1.
Landsvirkjun á eignir sem metnar eru á 557
milljarða króna, eða 4.285 milljónir Bandaríkjadala (Dalur = 130 ISK). Fyrirtækið
gerir upp í Bandaríkjadal, en stærstu hluti tekna fyrirtækisins er í þeirri
mynt. Þetta er miðað við stöðuna í lok árs 2015. Skuldir fyrirtækisins námu þá
2.300 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 299 milljörðum króna, en langtíma
vaxtaberandi skuldir eru nú komnar niður fyrir tvö þúsund milljónir
Bandaríkjadala, í fyrsta skipti síðan 2005. Eigið fé fyrirtækisins nam um 1.900
milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 254 milljörðum króna, í lok árs í
fyrra.
2. Aðeins eitt fyrirtæki á Íslandi er með meira eigið fé í sínum efnahagsreikningi en Landsvirkjun. Það er Landsbankinn en eigið fé hans er nú um 260 milljarðar króna. Efnahagsreikningar Landsvirkjunar og Landsbankans, sem bæði eru í eigu ríkisins (Landsbankinn 98,2 prósent), eru þó erfiðir í samanburði, enda mat á einstökum rekstrarþáttum breytilegt á milli orkuiðnaðar og fjármálageirans.
3. Rekstrartekjur Landsvirkjunar námu 421,5 milljónum Bandaríkjadala á árinu 2015 samanborið við 438,3 milljónir Bandaríkjadala árið á undan. Tekjur lækka því um 16,8 milljónir Bandaríkjadala. Rekstrargjöld námu 215,5 milljónum Bandaríkjadala á árinu 2015 en voru 220,2 milljónir Bandaríkjadala árið 2014. Rekstrarhagnaður fyrirtækisins var því 206,0 milljónir Bandaríkjadala á árinu 2015 samanborið við 218,1 milljón Bandaríkjadala árið á undan.
4. Meðaltalsverðið sem Landsvirkjun fékk á megavattstund var 24,5 Bandarkjadalir. Það er lægsta verð sem fyrirtækið hefur fengið í fimm ár, en verðið ræðst meðal annars af þróun heimsmarkaðsverðs á áli.
5. Stærsti einstaki viðskiptavinur Landsvirkjunar er bandaríska fyrirtækið Alcoa, sem rekur álverið á Reyðarfirði í gegnum dótturfélagið, Alcoa Fjarðarál. Fyrirtækið kaupir um 37,5 prósent af raforkunni sem fyrirtækið framleiðir. Kárahnjúkavirkjun, stærsta vatnsaflsvirkjun Evrópu, var byggð til þess að geta afhent álverinu rafmagn sem nauðsynlegt er til framleiðslu.
6. Landsvirkjun, undir forystu Harðar Arnarsonar forstjóra, hefur haft þá stefnu að draga úr vægi álverðs í efnahag sínum, á undanförnum árum, og endurnýjaði meðal annars samning sinn við Rio Tinto árið 2010 með það að leiðarljósi. Um 1/3 af rekstrartekjum er nú tengdur álverði, en árið 2009 voru hlutföllin 2/3. Framundan er endurnýjun samninga við Century Aluminum, sem rekur dótturfélagið Norðurál á Grundartang, og má gera ráð fyrir að Landsvirkjun hafi fyrrnefnda stefnu sem leiðarljós.
7. Eins og sést á þessari mynd, þá er fjárhagur Landsvirkjunar beintengdur þróun mála á álmörkuðum í heiminum. Hæsta verð sem Landsvirkjun hefur fengið á undanförnum áratug, er 30,8 Bandaríkjadalir á megavattstund árið 2008. Framan af ári hækkaði þá álverð mikið, samhliða mikilli hækkun á olíu, en hrundi svo þegar þrengja tók verulega að fjármálamörkuðum um haustið.
8. Landsnet er dótturfélag Landsvirkjunar (64,7 prósent eignarhlutur). Verðmæti eigna Landsnets jókst mikið milli áranna 2014 og 2015, en virði tengivirkja og háspennulína, sem eru hluti af eignasafni fyrirtækisins, jókst um 23 milljarða króna. Þetta má lesa út úr ársreikningi Landsnets, en endurmat á eignum félagsins skilaði sér í þessum miklu breytingum. Háspennulínur eru metnar á 49,5 milljarða, samkvæmt ársreikningi fyrir árið í fyrra, en á árinu 2014 voru línurnar metnar á 37,5 milljarða. Þá eru tengivirki metin á 34 milljarða, samkvæmt ársreikningi fyrir árið í fyrra, en sömu eignir voru metnar á 23,2 milljarða í lok árs 2014.
9. Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar er nú 44,7 prósent sem er það hæsta í sögu fyrirtækisins. Frá hruni hefur fyrirtækið einblínt á að greiða niður skuldir, og styrkja lánshæfi sitt með margháttuðum aðgerðum til að bæta rekstrarafkomuna. Frá árinu 2010 hefur fyrirtækið greitt niður skuldir fyrir um 800 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 107 milljörðum íslenskra króna.
10. Tveir nýir viðskiptavinir munu bætast við á þessu ári, í flokki iðnaðnar. Ráðgert er að United Silicon verði með 35 megavött vegna sinnar starfsemi, og árið 2017 þá muni PCC þurfa 58 megavött vegna sinnar starfsemi á Bakka við Húsavík. Vikjanaframkvæmdir Landsvirkjunar á Þeistarreykjum, eru nú í gangi, en um jarðhitavirkjanir er að ræða þar.