Stafangur og nágrenni er þessa dagana risastór tilraunastofa fyrir snjalllausnir sem spara raforku, stytta ferðatíma, draga úr útblæstri og bæta aðhlynningu aldraðra, auk annarra samfélagsverkefna. Risavaxið ljósleiðaranet og snjallheilar í rafmagnstöflunni eru lykillinn að heimilum framtíðarinnar. Á snjallheimilum Stafangurs er app í snjallsímanum allt í senn: lykillinn að útidyrahurðinni, fjarstýringin að sjónvarpinu, termostatið á ofninum og slökkvarinn fyrir öll ljós heimilisins.
Snjallheili heimilisins er líka beintengdur dreifikerfi raforku, fær skilaboð um það hvenær sólarhringsins rafmagn er ódýrast og setur þá þvottavélina í gang og hleður rafbílinn. Þá er hægt að tengja hann við þjófa- og brunavarnarkerfi sem hringir beint í slökkviliðið ef reykskynjarinn fer í gang. Þannig má spara dýrmætar mínútur. Einnig er verið að þróa snjalllausnir sem geta gerbylt umönnun aldraðra.
Nýsköpunarborgin Stafangur
Stafangur er ein af níu nýsköpunarborgum sem taka þátt í risavöxnu þróunarverkefni Evrópusambandsins fyrir snjallborgir (smarter cities and communities). Á næstu fimm árum munu Stafangur, í nánu samstarfi við Eindhoven og Manchester, prófa urmul snjalllausna í borgarskipulagi og húsrekstri. Bestu lausnirnar verða síðan teknar upp í þremur öðrum evrópskum borgum, Prag, Leipzig og Sabadell á Spáni.
Það eru ekki bara snjallhús á listanum, þó þau verkefni hljóti mesta athygli. Það er í sjálfu sér ekki nýtt að það sé hægt að opna útidyrnar með appi, kveikja og slökkva ljós og stjórna kyndingu heimilisins með símanum. Það er ekki mörg heimili sem eru útbúin með þeirri tækni ennþá, en það hefur verið gert.
Heildstæð hugsun í raforkustjórnun
Nýjungarnar liggja hins vegar í heildstæðri og kerfisbundinni hugsun um það hvernig maður geti bundið snjalllausnir saman og fengið fram margfeldisáhrif sem stuðla að betri borgarsamfélagi. Með markvissri notkun á snjalllausnunum er hægt að spara um 20% af rafmagnsreikningi heimilisins. Ef nógu margir taka upp snjallari rafmagnsnotkun, þá getur þetta þýtt miklu betri nýtingu á öllum innviðum.
Dreifikerfið er byggt til að þola stóra toppa í rafnotkun á morgnana og um kvöldmatarleytið, en liggur að sama skapi og mallar í hægagangi á nóttunni. Eftir því sem allt kerfið, heimilin og vinnustaðir verða snjallari, er bæði hægt að koma í veg fyrir óþarfa rafmagnseyðslu og líka jafna álagið á dreifikerfið, sem þarf þá ekki heldur að vera jafnviðamikið.
Nýskapandi raforkuframleiðandi
Fyrirtækið Lyse er hér í lykilhlutverki. Lyse rekur upphaf sitt til vatnsaflsvirkjana innst í snarbröttum Lyse-firðinum, austan við Stafangur, og er enn umsvifamikill raforkuframleiðandi. Fyrirtækið rekur einnig eitt stærsta ljósleiðaranet í Noregi og selur í dag netþjónustu og sjónvarp til rúmlega 400.000 viðskiptavina. Undanfarin ár hefur fyrirtækið einnig rekið öflugt nýsköpunarstarf til að þróa snjalllausnir fyrir heimili og vinnustaði til að spara rafmagn og dreifa álagi á kerfið. Í dag hugsar fyrirtækið enn lengra og vinnur með snjalllausnir fyrir heimaþjónustu og aðhlynningu aldraðra, svo dæmi séu tekin.
Núna er verið að prófa þetta í smáum skala en plönin eru stór. Á næstu þremur árum mun Lyse setja upp sjálfvirka rafmagnsmæla hjá 140.000 viðskiptavinum sínum, sem lesa sjálfkrafa af og senda gögn til Lyse á klukkutíma fresti. Þessir mælar tengjast lítilli tölvu sem er í raun heilinn í snjallheimilinu.
Þar að auki er nú verið að besta lausnirnar. Uppsetning á snjalllausnum á heimilum hefur hingað til kostað mikla vinnu, hugsun og undirbúning fyrir hvert og eitt tilfelli. Það hefur hingað til verið algengt að forritun á hverju snjallheimili fyrir sig hafi tekið um 200 tíma. Lyse er hins vegar búið að þróa staðlaða snjallhúsalausn, sem tekur aðeins tvo tíma að forrita.
En snilldin við snjallhúsakerfið er að maður þarf ekki að hugsa svo mikið út í það. Nú þegar er hægt að fá allra handa snjöll tæki og tól, öpp og vélmenni sem létta manni lífið á heimilinu. Guardian birti í vikunni ágæta samantekt yfir áhugaverð heimilistæki sem fást nú þegar eða eru á leiðinni. En hvað er unnið með því að fá mörg tæki sem létta manni lífið, ef maður notar tímann sem sparast, og vel það, í að læra á tækin, forrita, fikta í stillingunum, hringja í viðgerðarmann og leita að ábyrgðarskírteinunum fyrir hvert tæki fyrir sig?
Hvað eru snjallar borgir?
Hið sama gildir um borgirnar. Þær eru sambýli margra ólíkra afla og aðila. Til þess að þróa róttækar og gagngerar breytingar á innviðum samfélagsins, verða allir að leggjast á eitt. “Það er hægt að fylla borgirnar með tækni svo út úr flóir, en ef tæknilausnirnar eru ekki tengdar og að vinna saman, eða ef við náum ekki að teikna þær inn í heildarskipulagið, þá missum við af mörgum tækifærum til að bæta þjónustuna við íbúana,” segir Ellen Våland Mauritzen hjá Stafangursborg.
Það er að mörgu leyti það sem stóra snjallborgaverkefnið snýst um: að sameina snjalllausnir og fá þær til að vinna saman. „Þetta verkefni varir jú bara í fimm ár. Í rauninni fer mjög lítill hluti þessa verkefnis í að finna upp á nýrri tækni; margt af þessu er nú þegar til. Þannig að það er ekkert margt á listanum sem fær fólk til að segja: ‘vá! Hugsaðu þér! Í framtíðinni verður þetta hægt!’ Þetta er miklu frekar nýsköpunarverkefni, þar sem við prófum tæknilausnir í nýju samhengi eða í stærri skala, með það fyrir augum að ná betri nýtingu á orku, plássi, samgöngum; eða í öðrum tilgangi,” bætir kollegi hennar við: Gerd Seehuusen, sem stýrir verkefninu fyrir hönd Stafangursborgar.
„Þegar ég hugsa um nýsköpun og snjalllausnir, þá dettur mér alltaf í hug Georg gírlausi og fuglahúsið sem hann sat með á hausnum til að finna upp á hlutum,” segir Gerd. „Það sem við erum að gera hér er í rauninni að setja svona uppfinningahatt á heila borg og reyna að fá marga aðila til að þróa lausnir saman og hugsa heildstætt.”
Samvinna milli geira nauðsynleg
Ein af lykilástæðunum fyrir því að Stafangur fékk að taka þátt í einu viðamesta nýsköpunarverkefni Evrópusambandsins á þessu sviði, þrátt fyrir að Noregur sé ekki í ESB, er sú að hér fara saman kraftmikil nýsköpunarfyrirtæki, háskólaumhverfi sem er í góðum tengslum við atvinnulífið og sveitarfélög sem leggja mikið upp úr að styðja við bakið á nýsköpun.
„Í Stafangri er löng hefð fyrir náinni samvinnu milli háskólans, atvinnulífsins og sveitarfélaganna. Ætli það megi ekki rekja það til olíuiðnaðarins,” segir Gerd Seehuus, verkefnisstjóri hjá Stafangursborg. Stafangur hefur lengi verið miðpunktur norska olíuiðnaðarins. „Hér er mikil hefð fyrir nýsköpun; að hafa alltaf augun opin fyrir nýjum lausnum og styðja nýjar og lofandi hugmyndir.”
Tækifærin í kreppunni
Stafangur hefur fengið að kenna á lækkandi olíuverði, enda miðpunktur norska olíuiðnaðarins. Þó að ástandið sé langt frá að geta jafnast á við fjármálakreppuna á Íslandi, þá hafa fjöldauppsagnir og vaxandi atvinnuleysi verið fastir liðir í fréttum frá Stafangri þetta árið og lítil von á snöggum bata.
Gerd segir þetta hins vegar hafa góð áhrif á nýsköpunarumhverfið, í það minnsta fyrir þetta verkefni. Nú neyðist fólk til að víkka sjóndeildarhringinn. Það hefur verið mikill fókus á olíuiðnaðinn fram að þessu en nú er fólk allt í einu farið að hafa meiri áhuga á verkefnum eins og þessu.”