Margt bendir til þess að fjöldi forsetaframbjóðenda í ár verði sá mesti í sögunni. Nú þegar hafa yfir tíu manns ýmist gefið formlega kost á sér, viðrað möguleikann eða sagst „ekki útiloka framboð.” Ef fram fer sem horfir gæti næsti forseti verið kjörinn með ansi fáum atkvæðum, jafnvel 10 prósenta fylgi, þó það teljist ólíklegt, eins og Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur hefur bent á.
Ekki fyrsta tillagan
Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, viðrar möguleikann á breyttu fyrirkomulagi næstu forsetakosninga í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar leggur hann til að forseti nái einungis kjöri með meirihluta greiddra atkvæða í ljósi þess að margt bendi til þess að frambjóðendur í ár verði fleiri en nokkru sinni áður. Ef enginn nær meirihluta atkvæða, skuli kosið aftur á milli þeirra tveggja sem ná flestum atkvæðum.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis og þingmaður Samfylkingar og Þjóðvaka, lagði fram slíkt frumvarp árið 1995, í aðdraganda forsetakosninganna þegar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var kjörinn.
Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Forseti Íslands er eini þjóðkjörni embættismaður ríkisins. Þess er krafist að forsetinn sæki umboð sitt til allra kosningabærra manna í landinu. Það er því óeðlilegt að forsetinn geti náð kjöri með stuðningi lítils hluta þjóðarinnar.”
Það sama gerðu þingmenn Bjartrar framtíðar í október síðastliðnum.
Er þetta raunhæft?
Málið er mun flóknara en svo að Alþingi geti samþykkt breytingu á lögum til að fyrirkomulagið breytist á þessu ári, fyrir næstu kosningar, sem samkvæmt stjórnarskrá eiga að fara fram 25. júní næstkomandi. Fyrirkomulag um forsetakosningar er nefnilega bundið í stjórnarskrá og henni breytum við ekki svo glatt.
En eins og Baldur bendir á í grein sinni, er þetta möguleiki, þó að hann sé lítill.
Núverandi kosningafyrirkomulag byggir á ákvæðum stjórnarskrárinnar og verður því ekki breytt nema með breytingu á henni. Henni verður hins vegar ekki breytt nema með samþykki tveggja þinga og þingrofi og nýjum þingkosningum þar á milli. En árið 2013 var samþykkt bráðabirgðaákvæði sem opnar á að fram til 30. apríl 2017 megi breyta henni án þessa tilstands.
Hvað þyrfti að gera?
Alþingi yrði að hefjast handa um leið og það kemur saman á ný, nú 19. janúar. Ákvæði um forsetakosningar í stjórnarskrá yrði þá breytt á þann hátt að kjörinn forseti þarf að fá meirihluta atkvæða í kosningu. Nái enginn meirihluta, skal kjósa á ný á milli tveggja frambjóðenda sem hlutu flest atkvæði. Þetta verður að gerast fyrir 24. eða 25. janúar og vera samþykkt með tveimur þriðja hluta atkvæða.
Sex mánuðum síðar, 23. eða 24. júlí næstkomandi, þarf að bera breytinguna undir þjóðina. Nauðsynlegt er að hún sé samþykkt með 40 prósentum atkvæða til að hún taki gildi. Breytingarnar á stjórnarskránni þurfa að hafa verið samþykktar frá Alþingi í sex mánuði áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram.
Á vormánuðum þyrfti Alþingi svo að breyta lögum um tímasetningu forsetakosninga svo kosningar fari ekki fram síðasta laugardag í júní, heldur í lok júlí.
Ef kjósa þarf á milli tveggja efstu frambjóðanda, myndu handhafar forsetavalds, sem eru forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar, fara með forsetavaldið frá 1. ágúst þar til kosningu er lokið, tveimur til þremur vikum seinna, en samkvæmt stjórnarskrá lýkur kjörtímabili forseta 31. júlí. Nýr forseti sem kjörinn yrði með meirihluta atkvæða tæki þá við þegar seinni kosningu er lokið.
Samkvæmt þessu fær Alþingi einungis nokkra daga til að fjalla um breytingar á stjórnarskrá til að halda sig innan tímarammans. Til að setja það í samhengi hefur stjórnarskrárnefndin tll að mynda fundað oftar en hægt er að festa tölu á, án þess að nokkrar breytingar hafi náð í gegn. Síðast var það núna um jólin, en stjórnarflokkarnir settu sig upp á móti breytingunum. Það verður því að teljast ólíklegt að þetta verði að veruleika fyrir forsetakosningarnar 2016, þó það sé möguleiki.
Björg Thorarinsen stjórnsýslufræðingur sagði í samtali við RÚV seinnipartinn í dag að tillögur Baldurs væru óraunhæfar. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagði þær sennilega tæknilega mögulegar, en taldi ólíklegt að það væri pólitískur vilji til að hrinda þeim í framkvæmd.