Í niðurstöðu endurupptökunefndar vegna beiðni Ólafs Ólafssonar um endurupptöku Al Thani-málsins segir að það sé „hafið yfir allan skynsamlegan vafa“ að sá „Óli“ sem talað er um í símtali milli tveggja lögmanna, og var hluti gagna í málinu, sé Ólafur Ólafsson. Ólafur byggði endurupptökubeiðni sína á því að svo væri ekki heldur að verið væri að ræða annan „Óla“.
Ólafur fór einnig fram á að málið yrði endurupptekið vegna þess að tveir dómarar í Hæstarétti sem dæmdu í Al Thani-málinu, þeirra Árna Kolbeinssonar og Þorgeirs Örlygssonar, hefðu verið vanhæfir til að fella dóminn vegna þess að synir þeirra hefðu starfað hjá slitastjórn Kauþings. Þessari ástæðu var einnig hafnað af endurupptökunefnd.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, fóru líka fram á endurupptöku Al Thani málsins vegna tengsla dómara við syni sína og vegna þess að sönnunargögn hefðu verið metin rangt. Þeirra beiðnum var einnig hafnað.
Mennirnir þrír voru allir dæmdir sekir í Hæstarétti í málinu í febrúar 2015. Þar hlaut Hreiðar Már fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, og Ólafur fjögur og hálft ár. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, var líka dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í málinu.
Nokkuð er síðan að úrskurður endurupptökunefndar var kveðinn upp, en það gerðist 26. janúar 2016. Upplýsingar um niðurstöðuna urðu hins vegar ekki opinberar fyrr en almannatengslafyrirtækið KOM, sem starfar fyrir Ólaf Ólafsson, sendi frá sér fréttatilkynningu um hana fyrr í dag. Í fréttatilkynningunni var gert grein fyrir vonbrigðum Ólafs og sjónarmiðum hans vegna úrskurðar endurupptökunefndar. Úrskurðurinn sjálfur fylgdi hins vegar ekki með. Kjarninn hefur síðan fengið úrskurð endurupptökunefndar vegna beiðni Ólafs Ólafssonar í hendur. Hann má lesa hér.
Í nefndinni sátu Elín Blöndal, sem var formaður hennar, Berglind Svavarsdóttir og Kristbjörg Stephensen.
Tvær ástæður fyrir endurupptöku að mati Ólafs
Ólafur óskaði formlega eftir því í maí 2015 við endurupptökunefnd að Al Thani-málið yrði tekið upp að nýju. Ástæðan var sú að hann taldi að í dómi Hæstaréttar væru sönnunargögn í málinu rangt metin.
Þar vísar hann sérstaklega í símtal sem átti sér stað 17. september 2008 milli lögmannsins Bjarnfreðar Ólafssonar og Eggert Hilmarssonar, sem hafi verið framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings í Lúxemborg. Í símtalinu var talað um „Óla“ og vildi Ólafur Ólafsson meina að hann hafi verið sakfellur einvörðungu á grunni þessa símtals. Hann vildi hins vegar einnig meina að umræddur „Óli“ hefði ekki verið hann, heldur Ólafur Arinbjörn Sigurðsson, lögmaður.
Hin ástæðan sem Ólafur lagði fyrir endurupptökunefnd, og krafðist endurupptöku máls síns vegna, var sú að tveir synir dómara við Hæstarétt sem kveðið hafi upp dóm yfir honum í Al Thani-málinu hefðu unnið hjá slitastjórn Kaupþings og hefðu beinan fjárhagslegan ávinning af því að sakfelling hefði fengist í málinu.
Afar ótrúverðugur framburður Bjarnfreðs fyrir dómi
Ríkissaksóknari skilaði umsögn í málinu og sagði augljóst að í símtalinu sem átti sér stað 17. september 2008 hafi verið rætt um Ólaf Ólafsson. Þar er meðal annars nefnt að í símtalinu hafi verið talað um mann sem hafi verið „inni í Eglu“, en Egla er félag sem var í eigu Ólafs og hélt á eignarhlut hans í Kaupþingi. Í greinargerð hans segir einnig að í framhaldinu hafi Eggert og Bjarnfreður rætt að ,,hann megi ekki flagga, uppleggið sé að aðeins Quatarinn flaggi en að Ólafur þurfi náttúrulega að fá sinn part í kökunni". Þar sé ljóst að verið sé að ræða Ólaf Ólafsson, eða Quatarinn í þessu samhengi er Sjeik Al Thani.
Bjarnfreður, sem var um tíma til rannsóknar í Al Thani-málinu, var skattaráðgjafi Ólafs Ólafssonar og stjórnarmaður í Kaupþingi fyrir hrun, sagði fyrir dómi að hann hefði ekki rætt upplag Al Thani-viðskiptanna við Ólaf Ólafssonar. Ríkissaksóknari segir að taka þurfi tillit til þess að Bjarnfreður hafi gefið „afar ótrúverðugan og óstöðugan framburð fyrir dómi, sem hafi vikið að verulegu leyti frá framburði hans hjá lögreglu. Hafi raunar verið fjallað sérstaklega um það af Hæstarétti og þá staðreynd að sumir ákærðu hafi virst vita af því að BÓ[Bjarnfreður] hygðist breyta framburði sínum fyrir dómi. Sé því ljóst að ekki sé mikið byggjandi á því sem fram hafi komið hjá BÓ fyrir dómi um staðreyndir málsins. Öðru máli gegni um símtöl hans við EH [Eggert Hilmarsson], sem fyrir hafi legið í málinu, enda þar um að ræða samtímagögn.“
Því taldi ríkissakskónari ljóst að þau sönnunargögn sem Ólafur vísaði í hafi ekki verið rangt metin í dómi Hæstaréttar. Þvert â móti liggi fyrir að Hæstiréttur hafi tekið þau til sérstakrar skoðunar og komist síðan að „rökstuddri og réttri niðurstöðu um þau“. Jafnvel þótt umrædd gögn hefðu verið rangt metin hafi það engu skipt um niðurstöðu dómsins, enda fjölmörg önnur atriði sem hafi rökstutt sakfellingu.
Hafið yfir allan skynsamlegan vafa
Í niðurstöðu endurupptökunefndar er röksemdum Ólafs Ólafssonar fyrir endurupptöku Al Thani-málsins hafnað afgerandi. Þar segir að það fái ekki staðist „sú röksemd endurupptökubeiðanda að í símtalinu hinn 17. september hafi Bjarnfreður rætt um Ólaf Arinbjörn sem „Óla“. Breytir yfirlýsing Bjarnfreðs sem lögð var fram fyrir endurupptökunefnd ekki þeirri niðurstöðu. Á grundvelli framangreinds er að mati endurupptökunefndar hafið yfir allan skynsamlegan vafa að sá „Óli“ sem Bjarnfreður kallar svo í símtalinu frá 17. September 2008 og Eggert kallar „Ólaf“ er endurupptökubeiðandi Ólafur Ólafsson.“
Því fellst nefndin ekki á að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að sönnunargögn, sem færð voru fram í Al Thani-málinu, hefðu verið rangt metin þannig að þau hafi haft áhrif á niðurstöðu Hæstaréttar í málinu.
Hvorugur dómaranna vanhæfir til að fara með málið
Ólafur fór einnig fram á að málið yrði endurupptekið vegna þess að tveir dómarar í Hæstarétti sem dæmdu í Al Thani-málinu, þeirra Árna Kolbeinssonar og Þorgeirs Örlygssonar, hefðu verið vanhæfir til að fella dóminn. Ástæðan væri sú að slitabú Kaupþings hefði höfðað bótamál á hendur Ólafi og Hreiðari Má Sigurðssyni og krafið þá um 12,9 milljarða króna í skaðabætur vegna lánveitingar sem er hluti af Al Thani-málinu.
Synir dómaranna, Þeir Kolbeinn Árnason og Þórarinn Þorgeirsson, hafi báðir starfað fyrir Kaupþing og vildi Ólafur meina að báðir hefðu „mikla hagsmuni af því að sakfellt yrði í málinu“. Þar vísaði hann sérstaklega í frétt sem birtist í DV í lok maí 2015 þar sem fullyrt var að núverandi og fyrrverandi starfsmenn slitabús Kaupþings eigi í vændum háar fjárhæðir í kaupauka vegna nauðasamninga við kröfuhafa.
Niðurstaða endurupptökunefndar er hins vegar skýr. Þar segir að ekki sé „unnt að fallast á að hagsmunir Kolbeins og Þórarins verði lagðir að jöfnu við mögulega fjárhagslega hagsmuni slitabús Kaupþings hf. af niðurstöðu í [Al Thani-málinu] vegna starfa þeira eingöngu, heldur verður að líta til þess hvort þeir hafi eða muni hafa einherra þeirra sérstöku hagsmuna að gæta af úrlausn hæstaréttarmálsins að valdið geti vanhæfi dómara.“
Í niðurstöðunni er rakið að Kolbeinn Árnason hafi starfað sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs slitabús Kaupþings á árunum 2008 til 2013, en hafi látið að störfum sextán mánuðum áður en faðir hans tók sæti í Al Thani-málinu. Þórarinn hafi síðan verið eftirmaður Kolbeins í starfi. Í niðurstöðu endurupptökunefndar segir að „hvorki Kolbeinn né Þórarinn sitja, eða hafa setið, í slitastjórn Kaupþings hf. og hvorugur þeirra hefur rekið bótamálið sem höfðað var af Kaupþingi gagnavart endurupptökubeiðanda og Hreiðari Má Sigurðssyni[...]Þá hefur ekki verið sýnt fram á að Kolbeinn eða Þórarinn hafi notið eða muni njóta hagsmuna, fjárhagslegra eða annarra, af niðurstöðu í [Al Thani-málinu].“ Því hafi hvorki Árni né Þorgeir verið vanhæfir til að fara með Al Thani-málið.
Þar af leiðandi var beiðni Ólafs hafnað.