1. Á ríflega fimmtán mánuðum hefur verðið á tunnu af hráolíu, á Bandaríkjamarkaði, farið úr 114,6 Bandaríkjadölum niður í 30,4 Bandaríkjadali nú, þegar þetta er ritað. Það er verðfall sem nemur 74 prósentum. Það sama má segja um Norðursjávarolíuna. Hlutföllin þar eru svipuð, en verðið á henni nemur 33,3 Bandaríkjadölum á tunnuna, miðað við þróun mála í dag. Ástæða verðlækkunarinnar verður með einfölduðum hætti skýrð með því, að dregið hefur úr eftirspurn eftir olíu, á sama tíma og framboð hefur haldist stöðug. Samdráttur í fjárfestingum og minnkandi umsvif í heimsbúskap eru helstu orsakavaldar.
2. Íslendingar fá olíuna að mestu úr Norðursjó, einkum frá stærsta olíufyrirtæki Noregs, Statoil. Það félag er skráð á markað og 68 prósent hlutabréfa þess í eigu norska ríkisins. Á Íslandi hefur olíuverð lækkað, en það fylgir þó ekki heimsmarkaðsverði náið eftir, þar sem inn í útsöluverðinu eru skattar og gjöld, sem ekki sveiflast með heimsmarkaðsverði. Lítraverð á bensíni er nú í kringum 190 krónur, en var fyrir ári síðan í kringum 250 krónur. Helstu magnkaupendur olíu eru skip útgerðarfyrirtækja (sjávarútvegur og flutningar) og flugvélar flugfélaga.
3. Eitt stærsta Íslendingasamfélag utan Íslands er í Rogalandi í Noregi, þar sem Stavanger er stærsta borgin með um 130 þúsund íbúa. Í Stavanger og nágrenni búa um fimm þúsund Íslendinga en í Noregi búa nú um tíu þúsund Íslendingar. Verðlækkunin á olíu hefur komið illa við Rogaland og Stavanger, þar sem Statoil er með höfuðstöðvar, og hefur Dagens Næringsliv, helsti viðskiptafréttamiðill Noregs, sagt af því fréttir að undanförnu að verið sé að draga saman seglin víða í efnahagslífinu á svæðinu, en olíuvinnslan og þjónusta sem henni tengist, er helsta bakbeinið í efnahagslífinu. Norska krónan kostar nú 14,9 íslenskar krónur en fyrir rúmlega ári kostaði hún 18,5 íslenskar krónur.
4. Nær algjört frost er nú á fasteignamarkaði í Rogalandi, miðað við stöðuna sem var fyrir rúmlega ári síðan, og uppsagnir fyrirtækja hafa aukist. Ennþá er of snemmt að tala um kreppu en samdráttur er staðreynd. En verðlækkunin á olíu hefur þegar haft umtalsverð neikvæð áhrif í Noregi. Hlutabréfaverð hefur hríðfallið að undanförnu, og nam lækkunin í dag rúmlega 3,3 prósentum. Þrátt fyrir það er Noregur eitt best stæða ríki heimsins. Olíusjóður Noregs á eignir sem nema um einu prósenti af öllum skráðum hlutabréfum í Evrópu, en um 60 prósent sjóðsins er í hlutabréfum. Stærð hans sveiflast því nokkuð eftir gengi hlutabréfa, en á síðasta ári námu eignir hans um 100 þúsund milljörðum króna, eða sem nemur 6.700 milljörðum norskra króna.
5. Verðlækkunin undanfarin misseri hefur haft mikil áhrif á þróun efnahagsmála í mörgum löndum þar sem olíauðlindir er að finna. Ríki eins og Brasilía, sem ítarlega var fjallað um á vef Kjarnans ekki alls fyrir löngu, Rússland, Nígería, Sádí-Arabía og Venesúela, hafa öll fundið mikið fyrir mikilli verðlækkun. Verðlækkunin veldur því að hagkerfin fá mun minni útflutningstekjur, sem hefur keðjuverkandi áhrif um allt hagkerfið, í ljósi þess hve mikið umfang olíuvinnslu og hve mikilvægur grunnur það er fyrir aðra atvinnuvegi. Í Rússlandi, sem er með 143 milljónir íbúa, féll landsframleiðsla í fyrra saman um 2,7 prósent og í Brasilíu, sem er með 200 milljónir íbúa – meira en í allri Suður-Evrópu – féll landsframleiðsla saman um 4,5 prósent.
6. Ísland nýtur góðs af lágu olíuverði, í það minnsta þegar beinu áhrifin eru skoðuð. Ef verðið er lágt, þá þarf minni gjaldeyri í að kaup olíuna heldur en þegar það er hátt. Óbeinu áhrifin eru síðan þau, að oft er fylgni milli verðsveiflna olíunnar og síðan annarra hrávara. Þannig skilar mikil lækkun á olíuverði sér oft í því, með tímanum, að verð lækkar á innfluttum afurðum. Það dregur síðan úr verðbólgu. Verðbólga hefur haldist undir 2,5 prósent verðbólgumarkaði undanfarið ár, og mælist nú 2,1 prósent á ársgrundvelli.
7. Stærstu olíufyritæki heimsins eru Royal Dutch Shell (RDS), Exxon Mobil og Saudi Aramco, miðað við árið 2014. Ljóst er að tekjur fyrirtækjanna hafa vafalítið dregist töluvert saman í fyrra, en endanleg uppgjör hafa ekki enn verið kynnt. Tekjur RDS námu 421 milljarði Bandaríkjadala, Exxon Mobil 378 milljörðum Bandaríkjadala og hjá Saudi Aramco námu tekjurnar 358,7 milljörðum Bandaríkjadala. Til að setja þessar tölur í samhengi þá námu tekjur RDS um 150 milljörðum króna á dag.
8. Flestar spár gera ráð fyrir að olíuverð muni haldast í lægri kantinum á næstu misserum, en vandi er þó að spá fyrir um hvað sé framundan. Í því samhengi má nefna upplýsingar sem upplýsingaskrifstofa bandaríska orkumálaráðuneytisins tók saman, og Orkubloggið vitnaði til. Samkvæmt spá þess verður verðið, á næsta ári, einhvers staðar á bilinu 20 til 100 Bandaríkjadalir á tunnuna. Nákvæmari var nú ekki sú spá.
9. Eitt af því sem veldur alþjóðlegum fjárfestum áhyggjum, og hefur ýtt undir verðlækkanir á verðbréfum og hrávöru, eru minni umsvif í kínverska hagkerfinu en reiknað hafði verið með. Óhætt er að segja að það muni mikið um hvert prósentustig í hagvexti fyrir heimsbúskapinn, þegar Kína er annars vegar. Þar býr 20 prósent af íbúum jarðar, eða um 1,4 milljarður manna. Í meira en aldarfjórðung hefur hagvöxtur í Kína verið 7 til 10 prósent á ári, en í fyrra fór hann undir sjö prósent. Þessi þróun er sögð ýta undir minnkandi eftirspurn, þar sem fyrirtæki halda að sér höndum í fjárfestingum og verða áhættufælin í rekstri sínum.
10. Eitt íslenskt olíufyrirtæki – það er smásöluaðili olíu – er skráð á markað, N1. Það hækkaði meira en öll önnur fyrirtæki í kauhöllinni í dag, eða um 2,73 prósent. Önnur fyrirtæki á íslenska markaðnum, sem selja almenningi og fyrirtækjum olíu og bensín, eru Skeljungur, Olís og Atlantsolía.