Forsetakosningar hafa verið fátíðar á lýðveldistímanum vegna þeirrar hefðarreglu að enginn taki slaginn gegn sitjandi forseta. Þetta hefur þó verið að breytast á seinustu árum samfara breyttu almenningsáliti á stöðu forsetans. Í sumar verða haldnar fyrstu forsetakosningarnar í 20 ár þar sem sitjandi forseti er ekki í framboði.
1944 – Klaufalegt upphaf
Fyrstu forsetakosningarnar voru haldnar þann 17. Júní árið 1944 á Þingvöllum, á sjálfum lýðveldisdeginum. Forseti var þó ekki kosinn af þjóðinni heldur af alþingismönnum og ólíkt þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskránna og sambandsslitunum við Dani þá var kosningin um forsetann alls ekki einróma.
Ákveðið var að forsetakjörið skyldi fara fram á sama hátt og kosning forseta sameinaðs alþingis. Sveinn Björnsson hafði verið ríkisstjóri Íslands síðan 1941 og þótti langlíklegastur til að vera kjörinn forseti en hann átti þó marga óvildarmenn á þingi. Á þessum tíma hafði utanþingsstjórn sem Sveinn skipaði setið við völd í u.þ.b. 18 mánuði vegna þess að leiðtogar íslensku stjórnmálaflokkanna gátu ekki myndað starfhæfa ríkisstjórn. Framboð hans var þó stutt af þingmönnum Framsóknarflokks og Alþýðuflokks og var hann kjörinn með 30 atkvæðum af 52.
Sjálfstæðismenn og Sósíalistar höfðu aftur á móti engan frambjóðanda sem þeir gátu komið sér saman um og því gengu þeir volgir til atkvæðagreiðslunnar. Jón Sigurðsson skrifstofustjóri alþingis til 40 ára (1921-1956) fékk 5 atkvæði til forseta Íslands. Hann var fyrst og fremst þekktur sem fræðimaður í íslenskum fræðum og þýðandi og hafði m.a. þýtt verk norska rithöfundarins Knut Hamsun af stakri snilld. 15 þingmenn ákváðu aftur á móti að skila auðu í fyrstu forsetakosningum Íslandssögunnar og 2 voru fjarverandi vegna veikinda. Því var Sveinn Björnsson kosinn forseti Íslands með sléttum 60% atkvæða á meðan ný stjórnarskrá og afnám sambandslaganna voru samþykkt með um 99% atkvæða. Þótti þetta viss hneisa. Sveinn fór aftur í framboð til forseta Íslands ári seinna og svo árið 1949 og var þá sjálfkjörinn án mótframboðs. Þar má segja að skapast hafi visst fordæmi í íslenskri stjórnmálasögu, eins konar hefðarregla um að sitjandi forseti fengi ekki mótframboð.
1952 – Forsetakosning í skotgröfunum
Sveinn Björnsson lést í embætti snemma árs árið 1952 og þar sem Íslendingar hafa ekki varaforseta var blásið til forsetakosninga þá um sumarið. Mörg fyrirmenni voru strax orðuð við embættið, bæði pólitísk og ópólitísk. Má þar helst nefna Halldór Kiljan Laxness, Jónas frá Hriflu, Thor Thors, Steingrím Steinþórsson, Jón Pálmason og Sigurð Nordal. Flest var þetta þó úr lausu lofti gripið. Í framboði voru loks Ásgeir Ásgeirsson, séra Bjarni Jónsson og Gísli Sveinsson. Ásgeir og Gísli áttu báðir langan þingferil að baki. Ásgeir hafði setið sem forsætis og fjármálaráðherra á fjórða áratugnum fyrir Framsóknarflokkinn en hafði síðan um langt skeið verið þingmaður Alþýðuflokksins í Vestur-Ísafjarðarsýslu.
Gísli hafði setið fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vestur-Skaftafellssýslu og m.a. verið forseti sameinaðs alþingis um stund. Séra Bjarni var uppalinn Reykvíkingur sem hafði t.a.m. verið dómkirkjuprestur og síðar vígslubiskup í Skálholti frá árinu 1937. Ásgeir var töluvert yngri en Gísli og séra Bjarni sem báðir voru komnir á áttræðisaldur. Kosningarnar árið 1952 eru alræmdar fyrir það hversu harðvítugar og flokkspólitískar þær voru og blöðin hreinlega loguðu í áróðri. Menn voru vændir um lygar, lágkúru og stjórnmálalegt pot. Jafnvel var talað um að ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna segði af sér ef þeirra frambjóðandi yrði undir í kosningunni. Vinstrimenn og þá sérstaklega Alþýðuflokksmenn fylktu sér bakvið Ásgeir en Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn studdu séra Bjarna.
Það fór svo að Ásgeir vann sigur með 48,3% atkvæða en séra Bjarni hlaut 45,5%. Ásgeir hafði mest fylgi á höfuðborgarsvæðinu og svo Vestfjörðum en Bjarni hafði meira fylgi á landsbyggðinni. Gísli fékk einungis 6,2% og þar af langmest úr Skaftafellssýslum. Það verður þó að teljast líklegt að Gísli hafi “eyðilaggt” kosningarnar fyrir flokksfélögum sínum og að þorri kjósenda hans hefði að öðrum kosti kosið séra Bjarna og þar með tryggt honum sigurinn. Mögulega hefur honum þó þótt það mátulegt á þá fyrir að styðja sig ekki. Í málgagni Sjálfstæðismanna, Morgunblaðinu stóð m.a. „Allir þjóðhollir Íslendingar kjósa séra Bjarna Jónsson.” En þó að mikill styr hafi staðið um kjör Ásgeirs Ásgeirssonar í þessum fyrstu lýðræðislegu forsetakosningum Íslands þá var hefðinni haldið áfram og hann endurkjörinn án mótframboðs í þrígang, árin 1956, 1960 og 1964. Hann gaf ekki kost á sér árið 1968 og lést svo fjórum árum síðar.
1968 – Heiðursmannakosning
Kosningarnar árið 1968 voru að miklu leyti algjör andstaða við kosningarnar 16 árum áður. Frambjóðendurnir voru einungis tveir. Annars vegar Gunnar Thoroddsen sem átti langan feril í stjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann hafði verið borgarstjóri, fjármálaráðherra og loks sendiherra í Danmörku. Hann hafði einnig sérstök tengsl við forsetaembættið þar sem Ásgeir Ásgeirsson fráfarandi forseti var tengdafaðir hans. Hins vegar Kristján Eldjárn, fornleifafræðingur og þjóðminjavörður, sem engin afskipti hafði haft af stjórnmálum en var vinsæll vegna fræðiþátta sem hann stýrði í Ríkissjónvarpinu. Kosningabaráttan var lágstemmd og virðuleg og reynt að halda henni utan hins pólitíska þras. Dagblöðin tóku ekki einarða afstöðu með eða á móti frambjóðendunum eins og 1952. Engu að síður virtust flokkspólitískar deilur krauma undir niðri og reynt var að spyrða Kristjáni við vinstri flokkana.
Nú var almenningsálitið á þá veru að forsetaembættið ætti að vera hafið yfir stjórnmál. Forseti ætti að vera landsfaðir (eða móðir) sem tæki á engan hátt þátt í stjórnmálum og væri í raun forsvari allra landsmanna. Ekki tókst að klína neinu á Kristján í kosningabaráttunni og hann vann yfirburðasigur með tæpum 66% atkvæða en Gunnar hlaut rúm 34%. Þessi yfirburðasigur kom fólki töluvert á óvart því að þótt Gunnar ætti langan feril í pólitík að baki þá þótti hann landsföðurslegur og átti stuðningsmenn úr röðum annarra flokka. Gunnar fékk mestan stuðning í Reykjavík þar sem hann var fæddur og uppalinn og hafði verið borgarstjóri í 13 ár. Kristján, sem ættaður var úr Svarfaðardalnum, fékk aftur á móti mestan stuðning á landsbyggðinni þó hvergi færi fylgi hans undir 60%, ekki einu sinni í Reykjavík. Líkt og forverar sínir var Kristján endurkjörinn án mótframboðs árin 1972 og 1976.
1980 – Kosningar í heimsfréttunum
Kristján Eldjárn gaf ekki kost á sér árið 1980 og því ljóst að forsetakosningar yrðu haldnar það árið. Sennilega hefði það þó alltaf verið óumflýjanlegt því að Albert Guðmundsson var byrjaður að skipuleggja framboð áður en Kristján tilkynnti ákvörðun sína. Albert var á þessum tíma bæði alþingismaður og borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hafði áður verið atvinnumaður í knattspyrnu víða um Evrópu. Hann átti þó stuðningsmenn úr öllum flokkum, m.a. vegna starfs síns innan íþróttahreyfingarinnar, í viðskiptalífinu og í borgarstjórnarmálunum. Þrír aðrir frambjóðendur gáfu kost á sér. Guðlaugur Þorvaldsson þáverandi ríkissáttasemjari og áður rektor Háskóla Íslands.
Pétur J. Thorsteinsson lögfræðingur sem hafði lengst af starfað í utanríkisþjónustunni um víða veröld og verið sendiherra. Loks Vigdís Finnbogadóttir leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur og frönskufræðingur. Vigdís fékk mestu athyglina, ekki einungis vegna þess að hún var fyrsti kvenforsetaframbjóðandinn á Íslandi. Heldur einnig vegna þess að hún gat orðið fyrsti þjóðkjörni kvenforseti heimsins. Kosningabaráttan var ekki öll á ljúfu nótunum og beindust spjótin einna helst að Vigdísi. Það var t.d. gagnrýnt að hún væri einhleyp og að hún hefði tekið þátt í mótmælum gegn varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.
Hægrimönnum, mörgum hverjum, þótti hún helst til mikið til vinstri þó að hún hefði ekki tekið virkan þátt í stjórnmálastarfi á ferli sínum heldur eingöngu sinnt menningu, listum og kennslu. Kosningarnar sjálfar urðu mjög spennandi og mjótt var á mununum milli Vigdísar og Guðlaugs. Vigdís var kjörin með einungis þriðjungsfylgi (tæp 34%) en Guðlaugur hlaut rúm 32%. Albert fékk ekki nema tæplega 20% og Pétur rúm 14%. Þrátt fyrir allt voru ekki nema tæplega 20% munur milli efsta og neðsta frambjóðanda. Vigdís hafði mest fylgi á landsbyggðinni, þá sérstaklega Austurlandi. Guðlaugur hafði aftur á móti mest fylgi allra á Reykjanesi og Norðurlandi eystra. Vigdís var endurkjörin án mótframboðs í tvígang, árið 1984 og 1992. En árið 1988 er merkilegt fyrir þær sakir að í fyrsta skipti kom fram mótframboð gegn sitjandi forseta.
Sigrún Þorsteinsdóttir húsmóðir úr Vestmannaeyjum bauð sig fram til þess að „virkja forsetaembættið”, þ.e. nýta valdsheimildir stjórnarskrárinnar enn fremur. Það er skemmst frá því að segja að framboðið sjálft var algerlega misheppnað. Kosningaþátttaka var lítil og Sigrún fékk einungis um 5% fylgi. Fólk var almennt hneykslað á „ósvífni” Sigrúnar og kostnaðinum sem fylgdi þessari vonlausu baráttu hennar. Engu að síður voru þetta tímamót, hefðarreglan hafði verið brotin.
1996-2012 – Breyttir tímar Ólafs
Árið 1996 var ljóst að Vigdís Finnbogadóttir myndi ekki gefa áfram kost á sér og því voru haldnar kosningar. Fimm frambjóðendur stigu fram á völlinn en einn af þeim, Guðrún Pétursdóttir dósent við Háskóla Íslands dró framboð sitt til baka skömmu fyrir kosningar. Fyrirferðamesta nafnið á kjörseðlinum var Ólafur Ragnar Grímsson. Hann hafði komið víða við í pólitík á tæplega 30 ára ferli sínum í ýmsum flokkum og meðal annars setið sem fjármálaráðherra fyrir Alþýðubandalagið um skeið. Hann hafði því breitt pólitískt fylgi. Hann var þó ekki sá eini sem kom úr heimi stjórnmálanna því að Guðrún Agnarsdóttir hafði setið sem alþingismaður fyrir Kvennalistann.
Fulltrúi hægrimanna var Pétur Kr. Hafstein, hæstaréttardómari og fyrrum sýslumaður, en hafði þó haft lítil bein afskipti af stjórnmálum. Þessir þrír frambjóðendur háðu jafna og nokkuð spennandi baráttu sem lauk með því að Ólafur fékk rúmlega 41% fylgi, Pétur tæp 30% og Guðrún rúm 26%.
Boðflennan í partíinu var svo Ástþór Magnússon sem fékk undir þrjú prósent fylgi en framboð hans fékk þó þeim mun meiri athygli. Ástþór, sem kom úr viðskiptalífinu, hafði komið á fót mannúðarsamtökunum Friði 2000 og hugðist nota forsetaembættið til að vekja athygli á þeim málstað. Ólafur var sjálfkrafa endurkjörinn árið 2000 eftir að Ástþóri mistókst að tryggja sér nægilegan fjölda meðmælenda.
Eftir 8 ára setu virtist því ferill Ólafs ætla að fara í sama far og forvera hans, þ.e. að halda forsetaembættinu utan stjórnmálanna. En árið 2004 kastaði hann sprengju með synjun fjölmiðlalaganna svokölluðu. Það var algerlega óheyrt að forseti beitti stjórnarskrárlegum heimildildum sínum á þennan hátt og þetta kom einmitt upp á kosningaári. Ólafur hafði skyndilega eignast mikinn fjölda óvina innan ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
En þeir gátu þó ekki komið sér saman um frambjóðanda gegn Ólafi. Þó steig hinn tiltölulega óþekkti Baldur Ágústsson fram tilkynnti að hann ætlaði að “endurheimta virðingu forsetaembættisins” Ólafur var endurkjörinn með tveimur þriðju greiddra atkvæða en Baldur hlaut þó tæplega 10%. Andstæðingar Ólafs kusu frekar að láta óánægju sína í ljós með því að skila auðu, rúmlega 20% talsins. Ástþór var aftur með en nú náði hann ekki tvö prósent markinu. Ólafur var endurkjörinn án mótframboðs árið 2008.
Eftir að Ólafur hafði synjað fleiri lögum staðfestingar í tíð vinstri stjórnarinnar á árunum eftir hrun var ljóst að forsetaembættið var orðið gjörbreytt og rammpólitískt. Nú hafði hann þó skipt um aðdáendahóp og vinstrimenn þeir sem höfðu mest horn í síðu hans. Í forsetakosningunum árið 2012 kom því langharðasta atlaga að sitjandi forseta frá upphafi. Í skoðanakönnunum fyrir kosningarnar hafði Þóra Arnórsdóttir, fjölmiðlakona, töluvert forskot á forsetann. En það fylgi dalaði er nær dró og Ólafur vann endurkjörið með tæpum 53% greiddra atkvæða en Þóra hlaut rúmlega 33%. Kosningaþáttaka var þó dræm eins og í mörgum öðrum kosningum á síðastliðnum árum. Fjórir aðrir frambjóðendur stigu fram árið 2012 og af þeim náði Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur langmestu fylgi eða tæplega 9%. Herdís Þorgeirsdóttir lögfræðingur, Andrea J. Ólafsdóttir áður formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og Hannes Bjarnason landfræðingur náðu samanlagt um 5 prósent. Framboð Ástþórs var dæmt ógilt vegna formlegra vankanta.
2016?
Forsetakosningar á Íslandi eru sjaldgæfur hlutur. Einungis sjö sinnum hefur þjóðin fengið að velja sér forseta og einungis í fimm skipti hefur kosningin verið spennandi. Það sem hefur einkennt íslenska forsetaembættið eru hinar löngu setur.
Sveinn Björnsson sat skemmst á forsetastóli en samt í u.þ.b. tvö kjörtímabil. Kristján sat í þrjú kjörtímabil, Ásgeir og Vigdís í fjögur og Ólafur í fimm. Vegna þess hversu langt er á milli kosninganna, hversu einstaklingsbundnar þær eru og að þær liggja ekki í hinum hefðbundnu flokkslínum þá verða þær allar mjög sérstakar. Hið klaufalega kjör Sveins Björnssonar, hin illvíga og rætna kosning Ásgeirs Ásgeirssonar, hin virðulega kosning Kristjáns Eldjárns, hin heimsfræga kosning Vigdísar Finnbogadóttur og svo hinar bitru kosningar Ólafs Ragnars Grímssonar. Allt eru þetta merkilegir kaflar í sögu lýðveldisins Íslands og sýna það að embættið er ennþá í þróun. Það er þó ljóst að reglur og valdsvið forsetans eru ekkert sérstaklega vel hönnuð eða að minnsta kosti ekki fyrir 21. öldina.
Virðing almennings fyrir stofnunum og embættum er minni en hún var
fyrir 70 árum síðan og fólk er farið að líta á forsetaembættið sem verkfæri
frekar en virðingarstöðu. Fjölmargir hafa lýst yfir áhuga á framboði til
forseta 2016 og sumir þegar tilkynnt framboð. Hvernig þeir hyggjast nota valdið
sem þeim yrði falið verður því aðalspurning kosningabaráttunnar og við verðum
að treysta frambjóðendum til að standa við þau loforð. Áttundu
forsetakosningarnar verða vonandi skemmtilegar og spennandi. Við getum búist
við metfjölda frambjóðenda þetta árið.