Er þjóðaröryggi Íslendinga einskis virði?

Undanfarið hefur verið tekist á um stuðning Íslands við viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum. Málflutningur hagsmunaaðila hefur verið hávær og mikið gert úr fjárhagslegu tjóni þeirra. En er þjóðaröryggi Íslands einskis virði?

fánar
Auglýsing

Undanfarnar vikur hefur verið tekist á um þátttöku Íslands í viðskiptaþvingunum vesturveldanna gagnvart Rússum í kjölfar framferðis þeirra í Úkraínu. Mikið hefur borið á mótmælum útvegsmanna vegna afleiðinga þessara aðgerða, viðskiptabanns sem Rússar settu á Íslenskar vörur rúmu ári eftir að viðskiptabannið hófst og meints tjóns af völdum þess.

Hagsmunasamtök sjávarútvegsins hafa staðið sig vel og reynt að gera sem mest úr tjóninu til að knýja á um einhverjar bætur frá ríkinu. Þar er rétt að skoða hvort ekki þurfi að koma til einhverjar aðgerðir til að bæta einstökum byggðum það tjón sem þær kunna að verða fyrir, eins og stjórnvöld hafa þegar ljáð máls á. Það er hins vegar áhyggjuefni hvernig málflutningur sem byggist á miklum rangfærslum hefur náð eyrum stjórnmálamanna, jafnvel þeirra sem ættu að sjá hlutina í stærra samhengi en forystumenn tiltekinna fyrirtækja eða atvinnugreina gera.

Utanríkisráðuneytið hefur gert vel í að svara þessum rangfærslum lið fyrir lið og hefur jafnframt gefið út matsskýrslu þar sem farið er heildrænt yfir hagsmuni Íslands í málinu. Þar eru metnir þeir efnahagslegu þættir sem máli skipta, en einnig þeir utanríkispólitísku þættir sem m.a. varða fullveldi Íslands og utanríkisráðherra hefur réttilega bent á að erfitt sé að meta til fjár – en verða að vera með í dæminu eigi að fást skynsamleg niðurstaða. Þessir þættir varða t.a.m. nauðsynlegar varnir Íslands sem nágranna- og samstarfsríki tryggja. Hið fullvalda ríki Ísland getur ekki verið hlutlaus þiggjandi í þeim efnum, slíkar varnir eru dýrar og munu því ávallt kosta einhverjar efnahagslegar fórnir.

Auglýsing

Takmarkaðir viðskiptahagsmunir orðnir að þjóðarhagsmunum

Varaformaður utanríkismálanefndar alþingis sagði í útvarpsfréttum nýlega að hún teldi rétt að endurskoða stuðning Íslands við viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum. Af máli hennar mátti skilja að ekki hefði gætt nægilegrar forsjálni þegar lagt var að stað og að nú væri staðan sú að þjóðarbúið væri að tapa stórum upphæðum vegna glataðra viðskiptatækifæra. Jafnframt sagði hún nauðsynlegt fyrir „okkur“ að opna hugann og mikilvægt væri að skoða málið í stærra samhengi, þ,á.m. að ekki væri nauðsynlegt fyrir Íslendinga að fylgja eftir aðgerðum á vegum ESB sem við hefðum engum skyldum við að gegna.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur staðið fast í lappirnar gagnvart þrýstingi um að endurskoða stuðning Íslands við viðskiptaþvinganir gegn Rússum.

Þessi ummæli eru í samræmi við málflutning forsvarsmanna sjávarútvegsins undanfarnar vikur og við þau er margt að athuga. Fyrir utan að enduróma beinar rangfærslur úr umræðunni, sem m.a. sendiherra Bandaríkjanna hafði séð sig knúinn til að leiðrétta, er þingmaðurinn og þeir sem hún virðist ganga erinda fyrir að snúa hlutunum á hvolf. Hvernig getur það verið stórt samhengi að skoða málin út frá efnahagslegum forsendum ákveðinna fyrirtækja, en ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar og ríkisins í heild? Það gengur ekki upp nema að látið sé sem utanríkispólitískir hagsmunir séu ekki til, öryggi, fullveldi, virðing fyrir alþjóðalögum og samstaða með bandalagsríkjum séu bara eitthvað táknrænt fyrirbæri eða skrúðmælgi á hátíðastundum.

Gamalgróinn hugsunarháttur

Það er að vissu leyti rétt að ekki hafi verið skoðað nægilega vel hverjar afleiðingar þátttöku Íslands yrðu. En jafnframt má segja að það sjónarmið mótist af því að þar skipti aðeins máli þau verðmæti sem telja megi í seldum tonnum af fiski og engu skipti annars konar verðmæti.

Ástæða þessara viðhorfa gæti verið sú að það eimi enn eftir af þeim aðstæðum sem hér ríktu lengi vel, þegar samasemmerki var milli íslensks sjávarútvegs og efnahagsástandsins á Íslandi. Sjávarútvegurinn var upphaf og endir alls, sannkallað fjöregg þjóðarinnar. Vissulega er sjávarútvegur mikilvæg atvinnugrein og getur verið um talsverð verðmæti að ræða vegna tapaðra markaða á fiskafurðum. Jafnframt getur það raskað atvinnumöguleikum í einstökum greinum eða byggðarlögum.

Utanríkisstefna Íslands getur þó ekki staðið og fallið með því hvernig vinnslu og sölu á tilteknum sjávarafurðum er háttað og þaðan af síður hvort afkoma einstakra sjávarútvegsfyrirtækja fer úr stórgróða í gróða. Séu hlutirnir settir í stærra samhengi er langur vegur frá því að efnahagsmálin standi og falli með sölu á fiski til Rússlands. Staða Íslands, öryggi og fullveldi, getur hins vegar staðið og fallið með markvissri utanríkisstefnu.

Það er skiljanlegt að hagsmunagæslumenn fyrirtækjanna tali með þeim hætti að afleiðingar af tapaðri fisksölu einkafyrirtækja séu þjóðarhagmunir en þegar málsmetandi fólk á borð við varaformann utanríkismálanefndar Alþingis Íslendinga gerir slíkt ­– gengur í raun erinda þessara þröngu sjónarmiða – steðjar raunveruleg hætta að þjóðarhag.

Það er jafnframt umhugsunarefni að kjörinn fulltrúi í slíkri nefnd, sem ætti að vera öllum hnútum kunnugur í utanríkismálum, fari með jafn mikið fleipur um blint fylgilag við ESB þegar ljóst er frá byrjun að viðskiptaþvinganirnar eru að undirlagi Bandaríkjamanna með fulltingi NATO ríkja, þótt ESB sé þarna auðvitað virkur gerandi.

Þau rök sem talsmaður útgerðarinnar tiltekur um að Ísland hafi ávallt staðið í viðskiptum við Rússa (Sovétríkin) án þess það hafi haft áhrif á veru okkar í NATO, eru einnig úr lausu lofti gripin. Bandaríkin, NATO ríki og Sovétmenn hafa alla tíð átt í margskonar viðskiptum hvað sem kalda stríðinu leið og Íslendingar þar með líka. Þá var einfaldlega ekki um neinar viðskiptaþvinganir að ræða og því ekki hægt að bera stöðuna saman á þennan hátt.

Þá var Ísland ómissandi hlekkur í varnarkeðju Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafi. Þegar Íslendingum þótti nóg komið af yfirgangi Breta í landhelgisdeilunum á áttunda áratug síðustu aldar nægði að stappa niður fætinum til að Bandaríkjamenn sussuðu á Breska heimsveldið. Raunveruleikinn er nú annar og Ísland hefur ekki lengur þann frímiða í höndunum sem tryggði aðgang að ókeypis varnarsamstarfi.

Skip íslensku Landhelgisgæslunnar í höfn sumarið 1983.

Það er jafnframt dálítið einkennilegt hvernig andúð á ESB verður til þess að fólk er tilbúið að líta svo á að óvinir ESB séu þar með orðnir vinir þeirra. Einnig eru þeir til sem segja Rússa vera í fullum rétti í Úkraínu og ekkert sem réttlæti afskipti Vesturlanda þar. Því er til að svara að hvaða skoðun sem við höfum á framferði Rússa og Bandaríkjamanna verður að móta afstöðu Íslands í málinu út frá heildrænu hagsmunamati, en ekki persónulegum skoðunum á Pútín, ESB eða Bandaríkjunum.

Rök útgerðarmanna og einnig landbúnaðarráðherra um gagnsleysi viðskiptaþvingana eru einnig vanhugsuð. Þau taka ekki mið af þeirri þróun sem orðið hefur í beitingu slíkra aðgerða. Áður fyrr tíðkaðist að beita viðskiptabanni heilt yfir og skoða lítið einstök áhrif gagnvart tilteknum hópum eins og almennum borgurum. Viðskiptaþvinganir eru aldrei gallalausar en þeim er nú beitt gagnvart Rússum á markvissan hátt, gegn tilteknum aðilum sem tilheyra valdastéttinni í kringum Pútín og reynt er að gæta þess að áhrif verði sem minnst á rússneskan almenning.

Krefjandi verkefni framundan í öryggismálum Íslands

Íslendingar standa frammi fyrir mjög krefjandi aðstæðum í öryggismálum. Grundvallaratriði þar er þátttaka í NATO þar sem frímiðinn er ekki lengur í gildi og hefur á undanförnum árum beinlínis verið lagt að Íslendingum að auka framlagið. Því er ljóst að auka þarf framlag til alþjóðlegs öryggis- og varnarmálasamstarfs, bæði á vettvangi NATO og á grundvelli samstarfs Norðurlanda.

Íslendingar eru almennt mjög upp á önnur ríki komnir hvað varðar að tryggja öryggi sitt og verður það best gert með samstarfi við vestræn ríki. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að Ísland getur gert mun betur. Framlög til öryggis- og varnarmála eru vægast sagt skorin við nögl og langt frá því sem landið getur borið – og langt frá því sem lýst hefur verið yfir á alþjóðavettvangi að stefnt sé að. En það er þó ekkert nýtt að ekki fari saman orð og efndir í þeim efnum, sbr. viðvarandi lág framlög Íslands til þróunarmála.

Hvaða skoðun sem fólk hefur á NATO og Bandaríkjunum er því mikilvægt að líta raunsætt á aðstæður. Hver sem þróunin verður, t.d. að öryggismálasamstarf við Norðurlandaþjóðir verði aukið á kostnað NATO samstarfsins, ríður enn meira á að koma þar fram sem ábyrgur og áreiðanlegur bandamaður. Vel staðsett landsvæði, þekking og trúverðug stefna í anda vestrænna lýðræðissamfélaga er í raun það eina sem Ísland hefur markvert fram að færa í slíku samstarfi. Tækifærismennska í alþjóðasamskiptum gerir slíkt framlag auðveldlega verðlítið.

Ísland sem smáríki þarf skjól bandamanna en það er ekki sama á hvaða forsendum það er og varasamt að reyna að byggja slíkt samband á hagsmununum einum saman, eins og reynslan hefur kennt Íslendingum. Virk aðild að alþjóðasáttmálum og virðing fyrir alþjóðalögum, fullveldi og landamærum er grundvallaratriði fyrir smáríki. Ef Íslendingar vilja geta treyst á þessar stoðir verða þeir að fylkja sér með þeim ríkjum sem vilja standa vörð um þær. Þá dugar ekki hentistefna sem byggir á þröngum stundarhagsmunum einstakra hópa heldur þarf að horfa til langs tíma með hag íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Það er erfitt að ímynda sér að það snjói í Brasilíu en snjókoma er eflaust algengari þar en ætla mætti. Þessi mynd er tekin eftir snjókomu í Brasilíu í ágúst árið 2020
Snjór fellur í Brasilíu
Sumir íbúar í syðsta héraði Brasilíu hafa tekið snjónum fagnandi enda ekki á hverjum degi sem þar snjóar. Bændur gætu aftur á móti átt von á lakari uppskeru og verð á hrávörumörkuðum hefur hækkað í kjölfar kuldakastsins.
Kjarninn 30. júlí 2021
Landspítalinn er á hættustigi vegna kórónuveirufaraldursins.
Sjúklingur á krabbameinsdeild reyndist ekki með COVID
Sjúklingur og starfsmaður á blóð- og krabbameinslækningadeild Landspítalans, sem sagt var frá í gær að hefðu greinst með COVID-19 reyndust ekki smitaðir af kórónuveirunni.
Kjarninn 30. júlí 2021
Óli varð efstur í forvali VG í Norðausturkjördæmi en Bjarkey Olsen í öðru.
Óli Halldórsson hættur við að leiða lista VG í Norðausturkjördæmi
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir mun leiða lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi. Óli Halldórsson færist niður í þriðja sætið en hann stígur til hliðar úr oddvitasætinu vegna veikinda í fjölskyldunni.
Kjarninn 30. júlí 2021
Um 85 prósent Íslendinga sextán ára og eldri eru bólusett
Fjórðungur smitaðra óbólusettur
Að minnsta kosti 255 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með kórónuveiruna hér á landi á þremur vikum. Tæplega 750 smit, um 72 prósent, eru hjá fullbólusettum.
Kjarninn 30. júlí 2021
Þessir frambjóðendur skipa sjö efstu sæti Sósíalistaflokksins í Suðvesturkjördæmi.
María Pétursdóttir og Þór Saari leiða sósíalista í Suðvesturkjördæmi
María hefur starfað innan Sósíalistaflokksins í fjögur ár sem formaður Málefnastjórnar. Raðað er á lista flokksins af hópi flokksfélaga sem hefur verið slembivalinn.
Kjarninn 30. júlí 2021
Ísland og Ísrael örva bólusetta
Á Íslandi og í Ísrael er bólusetningarhlutfall með því hæsta sem fyrirfinnst á jörðu. Bæði löndin sáu smit nær þurrkast út en rísa svo í hæstu hæðir á ný. Og nú hafa þau, sama daginn, ákveðið að gefa þegar bólusettum borgurum örvunarskammt.
Kjarninn 30. júlí 2021
Stóru bankarnir þrír fækkuðu allir í starfsliði sínu á fyrstu sex mánuðum ársins.
Starfsmönnum stóru bankanna fækkaði um rúmlega 80 á fyrri helmingi árs
Í lok júní störfuðu 2.167 manns hjá stóru viðskiptabönkunum þremur, Íslandsbanka, Landsbanka og Arion banka. Samanlagður hagnaður bankanna nam 37 milljörðum á fyrstu 6 mánuðum ársins.
Kjarninn 30. júlí 2021
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBjarni Bragi Kjartansson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None