Ný spá Íslandsbanka um ferðaþjónustuna á Íslandi gerir ráð fyrir að gjaldeyristekjur vegna hennar á þessu ári, verði 428 milljarðar króna og sem hlutdeild af heildarútflutningi verði hún 34 prósent. Á fimm árum hefur hlutdeildin í útflutningi næstum tvöfaldast en hún var 18 prósent árið 2010. Þetta kemur fram í viðamikilli skýrslu bankans um ferðaþjónustu og vægi hennar í atvinnulífi þjóðarinnar.
Þetta sýnir glögglega hversu viðamikil atvinnugrein ferðaþjónustan er orðin á Íslandi. Árið 2009 kom til landsins 464 þúsund erlendir ferðamenn, en í fyrra voru þeir 1,3 milljónir. Gangi spá Íslandsbanka eftir þá munu þeir verða rúmlega 1,6 milljónir á þessu ári og verður fjölgunin 29 prósent. Spáin gerir ráð fyrir að um 30 þúsund erlendir ferðamenn séu á landinu á hverjum degi, að meðaltali, allt árið.
Þriðja hvert nýtt starf sem hefur orðið til í íslenska hagkerfinu, á síðastliðnum árum, má rekja til ferðaþjónustu.
Bretar og Bandaríkjamenn
Fleira má telja til, sem sýnir glögglega hversu umfangsmikil ferðaþjónustan er hér á landi. Kortavelta erlendra ferðamanna í fyrra var 154,4 milljarðar króna, sem eru um 13 milljarðar í hverjum mánuði. Aukningin frá fyrra ári var 35,4 prósent, sem er hlutfallslega meira en sem nam fjölgun ferðamanna.
Breskum og Bandarískum ferðamönnum hefur fjölgað langsamlega mest á undanförnum fimm árum. Sé miðað við árið 2010, þá hefur erlendum ferðamönnum fjölgað um 800 þúsund, og eru Bretar og Bandaríkjamenn tæplega helmingurinn af þeim fjölga, eða sem nemur 372 þúsundum. Þegar horft er til heildarfjölda ferðamanna á heimsvísu á ári, þá er Ísland lítill fiskur í stórri tjörn. Heildarfjöldi ferðamanna á ári er tæplega 1,2 milljarðar. Um það bil einn af hverjum þúsund ferðamönnum í heiminum ákveður að koma til Íslands.
Airbnb vex hratt
Í lok nóvember á árinu 2015 var fjöldi skráðra gistirýma á gistiþjónustusíðunni Airbnb í Reykjavík 2.681 en þau voru 1.188 í desember á árinu 2014 og hefur því skráðum gistirýmum fjölgað um 126% á tæpu ári, að því er segir í skýrslunni. Þessi mikla fjölgun bætist við hraða uppbyggingu á hótelum, einkum í Reykjavík. Þegar horft er yfir heildar í gistinóttum, þá eru 42 prósent af öllum gistinóttum ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu en 58 prósent á landsbyggðinni.
Fjölgun ferðamanna hefur hins vegar verið mikil í Reykjavík og þörf á því að auka við gistirými augljós. Hvort of hratt sé farið, verður að koma í ljós, en miðað við spár um fjölgun þá virðist vera full þörf fyrir mikla uppbyggingu til að mæta eftirspurnaraukningu.
Krefjandi verkefni
Sé mið tekið af þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu Íslandsbanka, og raunar einnig í fleiri spám sem birst hafa að undanförnu, þá er brýnt fyrir íslensk stjórnvöld að skapa skýra stefnu um innviðauppbyggingu í ferðaþjónustunni. Umfang hennar er orðið það mikið, að fjárfestingar, t.d. í þjóðgörðum og á fleiri álagspunktum, virðast ekki þola mikla bið, en hafið er mikið uppbyggingartímabil á Keflavíkurflugvelli þar sem tugmilljarða framkvæmdir eru hafnar, og er þeim ætlað að mæta stórauknu álagi á vellinum.
Stjórnstöð ferðmála, sem komið var á fót í október á síðasta ári, vinnur að frekari stefnumótun og forgangsröðun verkefna.
Í stjórnstöðinni eiga Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra og Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, sæti fyrir hönd stjórnvalda.
Þá eru Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og einn stærsti eigandi Bláa lónsins, Þórður Garðarsson, varaformaður, Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF, og Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, einnig með sæti á þessum vettvangi.
Hörður Þórhallsson, fyrrum framkvæmdastjóri Actavis, var ráðinn framkvæmdastjóri Stjórnstöðvarinnar.