Þann 4. janúar næstkomandi verður tekin upp vegabréfaskoðun við landamæri Svíþjóðar. Sænsk stjórnvöld segja þetta nauðsynlegt til að stemma stigu við straumi flóttafólks til landsins. Búast má við að lestarferð frá Kaupmannahöfn til Malmö taki þá eina og hálfa klukkustund í stað hálftíma. Þúsundir Dana og Svía fara daglega fram og til baka um Eyrarsundsbrúna vegna vinnu. „Áratugaskref aftur á bak, eins og vera sendur á byrjunarreit í Lúdó“ segir danskur vinnumarkaðssérfræðingur.
Sænsk stjórnvöld vita ekki sitt rjúkandi ráð og standa nánast ráðþrota gagnvart straumi flóttafólks til landsins. Tala þeirra flóttamanna sem komið hafa til Svíþjóðar á þessu ári, og sótt um hæli, nálgast nú tvö hundruð þúsund. Fyrir nokkrum vikum sagði sænski forsætisráðherrann Stefan Löfvén eitthvað á þá leið að til Svíþjóðar væru allir velkomnir, líka fólk í neyð. Líklega hefur hann þá ekki rennt grun í að svo margir sem raun ber vitni myndu sjá Svíþjóð fyrir sér sem hið fyrirheitna land. Fyrir skömmu kom forsætisráðherrann fram í sjónvarpi, beygður nokkuð, og sagði að flóttamannastraumurinn væri miklu meiri en nokkurn hefði getað grunað og frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefði Evrópa ekki staðið frammi fyrir öðrum eins vanda. Sér þætti afar leitt að tilkynna að Svíar réðu einfaldlega ekki við að taka á móti öllum þessum fjölda. Hann sagði einnig að Svíar væru ekki að skorast undan ábyrgð en aðrar þjóðir yrðu að leggja sitt af mörkum. Þótt sænski forsætisráðherrann væri kurteis í tali duldist engum hvert hann beindi orðum sínum. Aðrir sænskir ráðherrar sögðu umbúðalaust að Danir reyndu með öllum ráðum að vera „stikkfrí“ og ýta vandanum frá sér, yfir Eyrarsund.
Létu ekki sitja við orðin tóm
Svíar létu ekki sitja við orðin tóm. Brátt var fjölmennt lið lögreglu við störf á Hyllie stöðinni, fyrsta viðkomustað lestanna sem koma frá Kastrup, síðasta viðkomustað Danmerkurmegin. Hlutverk lögregluþjónanna var að skoða persónuskilríki farþeganna en stór hluti flóttafólksins (um 80%) hefur enga slíka pappíra eða neitar að framvísa þeim. Algeng svör þegar spurt var um áfangastað voru að það væri Noregur eða Finnland en margir óskuðu líka eftir hæli í Svíþjóð.
Lítið hefur dregið úr straumnum
Margir bjuggust við að þegar veturinn legðist að myndi draga úr straumnum. Það hefur ekki gerst. Fólk streymir áfram til Þýskalands, þeir sem ekki hyggjast dvelja þar halda til Danmerkur og stærstur hluti þess hóps áfram til Svíþjóðar.
Vegabréfaskoðun frá og með 4. janúar 2016
Fyrir nokkrum dögum tilkynnti ráðherra innflytjendamála í Svíþjóð, Morgan Johansson, að allsherjar vegabréfaskoðun yrði tekin upp við sænsku landamærin frá og með 21. desember. Varla hafði ráðherrann sleppt orðinu þegar hann tilkynnti um nýja dagsetningu, 4. janúar 2016. Frumvarp þessa efnis var jafnframt lagt fram í sænska þinginu. Ráðherrann greindi jafnframt frá því að fyrirtækjum sem flytja fólk til Svíþjóðar verði gert skylt að ganga úr skugga um að allir farþegar hafi fullgild persónuskilríki áður en komið verður að sænsku landamærunum. Þannig verður starfsfólk dönsku járnbrautanna, DSB, að skoða öll skilríki á járnbrautarstöðinni á Kastrup flugvelli og þeim sem ekki geta sannað á sér deili verður snúið við. Sama gildir um ferjur og rútur, þar verða skilríki skoðuð áður en farið er yfir landamærin. Sænsk stjórnvöld hafa líka íhugað þann möguleika að loka Eyrarsundsbrúnni fyrir umferð, þegar nauðsyn krefur, eins og komist var að orði. Sá möguleiki verður þó að teljast fremur ólíklegur.
Hvað þýðir þetta fyrir Danmörku?
Þessari spurningu beindi danskur blaðamaður til Inger Støjberg ráðherra innflytjendamála í Danmörku á fréttamannafundi í ráðuneytinu. „Það vitum við ekki“ svaraði ráðherrann „en teljum líklegt að þetta auki þrýstinginn hér í Danmörku.“ Inger Støjberg upplýsti jafnframt að hún hefði rætt við þýska innanríkisráðherrann um fyrirætlanir Svía og hvað það gæti haft í för með sér fyrir Dani og Þjóðverja.
Danir bregða kannski á sama ráð og Svíar
Á áðurnefndum fréttamannafundi sagði Inger Støjberg að vel kynni svo að fara að Danir yrðu að fara sömu leið og Svíar, að taka upp vegabréfa- og skilríkjaskoðun við dönsku landamærin, Þýskalandsmegin. Til þess þyrfti að sjálfsögðu samþykki þýskra stjórnvalda. Dönsku járnbrautirnar hafa bent á að slík skoðun útheimti margt fólk og jafnvel breytingar á lestarstöðvunum. Líka hefur vaknað sú spurning hvort starfsmenn dönsku járnbrautanna hafi heimild til að krefja fólk um skilríki og ennfremur hvort vísa eigi skilríkjalausum börnum úr lestinni og skilja þau eftir á brautarpallinum. Danskir blaðamenn vöktu athygli ráðherrans á því að hér í Danmörku er strætisvagnabílstjórum, að viðlagðri refsingu, bannað að skilja börn eftir á ólýstum sveitavegum.
Athygli Dana og Svía beinist mest að samgöngum yfir Eyrarsund
Hér í Danmörku beinist athygli vegna landamæraeftirlits Svía fyrst og fremst að Eyrarsundsbrúnni og samgöngum um hana. Það er skiljanlegt í ljósi þess að þúsundir Svía og Dana fara daglega til vinnu yfir sundið, Svíarnir sem sækja til Danmerkur mun fleiri. Fyrir þetta fólk skiptir ferðatíminn miklu máli, og tími er peningar. Allt frá því að Eyrarsundsbrúin var tekin í notkun fyrir fimmtán árum hefur verið unnið að því að stytta ferðatímann yfir sundið. Frank Jensen yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar sagðist, í blaðaviðtali, skilja áhyggjur Svía en jafnframt vonast til að aðeins yrði um tímabundið ástand að ræða. Carsten Wedel, rúmlega sextugur Svíi, sem býr í Malmö en vinnur í Kaupmannahöfn hefur farið daglega yfir sundið til vinnu í rúm tuttugu ár. „Eyrarsundsbrúin breytti öllu fyrir mig“ sagði hann „klukkutími til viðbótar á leið heim úr vinnu minnir óneitanlega á liðna tíð og flugbátana sem sigldu yfir sundið. Ég verð kannski bara að kaupa mér bíl í fyrsta skipti á ævinni.“