,,We love you Hillary”
gólar maðurinn mér á hægri hönd að flatskjánum sem hangir yfir írskum bar í
miðbæ Manhattan á köldu sunnudagskvöld í janúar. Konan hans tekur undir, “Love
Yoooou”. Þriðju og síðustu kappræður frambjóðenda Demókrata eru í gangi og við
vinkonurnar erum staddar í kappræðupartýi á vegum kosningabaráttu Hillary
Clinton. Hjónin snúa sér að okkur og segja frá því í óspurðum fréttum að þau
hafi haft ómælda ást á Hillary frá því hún var bara konan hans Bill, við kinkum
kolli vandræðalega og segjum að okkur þyki hún ágæt líka.
Magnþrungin spenna
Nú, nokkrum dögum síðar styttist óðum í fyrsta forval hjá Demókrötum fyrir forsetakosningarnar sem haldnar verða í nóvember. Hver fréttatími rekur annan og umræðuefnið er nær eingöngu um nýjustu könnunina eða síðustu uppátæki Trumps. Fyrstu kosningarnar fara fram í Iowa næsta mánudag, því næst er kosið í New Hampshire þann 9. febrúar og svo í Nevada ríki, 20. febrúar. Öll þessi ríki eru svokölluð ,,swing states” sem þýðir að þau hafa sögulega sveiflast á milli þess að kjósa Demókrata og Repúblikana í forsetakosningum og því einstaklega mikilvæg fyrir lokaniðurstöðu kosninganna. Sum þykja sögulega mikilvægari en önnur. Sem dæmi hefur Nevada ríki alltaf kosið þann frambjóðanda, Demókrata eða Repúblikana, sem hefur svo orðið forseti síðan árið 1912, með aðeins einni undantekningu.
Spennan er mikil þessa dagana og frambjóðendur eru á útopnu dag og nótt í þeim fylkjum sem fyrst eru í röðinni. Bernie Sanders, sem er öldungardeildarþingmaður frá Vermont og kennir sig við sósíalisma, hefur komið einna mest á óvart síðustu mánuði. Nú lítur allt út fyrir að hann sigri í New Hamphire og jafnvel í Iowa, þar sem fyrstu forkosningarnar eiga sér stað. Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra, öldungadeildarþingmaður og forsetafrú, er þó langt frá því að vera af baki dottin og nú keppast samtök á borð við Planned Parenthood við að lýsa yfir stuðningi við hana, sem og fjöldinn allur af áhrifafólki eins og þessi listi hér sýnir. Þriðji frambjóðandinn er hinn geðþekki Martin O’Malley, fyrrum borgarstjóri í Baltimore og fylkisstjóri Maryland, sem er einna þekktastur fyrir að vera efniviður í þættina óviðjafnanlegu The Wire, en tilvera hans í kosningunum mælist hins vegar vart í könnunum.
Í boltann eða manninn?
Í samanburði við frambjóðendur Repúblikana eru frambjóðendur Demókrataflokksins eins og vel uppalin börn í skólabúning sem fara alltaf rakleiðis í boltann en aldrei í manninn eins og góðra stjórnmálamanna er siður, þó það sé sjaldséð nú til dags. Harkan í kappræðum milli Repúblikana frambjóðendanna er öllu meiri og óvægnari þar fer Donald Trump fremstur í flokki en hann trónir á toppnum í könnunum og mælist með 35,8% á landsvísu. Nýjasta útspil Trumps er að neita að mæta í kappræður sem voru á sjónvarpsstöðinni FOX nú í vikunni af því honum þótti spurningar sjónvarpskonunnar Megan Kelly frá fyrri kappræðum dónalegar og lét svo hafa eftir sér að hún hlyti að hafa verið á blæðingum. Kelly gerðist sek um að spyrja hann út í ósmekkleg ummæli sem hann hafði átt um konur í fortíðinni og hvort honum þætti þau sæmandi fyrir forseta Bandaríkjanna.
Þrátt fyrir allt með mikið forskot
Þrátt fyrir hegðun Trumps er hann með um 18 prósentu stiga forskot á næsta mann sem er öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz frá Texas. Fyrir skemmstu sagðist Trump ætla meina múslimum inngöngu í landið, jafnvel sem ferðamönnum, yrði hann forseti og undirstrikaði það í fyrstu auglýsingu sinni að auki sem hann segir þar frá fyrirætlan sinni ,,að skera hausinn af ISIS”, sem og að byggja múr við landamæri Mexíkó. Auglýsingin endar svo á slagorði herferðarinnar sinnar “We will make America great again”.
Mikið vatn runnið til sjávar
Margt hefur því breyst frá því þegar flestir kosningaspekingar hér vestra spáðu því í upphafi að Hillary Clinton myndi sigra forvölin með glæsibrag án þess að fá mikla samkeppni frá þeim Sanders og O’Malley og líklegur andstæðingur hennar yrði Jeb Bush sem varla mælist núna í könnunum. Enn er þó Hillary með um 19 prósentustiga forskot á landsvísu, en aðstæður gætu breyst ef Sanders nær að sigra fyrstu fylkin. Því þar með eykst trúverðugleiki hans sem frambjóðanda til muna og líklegt að fleiri fari að skoða alvarlega hvor frambjóðendanna sé líklegri til að sigra Trump. En eins og staðan er núna virðist fátt geta komið í veg fyrir að Trump verði fulltrúi Rebúplikana.
Í könnun í lok desember var stór hópur kjósenda spurður hvern þau myndu kjósa ef niðurstaða forvals flokkana enduðu á þessa vegu:
Trump/ Hillary
Hillary 47%
Trump 40%
Þegar spurt var um það, ef valið stæði á milli Trump og Sanders, þá var Sanders með afgerandi forystu.
Trump / Sanders
Sanders 51%
Trump 38%
Hnífjafnt var hins vegar þegar Hillary Clinton og Cruz var stillt upp sem valkostum.
Hillary / Cruz
Hillary 44%
Cruz 44%
Og nánast sama staða var uppi þegar Sanders og Cruz voru valkostirnir, en Cruz var þó með aðeins meira fylgi.
Sanders / Cruz
Sanders 43%
Cruz 44%
Sanders sterkari gegn Trump
Það sem vekur athygli í þessari könnun er að Sanders mælist sterkari gegn Trump en Hillary, en hér er um að ræða könnun yfir allt landið sem tekur ekki tillit til hins flókna kosningakerfi Bandaríkjanna sem byggir á svokölluðu kjörmannakerfi. Niðurstöður kosninga eru alls ekki alltaf þær sömu og ef hvert atkvæði væri talið, eins kom svo eftirminnilega í ljós þegar Al Gore var með fleiri atkvæði en George W. Bush í forsetakosningunum árið 2000, en Bush fékk fleiri kjörmenn og hlaut forsetaembættið, þó sú niðurstaða hafi verið umdeild. Könnunin gefur þó sterka vísbendingu um hvernig kjósendur vega og meta mögulega frambjóðendur flokkanna á kjördag.
Nýjasta könnunin frá Quinnipiac University á líklegum kjósendum í forvali Demókrata í Iowa, þar sem fyrst verður kosið, mælir Sanders með meira fylgi en Hillary. Mun fleiri karlar styðja Sanders eða 63%, en aðeins 32% karla styðja Hillary. Konur eru hliðhollari Hillary eða 54% og 40% þeirra segjast munu styðja Sanders. Þá er Sanders miklu vinsælli meðal yngri kjósenda en Hillary hefur sterkari stuðning meðal minnihlutahópa. Útkoman er þá þessi:
Sanders 49%
Hillary 45%
O’Malley 4%
Í samanburði við kannanir á landsvísu eru þó líkurnar á því að Hillary sigri Sanders enn yfirgnæfandi ef marka má heildartölur úr samansafni kannana hjá tölfræðigúrúnum Nate Silver.
Hillary 53,4%
Sanders 34,1%
O’Malley 3%
En óneitanlega minnir þessi staða á upphaf forvalsins árið 2008 hjá Demókrötum þegar óþekktur öldungadeildaþingmaður frá Chicago, Barack Obama kom flestum á óvart þegar hann sigraði Hillary í hverju ríkinu á fætur öðru.
Svipar til stefnunnar hjá Obama
Í nýlegri grein í vefritinu Politico er bent á hversu mikið strategíu Sanders svipar til þeirrar sem Obama lagði svo listilega upp árið 2008 sem endaði með sigri hans. En Sanders hefur lagt ofuráherslu á þau fylki sem byggja á svokölluðum Caucus eða sem er í mjög stuttu máli kjörfundir þar sem fólk mætir á stað og hópar sig saman með sínum frambjóðanda og því ekki um leynilegar hefðbundnar kosningar að ræða. Í slíkum tilfellum eru það áköfustu stuðningsmennirnir sem eru líklegastir til að mæta. Ólíkt þegar um er að ræða hefðbundna leynilega kosningu sem er í mörgum tilfellum opin öllum kjósendum þess flokks sem kosið er fyrir.
Þetta vill greinahöfundur meina sé líklegt til árangurs fyrir Sanders, en auk þess sé samsetning kjósenda í fyrstu fylkjunum í forvalinu honum einnig hliðholl, en í þeim er meirihlutinn hvítt millistéttafólk. Hillary sækir fylgið sitt til breiðari hóps, sér í lagi til kvenna og minnihlutahópa. Búist er við því að hún styrki stöðu sína til muna þegar líður á forvalið þegar fylkin sem hún hefur yfirgnæfandi meirihlutastuðning í, kjósa. Mikil velgengni Sanders í upphafi gæti þó haft áhrif á stöðu hennar í þeim ríkjum sem hún er nú mælist með langmesta fylgið.
En eins og sagan hefur sýnt gæti margt enn gerst, sem gæti snarlega breytt stöðunni. Það, hversu stór hópur kjósenda ákveður að mæta á kjörstað hefur mikið að segja, en að jafnaði kýs aðeins rétt um helmingur kjósenda í forsetakosningunum sjálfum.
Flóknari staða með nýjum manni
Til að flækja málið enn meira hefur hinn vinsæli fyrrverandi borgarstjóri New York borgar Michael Bloomberg verið að viðra þá hugmynd að bjóða sig fram sem óháður. Ef Bloomberg býður sig fram munu að öllum líkindum snaraukast líkurnar á þeim möguleika að Trump geti raunverulega orðið forseti Bandaríkjana, þ.e. ef Hillary fær útnefningu Demókrata, þar sem Bloomberg er talinn líklegur að sækja fylgi í sama hóp og hún. Þannig myndi fylgi hennar minnka og að hluta færast yfir til Bloombergs og líkurnar á að Trump nái yfir þriðjung atkvæða aukast. Varnarmenn Bloombergs benda á að hann fari að öllum líkindum ekki fram nema Sanders fái útnefningu Demókrata.
Miðjuaflið komi og bjargi málunum
Verði það hins vegar raunin að Sanders og Trump fái útnefningarnar spái menn fyrir um að Bloomberg komi inn í forsetakosningarnar sem miðju aflið til að bjarga landinu frá öfgunum úr báðum áttum. Þetta telur hinn þekkti hagfræðingur Paul Krugman vera fullkomna uppskrift að sigri Trump, þar með færist hluti Demókrata yfir á Bloomberg og þar með dreifist fylgið svo að Trump fær flest atkvæði. Svona má lengi halda áfram með spekúlasjónir og það gera fjölmiðlamenn hér vestra allan liðlangan daginn í spjallþáttum.
Endurtekur sagan sig?
Af ótta við að sagan frá 2008 endurtaki sig er skiljanlegt að nú virðist allt ætla um koll að keyra í herbúðum Hillary. Nú fá stuðningsmenn tvo til þrjá tölvupósta á dag um ástand mála í Iowa og New Hampshire og ekkert verið að spara yfirlýsingarnar. Tölvupósturinn sem mér barst fyrir allar aldir í morgun var undir yfirskriftinni: “We are running out of time, Bryndís”. Áður en ég áttaði mig á samhengi hlutanna var ég komin með hnút í magann og búin að sannfæra sjálfa mig að nú hefði ég gleymt einhverju mikilvægu.
En innihaldið var að minna mig á að ég hefði ekki gefið krónu til stuðnings Hillary og þau þyrftu níu manns til viðbótar í mínu hverfi að styrkja herferðina fyrir Iowa forvalið sem eru á mánudaginn næsta. Næsti tölvupóstur var svo beint úr pósthólfinu frá Tim sem stýrir sjálfboðastarfinu hjá Sanders í mínu hverfi. Í honum var verið að minna á göngu sem haldin verður á sunnudag til heiðurs Sanders hér í New York, bara texti og frekar heimilislegt.
Hvorki Sanders né Hillary gera sér grein fyrir því að það er vita gagnslaust að vera að atast í mér, því ég má hvorki gefa pening né kjósa. En spennan magnast og það virðist ætla að vera mikil hátíð framundan fyrir áhugafólk um bandarísk stjórnmál.