Eitt helsta umræðuefni Dana nú um áramótin var sú ákvörðun Hinriks drottningarmanns að draga sig til baka, minnka við sig vinnu. Fara á eftirlaun eins og Margrét Þórhildur Danadrottning orðaði það þegar hún tilkynnti þetta í nýársávarpi sínu að kvöldi gamlársdags.
Margrét Þórhildur hefur iðulega sagt að starf danska þjóðhöfðingjans sé lífstíðarstarf, þar sé ekkert sem heiti eftirlaunaaldur. Sjálf verður drottningin 76 ára í apríl og hefur, eftir nokkra daga, verið þjóðhöfðingi landsins í 44 ár. Henri de Monpeza, sem Danir nefna Henrik en við Íslendingar Hinrik, er sex árum eldri en Margrét Þórhildur, fæddur 11. júní 1934. Þau kynntust í veislu í London árið 1964, Hinrik var þá starfsmaður franska sendiráðsins þar í borg.
Hann hafði tveimur árum fyrr lokið herskyldu sinni og magisterprófi í frönskum bókmenntum og asískum tungumálum. Hinrik hafði mikinn áhuga á listum og það hafði sessunauturinn í fyrrnefndri veislu líka og því enginn skortur á umræðuefni. Hinrik sagði síðar að sér hefði aðeins brugðið þegar sessunauturinn sagðist vera prinsessa og ríkisarfi Danmerkur. Þau hittust svo aftur skömmu síðar, líka í veislu, og „uppúr því hæfði Amor okkur með örvum sínum“ sagði Hinrik síðar í viðtali.
Hann er franskur
Þegar samband ríkisarfans og franska diplómatans spurðist út gerðu dönsku blöðin fréttamenn út af örkinni til að afla upplýsinga og margar greinar og myndir birtust í blöðunum um þennan mann. Danir voru mjög forvitnir. Ekki verður með sanni sagt að allir hafi orðið yfir sig hrifnir af mannsefninu og það tók dönsku þjóðina reyndar mörg ár að taka Hinrik í sátt. Þótt hann sé mikill tungumálamaður og tali meðal annars bæði kínversku og víetnömsku var hann mjög lengi að ná tökum á dönskunni og talar enn í dag með greinilegum frönskum hreim. Hann hefur síðar sagt að hann hefði átt að leggja meiri áherslu á dönskuna í upphafi. Svo er hann Frakki, sögðu sumir, örugglega snobb, vill helst ost og rauðvín og svo á hann það til að ganga í rauðum buxum.
Þau Margrét Þórhildur og Hinrik voru gefin saman í Hólmsins kirkju í Kaupmannahöfn 10. júní 1967. Hinrik sem var eftir það kallaður prins sagði í viðtölum að sér væri mjög vel ljóst hlutskipti sitt sem maka ríkisarfans og hann sætti sig fyllilega við að ganga alltaf tveimur skrefum á eftir henni, eins og hann orðaði það. Þau Margrét Þórhildur og Hinrik eignuðust á næstu tveimur árum eftir að þau gengu í hjónaband tvo syni, krónprinsinn Friðrik 1968 og Jóakim 1969.
Margrét Þórhildur varð þjóðhöfðingi Dana 14. janúar 1972, en faðir hennar Friðrik IX lést kvöldið áður. Þessi breyting varð til þess að þau hjónin höfðu í mörg horn að líta og Hinrik hefur síðar sagt að hann sakni þess að hafa ekki getað varið meiri tíma med drengjunum meðan þeir voru að vaxa úr grasi. Það reynir hann nú að bæta upp með barnabörnunum og segir að sér líki afahlutverkið vel, synirnir eiga fjögur börn hvor.
Prinsgemal - drottingarmaður
Eftir að barnabörnin komu til sögunnar var prinsa- og prinsessukraðakið á Amalienborg orðið svo mikið að ákveðið var að Hinrik prins fengi titilinn prinsgemal, drottningarmaður. Ekstra blaðið sagði frá því fyrir nokkrum árum að drottningarmaðurinn hefði í viðtali við franskt blað lýst óánægju með að vera ekki titlaður kóngur. Hinrik hefur síðan stundum verið spurður um þetta og hefur þá svarað því til að það sé einkennilegur siður (einsog hann kemst að orði) að kona sem gift er þjóðhöfðingja sé drottning en maður sem giftur er þjóðhöfðingja sé ekki kallaður kóngur. Þetta sé ekki jafnrétti.
Vínbóndi
Þrátt fyrir skyldur og kvaðir sem fylgja eiginmanni þjóðhöfðinga hefur Hinrik drottningarmaður haft mörg önnur járn í eldinum.
Árið 1974 keyptu drottningin og hann vínbúgarðinn Chateau de Cayx skammt frá æskuheimili Hinriks í Suður- Frakklandi. Þegar hjónin eignuðust búgarðinn þótti vínið frá Cayx ekkert til að hrópa húrra fyrir en Hinrik setti sér það markmið að framleiða gæðavín og á síðustu árum hefur það unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga. Drottningin hefur ekki komið nálægt framleiðslunni en iðulega dvalið þar á sumrin. Á síðasta ári ákvað Hinrik að láta þrúguræktina og framleiðsluna í annarra hendur en þau hjónin eiga áfram búgarðinn. Vínið frá Cayx mun eftir sem áður vera auðkennt með kórónu og á flöskumiðana letrað „vin du prince de Danemark.“
Hinrik hefur allt frá æsku fengist við ljóðagerð og sent frá sér átta ljóðabækur, sumar þeirra hefur hann sjálfur myndskreytt og einnig notið aðstoðar drottningar, sem er afkastamikill myndlistarmaður.
Árum saman sótti hann tíma í höggmyndagerð á Konunglega listaháskólanum og eftir hann er til fjöldinn allur af bronsverkum. Í hitteðfyrra efndi AROS listasafnið í Árósum til stórrar sýningar á verkum drottningar og Hinriks. Sýningin, sem tæplega 300 þúsund manns sáu vakti mikla athygli.
Drottningarmaðurinn er áhugasamur um mat og matargerð, hann hefur, einn og í samvinnu við aðra, skrifað þrjár matreiðslubækur, og margoft komið fram í matargerðarþáttum í sjónvarpi. Þar nýtur kímnigáfa hans sín vel, og öllum sem til þekkja ber saman um að hann sé mikill húmoristi. Ekki má gleyma því í þessari upptalningu að Hinrik er mikill áhugamaður um tónlist og prýðilegur píanóleikari. Hann hefur og samið nokkur tónverk.
Eigin ákvörðun
Þegar Margrét Þórhildur skýrði frá því að eiginmaðurinn færi nú á eftirlaun tók hún fram að þá ákvörðun hefði hann sjálfur tekið og hún virti hana að sjálfsögðu. Drottningin sagði jafnframt að Hinrik yrði sér áfram sú ómetanlega stoð og stytta sem hann hefði verið í áratugi og tæki áfram þátt í mörgum opinberum athöfnum og heimsóknum. Hann væri semsé að minnka við sig en ekki að hætta.
Kom á óvart
Tilkynning drottningar vakti mikla athygli og hennar getið í fjölmiðlum víða um heim. Dönsku blöðin fjölluðu ítarlega um þessa ákvörðun Hinriks og sérfræðingar og áhugafólk um fjölskylduna á Amalienborg hafa rætt málið í útvarpi. Allir virðast sammála um að ákvörðun Hinriks sé skiljanleg, maðurinn sé jú orðinn nokkuð við aldur. Lögin um eftirlaunaaldur (67 ár) gildi ekki um kóngafólkið og því verði það sjálft að meta og ákveða hvenær tími sé til kominn að hægja á. Mikla athygli vakti að Hinrik tók ekki þátt í opinberum hátíðahöldum vegna 75 ára afmælis Margrétar Þórhildar í apríl síðastliðnum, hún tilkynnti að hann hefði fengið slæma inflúensu. Nokkrum dögum síðar sást hann hinsvegar í Feneyjum og danska Ekstra blaðið gat þess sérstaklega að hann hefði þar spígsporað í rauðum buxum.
Enginn er spámaður í sínu föðurlandi segir máltækið. Þetta á að nokkru leyti við Frakkann Henri de Monpeza sem gerði Danmörku að sínu föðurlandi. Danir voru lengi að taka hann í sátt, það tók þá áratugi að sætta sig við að drottningarmaðurinn er ekki Dani, hann er á margan hátt öðruvísi en makar margra annarra þjóðhöfðinga. Iðulega hefur verið gert grín að hinum franska hreimi sem einkennir framburð Hinriks. Einn viðmælenda dagblaðsins Politiken sagði að Danir ættu kannski að líta sér nær í þeim efnum, þeir væru nú ekki slíkir tungumálasnillingar. Og bætti svo við að það þyrfti að minnsta kosti ekki að texta það sem Hinrik segði í sjónvarpi, það væri meira en hægt væri að segja um marga danska leikara, jafnvel í vinsælum sjónvarpsþáttum.