1 - 35 sýrlenskir kvótaflóttamenn, sex fjölskyldur, komu til landsins í gær eftir dvöl í flóttamannabúðum í Líbanon undanfarin ár. Fjórar fjölskyldur munu setjast að á Akureyri og tvær í Kópavogi. Ein fjölskylda til viðbótar er væntanleg til landsins síðar, en barnshafandi kona í þeirri fjölskyldu reyndist ekki fær um að ferðast til landsins nú. Þrjár fjölskyldur sáu sér ekki fært að koma, en nú vinna íslensk stjórnvöld að því í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (SÞ) að undirbúa komu annarra flóttamanna í þeirra stað.
2 - Ísland hefur tekið á móti 549 kvótaflóttamönnum. Fyrstu flóttamennirnir komu hingað frá Ungverjalandi árið 1956. Alls tóku íslensk stjórnvöld á móti 204 flóttamönnum á tæplega 40 ára tímabili, frá 1956 til 1991. Eftir að Flóttamannaráð (nú Flóttamannanefnd) var sett á laggirnar 1995, hefur Ísland tekið á móti 380 flóttamönnum, á tímabilinu 1996 - 2016.
3 - Íslendingar hafa tekið á móti kvótaflóttamönnum frá 13 löndum: Ungverjalandi, Júgóslavíu, Víetnam, Póllandi, Krajina, Kosovo, Kólumbíu, Írak, Afganistan, Simbabve, Úganda, Kamerún og Sýrlandi.
Meðal íslenskra sveitarfélaga sem tekið hafa á móti flóttafólki eru Ísafjörður, Hornafjörður, Blönduós, Fjarðarbyggð, Dalvík, Siglufjörður, Akureyri, Reykjanesbær, Akranes, Hafnarfjörður, Kópavogur og Reykjavík.
4 - Á Íslandi stendur kvótaflóttamönnum meðal annars til boða fjárhags- og húsnæðisaðstoð, heilbrigðisþjónusta, aðgangur að skólakerfinu, túlkaþjónusta og aðstoð við atvinnuleit. Þeir eru skyldugir að sækja námskeið í íslensku, taka virkan þátt í atvinnuleit og þiggja viðtöl hjá sálfræðingi til að fara yfir reynsluna af búsetu í upprunalandinu og af aðlöguninni í móttökulandinu. Fólkið getur fengið íslenskan ríkisborgararétt eftir að hafa verið búsett hér á landi í fimm ár.
5 - Flóttamaður er sá sem hefur flúið heimaland sitt vegna stríðs, átaka eða ofsókna og hans eigin ríkisstjórn getur ekki eða vill ekki veita honum vernd. Kvótaflóttamenn eru þeir flóttamenn sem Flóttamannastofnun SÞ hefur óskað eftir að þjóðir heims taki á móti vegna stríðsástands í heimalandi þeirra. Hælisleitandi er sá sem sækir um hæli utan síns eigin ríkis og er þar með að biðja um viðurkennda stöðu flóttamanns. Ef stjórnvöld fallast á réttmæti umsóknar fær viðkomandi viðurkennda stöðu sem flóttamaður.
6 - 27 ríki heims taka á móti kvótaflóttamönnum. Af þeim eru 25 þjóðir, meðal annars Ísland, sem hafa gert samkomulag við Flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um að taka á móti fjölda kvótaflóttamanna á hverju ári.
7 - Konur og börn eru sérstaklega viðkvæmur hópur á átaksvæðum og er meirihluti flóttamanna konur og börn í neyð. Flóttamannastofnun SÞ hefur lagt áherslu á að ríki taki á móti kvótaflóttamönnum sem eru konur en þær eru nú um 10 prósent þeirra sem fá endurbúsetu í þriðja landi.
8 - Samkvæmt Velferðarráðuneytinu, og Vísir greindi frá, má gera ráð fyrir að að kostnaður vegna móttöku flóttafólks sé á bilinu 4 til 5 milljónir króna á hvern einstakling.
9 - Rannsóknir á líðan flóttamanna hafa sýnt fram á að eftir að þeir hafa náð að flýja ofbeldi og átök bíði þeirra oft ný vandamál í móttökuríkjum, fordómar, útskúfun, ný hlutverk, menningarárekstrar og erfið samskipti við yfirvöld og samfélög. Að vinna gegn kynþáttafordómum er mjög mikilvægt þegar flóttamannahópar koma til þriðja lands. Ekki hefur verið gerð rannsókn á líðan flóttafólks hér í 10 ár.
10 - 17 prósent þeirra sem svöruðu Þjóðarpúlsi Gallup í september síðastliðnum vildu ekki að tekið yrði á móti neinum kvótaflóttamönnum hingað á næstu tveimur árum.