Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti lífeyrissjóður landsins, hafnaði því að framselja hluti sem hann átti í Kaupþingi fyrir hrun, og kröfuréttindi sem þeim fylgdu, til Samtaka sparifjáreigenda vegna máls sem þau hafa höfðað gegn fimm fyrrum stjórnendum og eigendum Kaupþings. Samtökin stefndu Kaupþingsmönnunum þann 9. febrúar síðastliðinn í prófmáli þar sem úr því á að fá skorist hvort fyrrum hluthafar Kaupþings eigi rétt á skaðabótum vegna markaðsmisnotkunar og blekkinga bankans, sem forsvarsmennirnir hafa verið dæmdir sekir fyrir.
Til þess að geta rekið prófmálið þurftu Samtök sparifjáreigenda að fá framseld hlutabréf og kröfuréttindi í Kaupþingi, enda áttu þau engin slík. Þau leituðu því til lífeyrissjóða landsins sem átt höfðu hlut í Kaupþingi og buðu föluðust eftir kröfunni. Í því bréfi kom fram að samtökin myndu bera kostnaðinn af málarekstrinum en að sjóðirnir myndu fá ávinninginn ef málið myndi vinnast. Einn lífeyrissjóður ákvað að framselja kröfu sína með þessum hætti, Stapi lífeyrissjóður. Stefnan byggir því að endurheimta mismun kaupverðs Staða á bréfum í Kaupþingi annars vegar og hins vegar söluverð og arð af bréfunum síðasta árið áður en bankinn féll. Sú upphæð nemur 902 milljónum króna.
LSR, sem var á meðal 20 stærsta eigenda Kaupþing fyrir hrun og átti eign í bankanum sem var metin á 17,3 milljarða króna við hrun, vildi hins vegar ekki taka þátt.
Hægt er að lesa stefnuna í heild sinni hér.
Fengu álitsgerð lögfræðings
Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, staðfestir að sjóðurinn hafi hafnað því að framselja kröfu sína til Samtaka sparifjáreigenda þegar þau óskuðu eftir því. „Niðurstaða okkar var sú að verða ekki við beiðni þeirra. Við fengum meðal annars álitsgerð frá utanaðkomandi lögfræðingi og tókum ákvörðun út frá henni.“
Hann vill ekki segja af hverju lífeyrissjóðurinn hafi ákveðið að taka ekki þátt í málarekstrinum. „Það eru einhverjir lífeyrissjóðir og einstaklingar í málarekstri. Það er ekki eðlilegt að við séum að tjá okkur um þessa ákvörðun á meðan að svo er.“
Stefna Samtaka sparifjáreigenda gengur út á að stjórnendurnir fimm sem stefnt er, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrum starfandi stjórnarformaður bankans, Ingólfur Helgason, fyrrum forstjóri Kaupþings á Íslandi, Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem var næst stærsti eigandi bankans, hafi viðhaldið of háu markaðsverði á hlutum í Kaupþingi með allskyns gjörðum.
Í stefnunni segir m.a. að þetta hafi verið gert með endurfjármögnun á skuldum Ólafs Ólafssonar til að koma í veg fyrir að eignarhlutur hans færi á markað, með Al Thani-snúningnum, þar sem sjeik frá Katar var lánað til að kaupa 5,01 prósent hlut í Kaupþingi með veði í bréfunum en látið var líta út sem að um fjárfestingu væri að ræða, með því að lána fyrir kaupum á hlut Gnúps í Kaupþingi þegar það félag fór á hliðina án annarra veða en í bréfunum sjálfum og með því að lána tugi milljarða króna til starfsmanna Kaupþings svo þeir gætu keypt bréf í bankanum, en þau lán voru upprunalega með takmarkaðri, og svo engri, persónulegri ábyrgð. Rauði þráðurinn er sá að Kaupþing hafi lánað gríðarlegar fjárhæðir til kaupa á eigin bréfum til að halda verði þeirra uppi og einungis tekið veð í bréfunum sjálfum.
Í stefnunni segir: „Veð Kaupþings í eigin hlutabréfum námu að jafnaði verðmæti milli 200 til 300 milljarða. Þrátt fyrir lækkandi hlutabréfaverð bankans árið 2007 hélst markaðsvirði á eigin bréfum nánast stöðugt síðasta árið fram að falli bankans. Er skýringin skv. Rannsóknarskýrslu Alþingis að verðmæti Kaupþings í eigin bréfum hafi í lok september 2008 numið alls um 214 milljörðum króna eða sem nam 42% af öllum hlutabréfum bankans. Sem dæmi má nefnda að síðasta árið fyrir fall bankans keypti bankinn hlutabréf í sjálfum sér fyrir 96 milljarða króna.“
Segja bankanum hafa verið skuggastýrt um árabil
Héraðsdómur hefur dæmt hluta þeirra manna sem stefnt er í málinu seka fyrir stórfellda markaðsmisnotkun sem staðið hafi yfir um langt skeið. Sú niðurstaða bíður þess að vera tekin fyrir af Hæstarétti. Auk þess voru allir stefndu utan Ingólfs dæmdir til margra ára fangelsisvistar fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í Al Thani-málinu svokallaða.
Á grunni þessarra niðurstaðna stefndu Samtök sparifjáreigenda mönnunum. „Að mati stefnanda er ljóst af téðum sakamálum á hendur stefndu, sem voru gríðarlega stórir hluthafar í Kaupþingi, hafi haft ríkan og einbeittan ásetning til þess að koma í veg fyrir að mikið magn af hlutabréfum í bankanum fær til sölu á almennan verðbréfamarkað. Hafi þeir m.a. beit bankanum fyrir sig til að koma í veg fyrir að mikið framboð af hlutabréfum bankans færi á markað með tilheyrandi verðlækkun bréfanna. Hafi þeir þannig tryggt óeðlilegt verð á hlutabréfum í bankanum.“
Eigin hlutir, sem Kaupþing keypti eða fjármagnaði, hafi ekki verið dregnir frá eigin fé bankans eins og lögskylt hafi verið. Ef gætt hefði verið að þessari lagaskyldu hefði eigið fé Kaupþings verið mun lægra skráð en það var, og jafnvel undir lögbundnu markmiði. Ef gætt hefði verið að þessari lagaskyldu hefði eigið fé Kaupþings verið mun lægra skráð en það var, og jafnvel undir lögbundnu markmiði. „Það hefði mögulega þýtt sviptingu starfsleyfis og afskráningar strax árið 2006“.
Í stefnunni segir enn fremur að Hreiðar Már, Sigurður og Ingólfur hafi borið ríkar trúnaðar- og eftirlitsskyldur sem stjórnarformaður og framkvæmdastjórar bankans. „Í því fólst ábyrgð og eftirlit með því að starfsemi bankans færi í hvívetna að lögum. Stefndu Hreiðar Már og Sigurður voru auk þess í lánanefnd bankans, en þar gegndi Sigurður formennsku, og báru þeir einnig ríka ábyrgð sem slíkir þegar kom að lánveitingum út á eigin bréf félagsins. Stefndi Ólafur var næst stærsti hluthafi bankans frá öndverðu og skuggastýrði honum í eigin þágu um árabil.“
Al Thani-viðskiptin efldu tiltrú
Leitað var sérstaklega til LSR vegna þess að sjóðurinn átti viðskipti með bréf í Kaupþingi eftir að tilkynnt var um hin svokölluðu Al Thani-viðskipti hinn 22. september 2008. Kaup Al Thani voru talin hafa eflt tiltrú á íslensku efnahagslífi, enda áttu þau að sýna að auðugir og umsvifamiklir erlendir fjárfestar hefðu trú á því að íslenskur banki myndi lifa af efnahagsóværðina sem geisaði haustið 2008. Nokkrum dögum síðar var Kaupþing hins vegar fallinn.
Haukur segir að LSR hafi í nokkra mánuði, í aðdraganda hruns bankanna, verið „á sölutakkanum“ þegar kom að bréfum í þeim. „Nokkrum dögum eftir Al Thani-viðskiptin seljum við smávegis og aftur um viku síðar. Svo eru ein viðskipti þar sem við keyptum sem áttu sér stað eilítið seinna. Þá voru við að færa eign milli félaga enda vorum við, eins og aðrir, að velta því fyrir okkur hverjir myndu lifa af og hverjir ekki.“
Ríkið ætlar ekki í skaðabótamál vegna Al Thani-dóms
Kjarninn greindi frá því í byrjun febrúar að íslenska ríkið ætlaði sér ekki að höfða skaðabótamál á hendur slitabúi Kaupþings vegna þess tjóns sem ríkið varð fyrir í tengslum við fall Kaupþings. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í kjölfar dóms Hæstaréttar í Al Thani-málinu svokallaða fyrir tæpu ári fyrr að hann vildi skoða hvort ríkið ætti mögulega bótakröfu vegna þessa. Í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið sagði fjármála- og efnahagsráðuneytið hins vegar að það hafi metið málið sem svo að ekki væru forsendur fyrir höfðun skaðabótamáls á hendur þrotabúi Kaupþings vegna málsins þar sem skaðabætur væru almennar kröfur og lúti vanlýsingaráhrifum.
Samtök sparifjáreigenda líta hins vegar svo á, og reka þar af leiðandi ofangreint prófmál fyrir héraðsdómi, að hægt sé að sækja slíkar skaðabætur beint til forsvarsmanna Kaupþings.