Meirihluti sifjaspellsmála sem kom á borð Stígamóta í fyrra áttu sér stað utan höfuðborgarsvæðisins. Fimmtungur málanna gerðist í Reykjavík, 19 prósent annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og rúmlega helmingur á landsbyggðinni.
Í nýjustu ársskýrslu Stígamóta sem birt var fyrr í vikunni eru öll kynferðisbrot flokkuð eftir eðli, eins og hefur verið gert árin á undan. 136 sifjaspellsmál voru tilkynnt til samtakanna í fyrra og þau voru 111 árið 2014.
Innan höfuðborgarsvæðisins voru flest málin í Reykjavík, 28, og næstflest í Kópavogi, 11. Það er hlutfallslega í samræmi við íbúafjölda á þessum stöðum. Einungis eitt sifjaspellsmál var framið á Seltjarnarnesi.
Anna Þóra Kristinsdóttir, hjá Stígamótum, segir tölurnar vissulega athyglisverðar. Starfsfólk Stígamóta hóf að greina tölurnar eftir landshlutum árið 2014, en þá var hlutfall sifjaspellsmála á höfuðborgarsvæðinu 42,3 prósent, á meðan það er 39,7 prósent.
Utan höfuðborgarsvæðisins gerðust flest brotin á norðurlandi, en þau voru 18.
Mikilvægt að halda greiningunni áfram
Anna Þóra segir mikilvægt að hafa í huga að erfitt sé að alhæfa út frá tölunum og nauðsynlegt að halda áfram greiningunni á komandi árum til að sjá hvort mynstrið haldi áfram.
„Einnig er mikilvægt að taka fram að þegar staðirnir eru ekki flokkaðir saman heldur sundurliðaðir eins og í töflunni hér að ofan þá eru flestir sem segja að sifjaspellið hafi átt sér stað í Reykjavík sem er í samræmi við það að flestir sem leita til okkar búa í Reykjavík,” segir hún.
Langflest mál gerast á heimili
Séu staðsetningar brotanna skoðaðar þá sést að fjórðungur brotanna gerðist á sameiginlegu heimili þolanda og ofbeldismannsins, sem þýðir þá að viðkomandi var annað hvort foreldri, stjúpforeldri eða systkini. Sifjaspellsmál eiga sér oftast stað á heimili ofbeldismannsins, á heimili þess sem er beittur ofbeldinu eða á sameiginlegu heimili, samtals í um 72 prósent tilfella. Þetta eru svipuð hlutföll og undanfarin ár. Heimilin er langoftast vettvangur þessara glæpa. Vinir eða vinkonur eru yfirleitt þeir sem þolendur segja frá ofbeldinu, en yfir helmingur þolenda segist hafa sagt þeim frá því.