram á vorþingi 2016 og að Ísland hafi þegar sett sér það markmið að árið 2020 verði hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum orðið tíu prósent og „mun starf á grunni væntanlegrar þingsályktunar miða að því að ná því marki.“
Það markmið er reyndar ekki nýtt af nálinni. Íslendingar hafa haft það sem markmið að ná tíu prósent hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum árið 2020 um nokkurt skeið.
Engin kúvending í rafbílavæðingu framundan
Annað verkefni sem hefur mikið verið rætt um á Íslandi er rafbílavæðing. Halldór Þorgeirsson, yfirmaður stefnumörkunar hjá skrifstofu Loftlagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sagði til að mynda á fundi sem Landsvirkjun stóð fyrir um loftlagsbreytingar í maí 2015 að Íslendingar væru ekki að hugsa nógu stórt í þessum málum. „Ég held það komi til með að hafa mjög mikil áhrif á hagsæld á þessari eyju til framtíðar að gera þetta. Auðvitað er svolítið dýrara að vera á undan öðrum, ég geri mér grein fyrir því en ég held það sé heldur ekki ábyrgt að bíða bara eftir því að allir verði komnir á rafbíla og svo förum við á rafbíla,“ sagði Halldór.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur líka talað um rafbílavæðingu. Í ræðu sem hann hélt á ráðstefnu um rafbílavæðingu á Íslandi 13. nóvember í fyrra, sagði hann það vera ánægjulegt að Ísland væri í lykilstöðu sem land sem geti framleitt nægt grænt eldsneyti fyrir bílaflota framtíðarinnar. „Núverandi ríkisstjórn hefur frá upphafi lýst áhuga á að efla vistvænar samgöngur, eins og birtist í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þar sem áréttuð er sú sérstaða Íslendinga að hafa aðgengi að endurnýjanlegum auðlindum sem gerir okkur um leið fært að vera í fararbroddi í umhverfismálum. Staðreyndin er sú að rafbílar eru að verða raunhæfur kostur og verða það enn frekar í framtíðinni. Það sama má segja um leiðir til að knýja skip og önnur tæki sem hafa til þessa notast við jarðefnaeldsneyti. Allt þetta gefur Íslandi mjög mikla möguleika á að verða fyrsta land í heimi sem eingöngu nýtir endurnýjanlega orkugjafa. Stjórnvöld á Íslandi stefna að orkuskiptum í samgöngum og stefna meðal annars að því, til lengri tíma litið, að skipta alfarið út hefðbundnu jarðefnaeldsneyti (bensín/dísel) yfir í aðra orkugjafa fyrir bíla og önnur ökutæki – orkugjafa sem eru endurnýjanlegir og upprunnir á Íslandi.“
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir einnig: „Mikilvægt er að beita hvetjandi aðgerðum í efnahagslífinu til að ýta undir græna starfsemi. Nýta ber vistvæna orkugjafa enn frekar við samgöngur. Hvatt verði til þess að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis. Brýnt er að dregið verði úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda“.
Ekki er minnst á það í sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar að stefnt sé á að skipta alfarið út jarðefnaeldsneyti í aðra orkugjafa fyrir bíla og önnur ökutæki.
Þess í stað á að efla innviði á landsvísu fyrir rafbíla. Í því felst að ríkið mun tímabundið styrkja átak til að byggja upp innviði fyrir rafbíla þannig að hægt sé að að tryggja aðgengi að loftlagsvænni samgöngumáta. Í viðaukanum segir: „Vanda þarf til verka hvað þetta varðar og taka tillit m.a. til samkeppnissjónarmiða og reynslu Norðmanna og fleiri ríkja af verkefnum af þessu tagi. Grænu orkunni – samstarfsvettvangi um orkuskipti í samgöngum – verður falið að útfæra slíkt átak, sem verði fellt inn í framangreinda aðgerðaáætlun um orkuskipti sem lögð verður fram á Alþingi á vorþingi 2016. Sett verður til hliðar fjármagn til að tryggja að hægt verði að vinna að þessu verkefni strax á næsta ári.“ Það liggur því ekki fyrir nein útfærsla enn sem komið er á hvernig íslenska ríkið ætlar að beita sér fyrir rafbílavæðingu á Íslandi.
Markmið og vegvísar
Varðandi samdrátt í losun sjávarútvegs, eins stærsta notanda jarðefnaeldsneytis á Íslandi, hefur Hafinu-Öndvegissetri, verið falið að gera vegvísi um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins. Vegvísirinn verður kostaður af stjórnvöldum og samtökum í atvinnulífi og markmið hans verður að draga úr losun koldíoxíðs um 40 prósent til ársins 2030, miðað við árið 1990. Engin útfærsla liggur því enn fyrir um það hvernig Ísland ætlar að ná þessu markmiði.
Ríkisstjórnin ætlar til viðbótar að stuðla að loftlagsvænni landbúnaði (með gerð vegvísis), með eflingu skógræktar og landgræðslu endurheimt votlendis (sett verður á fót verkefni sumarið 2016), styrkjum til verkefna sem miða að kolefnisjöfnun í ríkisrekstri og með þvi að leggjast í átak gegn matarsóun. Engin þessarra verkefna eru útfærð sérstaklega.
Samantekið er ríkisstjórn ekki með útfærða áætlun um það hvernig hún ætlar að leggja sitt að mörkum til að draga hratt úr losun gróðurhúslofttegunda hérlendis á næstu árum, heldur markmið og hugmyndir um vegvísa að þeim.
Þátttaka í alþjóðlegum verkefnum
Í sóknaráætluninni er einnig fjallað um fjögur verkefni sem Ísland tekur þátt í til að draga úr losun á heimsvísu. Þar er sagt að Ísland muni ásamt Irena, alþjóðastofnun um endurnýjanlega orku, eiga frumkvæði að því að stofna Global Geothermal Alliance á ráðstefnunni í París. Sú stofnun á að tala fyrir nýtingu jarðhita á heimsvísu í stað jarðefnaeldsneytis.
Auk þess verður stefnt að því að „efla þátttöku Íslands í starfi Norðurskautsráðsins þar sem unnið er að verkefnum tengdum loftslags- og umhverfisbreytingum á norðurslóðum. Meðal annars er áætlun um minnkun losunar á sóti og metani, rannsóknir á áhrifum hlýnunar af völdum loftslagsbreytinga á vistkerfi hafsins og efling vöktunar og rannsókna á áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Ísland tekur við formennsku í ráðinu árið 2019.“
Þá ætlar Ísland að greiða eina milljón dala, um 130 milljónir króna, í Græna loftlagssjóðinn á árunum 2016 til 2020. Í viðaukanum segir að umræddur sjóður verði: „helsti sjóður í heiminum til framtíðar til loftslagstengdra verkefna.“
Einnig mun Ísland halda áfram stuðningi við loftlagstengd verkefni og sjóði sem varða þróunarríkin.
Vísindaskýrsla og bætt bókhald
Afgangur sóknaráætlunarinnar, snýst um styrkingu innviða til að halda utan um málaflokkinn. Það á að nást með því að gera vísindaskýrslu um afleiðingar loftlagsbreytinga á náttúru, efnahag og samfélag á Íslandi. Hún á að koma út haustið 2016. Þá verður sett á fót verkefni, stýrt af Veðurstofu Íslands, um hvernig íslenskt samfélag geti brugðist við áhrifum loftlagsbreytinga hérlendis. Fagráð verður skipað til að tryggja samhæfingarhlutverk verkefnisins.
Ríkisstjórnin ætlar einnig að bæta bókhald um spár um losun og kolefnisbindingu og bæta vöktun á breytingu jökla.