Hlutfall þeirra sem telja sig trúaða hefur aldrei verið lægra á Íslandi en nú. Í nýrri könnun Siðmenntar, sem Maskína gerði í nóvember, kemur fram að 46 prósent landsmanna telji sig trúaða og þriðjungur segist alveg trúlaus. Yngra fólk er líklegra til að vera trúlaust heldur en það eldra og einungis rúmur þriðjungur þjóðarinnar segist eiga samleið með þjóðkirkjunni.
Lítill munur er á milli kynja varðandi trú, en þriðjungur kvenna telur sig ekki geta svarað hvort þær séu trúaðar eða ekki á meðan hlutfallið er 18 prósent meðal karla.
Þó kemur í ljós að marktækur munur er á svörum eftir lýðfræðilegum breytum, að undanskildum fjölskyldutekjum. Elsti hópurinn er til dæmis mun trúaðri heldur en sá yngri, og sömuleiðis þeir sem hafa lokið grunnskólaprófi miðað við þá sem hafa lokið háskóla. Þannig er þriðjungur svarenda yngri en 45 ára trúaður, en um 59 prósent þeirra sem eru 45 ára og eldri. Íbúar á Suðurlandi, Reykjanesi og Austurlandi eru líklegri til þess að telja sig trúaða heldur en íbúar annarra landssvæða.
Nær allir framsóknarmenn kristnir
Þegar stjórnmálaskoðanir fólks eru bornar saman við trúarskoðanir kemur í ljós að kjósendur Framsóknarflokksins eru alla jafna trúaðri en kjósendur annarra flokka.
87,1 prósent kjósenda Framsóknarflokksins játa kristna trú þegar þeir eru spurðir hvað lýsi helst trúarafstöðu þeirra, og 82,1 prósent Sjálfstæðismanna. Einungis 48 prósent kjósenda Pírata og 51,8 prósent kjósenda Vinstri grænna. Hlutfall trúleysingja er hæst meðal kjósenda Vinstri grænna, eða 38,2 prósent og Pírata, 37,3 prósent, en fæstir trúleysingjar kjósa Framsóknarflokkinn, eða 8,1 prósent.
Taka skal fram að 13,5 prósent kjósenda Pírata segjast trúa á „annað” og 6,9 prósent kjósenda Samfylkingarinnar trúa á „það góða”.
Yfir helmingur kjósenda Framsóknarflokksins, eða 53 prósent, telur að trú og vísindi fari saman í leit að sannleikanum um lífið og tilveruna og helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Lægst er hlutfallið meðal kjósenda Samfylkingarinnar, en rúm 25 prósent eru sammála staðhæfingunni.
Langflestir hlynntir líknandi dauða
Þátttakendur voru spurðir að lokum hvort þeir væru hlynntir eða andvígir því að „einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi (líknandi dauði).” Niðurstaðan var afgerandi og eru þrír af hverjum fjórum hlynntir aðgerðinni og einungis rúm sjö prósent andvíg.
Þegar aðeins er litið til þeirra sem eru hlynntir eða andvígir, eru rúm 90 prósent hlynnt líknandi dauða. Ekki reyndist vera marktækur munur á milli fylgi flokkanna og hvort fólk væri andvígt eða hlynnt líknandi dauða, en hæst hlutfall hlynntra er meðal kjósenda Pírata, tæp 85 prósent, og hæst hlutfall andvígra er meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins, tæp 13 prósent.
43 prósent kristinna ekki vissir um tilvist Guðs
Þegar fólk var spurt hvaða fullyrðing lýsi best trúarafstöðu þess sögðust meira en tveir af hverjum þremur játa kristna trú en um 23 prósent vera trúlaus. Elsti hópurinn er líklegri til að vera kristinn en sá yngsti, sem og íbúar á Austurlandi miðað við íbúa annars staðar á landinu. Þeir sem hafa lokið grunnskólaprófi eru líklegri en þeir sem hafa lokið háskólaprófi til að vera kristnir.
Af þeim sem játa kristna trú er þó einungis 36 prósent sem trúa á Guð, Jesú, upprisuna og eilíft líf. 43 prósent kristinna segjast ekki vissir um tilvist Guðs, en trúa á boðskap kristninnar.
72 prósent svarenda vilja aðskila ríki og kirkju og rúmlega 60 prósent vilja fella þjóðkirkjuákvæðið úr stjórnarskránni en tæpur þriðjungur er andvígur því. Einungis 35 prósent telja sig eiga samleið með þjóðkirkjunni.
Hröð þróun trúleysis þjóðarinnar
Árið 1996 töldu 87 prósent þjóðarinnar sig trúaða, en eins og áður segir er hlutfallið nú komið niður í 46 prósent. Hlutfall trúlausra tók stökk á tímabilinu 2011 til 2015, þegar hlutfallið jókst úr 10 prósentum í 30 prósent. Árið 2005 töldu einungis sex prósent sig trúlausa.
Tæp 62 prósent svarenda telja að heimurinn hafi orðið til við Miklahvell, en tæp 18 prósent halda því fram að Guð hafi skapað heiminn.
Maskína lagði 18 spurningar um lífsskoðanir fyrir svarendur og var niðurstöðunum skipt í þrjá flokka. Rannsóknin var gerð fyrir Siðmennt dagana 13. til 25. nóvember 2015 og fór hún fram á netinu í Þjóðargátt Maskínu. Svarendur voru 821 á aldrinum 18 - 75 ára af öllu landinu.
Hér má nálgast könnun Maskínu - Lífsskoðanir Íslendinga