Hvar stendur Ísland í loftslagsmálum?
Ríkisstjórn Íslands kynnti sóknaráætlun sína í loftslagsmálum á miðvikudag. Höfum við forskot á aðra með hreinu orkuna okkar?
Ríkisstjórn Íslands kynnti stefnumótunaráætlanir sínar í loftslagsmálum á blaðamannafundi í húsakynnum Veðurstofunnar á miðvikudag. Eru það fyrstu áhersluatriði ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í loftslagsmálum til þess að mæta landsmarkmiði Íslands um 40 prósent minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2020 miðað við losun ársins 1990.
Áætlun ríkisstjórnarinnar verður ekki útfærð frekar fyrr en að þingsályktun verður lögð fyrir Alþingi í vor. Áætluninni er skipt upp þrjá meginþætti: verkefni til að draga úr nettólosun á Íslandi, alþjóðlegar áherslur og verkefni til að draga úr losun á heimsvísu og styrkingu innviða. Hvergi er minnst á stærsta mengunarvaldinn; iðnað- og efnanotkun. Þar telur álframleiðsla nærri helming en samtals nýtir stóriðja 79 prósent allrar þeirra raforku sem framleidd er hér á landi.
Ísland er síðast Norðurlandanna til þess að leggja fram áætlun á borð við þessa þar sem áhersluatriði stjórnvalda í loftslagsmálum eru listuð. Sumstaðar hefur áætlunin legið fyrir í nokkur ár og jafnvel verið fest í lög eins og í Finnlandi. Löggjöf og stefnumótun í nágrannaríkjum okkar er því víðast komin vel á veg. Hér á landi hafa þó verið sett lög um loftslagsmál en engin síðan markmið Íslands um 40 prósent minni losun árið 2030 var tilkynnt.
Eftir vonbrigðin sem fylgdu loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn árið 2009 er erfitt að vera meira en hóflega bjartsýnn um hvort hægt verði að komast að góðu samkomulagi í París á næstu vikum. Væntingarnar eru miklar en fundurinn flókinn og samkomulagið torsótt, ef eitthvað er að marka reynsluna frá Kaupmannahöfn. Þar runnu viðræður út í sandinn og fór svo að samkomulagið sem undirritað var skuldbatt ekkert ríki til að draga úr losun. Samningurinn var ekkert annað en yfirlýsing um að þjóðir heims viðurkenndu vandann. En það var þó eitthvað og hefur verið byggt á því samkomulagi í aðdraganda ráðstefnunnar í París.
Valdinu snúið á hvolf
Í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar núna hefur markmiðasetningunni verið snúið við. Í stað þess að ráðstefnan ákveði hversu mikið hvert ríki má losa út í andrúmsloftið þá hafa öll ríkin lagt fyrir fundinn eigin stefnumótunarmarkmið í loftslagsmálum til ársins 2030. Með því er ætlast til að öll ríki heims gangi sáttari að borðinu þannig að hægt sé að loka kaflanum um losunarheimildir hratt og örugglega. Fleiri umfjöllunarefni eru á dagskrá fundarins sem gæti orðið erfiðara að ná utan um.
Nú hafa nær öll ríkin sem koma til með að senda fulltrúa á ráðstefnuna í París skilað markmiðum sínum í stefnumótun vegna loftslagsmála. Á vefnum Climate Action Tracker eru markmiðin birt og þeim gefin vegin einkunn svo hægt sé að meta hvaða áhrif þau muni hafa. Eins og Kjarninn hefur þegar fjallað um þá lítur út fyrir að markmiðin eigi eftir að skila takmarkinu um að hitastig á jörðinni hækki ekki umfram 2°C árið 2100. Sé eitthvað að marka markmiðin er útlit fyrir að hitastigið verði búið að hækka um 2,7°C í lok aldarinnar miðað við meðalhitastig á jörðinni fyrir iðnbyltingu.
Mat Climate Action Tracker á markmiðum einstakra landa
Grænt merkir nægilega gott markmið, gult merkir hófleg markmið og rautt merkir ófullnægjandi markmið.
Ástæða þess að markmiðin eiga ekki eftir að skila takmarkinu er í raun kerfisleg. Um er að ræða stefnumótunarmarkmið til framtíðar; forvirkar reglur og áherslur sem á eftir að setja um eitthvað sem talið er að eigi annars eftir að gerast eftir áratugi. Úr verður að markmiðasetningin verður málamiðlun milli viðskiptalegra hagsmuna ríkis og framtíðaröryggis, hvort sem það er fæðuöryggi eða orkuöryggi.
Stærstu mengunarríki heimsins fá einkunina „hóflegt“ um framlag sitt til fundarins. Markmið Evrópusambandsins er þar á meðal, og þá um leið markmið Íslands. Fáein ríki fá einkunina „nægjanlegt“ fyrir sín markmið. Þá er fjöldi stórra ríkja sem fá einkunina „ófullnægjandi“ fyrir markmið sín. Til þess að fá verstu einkunn þykir ljóst að núverandi stefnumörkun þurfi nær ekkert að breyta til að ná landsmarkmiðunum. Meðal þeirra landa sem fá „ófullnægjandi“ eru til dæmis Rússland, Japan, Kanada, Sádí-Arabía og Indónesía.
Hvar stendur Ísland miðað við Evrópu?
Áætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var á miðvikudag er fyrsta skrefið í þeirri vinnu sem á eftir að vinna svo markmiðinu um 40 prósent minni losun verði mætt. Það gæti hins vegar farið svo að Ísland þurfi ekki að draga svo mikið úr losun því með samstarfi við Evrópusambandið öðlumst við rétt til að taka þátt í kaupum og sölu á útblásturskvóta Evrópuríkja. Þannig getur Ísland, sem mengar tilltölulega lítið miðað við önnur ríki, selt réttindi sín annað svo kvótinn verði nýttur. Hvernig samið verður við Evrópusambandið hefur ekki verið ákveðið. Það verður gert eftir ráðstefnuna í París í samstarfi við aðildarríki Evrópusambandsins og Noreg.
Í þættinum Þukli í Hlaðvarpi Kjarnans sagði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, Ísland hafa góða forgjöf þegar kemur að loftslagsbreytingum. Sú orka sem hér er framleidd er nær öll sjálfbær svo Íslendingar þurfi ekki að hafa áhyggjur af breyttri framleiðslu á orku. Samkvæmt upplýsingum Orkustofnunar var vatnsorka uppruni 71 prósent alls rafmagns sem framleitt var á Íslandi 2014. Jarðvarmavirkjanir framleiddu tæplega 29 prósent. Raforkuframleiðsla með jarðefnaeldsneyti var nánast engin, eða 0,01 prósent í fyrra.
Ísland ætti því að geta gert talsvert betur en ríki Evrópusambandsins sem reiða sig fyrst og fremst á jarðefnaeldsneyti til að framleiða rafmagn. Árið 2013 framleiddu aðildarríkin 28 helming allrar raforku með jarðefnaeldsneyti (gas, kol og olía). Nærri 27 prósent orkunnar er framleidd með kjarnorku.
Endurnýjanlegir orkugjafar voru uppruni þess sem eftir stóð árið 2013 og hafði þá aukist úr 12,6 prósent hlutdeild árið 2003 í 23,2 prósent tíu árum seinna. Mest var aukningin með virkjun vindorku og sólarorku. Raforkuframleiðsla með jarðefnaeldsneyti dróst aðeins lítið eitt saman á þessum tíu árum, fór úr 56,4 prósentum í 49,8 prósent.
Stefna Íslands
Stefna Íslands í loftslagsmálum hefur ætíð verið hófleg með áherslu á græna orkuframleiðslu. Stóriðja hefur verið stærsti mengunarvaldurinn hér á landi á síðustu áratugum og með tilkomu Kyoto-bókunarinnar og alþjóðlegs markaðs um losunarkvóta hefur öll losun frá stóriðjunni fallið undir viðskiptakerfi ESB. Lög um loftslagsmál fjölluðu um losun þessarar framleiðslu þar til þau féllu úr gildi í lok árs 2012 en þá höfðu ný lög verið samþykkt til að innleiða EES-gerðir og tengjast markaði Evrópuríkja um losunarheimildir.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur talað skýrt um loftlagsmál á alþjóðavettvangi. Á leiðtogafundi Sameinðu þjóðanna í New York í september 2014 sagði hann að Ísland stefni að því að verða laust við jarðefnaeldsneyti. „[…] nær öll okkar raforka er framleidd með endurnýjanlegum orkukostum. Við höfum þegar hafið vinnu við að ná þessu takmarki,“ sagði forsætisráðherra. „Við erum tilbúin að vinna með ykkur að þessu mikilvæga máli og við stöndum trygg við yfirlýsinguna —Setjum verð á gróðurhúsalofttegundir.“
Í samantekt Náttúruverndarsamtaka Íslands síðan á mánudag, sem Kjarninn hefur undir höndum, er bent á að yfirlýsing Sigmundar Davíðs um að Ísland ætli að hætta notkun jarðefnaeldsneytis hafi enn ekki birst í loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Í sóknaráætluninni er það hvergi gert að markmiði, heldur aðeins talað um að „auka hlut visthæfra innlendra orkugjafa á kostnað innflutts kolefnaeldsneytis“.
Forsætisráðherra undirritaði yfirlýsingu Alþjóðabankans um nauðsyn þess að verðleggja losun gróðurhúsalofttegunda (e. Putting Price on Carbon, sjá myndband hér að ofan). Það er hins vegar ekki hluti af sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, var spurð að því í hlaðvarpsþættinum Þukli á miðvikudag hvort það hafi komið til greina að hanna skattalega hvata til að draga úr losun gróðurhúsaáhrifa. „Við höfum ekki alveg farið nákvæmlega út í þannig skattakerfi en maður er að treysta líka á að það verði ákveðin hugarfarsbreyting hjá einstaklingum,“ segir hún.
Í ræðu fyrir Sameinuðu þjóðunum í september síðastliðnum sagði forsætisráðherra svo Ísland ætla að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent árið 2030. Þetta sagði hann „afdráttarlaust og án fyrirvara,“ svo notuð séu orð samantektar Náttúruverndarsamtaka Íslands. Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, dró hins vegar í land og sagði ráðherran hafa átt við þátttöku Íslands í markmiðum ESB.
„Málflutningurinn þeirra er ýmist í ökkla eða eyra, annað hvort erum við örsmá með augljósa sérstöðu sem réttlætir sérmeðferð fyrir Ísland eða þá Ísland er í forustu ríkja um nýtingu hreinnar orku,“ segir í samantekt Náttúruverndarsamtakanna.
Liðir sóknaráætlunar ríkisstjórnarinnar sem fjalla um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda snúast að mestu um að ríkið úthýsi verkefnunum til samtaka á borð við Grænu orkuna og Hafsins til að vinna áætlanir um aðgerðir með ráðuneytum og hinum ýmsu aðilum. Þegar kemur að eflingu innviða svo hægt sé að rafbílavæða landið á að setja fjármagn til hliðar svo hægt verði að útfæra átak um hleðslustöðvar fyrir rafbíla um allt land.
Vegvísir verður unninn þar sem farið verður yfir tækifæri og hindranir fyrir sjávarútveg í loftslagsmálum. Stjórnvöld munu kosta gerð þess vegvísis ásamt samtökum í atvinnulífinu. Einnig verður unninn vegvísir um loftslagsvænni landbúnað. Umhverfisráðherra segir Bændasamtökin hafa sjálft átt frumkvæði að því, en vinna ekki hafin vegna annarra verkefna.
Landgræðsla og endurheimt votlendis hefur verið eitt af lykilatriðum Íslands í þátttöku í alþjóðlegu samstarfi um loftslagsmál. Fyrir fáeinum árum fengu íslensk stjórnvöld það viðurkennt að að endurheimt votlendis væri mótvægisaðgerð sem hægt væri að reikna með í LULUCF (Landnotkun og breytingar á landnotkun). Um þetta verður sett á fót verkefni um endurheimt votlendis strax næsta sumar og aukið fjármagn sett til skógræktar og landgræðslu.
Norska módelið
Til að bera Ísland saman við önnur lönd er nærtækast að líta til Noregs. Noregur hefur svipaða hnattræna stöðu og Ísland og sambærilegar auðlindir sem hægt er að nýta til raforkuframleiðslu. Noregur borar þó eftir miklu jarðefnaeldsneyti (áttundi stærsti útflytjandi hráolíu árið 2011 og þriðji stærsti útflytjandi gass) en langmestur hluti þess er fluttur úr landi til brennslu annarstaðar.
Það fríar Noreg hins vegar ekki ábyrgðinni fyrir losun gróðurhúsalofttegunda og því sat landið í 30. sæti á lista yfir helstu mengunarvalda í heimi. Raforkuframleiðsla landsins er hins vegar mest í formi vatnsaflsvirkjana og Noregur flytur hluta þessarar raforku út til nágrannaríkja sinna.
Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra, kynnti árið 2007 áætlanir Noregs um að verða kolefnishlutlaust land árið 2050. Það skyldi gert með svokallaðri yfirbót, en það er nokkuð umdeild aðferð til að vega upp á móti útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Það má gera eftir mörgum leiðum sem eru þó ekki allar viðurkenndar af tækninefndum Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Sem dæmi um slíkar yfirbætur er hægt að rækta skóg einhverstaðar út í heimi eða fjárfesta í orkusparnaði eða sjálfbærri orkuframleiðslu í löndum sem eiga annars ekki fyrir slíkri tækni. Kolefnishlutleysið hefur síðan fengið byr undir báða vængi því breið pólitísk sátt virðist vera um það markmið í Noregi.
Þegar Noregur kynnti markmið sín sem yrðu lögð fyrir loftslagsráðstefnuna í febrúar lagði Erna Solberg, forsætisráðherra, fram hvítbók í loftslagsmálum. Þar eru áætlanir og helstu verkefni listuð. Sambærilega áætlun kynnti umhverfisráðherra á miðvikudag.
Einna skýrastur er munurinn á milli Íslands og Noregs þegar kemur að framlögðum markmiðum ríkjanna til loftslagsráðstefnunnar í París. Markmið Íslands er „leika sanngjarnt hlutverk“ (e. fair share) til þess að sameiginlegt markmið ESB um 40 prósent minni losun náist. Í markmiðinu sem sent var Sameinuðu þjóðunum er einnig að finna fyrirvara um að nánari útlistingu á markmiðunum eigi eftir að útfæra. Þessa fyrirvara er ekki að finna í markmiði Noregs sem ætlar að minnka losun um „að minnsta kosti“ um 40 prósent árið 2030 miðað við árið 1990.
Auk þessa er vísað í markmið landsins um að verða kolefnishlutlaust árið 2050 og að árið 2030 verði Noregur búinn að kaupa nægilega mikla yfirbót til þess að vega upp á móti uppreiknaðri losun landsins. Það þýðir ekki að Noregur muni ekki losa neitt út í andrúmsloftið árið 2050, heldur losa lítið (e. low emission society) og bæta það upp með viðurkenndum mótvægisaðgerðum eins og landgræðslu.
Atriðin sem Noregur kynnti í febrúar sem vettvang stefnumótunarinnar í loftlagsmálum eru: minni losun af völdum samgangna, vistvæn tækni í iðnaði, binding gróðurhúsalofttegunda og geymsla, endurnýjanleg orka og vistvænir vöruflutningar.
Loftlagsmál á sveitarstjórnarstiginu
Svíþjóð sem er aðildarríki að Evópusambandinu, hefur farið aðra leið en Ísland og Noregur. Í Svíþjóð eru það sveitastjórnir sem fara með framkvæmdaáætlun í loftslagsmálum. Það hefur orðið til þess að borgir og bæir vítt og breytt um Svíþjóð hafa sett sér markmið um að verða kolefnahlutlaus byggðalög. Sem dæmi má nefna Vaxjö, sem vill verða „grænasta borg í Evrópu“. Loftslagsmarkmiðum landsins verður því náð á lægra stjórnsýslustigi nær íbúum landsins. Auk þess að leggja áherslu á þátttöku sveitarfélaga hafa stjórnvöld þar tekið höndum saman við iðnaðinn til að ná kolefnishlutleysi sem byggir á endurnýjanlegri orku.
Hérlendis hefur ríkið markað eigin stefnu í loftslagsmálum og sveitarfélög sína eigin. Stefnumótun ríkisins hefur þó skarast við stefnumótun sveitarstjórna. Nýjasta dæmið er áform Reykjavíkurborgar um uppbyggingu og þéttingu byggðar í Vatnsmýrinni. Það verður ekki gert nema Reykjavíkurflugvöllur fari, að hluta eða í heild.
Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki staðið við gerða samninga um að leggja af flugbrautir svo Reykjavíkurborg hefur höfðað mál fyrir dómstólum. Þétting byggðar er eitt af helstu stefnumótunartækjum borga og bæja þegar kemur að minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Sýnt hefur verið fram á að það geri samfélög minna háð einkabílum, auðveldi uppbyggingu almenningssamgangna og stytti þær vegalengdir sem íbúar þurfa að ferðast á hverjum degi.