Þann 19. maí 2011 birtist mynd af hlaupandi hópi barna og dökkhærðum karlmanni í bæjarblaðinu í Kristianstad í Suður-Svíþjóð. Maðurinn á myndinni var efnilegur hlaupari. Hann hafði skömmu áður hlaupið 100 metrana á 11,82, sem var besti tíminn í flokki 14 ára í Svíþjóð það árið. Það er það eina sem Saad Alsaudi hefur unnið sér til frægðar. Samt er hann frægur víða um heim.
Óhætt er að slá föstu að engin frétt bæjarblaðsins í Kristianstad hafi hlotið viðlíka athygli. Kristianstad er á stærð við Kópavog sem, með fullri virðingu fyrir bæði Kópavogi og Kristianstad, telst enginn boldungs bær í Svíþjóð. Fréttin var hins vegar fljótlega tekin af vefsíðu blaðsins því hún varð fljótt að flökkusögu á vefsíðum hægriöfgamanna. Ástæðan? Jú, Saad þótti svo mannalegur á myndinni að erfitt var að trúa því að hann væri táningur.
Í meðförum fólks sem ekki gest að útlendingum, varð myndin af Saad vinsælt „sönnunargagn” þess að hann væri enn eitt dæmið um hælisleitendur sem ljúga til um ungan aldur til þess að auka líkurnar á því að fá hæli. Vandamálið var bara að saga Saads kemur ekki heim og saman við lýsingarnar á netinu. Nafnið hans var ekki einu sinni rétt stafað.
Rataði í Daily Mail
Steininn tók úr þegar myndin af Saad var prentuð í öðru stærsta dagblaði Bretlands, götublaðinu Daily Mail. Þar er myndinni af Saad slegið fram undir clickbait yfirskriftinni: „Hversu gömul heldur þú að þessi ‘flóttamannabörn’ séu? Rosalegar myndir ... vitna um vaxandi skandal í flóttamannakrísunni í Evrópu”. Í inngangi fréttarinnar getur að lesa að „Svíþjóð standi ráðalaus frammi fyrir fjölda ‘ólögráða’ flóttamanna án fylgdar fullorðinna”. Í texta fréttarinnar eru svo dregin fram ýmis dæmi um nýlegt ofbeldi og árásir á heimilum fyrir ólögráða hælisleitendur. Þá er látið í veðri vaka að augljóslega séu þessir piltar eldri en 18 ára, því allir séu þeir hávaxnir og þeim spretti sannanlega og ríflega grön.
Það er alveg rétt að margir þeirra hælisleitenda sem koma til Svíþjóðar þessa dagana gefa upp að þeir séu undir lögaldri og að þeir séu einir á ferð. Árið 2014 voru 8,7% hælisleitenda ólögráða ungmenni án fulltingis fjölskyldumeðlima. Árið 2015 hafði þetta hlutfall stokkið upp í 21,7%, samkvæmt tölum frá sænsku útlendingastofnuninni Migrationsverket. Afganar eru fjölmennastir í fylgdarlausa ungmennahópnum, alls 66,3% í fyrra, eins og Kjarninn hefur áður skrifað um.
Sennilegt má teljast að þó nokkrir í þessum hópi séu í raun eldri en þeir segjast vera. Þó nokkrir láta eflaust freistast til að ljúga af því að kerfið veitir ungmennum meiri aðstoð en fullorðnum. Aðrir geta í einlægni sagt að þeir viti ekki hvað þeir eru gamlir.
Höfum hugfast að í Afganistan fæðast um tveir þriðju allra barna í stofunni heima, án þess að heilbrigðiskerfið komi þar nálægt, þjóðskrá fylgist með eða umheimurinn viti af því á annan hátt. Margir á landsbyggðinni eru ólæsir á texta og tölur og dagatöl eru þar af leiðandi ekki á öllum heimilum.
Hin raunverulegi Saad Alsaudi
Myndin víðförla er tekin þegar táningurinn Saad Alsaudi heimsótti gamla barnaskólann sinn aftur eftir hlaupaafrekið. Hann hljóp einn hring í kringum skólann, eins og er hefð fyrir að börnin geri á hverjum degi í Centralskolen. „Ég var alltaf með í hlaupunum,” segir Saad við Kristianstadsbladet. “Það var hérna sem ég uppgötvaði að ég var fljótur að hlaupa.”
Eins og norski pistlahöfundurinn Øyvind Strømmen bendir á í grein á vefmiðlinum Minervanett, er myndin gott dæmi um það sem á ensku heitir confirmation bias. (- Staðfestingartilhneiging er ein lipur snörun á íslensku.) Þetta gengur út á að leita eingöngu að upplýsingum sem staðfesta þá heimsmynd sem manneskjan hefur þegar.
Fyrir þá sem einsetja sér að finna staðfestingu þess að erlend ungmenni ljúgi til um aldur til að komast áfram í kerfinu, þá getur myndin af hlaupahópnum litið þannig út. Saad er dökkur yfirlitum, með dökka og grófa skeggrót. Hálfopinn jakkinn blæs út af lofti á hlaupunum þannig að Saad, sem er í góðri þjálfun, virðist enn vöðvaðri yfir brjóstkassann. Hann er að auki umkringdur börnum sem eru höfðinu lægri en hann, skólabörnum sem líta út fyrir að geta verið á aldrinum 10-12 ára. Hann lítur í alvörunni út fyrir að geta verið eldri en fimmtán, ef það er það sem maður vill sjá.
Saad Alsaudi hefur hins vegar enga ástæðu til að ljúga til um aldur. Hann er búinn að búa í Svíþjóð frá því hann var sex ára, árið 2003. Pabbi hans flutti fyrstur og fékk fjölskylduna, þ.m.t. Saad sem ungan dreng, til sín eftir að hann hafði fengið varanlegt dvalarleyfi fyrir alla fjölskylduna, eftir því sem Saad segir sjálfur frá. Í frétt sænska ríkissjónvarpsins blaðar Saad í gegnum myndir af sér barnungum í Svíþjóð, því til sönnunar hvað hann hefur verið þar lengi. Hann segist geta sýnt gömul skilríki með fæðingardeginum. En það hefur ekkert að segja. Saad kom til Svíþjóðar sem barn. Hann sótti ekki um eða fékk dvalarleyfi með því að ljúga um aldur.
Lifir sjálfstæðu lífi
Goðsögnin um hraðlygna hælisleitandann Saad Alsaudi, (hefur einnig verið ranglega skrifað Alsudi eða Alsaud) lifir hins vegar orðið sjálfstæðu lífi. Það mun líklega engu máli skipta þótt sænskir, norskir og nú íslenskir fjölmiðlar beri fréttina til baka. Daily Mail virðist ekki einu sinni hafa breytt sinni frétt að neinu marki.
Saad hefur lagt hlaupaskóna á hilluna út af meiðslum. Hann er núna á síðasta ári á náttúrufræðibraut í framhaldsskóla í Kristianstad. Hann vildi óska þess að fólk væri gagnrýnna á þær upplýsingar sem það sér á netinu, segir hann við Kristianstadbladet í nýrri frétt frá því á þriðjudaginn – með nýrri mynd fyrir þá sem vilja vita hvernig hann lítur út í dag. Allra helst óskar hann þess að fólk væri ekki að nota tímann í að ræða það sem ekki skiptir máli, heldur þori að taka á vandamálum eins og rasisma.
Myndin af honum mun hins vegar líklega halda áfram að rúlla í hring um internetið, þar sem hann er titlaður skeggbarn eða annað þaðan af verra.