Eftirlitsmyndavélarnar eru alls staðar: í verslunum, bönkum og fyrirtækjum, við íbúðarhús, á götum og torgum,við sumarbústaði, utan dyra og innan. Víða er það svo að fólk getur vart hreyft sig spönn frá rassi án þess að ein myndavél, og iðulega fleiri, festi það í tölvutengdu minni sínu.
Talið er að í Danmörku séu að minnsta kosti hálf milljón slíkra véla, einn af yfirmönnum rannsóknarlögreglunnar telur reyndar að þær séu miklu fleiri. Þá eru eftirlitsmyndavélar við og í heimahúsum og sumarhúsum ekki meðtaldar. Í Kaupmannahöfn eru hátt á fjórða hundruð þúsund slíkra véla sem fylgjast með ferðum borgaranna. Eigendur verslana og bensínstöðva setja upp eftirlitsmyndavélar til að reyna að draga úr þjófnuðum og upptökurnar er jafnframt hægt að nota ef þjófarnir nást. Bankarnir nota vélar til fylgjast með viðskiptavinunum, lögreglan notar þær, til að fá gleggri mynd af atburðarásinni ef til ryskinga kemur á götum úti. Flestir eru á einu máli um gagnsemi myndavélanna og kannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti almennings kærir sig kollóttan þótt fylgst sé með honum, telur vélarnar auka öryggi sitt.
Engin skráning
Eins og áður sagði eru eftirlitsmyndavélarnar yfir og allt um kring og fjölgar ört. Einfaldar eða með mörg „augu” dýrar og ódýrar, úrvalið er mikið og allir geta fundið það sem hentar. Í Danmörku getur hver sem er gengið inn í næstu verslun og keypt slíkt upptökutæki, án þess að nokkur spyrji til hvers eigi að nota gripinn. Engin skráning af neinu tagi fer fram, kassakvittunin gildir sem ábyrgðarskírteini, eins og lög gera ráð fyrir, en það er allt og sumt. Nafn kaupanda er ekki skráð, nema hann biðji sérstaklega um það, og enn síður hvar vélin verði sett upp. Seljendur hafa enga heimild til að spyrja um og skrá slíkt.
Ekki skortir reglurnar
Árið 2007 voru í Danmörku sett lög um notkun eftirlitsmyndavéla (videoovervågning). Þar er kveðið á um hvar og hvernig megi nota myndavélarnar, hvar megi taka upp og varðveita myndefni, hvar sé leyfilegt að nota myndavélar til að fylgjast með án þess að efnið sé varðveitt. Ef myndavélar eru til staðar þar sem almenningur, aðrir en starfsfólk fer um, t.d. í verslunum er skylt að hafa uppi skilti sem segir að eftirlitsmyndavélar séu í notkun. Starfsfólk á vinnustöðum sem almenningur fer ekki um að jafnaði þarf að samþykkja myndavélanotkun skriflega. Árið 2010 var bætt við lögin ákvæði um að leigubílar skuli undantekningalaust vera með upptökubúnað.
Lögreglan treysti á eftirlitsmyndavélar við leitina
Rúmt ár er liðið frá tilræðunum í Kaupmannahöfn þar sem Omar Hussein varð tveimur mönnum að bana.
Strax eftir fyrra tilræðið, síðdegis á laugardegi við samkomuhús á Austurbrú hófst mikil leit. Fjöldi fólks hafði næstu klukkustundirnar samband við lögreglu sem hafði í fjölmiðlum auglýst eftir upplýsingum sem að gagni gætu komið. Brátt kom í ljós að helstu haldreipi lögreglunnar voru upptökur úr eftirlitsmyndavélum, og vitnisburður leigubílstjóra sem ekið hafði tilræðismanninum að húsi á Norðurbrú eftir morðið á Austurbrú. Þrátt fyrir að lögreglan hafi fljótlega vitað hver tilræðismaðurinn var tókst honum að komast að samkomu-og bænahúsi gyðinga í miðborg Kaupmannahafnar skömmu eftir miðnætti 15. febrúar. Þar skaut hann gæslumann til bana en flúði síðan. Omar Hussein féll nokkrum klukkustundum síðar fyrir skotum lögreglu.
Engar upplýsingar til um staðsetningu og eigendur
Í ljósi þess hve mikilvægar myndir úr eftirlitsvélum reyndust í leit lögreglunnar að Omar Hussein hefur mikil athygli síðan beinst að þessu mikilvæga ”hjálpartæki” eins og einn af yfirmönnum lögreglunnar hefur kallað myndavélarnar. Í löngu viðtali við dagblaðið Berlingske sagði þessi sami yfirmaður að vélarnar væru að sínu mati ómetanlegar fyrir störf lögreglunnar. En hann sagði jafnframt nauðsynlegt að lögreglan byggi yfir upplýsingum um hvar eftirlitsmyndavélar væru staðsettar og hver hefði aðgang að þeim, slíkt gæti skipt sköpum þegar hver mínúta skipti máli. Í ljós hefði komið 14. febrúar í fyrra að litlar sem engar upplýsingar væru til um þær þrjú til fjögur hundruð eftirlitsmyndavélar sem væru vítt og breytt um Kaupmannahöfn. ”Það er myndavél á hverju horni en lögreglan hefur ekki hugmynd um hver á þessa vél og enn síður hvar hægt er að skoða upptökurnar”.
Hvað má mynda og hvað ekki?
Í áðurnefndum lögum frá árinu 2007 er tilgreint hvað má mynda og hvað ekki. Myndavél í verslun má ekki, samkvæmt lögunum, vera stillt þannig að á myndum sjáist fólk sem gengur um götu eða gangstétt fyrir framan. En það eru einmitt slíkar myndir sem komu lögreglunni að mestu gagni við leitina að Omari Hussein. Kona, sem á og rekur verslun í miðborg Kaupmannahafnar, og veitti mikilvæga aðstoð með því að hringja til lögreglunnar hafði ekki hugmynd um að myndir sem lögreglan taldi mjög mikilvægar væru í raun ólöglegar. ”Ég fékk fyrirtæki til að setja upp þessa vél í búðinni og hef aldrei velt því fyrir mér að þetta gæti verið ólöglegt” sagði konan. Á upptöku sést hvar maður sem reyndist svo vera Omar Hussein gengur framhjá búðinni. Þetta er ólögleg upptaka, myndhornið alltof gleitt og einskorðast ekki við það sem sést innandyra. Þetta er aðeins eitt dæmi.
Ráðherrann vill samvinnu um skrá
Lögreglan hefur í viðtölum sagt að það sé algjörlega útilokað að skoða þær mörg hundruð þúsund myndavélar sem vaka yfir borgurum Danmerkur til þess að kanna að þær myndi aðeins tiltekin svæði, til dæmis inni í verslunum. Slíkt kosti óhemju mannafla og fjármuni, sem lögreglan ráði ekki yfir, og þar að auki væri eigendum í lófa lagið að breyta stillingum vélarinnar um leið og ”myndavélaeftirlitið” væri horfið á braut. Nefnd á vegum lögreglunnar hefur undanfarna mánuði kannað hvernig eftirlitsmyndavélar geti best gagnast lögreglunni. Nefndin skilaði dómsmálaráðherra áliti sínu í vikunni. Þar er lagt til að kerfisbundið verði skráðar þær vélar, sem teljast á almannafæri og jafnframt hvern lögreglan geti haft samband við til að sjá upptökur þegar svo ber undir. Nefndin leggur til að þetta verði eins árs tilraunaverkefni og dómsmálaráðherrann hefur lýst sig fylgjandi þessari hugmynd. Nefndin nefnir ekki einu orði hvað sé löglegt varðandi upptökurnar, nokkrir þingmenn hafa í viðtölum sagt að réttast væri að breyta lögunum. Þingmaður Danska þjóðarflokksins sagði að enginn biði skaða af því þótt á einhverjum myndum bregði fyrir fólki á gangi en slíkt gæti gagnast lögreglunni, eins og komið hefði í ljós 14. febrúar í fyrra.