Danmörk fáni
Auglýsing

Forstöðumenn og forstjórar danskra ríkisfyrirtækja og stofnana á vegum ríkisins (kirkjur þar meðtaldar) hafa kannski margir hverjir gjóað augum á almanakið í síðustu viku þegar þeir lásu bréf sem borist hafði frá Fjármálaráðuneytinu á Hallarhólmanum í Kaupmannahöfn. Sendingin fannst þeim meira í ætt við 1. apríl gabb en bréfið kom frá ráðuneytinu þegar nokkrir dagar voru liðnir af árinu 2016. 

Fjármálaráðuneytið er reyndar ekki þekkt að gamansemi í bréfaskriftum, þar er alvaran yfirleitt ríkjandi. Einhverjir forstöðumenn voru handvissir um að undirmenn þeirra hefðu soðið bréfið saman, þetta væri saklaus hrekkur svona til að lífga upp á tilveruna svona þegar hversdagurinn væri tekinn við eftir hátíðarnar. Eftir símtöl og tölvupóstsendingar komust þó forstöðumenn og forstjórar að því að starfsmenn þeirra hefðu ekki sent umrætt bréf, það væri komið frá hinu háa fjármálaráðuneyti. Og væri hreint engin grínsending.

Telja og tilkynna

Bréf ráðuneytisins var hvorki langt né flókið. Þar var einfaldlega að finna fyrirmæli um að telja þær fánastangir sem tilheyra viðkomandi stofnun og standa utandyra. Niðurstöður talningarinnar skyldu berast ráðuneyti fjármála eigi síðar en 11. janúar 2016. Ennfremur að verið sé að rannsaka venjur stofnana og fyrirtækja ríksins varðandi notkun þjóðfánans.”

Auglýsing

Á fánadögum á að flagga

Danski þjóðfáninn er talinn hinn elsti í heiminum og Danir ákaflega stoltir af honum.

Svokallaðir fánadagar eru sautján talsins í Danmörku. Þá er til þess ætlast að danski þjóðfáninn blakti við hún á byggingum ríkisins og sveitarfélögin hafa einnig fylgt þeim sið, að minnsta kosti flest. Annars eru reglur um fánann, og notkun hans fáar og einfaldar. Hann á að vera af tiltekinni stærð (sem miðast við lengd flaggstangar), hlutföllin í fánanum ætíð hin sömu (28:37) og rauði liturinn miðast við litaflokkinn pantone 186C. Fáninn á að vera úr polyester efni, og efnismagnið 130- 175 grömm á fermetra. Fáninn á aldrei að snerta jörðu, hann má hanga uppi frá sólarupprás til sólarlags en þó lengur ef ljósi er varpað á hann, t.d. frá kastara.

Almennir borgarar, og fyrirtæki, mega flagga þegar þeim sýnist, svo fremi að áðurnefnum reglum sé fylgt. Oft er sagt um Dani að þeir séu mikil fánaþjóð og víst er um það að mjög víða má ætíð sjá Dannebrog, eins og hann heitir, blakta við hún. Danskir sumarhúsaeigendur eru duglegir að flagga og sömu sögu er að segja af eigendum smáhýsa í garðlöndum (kolonihaver) þar þykir sjálfsagt að draga fána að hún um leið og eigendur koma á staðinn. Á afmælum þarf skilyrðislaust að flagga og þá ofast líka settir fánar við útidyr eða garðhlið til að vísa gestum veginn.  Engar reglur gilda um flaggstangir, eitt dönsku blaðanna nefndi þann möguleika að danska stjórnin ætlaði sér að skipta út öllum flaggstöngum ríkisins „á einu bretti ”. Benti jafnframt á að slíkt væri hæpið því fánastangir í eigu hins opinbera væru margskonar og lengd, staðsetning o.fl. helgaðist af aðstæðum, sem væru mjög mismunandi. Einskonar „fánastangastaðall” væri útilokaður.

Tilgangur stangatalningar

Eins og áður var getið voru upplýsingar fjármálaráðuneytisins um tilgang flaggstangatalningarinnar mjög takmarkaðar. Dönsku fjölmiðlarnir hafa, síðan af málinu fréttist, ítrekað reynt að fá upplýst  hjá ráðuneytinu hvaða tilgangi talning á þessum tilteknu eigum ríkisins þjóni. Engin svör hafa fengist umfram það sem í bréfinu stendur. 

Blaðamaður Berlingske lét sér detta í hug að kannski vildi fjármálaráðuneytið vita hvar danska ríkið stæði í samanburði við önnur ríki að þessu leyti. Hann hringdi út og suður til fjölmargra fjármálaráðuneyta víða um lönd. Engar upplýsingar um flaggstangaeign einstakra ríkja gat hann grafið upp, slíkar upplýsingar væru einfaldlega ekki til fékk hann að vita. Samanburður við önnur ríki gat því ekki verið skýringin ályktaði blaðamaður Berlingske. Í laugardagsútgáfu blaðsins (16. janúar) birtist viðtal við yfirmann fjölmiðladeildar Fjármálaráðuneytisins. Þrátt fyrir margendurteknar spurningar fengust þar engin svör önnur en að talningarfyrirskipunin hefði tilgang og jafnframt að sér hefði verið harðbannað að segja meira um þetta mál. 

Blaðamanninum hjá Berlingske datt þá í hug að kannski hefði borist fyrirspurn frá einhverjum stjórnmálaflokkanna, sem spyrja um allt mögulegt, og jafnvel ómögulegt. Af flokkunum þótti blaðamanninum Danski Þjóðarflokkurinn líklegastur en einn þingmaður hans minntist fyrir skömmu á það í viðtali að engin þjóð í heiminum væri jafn dugleg að flagga þjóðfánanum og Danir. Blaðafulltrúi flokksins svaraði strax að þetta væri ekki frá þeim komið en „okkur hefði alveg getað dottið þetta í hug”. Fulltrúar annarra flokka neituðu sömuleiðis allir að tengjast flaggstangatalningu. Einhverjir bentu á að einkennilegt væri að skipunin um talningu kæmi frá fjármálaráðuneytinu, það sem viðkæmi þjóðfánanum heyrði undir ráðuneyti dómsmála.

 

Tilgátur um tilgang

Eftir að fréttirnar um talningarfyrirskipunina birtust í fjölmiðlum óskaði Berlingske eftir tilgátum lesenda um tilgang talningarinnar. Fjölmargar tilgátur bárust.

Einn lesandi sagði að nú, loksins, ætlaði ríkið að gera gangskör að því að endurnýja fánakost ríkisins. Enda ekki vanþörf á þar sem víða mætti sjá trosnaða og jafnvel upplitaða fána hanga við hún. Ríkið ætlaði örugglega að efna til allsherjar fánaútboðs og því nauðsynlegt að vita hve marga fána þyrfti að kaupa. Þessi lesandi kvaðst jafnframt hlakka til þess að sjá nýja og skarprauða fána prýða flaggstangir hins opinbera.

Annar lesandi taldi að ríkið ætlaði að útvega öllum stofnunum ríkisins fána Evrópusambandsins til þess að flagga með á sérstökum ESB dögum.

Einn sem skrifaði benti á að þarna væri ríkið einfaldlega að meta kostnað. Ekkert mál er að draga fánann upp að morgni, til dæmis klukkan átta þegar vinnudagurinn byrjar, en ef hann á að hanga uppi til sólarlags kostar það aukavinnu, flestir fara jú heim klukkan fjögur eða fimm. „Það er nauðsynlegt að vita hvað hlutirnir kosta” sagði þessi lesandi.

Einn sem sendi Berlingske tilgátu sagði að samkvæmt fjárlögum ættu allar stofnanir að skera niður kostnað. „Kostnaður er margskonar” sagði lesandinn, „það er mjög sýnileg ákvörðun að fækka flaggstöngum, og um leið fánum, og er klárlega sparnaður” sagði þessi lesandi. Hann benti líka að það yrði mjög táknrænt að stytta allar fánastangir ríkisins um tvö prósent, til samræmis við stefnu stjórnarinnar um niðurskurð.

Einn bréfritari taldi að Fjármálaráðuneytið hefði gert út mannskap til að telja fánastangir tuga ríkisstofnana. Sú talning yrði borin saman við þær tölur sem stofnunin gæfi upp og þannig væri talningin í raun áreiðanleikapróf. „Hver treystir upplýsingum frá stofnun sem getur ekki einu sinni talið fánastangirnar á lóðinni eða húsinu?”

Tilgáta eins lesanda var að þeir hjá Fjármálaráðuneytinu hefðu ákveðið að vera tímanlega með 1. apríl gabbið í ár en svo hefði einn starfsmaður óviljandi ýtt á „senda” hnappinn á lyklaborðinu og þá varð ekki aftur snúið. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Fátækleg umfjöllun – Stefna Flokks fólksins í umhverfismálum
Kjarninn 20. september 2021
Meiri líkur en minni á því að hægt verði að mynda miðjustjórn sem teygir sig til vinstri
Þrjár gerðir fjögurra flokka stjórna sem innihalda miðju- og vinstriflokka mælast með meiri líkur á að geta orðið til en sitjandi ríkisstjórn hefur á því að sitja áfram.
Kjarninn 20. september 2021
Frá undirritun lífskjarasamningsins í apríl árið 2019.
Forsendur brostnar og örlög lífskjarasamningsins ráðist 30. september
Forsendunefnd ASÍ og SA hefur komist að þeirri niðurstöðu að forsendur lífskjarasamningsins frá 2019 séu brostnar, hvað aðgerðir stjórnvalda varðar. Formaður VR segir að örlög samninganna muni ráðast á fundi samninganefnda ASÍ og SA 30. september.
Kjarninn 20. september 2021
Sonja Ýr Þorbergsdóttir
Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er engin töfralausn
Kjarninn 20. september 2021
Þorvarður Bergmann Kjartansson
Þegar sumir hafa vald yfir öðrum
Kjarninn 20. september 2021
Hildur Gunnarsdóttir
Húsnæðispólitík og arkitektúr
Kjarninn 20. september 2021
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins
Gæti kostað 50-60 milljarða að gera 350 þúsund króna laun skatt- og skerðingalaus
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Ingu Sæland um að færsla á persónuafslætti frá „þeim ríku“ til hinna efnaminni geti fjármagnað 350 þúsund króna skattfrjálsa framfærslu.
Kjarninn 20. september 2021
Segja mikilvægt að undirbúa innviði og regluverk fyrir græna orkuframleiðslu
Íslendingar ættu að nýta þau tækifæri sem felast í orkuskiptum hérlendis og undirbúa innviði og regluverk fyrir samkeppnishæfa framleiðslu á kolefnislausum orkugjöfum, að mati tveggja verkfræðinga hjá EFLU.
Kjarninn 20. september 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None