Fiskistofa birti nýlega samantekt um veiðigjöld á fiskveiðiárinu 2014/2015 sem lauk í lok ágúst síðastliðnum og hefur stofnunin sett saman fróðlega upplýsingasíðu um veiðigjöldin. Veiðigjöld eru lögð á hvert úthlutað þorskígildiskíló og eru þau mishá eftir einstökum tegundum.
Talsvert hefur verið dregið úr álagningu veiðigjalds, aðallega sérstaks veiðigjalds, á síðustu tveimur fiskveiðiárum eftir að þau voru hækkuð talsvert á fiskveiðiárinu 2012/2013.
Mikil lækkun
Á síðasta fiskveiðiári námu samanlögð veiðigjöld 7,7 milljörðum króna samanborið við 9,2 milljarða á fyrra fiskveiðiári og 12,8 milljarða á fiskveiðiárinu 2012/2013. Nemur lækkunin því rúmlega fimm milljörðum á tveimur árum.
Álagt almennt veiðigjald hefur breyst lítið á síðustu tveimur fiskveiðiárum og hefur numið í kringum 4,5 milljörðum króna. Helsta skýring á lækkandi veiðigjöldum er sú að sérstök veiðigjöld hafa lækkað umtalsvert. Þetta á bæði við um sérstök veiðigjöld vegna uppsjávarveiða annars vegar og vegna botn- og skelfiskveiða hins vegar. Á móti kemur að sérstakur afsláttur af veiðigjöldum samkvæmt reglum þar að lútandi var um hálfum milljarði lægri á fiskveiðiárinu 2014/2015 en á árinu á undan.
HB Grandi greiðir mest
Á síðasta greiddi stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, HB Grandi, hæstu veiðigjöldin eins og árið á undan. Eins og sést í töflunni lækkuðu veiðigjöld HB Granda um átján prósent. Veiðigjöld allra sjávarútvegsfyrirtækja lækkuðu um sextán prósent á síðasta fiskveiðiári. Síldarvinnslan greiddi lítillega meira í veiðigjöld á síðasta fiskveiðiári og skýrist það af því að félagið keypti talsvert af aflaheimildum á tímabilinu.
Afkoma sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið með ágætum á síðustu árum. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hefur hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) verið hár allt fram til ársins 2013 (tölur ná ekki lengra).
Afkoma HB Granda á árinu 2014 og á fyrstu níu mánuðum ársins 2015 hefur auk þess verið með ágætum og gefur það góða vísbendingu um afkomu í greininni í heild þar sem HB Grandi á um tólf prósent af útgefnum aflaheimildum í öllum helstu tegundum.