Kynblönduð hjónabönd þykja víðast hvar ekkert tiltökumál í dag. Áður fyrr þóttu þau mikið tabú og gátu jafnvel splundrað fjölskyldum. Eitt slíkt hjónaband um miðja seinustu öld var svo eldfimt að það olli milliríkjadeilu. Saga Khama-hjónanna er saga af fólki sem gafst ekki upp fyrir ofurvaldi og vann sigur fyrir sig og land sitt, Botswana.
Jazzinn batt þau saman
Það var á dansleik hjá Trúboðssamtökum Lundúna árið 1947 sem Ruth Williams og Seretse Khama hittust í fyrsta skipti. Hún var þá 23 ára gömul og hann tveimur árum eldri. Það var fyrir tilstilli Muriel, systur Ruth, að þau kynntust en Ruth leist ekkert á Seretse í upphafi. Þau áttu þó eitt sameiginlegt áhugmál, þ.e. brennandi áhuga á jazz-tónlist. Seretse varð strax hrifinn af Ruth og þau héldu áfram að hittast næstu mánuði. Á endanum urðu þau ástfangin frá toppi til táar og árið 1948 giftu þau sig. Þetta hjónaband var þó sannarlega enginn hægðarleikur því að bakgrunnur þeirra hefði varla getað verið ólíkari.
Ruth ólst upp á hefðbundnu millistéttarheimili í Lundúnum. Faðir hennar George hafði áður verið í breska hernum í Indlandi en vann síðar við að markaðssetja kaffi og te. Móðir hennar Dorothy var heimavinnandi húsmóðir. Þau voru kirkjurækið fólk sem fór lítið fyrir. Ruth fékk þó að kynnast lífinu strax á unglingsaldri þegar seinni heimstyrjöldin skall á. Heimili þeirra varð fyrir loftstprengju Þjóðverja og það þurfti að rífa það og Ruth gekk í heimavarnarlið kvenna þar sem hún keyrði sjúkrabíl í sprengjuregninu. Þessi reynsla mótaði lífsviðhorf hennar og hún átti eftir að verða tengd hjálparstarfi og góðgerðarmálum alla tíð síðan. Eftir stríðið fékk hún vinnu hjá tryggingamarkaðinum Lloyds of London sem afgreiðslukona.
Seretse Goitsebeng Maphiri Khama fæddist og ólst upp í suðurhluta Afríku, í landi sem í dag heitir Botswana. Á þeim tíma var landið nýlenda sem nefndist Bechuanaland og hafði verið undir yfirráðum Breta síðan 1885. Líkt og víða annars staðar í Afríku er Botswana ættbálkasamfélag og Seretse fæddist sem prins inn í voldugasta ættbálk landsins, Bamangwato. Faðir hans var Sekonga Khama II, höfðingi Bamangwato ættbálksins og móðir hans drottningin Tebogo. Sekonga lést þegar Seretse var einungis fjögurra ára gamall. Þar sem hann var of ungur til að taka við stjórn ættbálksins stýrði föðurbróðir hans, Tshekedi Khama, í hans stað þar til Seretse hafði lokið námi. Seretse var sendur bæði til Suður Afríku og Bretlands til náms og hann var einmitt í laganámi við Oxford háskóla þegar hann kynntist Ruth.
Fjölskyldurnar æfar
Á fimmta áratug seinustu aldar voru hjónabönd fólks af ólíkum kynþáttum vitaskuld algjört tabú. Presturinn sem hafði lofað að gifta þau gugnaði á seinustu stundu þegar nokkrir safnaðarmeðlimir hótuðu að mótmæla við athöfnina. Hann vísaði málinu til biskups sem vildi heldur ekki gifta þau. Ruth og Seretse þurftu því að leita til sýslumanns til að binda hnútinn. Kirkjan var ekki eini aðilinn sem úthýsti hjónunum. Þegar Ruth sagði föður sínum frá ráðahagnum brást hann ákaflega illa við og rak hana út af heimilinu. Einnig var henni sagt upp hjá Lloyds of London. Hjónin og þá sérstaklega Ruth lentu ítrekað í því að ókvæðisorð voru hrópuð að þeim á götum úti. Fólki bauð við því að sjá hvíta stúlku með svörtum manni og var Ruth oft kölluð ódýr dræsa og þvíumlíkt.
Fjölskylda Seretse tók fréttunum engu betur og þá sérstaklega ekki föðurbróðir hans Tshekedi. Þegar Tshekedi komst að hjónabandinu heimtaði hann að Seretse kæmi undir eins heim til Bechuanalands og giftingin yrði dæmd ógild. Innan ættbálkasamfélagsins er kona höfðingjans álitin móðir alls samfélagsins. Tshekedi sagði að hvít kona gæti aldrei orðið móðir Bamangwato fólksins. Hann kallaði því saman svokallað kgotla, sem er opinber fundur innan ættbálks þar sem skorið er úr um hin ýmsu málefni. Seretse flaug heim án Ruth til að verja sig á samkomunni en Tshekedi sagði að ef hann kæmi með hvítu konuna sína myndu þeir frændur þurfa að berjast til dauða. Samkoman var fámenn og 14 af 15 æðstu mönnum höfnuðu hjónabandinu. Seretse sneri því aftur til Bretlands án stuðnings samfélags síns og staða hans sem framtíðarhöfðingja í lausu lofti.
Þá barst Seretse sá kvittur að Tshekedi hefði alltaf ætlað að verða höfðingi sjálfur og hjónaband Seretse og Ruth hefði verið fullkomin afsökun fyrir hann til að ræna völdum. Seretse sneri því aftur til Bechuanalands en nú ásamt eiginkonu sinni. Þá gerðist það að Ruth hreinlega heillaði alla upp úr skónum. Seretse kallaði til annað kgotla þar sem þúsundir manna mættu. Seretse ávarpaði samkomuna og bað þá að standa upp sem ekki samþykktu konu hans. 40 manns stóðu upp. Þá bað hann þá að standa upp sem samþykktu hana. Um 6000 manns stóðu upp og klöppuðu í 10 mínútur. Tshekedi var algerlega sigraður maður og neyddist til að flytja af svæðinu. Khama hjónin höfðu nú ótvíræðan stuðnings samfélagsins á bakinu. Auk þess var hjónabandið byrjað að gefa ávöxt. Hjónin áttu á komandi árum þrjá syni og eina dóttur. En vandamál þeirra voru rétt að hefjast því brátt átti hjónabandið eftir að verða að alþjóðlegu þrætuepli.
Ríkisstjórnir skipta sér af
Árið 1948 var ekki einungis árið þar sem Khama hjónin giftu sig heldur líka árið þar sem Búarnir komust til valda í Suður Afríku og komu á hinni alræmdu kynþáttaaðskilnaðarstefnu apartheid. Það hafði verið lengi á stefnuskránni að nýlendan Bechuanaland myndi sameinast fyrrum nýlendunni Suður Afríku. Suður Afríkumenn sóttu hart að þessu en Bretar reyndu þó að tefja flutninginn, sérstaklega eftir að apartheid var komið á. Leiðtogar Suður Afríku gátu því ekki þolað það að einn voldugasti ættbálkahöfðingi á verðandi landsvæði þeirra ætti hvíta eiginkonu. Daniel Francois Malan, forsætisráðherra Suður Afríku og einn af hugmyndafræðingum apartheid, sagði að hjónabandið vekti hjá sér ógleði og þrýsti á bresk yfirvöld að beita sér gegn því. Sir Godfrey Huggins, forsætisráðherra Suður Rhódesíu (nú Zimbabwe) þar sem einnig var kynþáttaaðskilnaðarstefna, mótmælti ráðahagnum einnig og sagði það skelfilegt að þessi „náungi“, þ.e. Seretse myndi ná völdum.
Bresk yfirvöld voru komin í mikla klípu vegna málsins. Efnahagurinn var í molum eftir seinni heimstyrjöldina og Bretar voru mjög háðir Suður Afríku og öðrum samveldisþjóðum varðandi verslun. Auk þess hræddust Bretar það að Suður Afríkumenn myndu nýta sér málið til þess að taka Bechuanaland strax yfir, jafnvel með hervaldi. Khama hjónin voru því mikill þyrnir í síðu breskra stjórnvalda. Hvorki verkamannstjórn Clements Atlee (1945-1951) né íhaldsstjórn Winstons Chuchill (1951-1955) gat leyst málið með sómasamlegum hætti. Þegar Khama hjónin sneru aftur til Lundúna var Seretse boðin árleg og skattfrjáls peningaupphæð, 1000 sterlingspund, frá breska ríkinu ef hann afsalaði sér höfingjastöðunni í heimalandinu. Hann neitaði og árið 1951 gerði verkamannastjórnin hjónin útlæg frá Bechuanalandi í fimm ár. Mikil reiði greip um sig í Bechuanalandi þegar ljóst var að Khama hjónin fengju ekki að snúa aftur. Óeirðir brutust út víða og íbúarnar harðneituðu að tilnefna annan höfðingja í stað Seretse eins og Bretar höfðu beðið þá um. Einnig var töluverð reiði innan Bretlands og nokkrir þingmenn börðust fyrir því að hjónin fengju að snúa heim og halda sínum titlum. Þegar íhaldsmenn komust til valda þetta sama ár reyndu þeir að leysa vandann með því að bjóða Seretse góða stjórnunarstöðu á Jamaíku. Seretse leit ekki við tilboðinu og var því útlegð hans framlengd út í hið óendanlega. Auk útlegðar létu bresk yfirvöld gera rannsókn á hæfi Seretse til þess að stýra fólki sínu. Þegar rannsóknin staðfesti hæfni hans til þess var hún þögguð niður og innsigluð í áratugi.
En það var ekki einungis vegna þrýstings frá Suður Afríku og Rhódesíu sem bresk yfirvöld beittu sér að slíkri hörku gegn Khama hjónunum. Því að meðal sumra annarra ættbálka innan Bechuanalands var verulegur ótti vegna hjónabandsins. Leiðtogi eins ættbálksins sagði „það sem ljónið gerir mun sjakalinn apa eftir. Þetta hjónaband er stórslys fyrir Afríku. Það er ávallt hermt eftir höfingjanum og því munum við sjá að eftir 25 ár munu margir Bechuana-menn hafa gifst hvítum konum, og eftir önnur 25 ár verður Bamangwato ættbálkurinn horfinn, þeir verða eins og Cape Coloureds“ (kynblandað fólk á vesturströnd Suður Afríku).“ Bretar lofuðu því nokkrum ættbálkahöfðingjum að Seretse og kona hans myndu brátt „hverfa“.
Þessi þrýstingur virtist ætla að virka því að árið 1956 afsalaði Seretse sér höfingjatign Bamangwato ættbálksins og hjónin fengu í kjölfarið leyfi til að snúa aftur heim til Bechuanalands. Þau fluttu þetta sama ár og tóku við rekstri nautgripabúgarðs. Það stóð þó ekki lengi yfir því að hjónin átt eftir að leika lykilhlutverk í tilurð nýs ríkis.
Botswana
Á sjötta og sjöunda áratug seinustu aldar voru nýlenduveldi Breta, Frakka o.fl. í Afríku að liðast í sundur og fjölmörg sjálfstæð ríki urðu til. Þessi sjálfstæðishreyfing fór ekki framhjá íbúum Bechuanalands og Seretse Khama var fullkominn frambjóðandi til að leiða hana þar. Hann hafði setið í útlegð í fimm ár og hugsaði bæði Bretum og Suður Afríkumönnum þegjandi þörfina. Hann stofnaði því Lýðræðisflokk Bechuanalands (BDP) árið 1961 með því markmiði að koma á sjálfstæðu ríki. Í fyrstu opnu kosningum Bechuanalands árið 1965 unnu BDP með algerum yfirburðum. Þeir hlutu rúmlega 80% greiddra atvkæða og Seretse Khama varð fyrsti og eini forsætisráðherra nýlendunnar. Ári seinna fékk landið fullt sjálfstæði frá Bretlandi og var hinu nýja ríki gefið nafnið Botswana. Seretse varð fyrsti forseti lýðveldisins og Ruth fyrsta forsetafrúin. Sjálfstæði var fengið án þess að blóðdropa væri spillt og Seretse var aðlaður af Elísabetu II Englandsdrottningu fyrir vikið.
Þegar sir Seretse tók við völdum beið hans ærið verkefni. Botswana var eitt af fátækustu ríkjum heims. Það er stórt og dreifbýlt og mitt í Kalaharí eyðimörkinni. Nú búa þar um 2 milljónir íbúa en árið 1966 voru íbúarnir einungis rúmlega 600.000 talsins. Landið hafði líka verið hrjáð af ættbálkadeilum og skærum um alda skeið. Seretse var forseti til dauðadags árið 1980 og tími hans er talinn eitt helsta blómaskeið í sögu landsins. Efnahagur landsins óx hratt, aðallega vegna námagraftar og nautgriparæktunar, og innviði landsins voru byggð upp. Botswana er einnig eitt af sárafáum ríkjum Afríku þar sem ríkt hefur samfelldur friður og lýðræði frá sjálfstæði. Það þýðir ekki að þeir hafi haldið sér til hlés, þvert á móti þá voru Khama hjónin einhverjir mest áberandi gagnrýnendur kynþáttaaðskilnaðar í Suður Afríku og Rhódesíu og tóku við mörgum flóttamönnum frá þessum tveimur ríkjum.
Ruth Williams Khama, eða lafði Khama eins og hún var gjarnan kölluð, var alla tíð mjög sýnileg forsetafrú og gríðarlega vinsæl. Í Botswana var hún kölluð Mohumagadi Mma Kgosi (móðir höfðingjans) eða einfaldlega drottningamóðirin. Hún stýrði ýmsum góðgerðarmálum og var m.a. forseti Rauða kross deildar landsins. Einnig stýrði hún ýmsum opinberum viðburðum eins og heimsókn Elísabetar II Englandsdrottningar til landsins árið 1979.
Þegar Seretse lést árið 1980 bjuggust flestir við því að Ruth myndi flytja aftur til Bretlands. Það kom hins vegar aldrei til greina. Aðspurð sagði hún: „Ég er fullkomlega ánægð hérna og ég hef enga löngun til að flytja neitt, ég hef búið hér meira en helming ævi minnar, og börnin mín eru hér. Þegar ég flutti til þessa lands varð ég Motswana (Botswana-búi).“ Ruth bjó í Botswana allt til æviloka árið 2002 en hún lærði reyndar aldrei nein af tungumálum landsins.
Áhrif hjónabandsins umdeilda gæta enn því að árið 2008 var sonur hjónanna, Ian Khama, kjörinn forseti Botswana og gegnir hann því embætti enn.