1. Viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, eru langsamlega umfangsmestir í veitingu nýrra húsnæðislána, með yfir 90 prósent markaðshlutdeild. Íbúðalánasjóður kemur þar á eftir, en lífeyrissjóðir hafa einnig verið að sækja í sig veðrið. Kvika, sameinaður banki MP banka og Straums, er með litla hlutdeild húsnæðislána, enda með sérhæfðar áherslur gagnar eignameiri viðskiptavinum og síðan fjárfestingabankastarfsemi.
2. Hvernig þjónustu veita lánastofnanir þeim sem eru að kaupa eignir í fyrsta sinn? Lánshlutfall íbúðalána Landsbankans er allt að 85% af markaðsvirði eða verðmati eignar, 70% íbúðalán til allt að 40 ára og 15% viðbótarlán til allt að 15 ára . Þá er lántökugjald, sem er ofta 1 prósent af verðmæti eigna, fellt niður. Við fyrstu fasteignakaup er lántökugjald fellt niður hjá Arion banka. Þar að auki hækkar hámarkslánshlutfall úr 80% í 85% fyrir þann hluta af markaðsvirði eignar sem er undir 30 milljónum króna, á lánum sem eru óverðtryggð að a.m.k. 25% hluta. Íslandsbanki veitir 50 prósent afslátt af lántökugjaldi, en lánar tvær milljónir króna til viðbótar, með 10 ára jafngreiðsluláni, en þó ekki meira en sem nemur 90 prósent af markaðsvirði. Íbúðalánasjóður lánar að hámarki 80 prósent lán, verðtryggt, en hámarkslán er 24 milljónir. Lífeyrissjóðirnir lána flestir að hámarki 75 prósent lán.
3. Íslenska ríkið á Landsbankann, Íslandsbanka og Íbúðalánasjóð nánast að fullu. Eignarhluturinn í Landsbankanum er 98 prósent, Íslandsbanka 100 prósent og Íbúðalánasjóði 100 prósent. Viðskiptakjör eru þó breytileg, eins og sést meðal annars á þjónustunni sem í boði er fyrir þá sem eru að kaupa eign í fyrsta sinn.
4. Lífeyrissjóður verzlunarmanna, lífeyrissjóðurinn Gildi og LSR, hafa breytt lánaskilyrðum sínum á undanförnum mánuðum, með það fyrir augum að bjóða sjóðsfélögum hagstæð kjör á lánum til íbúðakaupa. Sjóðirnir bjóða 75 prósent veðhlutfall, en vaxtakjörin sem í boði eru hjá þeim eru betri en hjá viðskiptabönkunum og Íbúðalánasjóði. Til samanburðar eru vextir á verðtryggðum lánum að meðaltali um 3,7 prósent hjá viðskiptabönkunum, og frá rúmlega 7 prósentum á óverðtryggðum lánum. Bestu kjör lífeyrissjóða eru 3,6 prósent á verðtryggðum lánum, og frá 6,49 prósent á óverðtryggðum lánum, og það fast í þrjú ár. Munurinn er umtalsverður, einkum þegar kemur að óverðtryggðum lánum. Fyrir þá sem geta tekið 75 prósent lán, og fjármagnað þá með eigið fé 25 prósent af kaupum, eru lánakjör lífeyrissjóða hagstæðust, en þau eru í boði fyrir sjóðfélaga, eins og áður sagði.
5. Lífeyrissjóður verzlunarmanna býður þó bestu kjör lífeyrissjóða, sé miðað við fasta vexti, en vaxtatöflur lífeyrissjóða taka breytingum eftir því sem þurfa þykir, að mati stjórnenda sjóðanna. Hjá Gildi eru hagstæðustu kjörin veitt til þeirra sem taka 65 prósent lán eða lægra. LSR býður bestu vexti á breytilegum vöxtum, eða 3,13 prósent.
6. Hversu stór er fasteignamarkaðurinn og hvert er heildarvirði fasteigna á landinu? Heildarmat fasteigna, miðað við fasteignamat árið 2016, nam 5.755 milljörðum króna og hækkaði um 5,8 prósent milli ára. Sé miðað við árlega landsframleiðslu er heildarmat fasteigna 2,8 föld árleg landsframleiðsla.
7. Stærstur hluti fasteigna er í fjölbýli en heildarmat íbúða í fjölbýli á Íslandi er 3.844 milljarðar króna, samkvæmt fasteignamati fyrir 2016.
8. Fastir vextir verðtryggðum lánum ríkisfjármálstofnanna þriggja, Landsbankans, Íslandsbanka og Íbúðalánasjóðs, eru breytilegir. Hjá Íbúðalánasjóði eru þeir 4,2 prósent, hjá Landsbankanum 3,85 prósent og Íslandsbanka 3,95 prósent.
9. Ekki eru gerðar sömu kröfur til lífeyrissjóða og banka, þegar kemur að gjöldum og sköttum á starfsemina. Það er ein ástæða þess að lífeyrissjóðir geta boðið betri kjör. Bankarnir hafa vakið athygli á þessari stöðu, og talað um samkeppnislega mismunun.
10. Hjá sparisjóðum sem starfandi eru í landinu, er í gildi varfærin útlánastefna. Samkvæmt upplýsingum á vefnum sparisjodurinn.is, er lánað til íbúðakaupa allt að 60 prósent af fasteignamati, og síðan viðbótarlán upp í 80 prósent, þar sem miðað er við markaðsvirði/kaupverð. Vaxtatafla er sambærileg við Íbúðalánasjóð. „Við ákvarðanir á vöxtum vegna verðtryggðra íbúðarlána er horft á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa útgefinna m.a. af Íbúðarlánasjóði, bönkum og fjármálafyrirtækjum á Íslandi, fjármögnunarkostnað sparisjóðsins, eiginfjár- og lausafjárbindingu vegna íbúðarlána, rekstrarkostnaðar, smásöluálagningu, álagningu vegna útlánaáhættu og stjórnvaldsfyrirmæla,“ segir á vef sparisjóðanna.