Var ætlunin að myrða umdeildan stjórnmálamann

Réttarhöld vegna ódæðisverkanna sem framin voru í Kaupmannahöfn fyrir rúmu ári síðan eru hafin. Sá sem framdi voðaverkin er látinn. Þeir sem eru á sakamannabekk eru meintir vitorðsmenn hans.

Mikil öryggisgæsla, og áhugi frá fjölmiðlum, er á réttarhöldunum.
Mikil öryggisgæsla, og áhugi frá fjölmiðlum, er á réttarhöldunum.
Auglýsing

Réttarhöld vegna tilræðanna í Kaupmannahöfn í febrúar í fyrra, þar sem tveir létust og nokkrir særðust hófust í vikunni. Sá sem stóð að tilræðunum er þó ekki fyrir réttinum, hann féll fyrir byssukúlum lögreglu.

Við upphaf réttarhaldanna  sem danskir fjölmiðlar kalla stærsta hryðjuverkamál í sögu Danmerkur kom fram að að tilræðismaðurinn Omar El-Hussein kynnti sér meðal annars sérstaklega upplýsingar um stjórnmálamanninn Mogens Camre. Það gerði hann eftir að hann hafði orðið manni að bana við samkomuhús í Kaupmannahöfn 14. febrúar í fyrra en áður en hann skaut vörð við samkomuhús gyðinga í borginni.  Réttarhöldin eiga að standa í einn mánuð og dóms er að vænta í september.

Síðastliðinn fimmtudag hófust í Kaupmannahöfn réttarhöld yfir fjórum mönnum sem ákærðir eru fyrir að hafa vitað um og  aðstoðað Omar El-Hussein við undirbúning tilræðis sem hann framdi við bænahús gyðinga í Krystalgade skömmu eftir miðnætti sunnudaginn 15. febrúar 2015. Omar El-Hussein féll fyrir skotum lögreglu nokkrum klukkustundum síðar á Norðurbrú í Kaupmannahöfn. Síðdegis þennan sama dag handtók lögreglan fjóra menn, tveimur var fljótlega sleppt en hinir tveir hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan. Fimmti maðurinn var handtekinn seint í febrúar í fyrra en hann var síðar látinn laus. Tveir menn til viðbótar voru handteknir, 19. og 20. mars í fyrra og hafa setið inni síðan.

Auglýsing

Mennirnir fjórir, sá yngsti tvítugur og sá elsti rúmlega þrítugur, þekktu allir Omar El-Hussein. Allir höfðu þeir áður komist í kast við lögin og setið inni um lengri eða skemmri tíma. Einn úr hópnum hafði hlotið dóm fyrir innbrot sem hann framdi ásamt Omari El-Hussein og sá elsti hefur tengst þekktum afbrotasamtökum og var nýkominn úr fangelsi.

Kom ekki öllum á óvart

Á öðrum degi réttarhaldanna yfir fjórmenningunum kom fram að kannski hefðu fregnir af tilræðunum 14. og 15. febrúar í fyrra ekki komið öllum á óvart. Einn sakborninganna greindi frá því fyrir réttinum að í Mjølnerparken hverfinu á Norðurbrú hefði verið á sveimi orðrómur þess efnis að einhver, sumir nefndu Omar El-Hussein, hefði í hyggju að fremja hryðjuverk af svipuðu tagi og átt höfðu sér stað í París rúmum mánuði fyrr. 

Þessi sakborningur, nefndur LE fyrir réttinum, hafði áður sagt þetta sama við yfirheyrslur lögreglu skömmu eftir að hann var handtekinn 15. febrúar í fyrra. LE er yngstur sakborninganna fjögurra og hann var yfirheyrður allan föstudaginn, með stuttum hléum. Fulltrúi ákæruvaldsins gekk mjög hart að LE með spurningum sínum en LE bar iðulega við minnisleysi. Saksóknari minnti hann þá á að margt af því sem hann segðist ekki muna núna hefði hann munað mjög vel við yfirheyrslur lögreglu.

Ákæruvaldið vel undirbúið

Rúmt ár er liðið frá tilræðunum í Kaupmannahöfn. Á fyrstu tveimur dögum réttarhaldanna kom glögglega í ljós að ákæruvaldið hefur ekki setið auðum höndum við undirbúning málsins.

Omar El-Hussein framdi hryðjuverkin. Hann var hins vegar skotinn til bana í kjölfar þeirra. Nú er réttað yfir meintum vitorðsmönnum hans.Í réttinum var lagður fram fjöldinn allur af myndbandsupptökum sem sýna ferðir LE, Omars El-Hussein og hinna þriggja sakborninganna fyrir og eftir tilræðin. Iðulega hefur verið um það deilt hvort allur sá aragrúi myndavéla sem er að finna í Kaupmannahöfn þjóni tilgangi og þá hvaða tilgangi og ennfremur hvort slíkar upptökur séu í raun löglegar. Fulltrúar lögreglu og ákværuvalds hafa í þessu máli kært sig kollótta um slíkt tal og myndbandsupptökurnar eru eitt helsta gagn saksóknara. Af frásögnum fjölmiðla sem fylgjast grannt með gangi mála í réttarsalnum hefur tekist að fylgja fjórmenningunum og Omari El-Hussein nánast hvert fótmál fyrir tilstilli myndavélanna.

Tölvurnar segja sína sögu

Við rannsókn málsins hefur komið í ljós að tilræðið við samkomuhúsið Krudttønden á Austurbrú var vandlega undirbúið af hálfu Omars El-Hussein. Í tölvum sem lögreglan lagði hald á sést að hann hefur skoðað samkomuhúsið vel og vandlega á myndum, kynnt sér vel inn og útgönguleiðir hússins, dagskrána 14. febrúar í fyrra og ennfremur upplýsingar um sænska teiknarann Lars Vilks sem átti að vera aðalræðumaður á fundi um tjáningarfrelsi þennan eftirmiðdag. Ákæruvaldið telur að ætlun Omars El-Hussein hafi verið að ráða teiknarann af dögum, og kannski fleiri viðstadda. 

Sú áætlun fór hinsvegar úr skorðum þegar í ljós kom að lögregluvörður var við húsið en Omar El-Hussein skaut kvikmyndagerðarmanninn Finn Nörgaard, sem lést samstundis, og særði tvö lögreglumenn  áður en hann lagði á flótta. Rannsókn á tölvum sýndi ennfremur að Omar El-Hussein hafði skoðað myndir og kynnt sér upplýsingar um  fyrrverandi formann samtaka um prentfrelsi, Lars Hedegaard, en hann hefur margsinnis í ræðu og riti gagnrýnt skoðanir og viðhorf múslima.

Hvað vissu fjórmenningarnir?

Rannsókn lögreglunnar vegna réttarhaldanna sem nú eru hafin hefur fyrst og fremst beinst að þætti fjórmenninganna. Hvað vissu þeir, hjálpuðu þeir Omari El-Hussein við að skipuleggja tilræðin, einkum hið síðara, keyptu þeir fyrir hann föt sem hann klæddist eftir fyrra tilræðið, hjálpuðu þeir honum að losna við byssuna sem hann notaði í tilræðinu við samkomuhúsið. Vissu þeir að hann ætlaði ekki að láta staðar numið eftir fyrra tilræðið? Fögnuðu þeir með honum þegar hann sagði þeim frá tilræðinu í Krystalgade?

Um þessar spurningar og margar fleiri snúast réttarhöldin.

Riffillinn, jakkinn og húfan

Eftir fyrra tilræðið hitti Omar El-Hussein fjórmenningana sem í réttarhöldunum ganga undir nöfnunum LE, BH, IA og MR. Fyrst einn eða tvo þeirra í heimahúsi við Mjølnerparken á Norðurbrú en síðan bættust hinir í hópinn. Á myndbandsupptökum sést einn fjórmenninganna kaupa hliðartösku í Fötex verslun á Mimersgade á Norðurbrú, sömu töskuna og Omar El-Hussein var með þegar hann framdi síðara tilræðið í Krystalgade. 

I Mimersparken fann lögreglan síðar húfu og trefil sem Omar El-Hussein bar við fyrra tilræðið og ennfremur jakka og síðast en ekki síst riffilinn sem hann notaði þá. Á myndum sést þegar tveir hinna ákærðu koma gangandi að  endurvinnslustöð i Mimersparken. Þar kom að þriðji maðurinn, sem lögreglan hefur ekki sagt hver sé, sá var með aflangan poka sem hann losaði sig við í tunnu eða gám. Í pokanum var riffillinn. Við yfirheyrslur fyrir réttinum kvaðst LE, einn þeirra sem þarna var, ekki muna glöggt eftir þessu og ekki haft hugmynd um hvað í pokanum var.

Netkaffið og Mogens Camre

Um klukkan níu að kvöldi 14. febrúar kom Omar El-Hussein á netkaffið Powerplay á Norðurbrú. Þar hitti hann fjórmenningana og af myndbandsupptökum og athugunum á tölvum sést að Omar El-Hussein ásamt fjórmenningum hefur skoðað myndir af samkomuhúsi gyðinga í Krystalgade og dagskrána þar. 

Mogens Camre er umdeildur stjórnmálamaður sem hefur gagnrýnt innflytjendamál í Danmörku harkalega.Við réttarhaldið sl. föstudag var ennfremur greint frá því, sem ekki hafði komið fram áður, að Omar El-Hussein hefði í tölvu aflað sér upplýsinga um stjórnmálamanninn Mogens Camre, hvar hann byggi o.s.frv. Mogens Camre var um árabil þingmaður sósíaldemókrata en gekk síðar í Danska Þjóðarflokkinn. Hann hefur iðulega tekið stórt uppí sig um málefni innflytjenda, einkum og sérílagi múslima. Omar El-Hussein skoðaði líka upplýsingar um formann Pegida samtakanna sem eru andsnúin múslimum og ennfremur upplýsingar um söluturn á Vesturbrú þar sem franska teiknimyndatímaritið Charlie Hebdo hefur verið selt.

Netkaffið aftur      

Rúmum klukkutíma eftir seinna tilræðið, í Krystalgade, kom Omar El-Hussein aftur á netkaffið Powerplay. Þar hitti hann tvo fjórmenninganna. Eftir að þeir höfðu heilsast fóru þeir inn í bakherbergi á staðnum (kallað VIP herbergi) til að tala saman.  Þeir slökktu ljósið, kannski til að eftirlitsmyndavélar sæju ekki til þeirra. Það breytti hinsvegar engu, vélarnar sáu og skráðu eftir sem áður.

Engar hljóðupptökur eru til af því sem þarna fór fram en á myndunum sést Omar El-Hussein tala og með því að lesa í handahreyfingar má geta sér þess til að hann sé að segja frá því að haldið sé á byssu. Annar hinna virðist svo með hægri hendi sýna að skorið sé á háls. Þetta sem þarna fór fram kvaðst sá sem yfirheyrður var ekki muna gjörla. Á netkaffinu dvöldust þeir þremenningarnir drjúga stund, ákæruvaldið hefur ekki enn upplýst nánar um það sem svo gerðist.

Bara byrjunin

Réttarhöldin yfir fjórmenningunum eru bara rétt að byrja, en gert er ráð fyrir að þau standi í heilan mánuð. Ákæruvaldið er greinilega mjög vel undirbúið, það eru verjendur sakborninga líklega einnig. Dómarar eru þrír en einnig hafa verið kvaddir til þrír meðdómarar.Danskur blaðamaður sagði í viðtali að réttarhöldin væru eins og þúsund blaðsíðna sakamálasaga og núna hefði maður bara lesið tvær fyrstu blaðsíðurnar. Eins og í bókunum kæmi eitthvað nýtt í ljós á hverri síðu og niðurstaðan birtist ekki fyrr en á síðustu blaðsíðu. ”það sem er öðruvísi” sagði blaðamaðurinn ”en í skáldsögunum er, að að hér er ekki hægt að fletta upp á öftustu síðu og lesa niðurstöðuna.”

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá undirritun lífskjarasamningsins í apríl árið 2019.
Forsendur brostnar og örlög lífskjarasamningsins ráðist 30. september
Forsendunefnd ASÍ og SA hefur komist að þeirri niðurstöðu að forsendur lífskjarasamningsins frá 2019 séu brostnar, hvað aðgerðir stjórnvalda varðar. Formaður VR segir að örlög samninganna muni ráðast á fundi samninganefnda ASÍ og SA 30. september.
Kjarninn 20. september 2021
Sonja Ýr Þorbergsdóttir
Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er engin töfralausn
Kjarninn 20. september 2021
Þorvarður Bergmann Kjartansson
Þegar sumir hafa vald yfir öðrum
Kjarninn 20. september 2021
Hildur Gunnarsdóttir
Húsnæðispólitík og arkitektúr
Kjarninn 20. september 2021
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins
Gæti kostað 50-60 milljarða að gera 350 þúsund króna laun skatt- og skerðingalaus
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Ingu Sæland um að færsla á persónuafslætti frá „þeim ríku“ til hinna efnaminni geti fjármagnað 350 þúsund króna skattfrjálsa framfærslu.
Kjarninn 20. september 2021
Segja mikilvægt að undirbúa innviði og regluverk fyrir græna orkuframleiðslu
Íslendingar ættu að nýta þau tækifæri sem felast í orkuskiptum hérlendis og undirbúa innviði og regluverk fyrir samkeppnishæfa framleiðslu á kolefnislausum orkugjöfum, að mati tveggja verkfræðinga hjá EFLU.
Kjarninn 20. september 2021
Jóhann Friðrik Friðriksson
Heilbrigðiskerfi ekki óheilbrigðiskerfi
Kjarninn 20. september 2021
Vikurnáman yrði austan við Hafursey á Mýrdalssandi.
Vörubílar myndu aka 120 ferðir á dag með Kötluvikur
„Þetta er ekkert smáræði og ég held að menn átti sig engan veginn á því hvað þetta er mikið umfang,“ segir Guðmundur Oddgeirsson, bæjarfulltrúi í Ölfusi, um fyrirhugaða vikurnámu á Mýrdalssandi og flutninga á efninu til Þorlákshafnar.
Kjarninn 20. september 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None