Danskur skipaeftirlitsmaður hefur nafngreint tvo menn sem hann fullyrðir að hafi kveikt í farþega-og bílferjunni Scandinavian Star fyrir tæpum 26 árum með þeim afleiðingum að 159 létust. Margir telja að tilgangurinn hafi verið tryggingasvik en eldar kviknuðu á mörgum stöðum. Norsk rannsóknarnefnd komst á sínum tíma að þeirri niðurstöðu að danskur flutningabílstjóri hefði átt sök á brunanum en dró þá niðurstöðu til baka í hitteðfyrra. Bílstjórinn var meðal þeirra sem létust. Nú eru að minnsta kosti tvær rannsóknir vegna brunans í gangi.
Áhöfnin ný og óreynd
Að kvöldi föstudagsins 6. apríl 1990 lét Scandinavian Star úr höfn í Ósló áleiðis til Frederikshavn á Jótlandi. Brottför seinkaði um rúmar tvær klukkustundir. Um borð voru 383 farþegar og 99 manna áhöfn, einnig tugir flutninga-og fólksbíla. Ástæða þess að brottför dróst var að áhöfnin var ný og ókunnug skipinu sem hafði einungis farið örfáar ferðir milli Noregs og Danmerkur. Margir farþeganna fengu lykla sem pössuðu ekki að klefunum og fleira varð til að seinka för skipsins. Scandinavian Star hafði nýlega verið breytt í farþegaferju en skipið hafði áður hýst spilavíti. Stór hluti farþeganna var fjölskyldufólk á leið í páskafrí og margir létu sér þessa seinkun í léttu rúmi liggja. Flestir gengu til náða um miðnætti.
Fyrsti bruni 7. apríl kl. 01.55
Farþegar sem voru á stjái á fjórða þilfari sáu að utan við farþegaklefa 416 logaði í sængurfatnaði og teppum. Fólkinu tókst að slökkva eldinn í þann mund sem nokkrir úr áhöfninni komu aðvífandi. Greinilegt var að eldurinn var af mannvöldum en skipstjórinn gerði engar sérstakar ráðstafanir, til dæmis að hafa vaktmenn á göngum og þilförum.
Annar bruni 7. apríl kl.02.08 - aðalbruninn
Ekki voru liðnar tíu mínútur frá því að fyrsti eldurinn uppgötvaðist þangað til vart varð við eld á farþegagangi stjórnborðsmegin á öðru þilfari. Engir farþegar voru á þessum gangi vegna þess að verið var að standsetja klefana. Síðar kom í ljós að þarna hafði kviknað í pappír, rúmfötum og teppum. Eldurinn breiddist mjög hratt út og hitinn náði víða 200 gráðum. Vegg-og loftklæðningar, sem voru úr mjög eldfimum efnum fuðruðu upp og eiturgufur og baneitraður reykur áttu greiða leið um ganga þar sem flestir farþeganna voru í fasta svefni en eldvarnardyr stóðu allar opnar. Einnig höfðu dyr við bílaþilfar skipsins verið opnaðar og súrefnið sem þar barst inn magnaði eldinn. Sérstakur kubbur eða klossi hélt dyrunum opnum, einungis áhöfnin átti að vita hvar þessi klossi væri geymdur. Við rannsókn kom í ljós að reykurinn var svo eitraður að fólk missti meðvitund á 30 sekúndum og lifði í mesta lagi 3 mínútur. Í skýrslu yfirvalda var fullyrt að 158 hefðu látist á fyrsta hálftímanum eftir að eldurinn braust út, einn til viðbótar lést síðar á sjúkrahúsi. Lang flestir úr reykeitun. Það var því ekki að ástæðulausu að þessi eldsvoði var síðar kallaður aðalbruninn. Elsti farþeginn sem lést var 79 ára, sá yngsti nokkurra mánaða, 136 þeirra sem létust voru Norðmenn. Klukkan 04.20 höfðu allir sem lifðu af yfirgefið skipið. Farþegar og áhöfn.
Slökkviliðið kemur
Skömmu eftir að áhöfnin og farþegarnir sem lifðu af yfirgáfu skipið kom sænskt slökkvilið um borð í skipið. Fyrsta verk þess var að kanna hvort einhverjir væru á lífi um borð. Fljótlega fundust tveir Portúgalar sem sögðust hafa verið sofandi og ekki vaknað fyrr en allir voru farnir frá borði. Þegar þetta var logaði enn á mörgum stöðum í skipinu. Þegar sænska slökkviliðið, og norskt slökkvilið sem þá var komið til aðstoðar, hafði barist við eldinn drjúga stund tók skipið að halla, ástæða þess var að mikið vatn safnaðist fyrir á efstu þilförum þess.
Skipstjórinn og vélstjórinn aftur um borð
Flestir yfirmenn Scandinavian Star höfðu ásamt áhöfn skipsins verið fluttir yfir í skipið Stena Saga. Nú gerðist það að skipstjórinn, yfirvélstjórinn, vélstjórinn og rafvirkinn voru fluttir, með þyrlu, til baka á hið brennandi skip. Rafvirkinn taldi að þeir gætu aðstoðað við slökkvistarfið og veitt ráðleggingar. Þegar þremenningarnir voru komnir til baka um borð í Scandinavian Star upphófust deilur. Yfirvélstjórinn fullyrti að ef dæla ætti vatninu sem safnast hafði fyrir á efstu þilförum Scandinavian Star burt yrði að stöðva slökkvidælurnar. Það var gert en þá blossaði eldurinn upp aftur. Seinna komst slökkviliðsstjórinn, Ingvar Brynfors, að því að fullyrðing yfirvélstjórans stóðst ekki, dælurnar sem dældu burt vatninu af þilförunum og slökkvidælurnar gátu samtímis verið í gangi. Hann sagði jafnframt frá því að að yfirvélstjórinn og vélstjórinn hefðu um þetta leyti horfið „gufað upp“. Rafvirkinn áðurnefndi hélt því fram að dyrnar á göngum skipsins yrðu að vera lokaðar en slökkviliðsmenn hefðu opnað þær og sett þar sérstakan hurðastoppara (fleyg) til að hurðirnar myndu ekki hindra rennslið í vatnsslöngunum.
Þriðji eldurinn
Um hádegisbil á laugardeginum taldi slökkviliðið að tekist hefði að ráða niðurlögum eldsins og dráttarskip sem höfðu tekið Scandinavian Star í tog stefndu til lands. Slökkviliðsmenn voru enn um borð í skipinu en einungis þrír eða fjórir úr áhöfninni. Um þrjúleytið gaus upp eldur á einum farþegaganginum, rúmum hálfum sólarhring eftir að fyrsti bruninn varð. Hitinn var að sögn slökkviliðsmanna gífurlegur enda brann allt sem brunnið gat á ganginum og í klefunum þar sem lík þeirra sem létust af völdum reykeitrunar í aðalbrunanum lágu. Ingvar Brynfors slökkviliðsstjóri sagði síðar að enginn hefði skilið hvernig þessi eldur kviknaði og að hann og sínir menn væru handvissir um að þetta væri enn ein íkveikjan.
Fjórði eldurinn
Um klukkan hálf tíu á laugardagskvöldinu, 7. apríl var Scandinavian Star komið að bryggju í sænska smábænum Lyseki. Ingvar Brynfors hélt ásamt liði sínu frá borði eftir að hafa farið um allt skipið og fullvissað sig um að hvergi leyndist glóð. En ekki var þó allt búið enn; um klukkan hálf fjögur um nóttina gaus upp mikill eldur. Hann kviknaði í eða við veitingastað undir brú skipsins og breiddist hratt út til áhafnarklefanna sem voru á gangi við veitingastaðinn. Slökkvilið barðist við þennan eld klukkustundum saman og það var ekki fyrr en undir hádegi á sunnudeginum 8. apríl að tekist hafði að ráða niðurlögum hans.
Rannsóknin
Fljótlega eftir að tekist hafði að slökkva eldinn á sunndagsmorgninum kom Flemming Thue Jensen skipaeftirlitsmaður um borð í ferjuna til að rannsaka verksummerki. Hann sá strax margt sem vakti grunsemdir. Það fyrsta sem hann rak augun í var að rúmbotnar úr járni höfðu verið lagðir í eldvarnadyrnar, þær lokuðust því ekki þegar skipstjórinn ætlaði að loka þeim með þartilgerðum búnaði, úr brúnni. Trekkurinn magnaði eldinn og ólokaðar dyrnar opnuðu eldinum leið um skipið. Flemming Thue sá líka klossann sem settur hafði verið við hurðina til að hún gæti ekki lokast og hann vissi hvar þessi klossi var geymdur og jafnframt að einungis áhöfnin vissi um þann geymslustað.
„Mér varð semsé strax ljóst að eldsvoðarnir í ferjunni væru af mannavöldum.“ Þegar skipaeftirlitsmaðurinn fór upp næsta þilfar, þar sem þriðji bruninn varð sá hann að rör sem flytur vökva fyrir lyftubúnað í skipinu var í sundur. Undir þeim stað voru rúmbotnar úr járni (dýnurnar sjálfar höfðu brunnið) sem eftirlitsmanninn grunaði að hefðu verið notaðar til komast að rörinu. Síðar fundust leifar af olíu, sem Flemming Thue Jensen telur að hafi verið dælt í gegnum áðurnefnt rör til að magna eldinn. Allt sem honum þótti athugavert skráði hann í litla bók sem hann hafði í vasanum.
Þegar Flemming Thue skipaeftirlitsmaður áttaði sig á því þegar þriðji eldurinn kviknaði voru einungis þrír eða fjórir úr áhöfn skipsins um borð lagði hann saman tvo og tvo: brennuvargurinn hlyti að vera einn þessara manna. Á þeim tíma vissi hann ekki að skömmu eftir að Scandinavian Star lagðist að bryggjunni í Lysekil sá fólk nokkra menn fara í mikilli skyndingu frá borði og hraða sér á brott. Enginn veit enn þann dag í dag með fullri vissu hvaða menn voru þarna á ferð en margt bendir til að það hafi verið áðurnefndir skipverjar.
Greindi lögreglu frá grunsemdum
Þann 10. apríl hafði Flemming Thue Jensen lokið rannsókn sinni og ætlaði að greina yfirmanni sænsku rannsóknarlögreglunnar í Lysekil frá niðurstöðum sínum. Yfirmaðurinn var ekki á staðnum en Flemming Thue Jensen sagði norskum lögreglumanni stuttlega frá niðurstöðum sínum. Nefndi sérstaklega fleyginn sem settur hafði verið við hurðina og vökvarörið. „Mitt verk var að skýra frá staðreyndum, ekki að álykta.“
Hvort norski lögreglumaðurinn kom frásögninni á framfæri við yfirmanninn veit Flemming Thue ekki.
Sjórétturinn
Þegar Flemming Thue Jensen kom til Kaupmannahafnar að kvöldi 10. apríl 1990 hitti hann yfirmenn sína hjá Siglingamálastofnuninni. Þar var honum sagt að þegar hann kæmi fyrir Sjóréttinn ætti hann að takmarka frásögn sína við aðalbrunann (bruna 2) sem varð 159 manns að bana.
Daginn eftir, í Sjóréttinum, nefndi hann þó að það væru fleiri atriði sem vert væri að skoða en tilgreindi það ekki nánar. Hann nefndi líka síðar þetta með rörið og hurðaklossann við norska rannsóknarmenn „en þeir höfðu ekki áhuga fyrir að hlusta á mínar skýringar“.
Norska lögreglan yfirheyrði Flemming Thue Jensen aldrei en það kom í hennar hlut að upplýsa málið.
Danski bílstjórinn
Í mars 1991 tilkynnti norska lögreglan að rannsókn málsins væri lokið. Danskur vörubílstjóri, Erik Mörk Andersen, hefði verið valdur að aðalbrunanum en bílstjórinn var meðal þeirra 159 sem létust. Norska lögreglan komst líka að þeirri niðurstöðu að síðari brunarnir hefðu verið afleiðing aðalbrunans.
„Ég gapti af undrun þegar ég heyrði og sá yfirmann norsku lögreglunnar segja frá þessu í sjónvarpi“ sagði Flemming Thue Jensen síðar. Hann ákvað að tala ekki um málið framar og minntist ekki á það við nokkurn mann árum saman.
Ættingjar mjög ósáttir
Ættingjar margra þeirra sem létust um borð í Scandinavian Star hafa aldrei sætt sig við niðurstöður norsku lögreglunnar. Þeir stofnuðu fyrir þremur árum samtök með það fyrir augum að fá málið tekið upp aftur og það tókst á endanum. Árið 2014 tilkynnti norska lögreglan að hún hefði ekki sannanir fyrir því að danski bílstjórinn Erik Mörk Andersen hefði átt sök á brunanum.
Ákvað að segja frá vitneskju sinni
Flemming Thue Jensen sat í stofunni heima hjá sér í Frederikshavn og horfði, einsog iðulega, á sjónvarpsfréttirnar. ”Ég hrópaði upp að þeir væru hálfvitar og var nærri dottinn af stólnum”. Þannig lýsir Flemming Thue Jensen viðbrögðum sínum þegar hann heyrði yfirmann norsku lögreglunnar segja frá því að hún hefði engar sannanir gegn danska bílstjóranum. Jafnframt tilkynnti norska lögreglan að ný rannsókn yrði sett í gang. Niðurstöður hennar eiga að liggja fyrir síðsumars.
Þegar þetta lá fyrir ákvað Flemming Thue Jensen að segja frá því sem hann vissi. Hann taldi sig þó ekki geta það fyrr en hann yrði kominn á eftirlaun, nokkrir mánuðir eru nú síðan það varð. Hann hefur þegar hitt norska rannsóknarnefnd og nafngreint tvo menn sem hann kveðst fullviss um að beri ábyrgð á því sem gerðist um borð í ferjunni.
Margir hafa gagnrýnt Flemming Thue Jensen fyrir að hafa ekki rætt um vitneskju sína fyrr en nú. Hann svarar því til að það hafi hann vissulega gert en þá hafi menn ekki viljað hlusta. Sem embættismaður hafi hann ekki getað talað um þetta umfram það sem hann gerði strax í upphafi. Nú, þegar hann væri hættur og málið tekið upp aftur, gæti hann hinsvegar sagt frá öllu sem hann vissi. Nöfnum mannanna sem hann telur ábyrga hefur hann þó einungis greint rannsóknarnefndinni frá. Frásögn hans, fyrir nokkrum dögum, rataði samstundis í nær alla norræna fjölmiðla og hefur vakið mikla athygli.
Tryggingasvik?
Strax eftir brunann í apríl 1990 heyrðust raddir um að bruninn hefði verið ”pöntuð aðgerð”, til að fá tryggingabætur. Á sínum tíma fékkst enginn botn í þessar tilgátur en hugsanleg tryggingasvik eru meðal þess sem rannsóknin nú beinist að.
Skipið Scandinavian Star var smíðað í Frakklandi árið 1971, hét þá Massalia. Gat tekið tæplega 900 farþega og allt að 250 bíla. Sigldi fyrstu árin milli Marseille, Malaga og Casablanca. Skipið var síðan um nokkurra ára skeið í eigu Stena Cargo Line undir nöfnunum Stena Baltica og Island Fiesta. Árið 1984 fékk skipið nafnið Scandinavian Star og sigldi þá á milli St. Pétursborgar og Mexíkó. Nýir eigendur tóku við skipinu í mars 1990 og það hafði farið nokkrar ferðir milli Óslóar og Frederikshavn þegar bruninn varð. Eftir brunann var skipið endurbyggt, hóf siglingar á ný 1994 en tekið úr notkun sjö árum síðar og selt í brotajárn árið 2004.