Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra eða Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, eða þeir báðir, verða til svara í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi á mánudag. Þing kemur saman á ný eftir páskafrí klukkan 15 þann dag, fjórða apríl. Yfirleitt hafa Bjarni og Sigmundur skipt á milli sín óundirbúnum fyrirspurnartímum, sem eru á mánudögum og fimmtudögum.
Bjarni hefur verið í fríi á Flórída yfir páskana og mætir á ný til vinnu á mánudag. Sigmundur hefur einnig verið í fríi en er mættur til vinnu og stýrði ríkisstjórnarfundi í gær.
Stjórnarandstaðan ákvað eftir sameiginlegan fund forystunnar í gær og þingflokksfundi í kjölfarið, að leggja fram tillögu um þingrof og kosningar. Erfitt er að segja til um hvernig komandi þingtímabil verður, þar sem hlutirnir virðast gerast afskaplega hratt og nýjar upplýsingar koma fram nær daglega. Sem dæmi má taka að stjórnarandstaðan tilkynnti áform sín um kvöldmatarleytið í gær og fimm tímum síðar sagði gjaldkeri Samfylkingarinnar af sér eftir að fjallað hafði verið um félag hans í Lúxemborg í fjölmiðlum.
Kastljós á sunnudagskvöld
Á komandi sunnudagskvöld, kvöldið fyrir þingfund, mun Kastljós svo birta umfjöllun sína um eignir Íslendinga í þekktum skattaskjólum. Umfjöllunin er unnin í samstarfi við Reykjavik Media og ICIJ, alþjóðleg samtök rannsóknarblaðamanna. Ljóst er að sú umfjöllun mun varpa enn frekara ljósi á málið og bæta við það enn fleiri vinklum.
Engum blöðum er þó um það að fletta að Wintris málið og allt því tengdu mun taka mikinn tíma frá þinginu. Sjálfstæðisflokkurinn kom saman í gær til að ræða þann fjölda mála sem eftir á að leggja fram og Framsóknarflokkurinn samþykkti að aflétta leynd sem hefur ríkt yfir gögnum sem varða ákvarðanir stjórnsýslunnar. Það mun taka tíma að afgreiða.
Óljóst þingrof
Þingrofstillaga stjórnarandstöðunnar mun líka þurfa sinn tíma, þó skammt sé eftir af þingi til að rjúfa. Formennirnir ætla að funda með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hitta umboðsmann Alþingis og fá hans álit á málunum og svo þarf að ræða málið á þinginu. Að lokum þarf Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sjálfur að samþykkja þingrof til að af verði. Engin leið er að vita hvernig málin munu fara, en þeir þingmenn sem Kjarninn hefur rætt við í morgun sammælast um að ljóst sé að óvenjulegir tímar eru framundan á Alþingi.