Amfetamín, kókaín, kannabis og metamfetamín eru á meðal þeirra ólöglegu fíkniefna sem finnast í skólpkerfum Reykjavíkur. Þetta staðfesta niðurstöður doktorsrannsóknar Arndísar Sue Ching Löve lyfjafræðings hjá rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði.
„Í fyrsta lagi vildum við vita hvort hægt væri að mæla þessi efni í frárennslinu yfir höfuð,” segir Arndís og bendir á að Íslendingar noti mun meira vatn heldur en aðrar Evrópuþjóðir, eða allt að þrisvar sinnum meira. Auk þess má gera ráð fyrir að hitaveitan minnki stöðugleika efnanna í fráveitunni.
Meira magn af kókaíni og MDMA eftir helgina
Hún safnaði skólpsýnum á sjö daga tímabili síðastliðið sumar, 27. júní til 3. júlí, í skólphreinsistöð Veitna við Klettagarða. Þangað kemur skólp frá um það bil helmingi Reykjavíkur og nágrennis, að miðbænum meðtöldum.
„Við vildum hafa miðbæinn með í mælingunum, þar sem stórum hluta fíkniefnanna er líklega neytt þar á skemmtistöðum” segir hún.
Efnin skila sér út úr líkama neytenda aðallega með þvagi í frárennslisvatnið. Skimað var fyrir amfetamíni, metamfetamíni, kókaíni, MDMA, sem er virka efnið í e-töflum, THC, sem er virka efnið í kannabis, og metýlfenídati, eða ritalini. Öll efnin mældust í skólpinu alla sjö dagana, en meira var af kókaíni og MDMA yfir helgina heldur en virku dagana. Hin efnin voru með jafnari dreifingu og ganga má út frá því að neyslan á þeim sé jafnari. Mest mældist af THC og amfetamíni, en kókaín fylgdi þar á eftir.
Arndís segir vatnsnotkun og frárennsli mjög mismunandi eftir löndum og borgum heimsins, en niðurstöður hennar leiða í ljós að nú er hægt með óyggjandi hætti að mæla fíkniefni í skólpinu hér eins og erlendis.
Með mælingunum er með góðu móti hægt að skoða vikusveiflur í notkun á fíkniefnum. Arndís bendir á að brýn nauðsyn sé á að safna næst sýnum á öðrum árstímum til að sjá muninn og hvort það sé samræmi á milli niðurstaðnanna. Mun meira sé að gerast á sumrin og nefnir þar ferðamenn, útilegur og stórar hátíðir sem dæmi.
Hægt að finna út notkun fíkniefna eftir útihátíðir
Arndís hóf rannsókn sína haustið 2014, í samstarfi við OR og Verkís, og mun halda henni áfram þar til hægt verður að bakreikna styrkinn og yfirfæra niðurstöðurnar á heildarnotkun efnanna. Til þess þarf að taka fleiri sýni og reikna inn breytur eins og fjölda fólks á svæðinu, flæði vatnsins og fleira. Eftir að þær niðurstöður fást er hægt að bera Ísland saman við önnur lönd.
„Með þessari aðferð er hægt að fá niðurstöður á mjög skömmum tíma og þannig hægt að meta sveiflur í notkun sem og aðgengi að efnunum” segir Arndís. „Það er aðalávinningurinn með þessari aðferðarfræði.”
Hún bendir á að áhugavert væri að taka sýni fyrir og eftir stórar skemmtanir eða útihátíðir, eins og Menningarnótt eða Þjóðhátíð í Eyjum. Með því er hægt að sjá með réttum útreikningum, nánast svart á hvítu, hversu miklu magni fíkniefna var neytt á tímabilinu.