Áhættusportið að eignast barn

Mæðradauði er nátengdur sárri fátækt. 99 prósent allra dauðsfalla af barnsförum í heiminum eiga sér stað í þróunarlöndum eins og Afganistan.

Herdís Sigurgrímsdóttir
Læknar án landamær
Auglýsing

Ímyndið ykkur djúpan og langan háfjalladal. Lítið þorp með nokkrum tugum moldarhúsa hangir utan í fjallshlíðinni. Það er vetur. Hnjédjúpur snjór í þorpinu. Viðvarandi snjóflóðahætta. Vegurinn yfir hálsinn er ófær; ef veg skyldi kalla. Það er ekki eins og það sé til bíll í þorpinu.

Í einu húsinu er kona í barnsnauð. Hún er að fram komin. Á veggnum hangir reipisbútur með tveimur stórum hnútum. Þegar hríðirnar fóru að versna sat hún á hækjum sér og hélt í hnútana; togaði og hékk í reipinu eins og það væri líflínan hennar. Það hjálpaði henni við að bíta á jaxlinn.

Ópíumið hjálpaði líka. Valmúinn vex víða í dalnum og hefur séð fólki fyrir ódýrum en ávanabindandi verkjalyfjum í þúsundir ára. En verkirnir hafa bara magnast og orkan er á þrotum. Núna liggur hún á teppi á moldargólfinu og meðvitundin er hverful.

Auglýsing

Það er heilsugæslustöð í næsta dal. Það er ekki nema lítið moldarhús, áþekkt íbúðarhúsunum í héraðinu. En þar er hægt að tala við hjúkrunarfræðing og ljósmóður, og stundum hægt að komast í þau lyf  sem maður þarf. Í morgunsárið ræddi fjölskyldan hvort ráðlegt væri að leggja út á ófæran veginn á asnanum. Reyna að komast yfir fjallið í tæka tíð. Vona að konan héldi út að sitja á asnabaki yfir fjallið með harðnandi hríðir.

Eiginlega var það tengdamóðirin sem tók af skarið. “Ég gat nú fætt sex börn án þess að hitta nokkurn tíma lækni eða ljósmóður. Hún hlýtur að spjara sig.”

Það er komið fram undir hádegi. Heilsugæslustöðin er að loka. Þau munu heldur ekki ná yfir fjallið meðan dagsljósið endist. Stundum sér maður ekki fyrr en það er of seint að maður hefði betur leitað aðstoðar.

Versti staður í heimi að eignast barn

Við erum stödd í Badakhshan í Afganistan. Konan á moldargólfinu er skálduð, en lýsingarnar eru raunsannar. Þetta er dapurlegur hversdagsleiki, sérstaklega í afskekktari héruðum Afganistans. Mæðradauði er nátengdur sárri fátækt. 99% allra dauðsfalla af barnsförum í heiminum eiga sér stað í þróunarlöndum eins og Afganistan.


Árið 2002 mældist í Badakhshan hæsti mæðradauði sem nokkurn tíma hefur mælst í heiminum. Þá reiknaðist fólki til að um 6.500 af hverjum 100.000 lifandi fæðingum í héraðinu (þar sem barnið lifir af) enduðu með andláti móðurinnar. Spáið aðeins í því: 6,5% barnshafandi kvenna lifðu ekki fæðinguna af. 

En síðan þá hefur alþjóðasamfélagið ausið peningum og aðstoð inn í Afganistan. Margt hefur breyst, sérstaklega þegar kemur að heilsu mæðra og barna. Árið 2010 var ákaft fagnað, þegar ný rannsókn leiddi í ljós árangurinn. Mæðradauðinn á landsvísu hafði fallið frá 1600 niður í 327 dauðsföll per 100.000 fæðingar.

Ein af hverjum 50 konum gat samkvæmt þessu búist við að látast af barnsförum. Tveir þriðju allra barna komu í heiminn án þess að ljósmóðir eða annað heilbrigðisstarfsfólk kæmi þar nálægt. Meðganga og fæðing voru algengasta dánarorsök ungra kvenna. Samt var allt svo miklu betra en það hafði verið.

Fæðast og deyja í djúpum dölum

Eiginlega vitum við samt voða lítið um hversu margir fæðast og deyja í Afganistan. Það er engin þjóðskrá sem skráir fólk inn og út úr þessum heimi. Flest börn fæðast heima á moldargólfinu, án þess að umheimurinn veiti því neitt sérstaka athygli.

Könnunin frá 2010 var líklega allt of bjartsýn á árangurinn, segir nýleg úttekt. Svo miklar framfarir hafa aldrei náðst á svo skömmum tíma, svo vitað sé, neins staðar í heiminum. Síst af öllu á síkviku stríðssvæði með erfiða farartálma frá náttúrunnar hendi.


Eitt getum við þó sagt með vissu. Þó að fleiri konur og börn lifi af, hefur hjálpin ekki náð til allra. Í litlum þorpum um landið allt er ennþá jafn hættulegt að fæða og fæðast og það hefur alltaf verið.

Jafn hættulegt eða verra. 

Fátæktin hættuleg óléttum konum

Afganistan er orðið fátækara, hungraðra og óöruggara síðan 2010. Sérstaklega síðan alþjóðaliðið fór að draga saman seglin árið 2013. Þá jókst atvinnuleysið og fátæktin varð sárari.

Uppskeran var ágæt í fyrra, en þeim fjölgar sem hvorki geta ræktað sjálfir eða keypt mat. Fátæktin er slík að fleiri og fleiri neyðast til að selja landspilduna sína, taka börn úr skóla til að þau geti unnið fyrir mat, eða betla af fjölskyldu og vinum. Atvinnuástandið er afleitt. Öryggisástandið fer versnandi. Allt þetta hefur mikla þýðingu fyrir barnshafandi konur.

Vannæring er stórhættuleg á meðgöngu og í fæðingu. Grein í læknatímaritinu Lancet áætlar að ef hægt væri að koma í veg fyrir langvarandi vannæringu, sérstaklega járnskort og blóðleysi, hjá barnshafandi konum mætti koma í veg fyrir 20% af dauðsföllunum. Blæðingar í og eftir fæðingu eru ein af aðaldánarorsökunum. Blóðlítil kona má ekki við því að missa mikið blóð.

Fleiri og fleiri afganskar fjölskyldur neyðast til að flýja heimili sín og leita skjóls í flóttamannabúðum, eða freista gæfunnar í yfirfylltum fátækrahverfum í afgönskum borgum. Hvort tveggja fátækrahverfi og flóttamannabúðir eru afleitir staðir til að eignast barn.


Hugrakkar ljósmæður

Öryggisástandið gerir að verkum að ljósmæður og annað heilbrigðisstarfsfólk getur ekki sinnt störfum sínum sem skyldi. Afganskar ljósmæður hafa bein í nefinu og kalla ekki allt ömmu sína. Þær ná oft að tala til uppreisnarmenn sem stoppa þær á vegatálmum, til að fá að komast leiðar sinnar til að hjálpa konum.

Nansen friðarsetrið í Lillehammer hefur safnað sögum afganskra ljósmæðra. Þar sést glöggt að jafnvel þar sem afganska feðraveldið er strangast og engin hefð er fyrir því að konur vinni utan heimilisins, njóta ljósmæður gífurlegrar virðingar. Margar njóta jafnvel verndar vopnaðra leiðtoga, vegna þess að þeir vita að þeir þurfa á ljósmæðrunum að halda. Talibanar eignast nefnilega líka börn.

En svo kemur að því að jafnvel ljósmæðurnar halda sig heima, því öryggisástandið er orðið svo slæmt. Þær eiga líka auðveldara með að flýja til öruggari svæða, því þær geta fengið vinnu hvar sem er.


Sjöfalt fleiri ljósmæður, samt ekki nóg

Það eru margt hægt að gera til að draga úr mæðradauða. Betri og meiri næring fyrir mæður væri eitt mikilvægt skref. Getnaðarvarnir myndu hjálpa mörgum. Það síðasta sem þreyttur og vannærður kvenlíkami þarf er að eignast mörg börn með stuttu millibili. Já, og bara að eignast mörg börn yfir höfuð. Eða að eignast barn á táningsaldri.

Eitt það áhrifaríkasta sem hægt er að gera er að mennta ljósmæður. Alþjóðasamfélagið hefur menntað margar afganskar konur til ljósmóðurstarfa síðastliðinn áratug eða svo. Ljósmæðrum hefur fjölgað úr 500 árið 2001 í 3500 í dag. Samt dekkar afganska heilbrigðiskerfið ekki nema 23% af þörfinni fyrir mæðravernd og fæðingarhjálp.

Framtíðarspáin er myrk. Að öllu óbreyttu mun kerfið ekki geta annað nema 12-14% af þörfinni árið 2030. Það eru vondar fréttir fyrir konurnar á moldargólfinu, börnin þeirra og Afgana alla sem einn. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None