Íslendingar eiga rúmlega eitt þúsund milljarða króna í erlendri fjármunaeign. Stærsti hluti þeirra eigna er í félögum sem skráð eru til heimilis í Hollandi, Bretlandi og Lúxemborg. Íslendingar eiga líka töluverðar eignir í þekktum lágskattasvæðum á borð við Bresku Jómfrúareyjarnar. Þar eiga Íslendingar tæpa 32 milljarða króna. Stærsti hluti fjármunaeigna Íslendinga erlendis er vegna fjármála- og vátryggingastarfsemi,eða 572 milljarðar króna. Þetta kemur fram í nýjustu tölum Seðlabanka Íslands um beina fjárfestingu sem birtar voru 9. mars síðastliðinn. Um er að ræða endurskoðaðar tölur sem sýna stöðuna eins og hún var í lok árs 2014.
Skráningu á erlendri fjármunaeign Íslendinga var breytt fyrir nokkrum árum síðan. Nú eru gefnar upplýsingar um eign í færri löndum en áður en flokkurinn „óflokkað“ hefur stækkað. Áður var hægt að sjá til að mynda hver bein fjármunaeign Íslendinga er á Cayman-eyjum, Mön, Jersey, Guernsey og Máritíus. Það er ekki hægt lengur. Alls eru eiga Íslendingar „óflokkaðar“ eignir upp á 97 milljarða króna.
fjármunaeign
Create your own infographics
Íslenskir ráðherrar með eignir í aflandsfélögum
Eignir Íslendinga erlendis, sérstaklega í þekktum skattaskjólum, hafa verið mikið í umræðunni síðustu daga í kjölfar þess að það var opinberað að eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra ætti umtalsverðar eignir utan Íslands. Hún upplýsti um eignarhald sitt á félaginu Wintris fyrir rúmum tveimur vikum síðar að eigin sögn til að slá að slúðursögur um það. Daginn eftir greindi Kjarninn frá því að félagið sé skráð til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum og sama dag kom einnig fram að eiginkona forsætisráðherra væri stór kröfuhafi í bú föllnu bankanna. Kröfur hennar nema alls um 523 milljónum króna. Þær eignir sem eiginkona forsætisráðherra á inni í félaginu, sem eru að mesta erlend verðbréf, eru metnar á um 1,2 milljarða króna.
Í vikunni var svo greint frá því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, hefði um tíma átt félagið Falson & Co, sem skráð hafi verið á Seychelles-eyjum. Bjarni sagði í kjölfarið að hann hafi átt þriðjungshlut í félaginu vegna fasteignaviðskipta í Dubai, og hafi talið að félagið hefði verið skráð í Lúxemborg. Viðskiptin hafi átt sér stað fyrir tíu árum og félagið hafi verið komið í afskráningarferli áður en að reglur um hagsmunaskráningu þingmanna tóku gildi. Félagið hafi ennfremur aldrei haft tekjur, ekkert skuldað, ekki tekið lán og ekki átt neinar aðrar eignir.
Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og innanríkisráðherra, tengdist líka aflandsfélagi sem stofnað var utan um fjárfestingar eiginmanns hennar. Félagið hafi hins vegar aldrei verið nýtt og eftir því sem hún kemst næst hafi það verið lagt niður árið 2008. Það félag, Dooley Securities S.A. var skráð á Bresku Jómfrúareyjunum.
Ástæða þess að þessar upplýsingar hafa komið fram í dagsljósið á undanförnum vikum eru þær að Reykjavík Media, fjölmiðlafyrirtæki Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, alþjóðlegu rannsóknarblaðamannasamtökin ICIJ og ýmsir erlendir fjölmiðlar hafa verið að vinna að umfjöllun um eignir Íslendinga í skattaskjólum mánuðum saman. Ýmsir aðrir hafa komið að vinnu hópsins, meðal annars fréttaskýringaþátturinn Kastljós á RÚV. Sérstakur Kastljós-þáttur um málið verður sýndur á RÚV á sunnudagskvöldið og í kjölfarið munu ýmsir erlendir fjölmiðla fjalla ítarlega um málið. Á meðal þeirra eru þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung.
Lágskattasvæði og tvísköttun
Á lista fjármála- og efnahagsráðuneytisins er að finna lista yfir þau lönd og svæði sem teljast lágskattasvæði. Til þess að komast á þann lista þarf tekjuskattur af hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar, sem um ræðir, að vera lægri en tveir þriðju hlutar af þeim tekjuskatti sem hefði verið lagður á félagið, sjóðinn eða stofnunina hefði hún verið heimilisföst á Íslandi.
Bresku Jómfrúareyjarnar og Seychelles-eyjar eru á þeim lista. Þar er einnig að finna nokkur Evrópulönd á borð við Andorra, Mónakó og Liecthenstein. Lönd eins og Kýpur og Lúxemborg, sem hafa verið mikið í umræðunni sem skattaskjól undanfarna daga, eru ekki á listanum. Í gildi er tvísköttunarsamningur milli Íslands og beggja þeirra landa, auk fjölda annarra. Slíkir samningar eru gerðir til að komast hjá tvísköttun og til að koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur. Samningur Íslands og Kýpur var gerður árið 2014. Á því ári jókst skráð fjármunaeign Íslendinga í landinu úr 8,4 milljörðum króna í 20,4 milljarða króna.
Einstaklingar og fyrirtæki eiga hundruð milljarða
Af þeim 1.068 milljörðum króna sem Íslendingar áttu erlendis í lok árs 2014 var þorrinn í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Í árslok 2014 áttu þeir 689 milljarða króna erlendis. Hluti þeirra eigna falla undir skilgreininguna bein fjármunaeign erlendis. Það þýðir að íslensk fyrirtæki og einstaklingar eigi nokkur hundruð milljarða króna í erlendum eignum.
Eignir Íslendinga erlendis hafa lækkað umstalsvert á undanförnum árum. Í árslok 2012 voru þær mestar, tæplega 1.600 milljarðar króna. Vert að að hafa í huga að fallandi gengi krónu eftir bankahrun hafði mikil áhrif á virði þeirra eigna á þeim tíma. Þ.e. fall krónunnar jók virði eignanna mikið.
Ein ástæða þess að bein fjármunaeign hefur verið að lækka undanfarin ár gæti verið sú að Íslendingar hafi í auknum mæli fært fé heim til Íslands í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Alls kom um einn milljarður evra inn til landsins í fjárfestingar í gegnum þá leið, en síðasta útboð hennar var í febrúar 2015, og fékkst fyrir það fé 206 milljarðar króna. Opinbert gengi Seðlabanka Íslands á evrunni gerir ráð fyrir að evrurnar sem komu inn í landið séu ríflega 157 milljarða króna virði, og nemur mismunurinn á afslættinum sem fjárfestar fengu með þátttöku sinni í fjárfestingaleiðinni, 48,7 milljörðum króna, miðað við gengið í febrúar síðastliðnum. Seðlabankinn hefur aldrei viljað upplýsa um hverjir það eru sem hafi fengið þennan afslátt af íslenskum eignum, meðal annars endurskipulögðum fyrirtækjum og fasteignum.
Önnur ástæða þess að upphæðin sem Íslendingar eiga erlendis hefur dregist saman getur verið sú að virði eignanna hafi einfaldlega lækkað.
Útlendingar eiga þúsund milljarða á Íslandi
Bein fjármunaeign erlendra aðila á Íslandi var mjög svipuð því sem Íslendingar áttu erlendis, eða um eitt þúsund milljarðar króna í lok árs 2014. Hún jókst milli ára úr 851 milljarði króna. Sú eign er að langmestu leyti í Lúxemborg, eða um 936 milljarðar króna. Auk þess eiga aðilar í Hollandi skráðar eignir á Íslandi upp á 131 milljarð króna. Vert er að taka fram að fjármunaeign Bandarískra aðila á Íslandi er neikvæð upp á 330 milljarða króna og hefur það eðilega áhrif á heildarumfang eigna erlendra aðila á Íslandi.
Stærstur hluti þeirra eigna eru vegna framleiðslu (219 milljarðar króna), heildsölu og verslunar, samgöngu og geymslusvæða og reksturs veitinga- og gististaða (377 milljarðar króna) og fjármála- og vátryggingastarfsemi (304 milljarðar króna). Mestur var vöxturinn í fjárfestingu erlendra aðila í fjármálastarfsemi á árinu 2014, en hann jókst um 46 milljarða króna á milli ára. Þá vekur aukinn eign erlendra aðila í fasteignum og fasteignatengdri þjónustu á undanförnum árum athygli. Á tveimur árum, frá lokum árs 2012, jókst hún úr 22,4 milljörðum króna í 33,6 milljarða króna, eða um 50 prósent.
Skipulagt af stóru bönkunum
En hvernig vill það til að Íslendingar eru með öll þessi miklum fjármunatengsl við alþjóðlegar fjármálamiðstöðvar eins og Lúxemborg og eiga tugmilljarða eignir í félögum sem skráð eru til heimilis á aflandseyjum sem flokkast sem lágskattasvæði?
Á útrásarárunum var lenska að geyma eignarhald fyrirtækja, og peninga, á framandi slóðum. Útibú eða dótturfélög íslensku bankanna settu upp allskyns félög fyrir viðskiptavini sína í Lúxemborg, Hollandi, á Kýpur, Mön og eyjunum Jersey og Guernsey þar sem bankaleynd var, og er, rík.
Auk þess var mikið um það að stofnuð væru félög á Bresku Jómfrúareyjunum fyrir viðskiptavini þeirra, nánar tiltekið á Tortóla-eyju. Félögin skiptu hundruðum og langflest þeirra voru stofnuð í Kaupþingi í Lúxemborg, sem hélt sérstakar kynningar fyrir viðskiptavini sína til að sýna fram á hagræðið sem fékkst af því að geyma t.d. ávinning af hlutabréfasölu í aflandsfélögunum og greiða sér síðan arð úr þeim. Þannig komust þeir aðilar sem áttu þessi félög meðal annars hjá því að greiða skatta á Íslandi.
Stofnun félaga á Tortóla-eyju hófst um miðjan tíunda áratuginn þegar íslensk fjármálafyrirtæki fóru að bjóða stórum viðskiptavinum sínum að láta söluhagnað af hlutabréfaviðskiptum renna í slík félög. Á þeim tíma voru skattalög á Íslandi þannig að greiddur var tíu prósent skattur af slíkum söluhagnaði upp að 3,2 milljónum króna. Allur annar hagnaður umfram þá upphæð var skattlagður eins og hverjar aðrar tekjur, sem á þeim tíma þýddi 45 prósent skattur. Ari Matthíasson, sem nú gegnir stöðu þjóðleikshússtjóra, sat einu sinni fund þar sem stofnun slíkra félaga var kynnt. Hann greindi frá þeirri upplifun í Silfri Egils árið 2009.
Lögum um skattlagningu fjármagnstekna var hins vegar breytt um aldarmótin og eftir þá breytingu var allur söluhagnaður af hlutabréfum skattlagður um tíu prósent. Við það varð íslenskt skattaumhverfi afar samkeppnishæft og skattahagræðið af því að geyma eignir inni í þessum félögum hvarf. Frá þeim tíma voru ný félög því aðallega stofnuð til að fela raunverulegt eignarhald eða til að dylja tekjur eða eignir sem eitthvað athugavert var við hvernig mynduðust.
Erfitt að nálgast upplýsingar úr skattaskjólum
Á málþingi um skattaskjól, sem upplýsingaskrifstofan Norðurlönd í fókus og Kjarninn í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands héldu í október 2013, sagði Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri að erfitt væri að nálgast upplýsingar um skattaskjól víða um heim. Í gildi væru samningar milli Norðurlandanna og tugi skattaskjóla um upplýsingaskipti. Frá Bresku Jómfrúareyjunum væri til dæmis hvorki veittar bankaupplýsingar né fjárhagsupplýsingar þeirra félaga sem þar eru skráð. Ekki væri lögbundið að halda bókhald né að gefa út ársreikninga í þessum löndum.
Þótt bankareikningar, eða verðbréf í þeirra eigu, séu skráð á félög á stöðum eins og Bresku Jómfrúareyjunum, þá eru fjármunirnir þó ekki raunverulega geymdir þar. Í tilfelli Íslendinga er, líkt og áður sagði, oftast um að ræða bankareikninga eða félög sem stofnuð voru af gömlu íslensku bönkunum í Lúxemborg. Fjármunirnir sjálfir voru, og eru, síðan geymdir þar þótt þeir séu skráðir til heimilis á meira framandi slóðum.