Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur ekki undirritað siðareglur fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar og birt þær. Á meðan svo er hafa siðareglur, sem síðasta ríkisstjórn setti og núverandi ríkisstjórn hefur sagst líta til, ekki stjórnsýslulegt gildi. Umboðsmaður Alþingis, sem á að gæta þess samkvæmt lögum að stjórnsýslan fari fram í samræmi við siðareglurnar, getur því ekki látið í ljós álit sitt á því hvort brotið hafi verið gegn siðareglum. Það breytir því þó ekki að í siðareglunum koma fram viðmið sem eru í samræmi við ólögfestar reglur um starfshætti í stjórnsýslu eða vönduðum stjórnsýsluháttum.
„Það er afstaða mín að umboðsmaður Alþingis geti ekki byggt á því að siðareglur fyrir ráðherra nr. 360/2011 gildi um störf ráðherra í núverandi ríkisstjórn nema til komi formlegt samþykki ríkisstjórnarinnar á þeim reglum,“ skrifaði Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, í bréfi til Sigmundar Davíðs fyrir rúmu ári síðan. Umboðsmaður geti því ekki haft eftirlit með því að stjórnsýsla starfi í samræmi við siðareglur nema reglur hafi verið settar með réttum og formlegum hætti. Orðalagið í lögunum sé ekki skýrt og það sé ekki ljóst hvort siðareglur fyrri ríkisstjórnar gildi.
Samkvæmt siðareglunum eiga ráðherrar að forðast hagsmunaárekstra. Þeir eiga einnig að upplýsa um fjárhagsleg hagsmunatengsl eða önnur slík tengsl sem valdið geta hagsmunaárekstrum. Þessu hefur verið velt upp í kjölfar þess að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar, upplýsti í vikunni að hún ætti félag erlendis til að halda utan um eignir hennar. Í kjölfarið hafa fjölmiðlar greint frá því að félagið er skráð á Tortóla, og lýsti kröfum upp á hálfan milljarð í þrotabú gömlu bankanna. Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknar, viðurkenndi í Vikulokunum í gær að það væri „formlega rétt“ að Sigmundur Davíð hefði brotið gegn siðareglum.
Tryggvi benti á skort á staðfestingu í Lekamálinu
Þegar sá þáttur lekamálsins sem snéri að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, stóð sem hæst skrifuðust Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, og Sigmundur Davíð á. Tryggvi sendi Sigmundi Davíð bréf þar sem hann benti á að siðareglur síðustu ríkisstjórnar hafi aðeins átt að gilda út starfstíma hennar, og ekki verði séð að ríkisstjórn Sigmundar hefði samþykkt nýjar siðareglur eftir að hún tók við völdum. Tryggvi óskaði eftir því að Sigmundur Davíð upplýsti hann um það hvort búið væri að samþykkja reglur, og óskaði eftir afriti ef svo væri. Ef ekki væri búið að samþykkja siðareglur var óskað eftir afstöðu Sigmundar til þess hvort siðareglur síðustu ríkisstjórnar giltu áfram í hans ríkisstjórn.
Sigmundur Davíð svaraði bréfinu skömmu síðar og sagði að ríkisstjórnin hefði litið svo á að siðareglurnar frá árinu 2011 ættu við um störf ráðherra. Þeir hafi fengið kynningu á reglunum í upphafi starfstíma ríkisstjórnarinnar, og þær hafi verið hluti af handbók sem þeir fengu allir. Sigmundur Davíð sagði líka að siðareglur ráðherra og hugsanlegar breytingar á þeim hafi komið til umræðu í ríkisstjórn, og ekki væri ólíklegt að ráðist yrði í breytingar þannig að þær yrðu skýrðar og einfaldaðar. Það hefur ekki verið gert. Hins vegar var greint frá því í desember 2014 að ríkisstjórnin hygðist auka vægi og eftirfylgni með siðareglum innan Stjórnarráðsins, meðal annars í samráði við umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. Í því skyni voru lagðar til breytingar á lögum um Stjórnarráðið.
Þegar umboðsmaður Alþingis hafði lokið athugun sinni á Lekamálinu sendi hann forsætisráðherra bréf með ábendingum, meðal annars um samþykkt siðareglna.
„Þegar það kemur í hlut umboðsmanns Alþingis að leggja mat á hvort tilteknar reglur sem hann á að hafa eftirlit með hafi gilt um athafnir stjórnvalds þarf að huga að því hvort þær hafi verið settar með réttum hætti […] Ég til hins vegar vafa leika á því hvort þær hafi verið settar með réttum hætti,“ skrifaði Tryggvi meðal annars. Hann teldi sig því ekki hafa forsendur til að leggja til grundvallar að siðareglurnar hafi verið í gildi um samskipti Hönnu Birnu við Stefán Eiríksson þáverandi lögreglustjóra. Þar sem siðareglur hafa ekki enn verið staðfestar með formlegum hætti er því væntanlega það sama uppi á teningnum þegar kemur að máli Sigmundar Davíðs og eiginkonu hans.
Tryggvi sagði orðalagið ekki skýrt í lögunum um Stjórnarráðið og benti á að „eftirlit umboðsmanns með því að stjórnsýsla starfi í samræmi við siðareglur getur ekki komið til nema slíkar reglur hafi verið settar með réttum og formlegum hætti.“
Siðanefnd lögð niður og færð undir forsætisráðuneytið
Meðal þess sem kveðið var á um þegar síðasta ríkisstjórn breytti lögum um Stjórnarráð Íslands var skipun samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna. Nefndin átti samkvæmt þágildandi lögum meðal annars að stuðla að því að „siðferðileg viðmið séu í hávegum höfð í opinberum störfum og veita stjórnvöldum ráðleggingar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og spillingu.“
Núverandi ríkisstjórn ákvað að breyta lögunum aftur árið 2014. Sigmundur Davíð lagði fram frumvarpið sem varð að lögum síðastliðið sumar og siðferðisnefndin var með því lögð niður. Þess í stað var sett inn ákvæði um að forsætisráðuneytið gefi stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað. Forsætisráðuneytið á að standa fyrir fræðslu um siðareglur innan Stjórnarráðsins og fylgjast með því að þær nái tilgangi sínum.
Í siðanefndinni áttu sæti sjö einstaklingar, og nefndin var skipuð til þriggja ára í senn. Sigmundur Davíð skipaði aldrei í nefndina eftir að skipunin rann út haustið 2013. Í desember 2014 hvatti Ríkisendurskðoun til þess að ráðuneytið skipaði nýja nefnd í samræmi við lög um Stjórnarráð Íslands. Hvatningin var í tengslum við könnun Ríkisendurskoðunar á þekkingu starfsmanna stjórnarráðsins á siðareglum fyrir starfsfólk þess. Stór hluti starfsmanna taldi sig ekki þekkja siðareglurnar vel.
Þegar
Sigmundur Davíð mælti fyrir frumvarpinu þar sem þessu var
breytt, í lok nóvember 2014, sagði hann að aðeins fáein erindi
hefðu borist samhæfingarnefndinni þegar hún var að störfum, og
forsætisráðuneytið hefði sinnt þeim erindum eftir að
skipunartími hennar rann út.
Því er það þannig að forsætisráðuneytið, undir stjórn forsætisráðherra, á að veita forsætisráðherranum ráðleggingar um það hvernig eigi að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og spillingu.