Meira en helmingur ungs fólks, á aldrinum 18 til 29 ára segjast myndu kjósa Pírata í næstu Alþingiskosningum, eða 54 prósent. 15 prósent aðspurðra í sama aldurshópi segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Fylgi annarra flokka meðal ungs fólks er undir tíu prósentum; Samfylking er með 4 prósenta fylgi, Vinstrihreyfingin - grænt framboð með 9 prósent, Framsóknarflokkur með 6 prósent, Björt framtíð 5 prósent og „annað” með 6 prósent.
Þetta eru niðurstöður könnunnar MMR á fylgi stjórnmálaflokka sem gerð var á tímabilinu 12. til 20. janúar síðastliðinn.
Tekjuhæstu vilja Sjálfstæðisflokk og Pírata
Sjálfstæðisflokkurinn er með mesta fylgið þegar kemur að elsta aldurshópnum, 68 ára og eldri, með 25 prósent. Píratar koma þar á eftir með 21 prósent. Samfylkingin er með 18 prósenta fylgi meðal eldra fólks, VG með 17 prósent, Framsóknarflokkur með 13 prósent, Björt framtíð með 1 prósent og „annað” með 3 prósent.
Þegar litið er til heimilistekna er líklegast að fólk með lægstar tekjur, undir 250 þúsund krónum á mánuði, kjósi Pírata, eða 49 prósent. 18 prósent þessa tekjuhóps segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokk, 7 prósent Samfylkingu, 4 prósent VG, 12 prósent Framsóknarflokk, 1 prósent Bjarta framíð og 10 prósent segjast myndu kjósa „annað”.
Þeir sem eru með milljón á mánuði eða hærra eru líklegastir til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða Pírata, 26 prósent og 25 prósent. 13 prósent kjósa Samfylkingu, 12 prósent VG og Framsókn, 8 prósent Bjarta framtíð og 5 prósent vilja aðra kosti.
Fleiri karlar styðja Pírata og konur VG
Karlar voru líklegri en konur til að styðja Pírata en konur voru hinsvegar líklegri en karlar til að styðja Vinstri-græna og Bjarta framtíð. Þannig sögðust 44 prósent karla styðja Pírata, borið saman við 29 prósent kvenna. 18 prósent kvenna sögðust styðja Vinstri-græn, borið saman við 8 prósent karla og 7 prósent kvenna sögðust styðja Bjarta framtíð, borið saman við 2 prósent karla.