Einum stærsta eftirstandandi anga hrunsins mun brátt ljúka þegar slitabú Glitnis, Landbankans og Kaupþings ljúka nauðasamningi sínum. Við það munu þau breytast í venjuleg endurskipulögð eignarhaldsfélög og greiða kröfuhöfum sínum, að mestu bandarískum fjárfestinga- og vogunarsjóðum, út hundruð milljarða króna. Á sama tíma mun ríkissjóður fá greidd stöðugleikaframlög úr slitabúunum sem notuð verða til að greiða niður skuldir ríkisins, og þar af leiðandi skuldir allra landsmanna. Það verður jólagjöfin í ár.
Þótt þessi niðurstaða sé mjög skammt undan, og allt bendi til þess að kröfuhafarnir fái greitt í kringum komandi jólahátíð, þá verður ekki sagt að það ríki eining í samfélaginu um þá niðurstöðu sem er nú að verða að veruleika.
Þvert á móti.
Fordæmalausar aðgerðir
Í júní síðastliðnum var haldinn kynningarfundur þar sem fordæmalausar aðgerðir stjórnvalda til að losa um fjármagnshöft voru kynntar. Á þeim fundi var svokallaður stöðugleikaskattur upp á 39 prósent kynntur og sagt að hann myndi leggjast á slitabúin ef þau kláruðu ekki nauðasamning sinn fyrir áramót. Áður en fundurinn hófst höfðu öll slitabúin lagt fram tillögur um hvernig þau væru tilbúin að mæta svokölluðum stöðugleikaframlögum stjórnvalda til að fá að klára nauðasamningsgerð sína. Tillögurnar voru afrakstur viðræðna milli stærstu kröfuhafa föllnu bankanna og framkvæmdahóps um losun hafta sem höfðu staðið yfir frá því í lok febrúar 2015. Búið var að samþykkja tillögurnar með fyrirvara áður en kynningarfundurinn hófst.
Lykilatriði við að klára málið var að Seðlabanki Íslands kláraði greiningu á greiðslujöfnuði og fjármálastöðugleika til að tryggja að greiðslur úr slitabúunum myndu ekki ógna þeim. Á endanum þurfti að gera breytingar á stöðugleikaframlagi slitabúanna, sem fólu að mestu í sér að Íslandsbanki, nú í eigu Glitnis, verður afhentur ríkinu í heilu lagi. Áður stóð til að selja bankann og skipta ágóðanum á milli kröfuhafa Glitnis og ríkissjóðs.
Seðlabanki Íslands samþykkti breyttar tillögur slitabúa föllnu bankanna um stöðugleikaframlag í lok október síðastliðins. Samkvæmt kynningu sem fram fór 28. október síðastliðinn áttu bein stöðugleikaframlög slitabúanna að vera samtals 379 milljarðar króna. Sú tala breytist þó dag frá degi, meðal annars vegna gengisbreytinga íslensku krónunnar. Samkvæmt nýjustu fréttum mun Glitnir greiða um 223 milljarða króna í stöðugleikaframlag.
Þurfa að fá samþykki dómstóla
Frá því að þessi kynningarfundur var haldin hafa slitabúin unnið hörðum höndum að því að klára slit sín. Búið er að fá samþykki kröfuhafa fyrir nauðasamningi þeirra allra. Það var gert á fundum sem haldnir voru síðari hluta nóvembermánaðar og nánast allir kröfuhafar allra bankanna þriggja sem greiddu atkvæði samþykktu þá.
Næsta skref var að leggja nauðasamninginn fyrir héraðsdóm Reykjavíkur til staðfestingar. Glitnir lagði sinn samning fram til samþykktar 4. desember síðastliðinn og fimm dögum síðar var dómstóllinn búin að samþykkja nauðasamningsfrumvarp bankans. Síðdegis á mánudag rann síðan út kærufrestur vegna hans.
Nauðasamningur Kaupþings var tekinn fyrir í héraðsdómi á þriðjudag í síðustu viku en málinu var þá frestað. Ástæðan var sú að það vantaði íslenska þýðingu á skjölum sem Kaupþing lagði fram. Sú viðbótarþýðing var lögð fram daginn eftir þegar málið var tekið aftur fyrir. Frumvarpið var svo samþykkt í gær. Landsbankinn lagði sitt nauðasamningsfrumvarp fram fyrir héraðsdóm til samþykktar í gær, 15. desember. Ekki er búist við öðru en að nauðasamningsfrumvarp Landsbankans verði samþykkt á nokkuð skömmum tíma, líkt og gerðist hjá Glitni og Kaupþingi.
Ferlinu er þó ekki að fullu lokið þá.
Stöðugleikaframlög greidd fyrir áramót
Þegar Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn fengu greiðslustöðvun haustið 2008 hlaust sjálfkrafa lagaleg vernd gagnvart fjárnámi og öðru slíku í Evrópu, á grundvelli tilskipanna sem Ísland hefur innleitt í lög á grundvelli EES-samningsins. Þar sem íslensku bankarnir gáfu einnig út skuldabréf í Bandaríkjunum þurfti hins vegar einnig að sækja um svokallað Chapter 50 þar í landi og í kjölfarið að fá viðurkenningu á íslensku slitameðferðinni fyrir bandarískum dómstólum.
Áður en að hægt verður að klára nauðasamning slitabúanna verða þau að upplýsa bandaríska dómstóla um að slitameðferð sé lokið og að greiðslur til kröfuhafa séu á næsta leyti. Glitnir gerði það fyrst íslenska slitabúanna í gær og hin tvö slitabúin munu gera það í kjölfarið.
Þá vantar endanlega undanþágu Seðlabanka Íslands frá gjaldeyrishöftum,sem hann hefur þegar sagt að hann muni veita, til að hægt verði að heimila útgreiðslur úr slitabúunum. Í tilfelli Glitnis, sem er nokkrum dögum á undan í sínu ferli en hin slitabúin, gætu slíkar útgreiðslur hafist strax og þinghaldi fyrir bandarískum dómstólum er lokið, en það verður líkast til í þessari viku. Eignir Glitnis voru 981,1 milljarður króna um mitt þetta ár. Miðað við áætlað stöðugleikaframlag má ætla að um 758 milljarðar króna renni á endanum til kröfuhafa bankans. Til að byrja með verður allt laust fé búsins, um 400 milljarðar króna, greitt út. Þeir munu allt í allt fá um 32 prósent af kröfum sínum greiddar. Það er meira en væntingar kröfuhafa gerðu ráð fyrir framan af þessu ári, ef mið er tekið af verði skuldabréfa á Glitni, sem ganga kaupum og sölum. Samkvæmt því voru áætlaðar endurheimtir í voru 27 til 29 prósent. Þorri eigna Glitnis, eða um 73 prósent þeirra, er reiðufé eða ígildi þess.
Kaupþing mun líkast til þurfa að greiða um 127 milljarða króna í stöðuleikaframlag og gamli Landsbankinn um 23 milljarða króna. Endurheimtir kröfuhafa Kaupþings eru í efri mörkum þess sem þeir hafa búist við á undanförnum árum og endurheimtir kröfuhafa Landsbankans verður hærra en væntingar kröfuhafa stóðu til.
Stöðugleikaframlögin verða greidd áður en að kröfuhöfum verður greitt út. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi vegna stýrivaxtarákvörðunar Seðlabanka Íslands í síðustu viku að greiðsla á stöðugleikaframlögum gæti átt sér stað fyrir áramót. Starfsmenn Íslandsbanka geta því farið að búa sig undir ríkisstarfsmannabrandara á sinn kostnað strax á nýju ári.
Í kjölfarið verða slitastjórnirnar lagðar niður og stjórnir sem helstu kröfuhafar hafa valið taka við stjórn endurskipulagðra eignarhaldsfélaga sem munu halda á þeim eignum sem slitabúin eiga enn.
Gagnrýni úr mörgum áttum
Ljóst er að það er ekki eining um þá leið sem valið hefur verið að fara. InDefence-samtökin hafa til dæmis gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir samkomulag þeirra við stjórnvöld og sagt að kröfuhafar séu að fá ódýra leið út úr íslenskum höftum. Þau hafa einnig gagnrýnt stjórnvöld fyrir að setja fram villandi framsetningu á stöðugleikaframlaginu sem fellur ríkissjóði í skaut. Í umsögn InDefence um mat á undanþágubeiðnum slitabúa sagði m.a.: „Þessi vandi byggist á því að kröfuhöfum slitabúanna verður hleypt út úr höftum með allt að 500 milljarða króna í erlendum gjaldeyri. Fyrir vikið sitja almenningur, fyrirtæki og lífeyrissjóðir á Íslandi eftir með mikla efnahagslega áhættu og verða að treysta á bjartsýna hagvaxtarspá Seðlabanka Íslands. Standist hún ekki, munu lífskjör á Íslandi skerðast og áframhaldandi fjármagnshöft til margra ára. Það er óásættanlegt að fyrirhugaðar aðgerðir tryggi hagsmuni kröfuhafa, en skapi efnahagslega áhættu fyrir heimili og fyrirtæki á Íslandi.“
Stjórnarandstæðingar hafa einnig gagnrýnt stjórnvöld fyrir lausn þeirra á málefnum slitabúanna. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði m.a. að stjórnvöld hefðu búið til „þykjustumynd“ sem sýndi gríðarháar fjárhæðir í stöðugleikaframlag og sagt að erlendir kröfuhafar sleppi létt frá höftum.
Hin stórkostlega ritdeila
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, gagnrýndi ríkisstjórnina einnig vegna málsins í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið á fimmtudag í síðustu viku. Þar sagði Kári m.a. að hann vilji að ríkið sæki 150 milljarða króna til viðbótar frá slitabúum þeirra banka sem settu samfélagið á hliðina og setji í heilbrigðiskerfið. „Fyrr á árinu gáfu Sigmundur og Bjarni það í skyn að ríkið myndi sækja allt að 850 milljarða króna í þrotabúin en þegar upp er staðið virðist það ætla að verða um 300 milljarðar. Ekki hafa fengist haldgóðar skýringar á því hvers vegna þeir sætta sig við svo skarðan hlut en eitt er víst að 500 milljarðarnir sem á milli ber hefðu gert gott betur en að laga íslenskt heilbrigðiskerfi. Það lítur helst út fyrir að nægjusemi flokksforingjanna tveggja eigi rætur sínar í því að þeir hafi ekki viljað taka þá áhættu að styggja aðra kröfuhafa í þrotabúin með því að taka meira. Það er dapurlegt að sitja uppi með kornunga leiðtoga sem ættu aldur síns vegna að vera hungraðir, kraftmiklir og hugrakkir en þora ekki að taka það sem við þurfum og eigum skilið. [...]Og Sigmundur og Bjarni standa hoknir í hnjánum fyrir framan kröfuhafana sem eru fulltrúar hins erlenda auðvalds, og eru hreyknir yfir því að þeir kvörtuðu ekki undan dílnum sem þeir fengu og virðast ekki gera sér grein fyrir því að það voru ekki bara kröfuhafarnir sem glötuðu allri virðingu fyrir þeim þegar buxurnar þeirra fóru að blotna heldur hið alþjóðlega samfélag allt og ekki síst íslensk þjóð.“
Sigmundur Davíð svaraði Kára reiður í aðsendri grein á föstudag og sagði að ávirðingar Kára um að uppgjör slitabúa föllnu bankanna og losun fjármagnshafta skili bara 300 milljörðum króna í ríkissjóð en ekki 850, likt og boðað hafi verið, sé „eitt ómerkilegasta bull þeirra sem gremst að stjórnvöldum skuli hafa tekist það sem áður var sagt ómögulegt við losun hafta og uppgjör bankanna[...]Þótt losun hafta sé flókið mál vita flestir sem hafa gefið sér 5 mínútur eða svo í að kynna sér málið að þetta er ósatt. Stöðugleikaskattur myndi m.v. núverandi gengi skila um 622 milljörðum í fjárframlögum, auk annarra ráðstafana, en stöðugleikaframlag skilar um 500-600 milljörðum (og meiru ef með þarf) í formi peninga og eigna auk annarra ráðstafana upp á nokkur hundruð milljarða sem styrkja stöðu efnahagslífsins og ríkissjóðs. Sú leið tryggir að framlögin verða næg til að takast á við vandann, sem þeim er ætlað að leysa, sama hversu stór hann reynist.“
Baráttan um bankana eftir
Ef fram fer sem horfir mun þessari baráttu þó ljúka á forsendur ríkisstjórnarinnar og við mun taka önnur baráttu, í þetta sinn um eignarhald á endurreistu bönkunum. Ríkisstjórnin hefur þegar gert það ljóst að til standi að selja 30 prósent hlut í Landsbankanum á árinu 2016. Samhliða stendur til að skrá Landsbankann á markað.
Þá hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lýst því yfir að það sé ekki heillavænlegt að ríkið eigið Íslandsbanka til lengri tíma. Það má því telja nokkuð öruggt að hann verði settur í söluferli í náinni framtíð.
Slagur er þegar hafinn um Arion banka, þrátt fyrir að Kaupþing, eigandi 87 prósent hlutar í honum, hafi þrjú ár til að selja hann. Sá slagur hófst fyrir áramót þegar Virðing og Arctica Finance reyndu að mynda hóp til að kaupa bankann og tók óvænta beygju þegar lífeyrissjóðir landsins, með þrjá stærstu sjóðina í farabroddi, tilkynntu að þeir ætluðu bara að kaupa bankann án aðkomu milliliða.
Þeir hefðu þó betur borið áform sín undir slitastjórn Kaupþings því Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem situr í henni og mun sitja í stjórn Kaupþings eftir að slitum verður lokið, sagði í viðtali við Morgunblaðið í vikunni að sá verðmiði á Arion banka sem hafi verið í umræðunni sé mun lægri en Kaupþing meti bankann á. Jóhannes Rúnar sagði mikinn erlendan áhuga á Arion banka og að til greina kæmi að selja hann í hlutum.
Ljóst er að almenningur mun fylgjast náið með þessu söluferli, enda mjög brenndur af einkavæðingu banka frá því að slík var framkvæmd síðast hérlendis, á árunum 2002 og 2003. Í könnun sem birt var í Fréttablaðinu í dag kom fram að 61,4 prósent landsmanna treysta ekki Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum til að selja hluti ríkisins í þeim bönkum sem það á. Einungis 21,5 prósent treysta stjórnarflokkunum vel fyrir verkefninu en 17,2 prósent svara hvorki né. Háskólamenntaðir treysta þeim minnst ásamt íbúum höfuðborgarsvæðisins og yngra fólki, í aldurshópnum 25 til 34 ára.
Óljóst hver myndi selja bankana
Það er ekki bara kaupendahliðin sem hefur verið á reiki þegar kemur að sölu bankanna. Mjög óljóst hefur verið hver það er sem muni sjá um sölu þeirra. Í apríl var lagt fram frumvarp sem gekk út á að færa verkefni Bankasýslu ríkisins til fjármála- og efnahagsráðuneytis. Ráðherra þess átti í kjölfarið að setja sérstaka eigendastefnu ríkisins sem tekur til þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkið á eignarhluti í, skipa þriggja manna ráðgjafanefnd, án tilnefningar, til að veita honum ráðgjöf um meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum og undirbúa sölu og sölumeðferð þeirra hluta. Lögin áttu, samkvæmt frumvarpi, að taka gildi í byrjun næsta árs.
Í fjárlagafrumvarpi 2016 átti bankasýslan ekki að fá krónu. Eitthvað mikið hefur hins vegar breyst í millitíðinni því samkvæmt nýbirtum breytingartillögum við fjárlagafrumvarp næsta árs fær hún þrefalt hærri upphæð en á fjárlögum ársins 2015 og á að setja sig í stellingar til að taka á móti Íslandsbanka, þegar kröfuhafar föllnu bankanna afhenda ríkinu hann.
Bankasýsla ríkisins hefur farið frá því að vera óþörf stofnun í að verða ein áhrifamesta stofnun landsins á örfáum mánuðum.