Lítill sem enginn vilji er innan Framsóknarflokksins til að selja tæplega 30 prósenta hlut ríkisins í Landsbankanum á þessu ári. Þingmenn Bjartrar framtíðar eru klofnir til helminga í málinu, samkvæmt skoðanakönnun sem Kjarninn gerði meðal allra 63 þingmanna í vikunni. Spurt var hver afstaða fólks væri til sölunnar.
Fjármunirnir sem eiga að fást fyrir söluna eru nú þegar í fjárlögum þessa árs, rúmlega 71 milljarður króna, sem á að fást fyrir 28,2 prósenta hlut ríkisins í bankanum.
Svarhlutfall þingmanna í könnuninni var nokkuð gott, um 75 prósent. Allir stjórnarandstöðuþingmenn eru á móti sölunni, þvert á flokka, að undanskildum þremur þingmönnum Bjartrar framtíðar.
Af þeim sem svöruðu er Willum Þór Þórsson eini þingmaður Framsóknarflokksins sem er hlynntur sölunni. Í rökstuðningi hans sagði Willium: „Meginmarkmiðið er að grynnka á skuldum ríkissjóðs, lækka vaxtabyrði útgjalda, að því gefnu; að einhver vilji eiga 28,2% á móti 70% eignarhlut ríkisins, og ásættanlegt verð fáist. Þá er svarið Já - en flýta sér hægt.”
Meðal annarra þingmanna Framsóknarflokks sem svöruðu er Silja Dögg Gunnarsdóttir. Hún vill að ríkið eigi að minnsta kosti einn banka sem rekinn yrði á samfélagslegum forsendum. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, er sama sinnis og er alfarið á móti sölunni. Elsa Lára Arnardóttir tekur undir með þeim og segir að fyrst þurfi að endurskipuleggja fjármálakerfið með neytendavernd í huga, aðskilja fjárfestingar- og viðskiptabanka og afnema verðtryggingu.
Þessar hugmyndir eiga margt sameiginlegt með afstöðu flestra þingmanna Vinstri grænna. Margir þeirra viðruðu einnig þá hugmynd að Landsbankinn yrði gerður að samfélagsbanka og þar má finna hljómgrunn á milli VG og Framsóknarflokks.
Björt framtíð er klofin til helminga í málinu.
Þeir Óttar Proppé. Róbert Marshall og Guðmundur Steingrímsson vilja allir selja, en leggja allir áherslu á að söluferlið verði opið, gagnsætt og vandað. Það rímar fullkomlega við afstöðu Sjálfstæðismanna í málinu, sem sögðu allir „já“ en fara varlega.
Þingmennirnir Páll Valur Björnsson, Brynhildur Pétursdóttir og Björt Ólafsdóttir eru hins vegar á móti sölunni og segja rétt að bíða.