Það er óhætt að segja að vendingar í ensku úrvalsdeildinni, vinsælustu knattspyrnudeild veraldar, hafi orðið aðrar en búist var við fyrirfram. Frá því að deildin var sett á fót árið 1992 þá hefur verið hægt, með nokkurri vissu, að spá fyrir um hvaða lið það verði sem berjast um titilinn hverju sinni, hvaða lið það séu sem kljást um Evrópusætin og hverjir séu líklegastir til að falla. Stærstu frávikin frá þessu hafa verið þau þegar Wayne Rooney-laust Everton náði óvænt fjórða sætinu fyrir rúmum áratug síðan og þegar Bradford City hélt sér uppi í deildinni um síðustu aldarmót.
Það hafa enda einungis fimm lið unnið ensku úrvaldsdeildina. Fjögur þeirra hafa gert það oftar en einu sinni: Manchester liðin United og City, Chelsea og Arsenal. Eina liðið sem hefur troðið sér í þetta partý er Blackburn Rovers, sem hirti dolluna árið 1995 með góðri hjálp frá peningunum hans Jack Walker. Það sem meira er þá hefur einungis Liverpool lent í einu af þremur efstu sætum deildarinnar frá árinu 2003 þegar frá eru talin ofangreind fjögur lið.
Allar spár sem sérfræðingar í enskri knattspyrnu, og þeir skipta þúsundum, lögðu fram í aðdraganda þessa tímabils spáðu því að þessi uppáhaldssápuópera hvítra, bjór-úr-dós-drekkandi úthverfakarla sem klæða sig í búninga og öskra á sjónvarpið hverja helgi, myndi spilast út með sambærilegum hætti og þáttaraðirnar á undan. Flestir spáðu Chelsea titlinum en að Manchester-liðin og Arsenal gætu verið með vesen. Margir spáðu nýliðunum í deildinni, ásamt Leicester City sem bjargaði sér á ævintýranlegan hátt árið áður, falli.
Ekkert af þessu hefur auðvitað gengið eftir.
Hefur spilast á allt annan hátt en nokkur átti von á
Þvert á móti hefur deildin spilast á hátt sem enginn spáði fyrir um. Það reiknaði enginn með því að Chelsea væri búið að tapa níu leikjum af 18 né að Manchester United væri búið að tapa fimm og væru aðeins þremur stigum fyrir ofan liðið í ellefta sæti, sem er hið mjög ókynþokkafulla Stoke City. Enginn átti von á því að West Ham ynni nánast öll fyrirfram ákveðnu toppliðin á útivelli á fyrstu vikum tímabilsins. Enginn átti von á því að Crystal Palace og Watford væru að berjast um meistaradeildarsæti og enginn átti von á því að Everton og Liverpool yrðu um miðja deild þegar tímabilið væri hálfnað en væru samt bara fimm og sex stigum frá meistaradeildarsæti.
Og það sem allir áttu minnst von á var auðvitað að Leicester City, sem bjargaði sér með undraverðum hætti frá falli á síðasta tímabili, sem rak þjálfarann sinn eftir kynlífsskandall sonar hans í Tælandi skömmu fyrir tímabilið, sem réð fyrrum þjálfara gríska landsliðsins í knattspyrnu sem náði þeim einstaka árangri að tapa fyrir Færeyjum og sem eyddi mestum peningum fyrir tímabilið í að kaupa hinn japanska Shinji Okazaki, væri á toppnum um jólin. En þannig er samt sem áður staðan.
Hreinstefnumenn byrjaðir að trúa á ný
Margir bíða eftir því að Leicester bólan springi. Sagan segir okkur hins vegar að margir megi bíða lengi. Það er nefnilega þannig að lið sem er á toppnum um jólin hefur aldrei ekki náð meistaradeildarsæti. Í fjögur af síðustu fimm árum hefur liðið á toppnum um jólin unnið titilinn.
Það er ekki ofsögum sagt að Leicester-ævintýrið sé að endurvekja trú margra hreinstefnumanna á því að enn sé von fyrir knattspyrnuheiminn þrátt fyrir innreið og yfirtöku óheyrilegra peninga á undanförnum árum sem hafa, því miður, allt of oft gert niðurstöður deildarkeppna allt of fyrirsjáanlega.
Það er Mighty Ducks-fílíngur í kringum Leicester og allir áhangendur liða sem eru ekki að berjast í toppnum vona að þeir vinni deildina. Liðið er frá mið-Englandi, frá lítilli borg sem er þekktust fyrir að framleiða Walkers-kartöfluflögur. Svæðið þykir afar óspennandi og helstu fjendur liðsins eru Nottingham Forest. Liðið er í eigu tælensku Srivaddhanaprabha-fjölskyldunnar og er stýrt af fiktaranum fræga, Claudio Ranieri, sem hefur aldrei unnið deildartitil á um 30 ára ferli sem þjálfari þrátt fyrir að hafa stýrt stórliðum á borð við Napoli, Fiorentina, Valencia, Atletico Madrid, Chelsea, Parma, Juventus, Roma, Inter Milan og Monaco.
Byrjunarliðið er samansett af mönnum eins og Danny Simpson, Danny Drinkwater, Robert Huth og Kasper Schmeichel sem náðu aldrei að sanna sig hjá stærri liðum, ódýrum erlendum leikmönnum á borð við N´Golo Kanté, Christian Fuchs og Riyad Mahrez sem stærri lið í ensku deildinni litu ekki við fyrir örfáum mánuðum síðan en eru nú tilbúin að borga tugi milljóna punda fyrir og auðvitað verkamannastéttarhetjunni sjálfri, Jamie Vardy.
„Chat shit get banged“
Margir sem fylgjast með enskri knattspyrnu vita að Vardy var að leika með Fleetwood í utandeildinni fyrir þremur árum síðan. Að hann var að leika með Stocksbridge Park Steels í sjöundu efstu deild fyrir sjö árum síðan. Að hann var dæmdur fyrir hlutdeild í líkamsárás árið 2007 og þurfti að bera ökklaband í sex mánuði í kjölfarið. Að hann setti inn óskiljanlega stöðuuppfærslu á Twitter haustið 2011 þar sem stóð „Chat shit get banged“ og að sá frasi hafi fylgt honum alla tíð síðan. Að hann hafi kallað japanskan mann ítrekað „Jap“ á spilavíti í aðdraganda tímabilsins sem leiddi til þess að hann þurfti að biðjast opinberlega afsökunar á kynþáttahatri sínu.
En það sem allir aðdáendur enskrar knattspyrnu vita er að Jamie Vardy er markahæstur í deildinni með 15 mörk í 18 leikjum. Að Vardy er einungis fimmti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að vera valinn leikmaður mánaðarins tvo mánuði í röð. Að hann hafi bætt met Ruud Van Nistelrooy með því að skora í ellefu deildarleikjum í röð og með því að vera valinn í enska landsliðið, og spila sína fyrstu leiki með því, 28 ára gamall síðasta sumar. Vardy, sem verður 29 ára í janúar, er nú orðaður við Chelsea, Manchester United og Manchester City í janúarglugganum. Talið er að hann myndi kosta um 30 milljónir punda. Og Hollywood er að undirbúa kvikmynd um hann.
Hér að neðan má sjá Vardy skora fyrir Stockbridge fyrir sex árum síðan:
Óvæntustu úrslit sögunnar (staðfest)
En það er ekki bara Leicester og Vardy sem hafa snúið öllu á haus í ensku deildarkeppninni. Það virðist vera eins og allir geti raunverulega unnið alla. Þ.e. nema Aston Villa, eitt þeirra sjö liða sem aldrei hefur fallið úr úrvaldsdeildinni. Þeir virðast ekki geta unnið neinn og ef/þegar Aston Villa fellur þá verður það einn viðburðurinn sem verður sögulegur við yfirstandandi tímabil.
The Economist tók nýverið saman ítarlega greiningu á þeim úrslitum sem orðið hafa á þessu tímabili og komist að þeirri niðurstöðu að þau séu þau óvæntustu í sögunni. Þ.e. út frá veðmálastuðlum. Þegar greinin birtist 19. desember höfðu 42 af 160 leikjum sem þegar höfðu verið leiknir í ensku úrvalsdeildinni unnist af liðinu sem var með verri vinningslíkur samkvæmt stuðlum veðmálafyrirtækjanna.
Margir velta fyrir sér hvað valdi. Og margir komast að sömu niðurstöðu: peningar.
Gjörbreytt staða
Undanfarna rúma tvo áratugi hafa peningar getað keypt árangur. Það er staðreynd. Skammvinnur árangur Blackburn á tíunda áratugnum, og árangur Chelsea og Manchester City á undanförnum árum er lifandi sönnun þess. Sykurpabbar hafa dælt fé inn í félögin sem hafa gert þeim kleift að kaupa marga af bestu leikmönnum heims, ráðast í stórkostlegar innviðafjárfestingar og eyða formúu í ýmiskonar markaðssetningu til að auka tekjustreymið.
Þessi staða hefur á undanförnum árum gert það að verkum að „minni“ liðin í deildinni, og er þar átt við c.a. 15 lið af 20, hafa ekki getað haldið sínum bestu leikmönnum þegar „stærri“ liðin bönkuðu upp á. Fjárhagsstaðan, sem var nánast án undantekningar í járnum vegna þeirra launa sem þarf að greiða leikmönnum í efstu deild, leyfði einfaldlega ekki annað.
Þetta hefur nú breyst. Í dag eru vissulega sum lið miklu ríkari en önnur í deildinni. En öll liðið eru samt sem áður rík, geta leyft sér að kaupa leikmenn fyrir tugi milljóna punda á hverju ári og ýtt frá sér risastórum tilboðum í stjörnuleikmenn sína. Það sást vel í fyrrasumar þegar Everton tók ekki í mál að selja John Stones til Chelsea fyrir á fjórða tug milljóna punda og þegar WBA stóð fast í lappirnar gagnvart tilraunum Tottenham til að kaupa Saido Berahino.
Ástæða þessarrar breytingar er einföld: Stærsti sjónvarpsréttarsamningur í sögu evrópskrar íþróttadeildar sem tekur gildi að loknu þessu tímabili.
Peningarnir bjarga knattspyrnunni frá peningunum
Umfang sjónvarpsréttarsamninga hefur eðlilega aukist gríðarlega samhliða auknum vinsældum ensku úrvalsdeildarinnar og fleiri keppast nú um að komast yfir réttinn en áður. Í byrjun þessa árs var gerður nýr samningur sem er að mörgum talin nærri galin. Þá var rétturinn fyrir árin 2016-2019 seldur fyrir 5,2 milljarða punda. Það þýðir að Sky Sports og BT Sport, sem keyptu réttinn, borga meira en tíu milljón pund fyrir hvern leik sem stöðvarnar sýna.
Til samanburðar má nefna að samningurinn sem var í gildi fyrir árin 2013 til 2016 kostaði um þrjá milljarða punda. Og þegar úrvalsdeildin var sett á fót árið 1992 var sjónvarpsrétturinn seldur til sex ára fyrir 191 milljón punda. Til að setja þann vöxt á sölutekjum sjónvarpsréttar í samhengi þá fengu liðin í deildinni samtals 32 milljónir punda á meðaltali á árið á tímabilinu 1992 til 1997. Á árunum 2016 til 2019 fá þau um 1,3 milljarða punda til skiptanna.
Til viðbótar segja enskir fjölmiðlar að salan á alþjóðlegum sýningarrétti á enska boltanum muni skila ensku úrvalsdeildinni þremur milljörðum punda á samningstímanum. Samtals verður rétturinn því seldur fyrir um eitt þúsund og sexhundruð milljarða íslenskra króna. Eina íþróttadeildin í heiminum sem þénar meira vegna seldra sjónvarpsrétta er bandaríska NFL-deildin.
Það má því vel velta því fyrir sér, í ljósi þess sem á hefur gengið í ensku úrvaldsdeildinni á þessu tímabili, hvort peningar hafi bjargað knattspyrnunni frá peningunum. Sama afl og mörgum fannst vera að eyðileggja knattspyrnuna virðist nú vera að breyta henni á ný.