Auglýsingamarkaðurinn í Brasilíu mun vaxa um ellefu prósent vegna Ólympíuleikana á næsta ári, hvergi verður meiri hagvöxtur í en í Laos, átta prósent, og sala á rafmagnsbílum mun stóraukast, einkum eftir að ný og ódýrari tegund frá Tesla Motors, Model 3, verður kynnt í marsmánuði.
Þetta er meðal þess sem má lesa úr spá The Economist fyrir árið 2016, en í sérriti um horfur á árinu 2016 er farið ítarlega yfir stöðu mála í heimi efnahagsmála, og spáð fyrir um gang mála í hinum ýmsu löndum og atvinnuvegum.
Þau tíu ríki sem munu sýna mesta hagvöxtinn teljast fæst til þróaðra ríkja. Vöxturinn verður mestur í Asíu en einnig í Afríkuríkjum sem eru byrjuð að brjótast út úr mikilli almennri fátækt.
Þau tíu ríki sem munu sýna mestan hagvöxt á næsta ári eru eftirfarandi:
1. Laos – 8 prósent
2. Túrkmenistan – 8 prósent
3. Kambódía – 7,5 prósent
4. Síerra Leone – 7,5 prósent
5. Mósambík – 7,3 prósent
6. Mjanmar (Búrma) – 7,2 prósent
7. Bútan – 7,1 prósent
8. Kongó – 7,1 prósent
9. Indland – 7,1 prósent
10. Fílabeinsströndin – 7 prósent
Helstu tíðindin á listanum eru þau að Kína verður ekki meðal tíu helstu vaxtarríkja á komandi ári, en risinn á listanum, Indland, mun halda miklu hagvaxtarskeiði sínu áfram. Undirliggjandi þættir sem munu hafa áhrif á hagvaxtarþróunina í heiminum eru styrking Bandaríkjadals, ekki síst þar sem stýrivextir voru nýlega hækkaðir úr 0,25 prósentum í 0,5 prósent, og lágt hrávöruverð. Þessi staða er hagfelld sumum þjóðum, meðal annars mörgum á listanum hér að ofan, en önnur verða í vandræðum. Meðal annars ríki eins og Brasilía. Hagvöxtur í þeirri Suður-Ameríku verður 1,3 prósent, samkvæmt spánni, en í Brasilíu verður hann neikvæður um 0,7 prósent. Það munar um minna fyrir álfuna alla.
Túrkmenistan er hástökkvari á listanum en vaxandi gasframleiðslu og utanríkisviðskipti sem henni tengist er ástæðan fyrir miklum vexti þar.
Asía vex mest
Mesta vaxtarsvæðið í veröldinni verður í Asíu en hagvöxtur þar verður 5,4 prósent, ef litið er framhjá Japan. Þar hefur staða mála lengi einkennst af litlum hagvexti en þó er gert ráð fyrir að vöxtur á komandi ári verði 1,7 prósent.
Í Evrópu verður frekar lítill miðað það sem hann þarf að vera, samkvæmt umfjöllun The Economist. Í Vestur-Evrópu, þar sem staða efnahagsmála hefur verið afar ólík vandamálunum í Suður-Evrópu, þá verður hagvöxtur um 1,8 prósent. Í Austur-Evrópu verður enn minni vöxtur, 1,2 prósent, og krefjandi tímar framundan. Ekki síst vegna áhættu sem snýr að pólitískum átökum og flóttamönnum. Ef ekki verður haldið vel á spilunum gæti skapast mikill vandi í Austur-Evrópu, að því er segir í umfjöllun The Economist.
Mið-Austurlönd og Norður-Afríka, sem glíma við stríðsátök þessi misserin og mikil áhrif vegna þeirra, munu þrátt fyrir allt vaxa í efnahagslegu tilliti. Hagvöxtur verður um 3,2 prósent, en í Suður-Afríku verður enn meiri vöxtur, 3, 6 prósent.
Bandaríkin og Kanada sigla lygnan stöðugan sjó, og verður þar ásættanlegur hagvöxtur upp á 2,5 prósent.
Hægagangur á Norðurlöndunum nema í Svíþjóð og Íslandi
Hægagangur verður á Norðurlöndunum á næsta ári miðað við oft áður. Hagvöxtur í Danmörku verður 1,4 prósent og Norðmenn halda áfram að finna fyrir lágu hrávöruverði, einkum á olíu, og verður hagvöxtur í Noregi 1,2 prósent. Í Finnlandi verður hagvöxtur 1,4 prósent, en Svíar halda áfram að vaxa tiltölega hratt miðað við flestar aðrar Evrópuþjóðir, en samkvæmt spá The Economist verður hagvöxturinn 2,9 prósent þar í landi. Því er einkum þakkað sterkum grunni í iðnaði, ekki síst á útflutningshlið hagkerfisins.
Til samanburðar spáir Hagstofa Íslands 3,5 prósent hagvexti á Íslandi á komandi ári.
Rafmagnsbílar
En hagvaxtartölurnar segja ekki alla söguna þegar gangurinn í efnahagsmálum heimsins er annars vegar. Samkvæmt spá The Economist verður komandi ár sérstaklega stórt og mikið fyrir rafmagnsbílaramleiðendur. Gert er ráð fyrir að sala á rafmagnsbílum muni stóraukast, og þar verður lykilaugnablikið þegar Tesla Motors kynnir nýjasta bílinn, Tesla Model 3, í mars. Sá bíll kemur svo í sölu árið 2017 og er gert ráð fyrir að verðið á honum verði frá 35 þúsund Bandaríkjadölum, eða sem nemur 4,5 milljónum miðað við núverandi gengi. Þetta augnablik, þegar bíllinn verður kynntur, er sagt líklegt til þess að auka áhuga á rafbílum sem valkosti fyrir fólk úr öllum stéttum.
Þá er þróun hjá öðrum bílaframleiðendum einnig ör þegar kemur að rafmagnsbílum og ekki útilokað að meiri framfarir náist fram, þegar kemur að þróun rafmagnsbattería fyrir bíla.
Gert er ráð fyrir að bílasala aukist um þrjú prósent í Evrópu á komandi ári, en sala á rafmagnsbílum muni nærri tvölfaldast miðað við árið í ár.
Tekjur vaxa af kvikmyndum
Gert er ráð fyrir því að árið 2016 verði nokkuð gott fyrir kvikmyndaiðnaðinn og munu tekjur vaxa um 5 prósent milli ára. Taka verður fram að spá The Economist kom fram áður en nýja Star Wars myndin, The Force Awakens, var tekin til sýninga, en hún hefur á rúmlega tveimur vikum halað inn meira en einn milljarð Bandaríkjadala í tekjur, og er þegar orðin fimmta tekjuhæsta mynd sögunnar. Gera má ráð fyrir að tekjur myndarinnar muni aukast mikið á komandi ári, og hafa áhrif á það hvernig heildarmyndin verður í kvikmyndaiðnaði á árinu.
Mestu munar um það í spá The Economist, að tekjur vegna bíóferða fólks, muni aukast umtalsvert, eða sem nemur sjö prósentum.
Auglýsingamarkaðurinn, sem er næsti bær við kvikmyndaiðnaðinn og samofinn honum að miklu leyti, mun vaxa lítillega milli ára eða sem nemur þremur prósentum. En innan hans verða vaxtasvæði, meðal annars í Brasilíu, þrátt fyrir að þar verði samdráttur í efnhagslífi. Því er spáð að auglýsingarmarkaðurinn í Brasilíu muni vaxa um ellefu prósent vegna áhrifa af því að Ólympíuleikarnir fara fram í Ríó. Munar um minna fyrir fjölmiðla í þessu langsamlega stærsta landi Suður-Ameríku með 200 milljónir íbúa.
Óvissa vegna stríðs
Eins og alltaf í spám sem þessum er óvissa mikil og vandi um margt að spá. Eitt af því sem er ríkur áhættuþáttur í gangi efnahagsmála heimsins um þessar mundir eru áhrifin af stríðsátökum í Sýrlandi, Írak og Afganistan. Eins og komið hefur í ljós þá eru þjóðir heimsins tilbúnar að beita viðskiptþvingunum til að verja hagsmuni sína og koma höggi á andstæðinga sína, eins og Rússar hafa gert gagnvart Vesturlöndum undanfarna mánuði, Íslandi þar á meðal, og Vesturlönd gagnvart Rússum. Allt hefur þetta áhrif á stóru myndina, þó strikin séu misjafnlega stór eftir því hversu djúpstæð og áhrifamikil þau eru. Efnahagslegir árekstrar geta hafa mikil áhrif ekki síður en stríðsátökin sjálf.