Fáar manneskjur hafa hrist jafn rækilega upp í hinu íhaldsama indverska samfélagi og Phoolan Devi, betur þekkt sem ræningjadrottningin. Hún ólst upp í litlu þorpi í sárri fátækt en vann sig upp alla leið á indversku löggjafarsamkomuna í Delhi. Leiðin var þó þyrnum stráð og harla óhefðbundin. Saga hennar er blóði drifin og skelfileg á köflum en um leið mikilvæg fyrir lægstu stéttirnar í Indlandi sem um árhundruða skeið áttu sér enga málsvara.
Hið eiginlega Indland
Árið 1947 hélt hinn mikli Mahatma Gandhi ræðu þar sem hann lýsti hinu eiginlega Indlandi. Það er ekki það Indland sem ferðamenn sjá í stórborgum á borð við Delhi, Mumbai eða Kolkata. Um tveir þriðju Indverja búa í litlum þorpum og sveitum í mikilli fátækt. Gandhi sjálfur líkti þessum þorpum við mykjuhauga en dáðist engu að síður að íbúum hins eiginlega Indlands, hógværð þeirra og visku.
Það var einmitt í einu slíku þorpi, Ghura Ka Purwa, sem Phoolan Devi fæddist þann 10. ágúst árið 1963. Ghura Ka Purwa er smáþorp sem liggur við Yamuna fljótið, sem rennur í Ganghes, í Uttar Pradesh héraði. Uttar Pradesh er víðfemt svæði í Norðurhluta landsins og jafnframt það fjölmennasta í öllu Indlandi með um 200 milljón íbúa. Á seinustu áratugum hefur verið mikill uppgangur í Uttar Pradesh en þegar Phoolan Devi var að alast upp var svæðið bláfátækt landbúnaðarhérað. Líf fólksins í Ghura Ka Purwa var líkt og í öðrum sambærilegum þorpum algerlega sniðið í kringum stéttaskiptinguna. Stéttaskiptingin í Indlandi á sér fornar rætur í trú og menningu Hindúa og er mun sterkari í dreifbýli en þéttbýli. Fólk sem fæðist inn í ákveðna stétt, deyr í henni. Það finnur sér maka úr sömu stétt og vinnur við þau störf sem ætlast er til af þeirri stétt. Phoolan Devi fæddist inn í Mallah, stétt bátamanna, sem er ein af þeim allra lægst settu á svæðinu og teljast til hinna ósnertanlegu. Hún fæddist einnig inn í samfélag þar sem stúlkur voru álitnar byrði. Foreldrar hennar, Devidin og Moola, voru talin sérstaklega óheppin þar sem þau eignuðust fjórar dætur en aðeins einn son. Phoolan var næst elst þeirra systkina.
Uppreisnargirni Phoolan byrjaði snemma. Faðir hennar, sem hún lýsti sjálf sem einfeldningi, hafði verið svikinn um arf eftir foreldra sína og bróðir hans fékk nánast allt fjölskyldulandið. Sjálf bjuggu þau á landi sem var um ein ekra að stærð. Tíu ára gömul hóf Phoolan að berjast fyrir arfinum og áreitti meðal annars föðurbróðir sinn og fjölskyldu hans. Hún fór óboðin inn á landið settist þar niður en sonur föðurbróður hennar kom og barði hana með múrstein þar til hún missti meðvitund.
Ári seinna var hún neydd til að giftast. Eiginmaður hennar Patti Lal var á þrítugsaldri og fjölskylda hans greiddi fjölskyldu Phoolan eina kú fyrir. Patti Lal kom hræðilega fram við Phoolan, hann barði hana og nauðgaði henni ítrekað. Hún flúði nokkrum sinnum til fjölskyldu sinnar en var skilað jafnharðan aftur til eignmanns síns. Þetta þótti mikil skömm fyrir fjölskyldu Phoolan því að það þótti mikil skömm að yfirgefa maka sinn. Sama hver ástæðan væri. Að lokum neitaði fjölskylda Patti Lal að taka við henni aftur og þar með var Phoolan orðin að úrhraki innan samfélagsins. Þá var hún aðeins 16 ára gömul.
Gengjalíf
Fátækustu svæði Indlands voru iðulega undirlögð af glæpagengjum sem kölluðust dacoits og það svæði sem Phoolan Devi ólst upp á var engin undantekning. Þessi gengi fóru þungvopnuð um milli þorpa og rændu íbúa. Yfirleitt voru gengin stéttskipt og herjuðu á þorp þar sem fólk úr öðrum stéttum bjó. Efri stéttar gengi herjuðu á fátækari þorp en neðri stéttar gengi á þau ríkari. Því gátu þessi gengi öðlast vissan ljóma hjá viðkomandi stéttum. Jafnvel var talað um uppreisnarmenn fremur en ræningja. Það var árið 1979, þegar Phoolan var einungis 16 ára gömul, sem hún komst í kynni við eitt slíkt gengi. Þetta gengi var þó nokkuð óhefðbundið þar sem meðlimir þess voru úr ýmsum stéttum. Leiðtogi þess hét Babu Gujjar, úr efri stétt, og hann vildi gera Phoolan að sinni. Hann var ágengur við hana og reyndi eitt sinn að nauðga henni. Þá kom næstráðandi gengisins, Vikram Mallah, henni til bjargar en hann var úr hennar eigin stétt bátamanna. Vikram dró upp byssu og skaut Babu Gujjar til bana. Þar með var hann orðinn leiðtogi gengisins og í kjölfarið felldu hann og Phoolan hugi saman.
Phoolan varð fullgildur meðlimur gengisins. Hún lærði á byssu og tók þátt í ránsferðum. En hún var eina stúlkan í genginu og margir meðlimir þess voru ósáttir við hana og samband hennar við leiðtogann. Hún hafði einnig mikil áhrif á Vikram og það hvernig gengið starfaði. Þau réðust nú nánast eingöngu á þorp þar sem fólk úr efri stéttum bjó. Einnig réðust þau til atlögu að löglegum eiginmanni hennar, Patti Lal. Vikram dró hann út á götu og stakk hann í magann með hníf fyrir framan alla þorpsbúa. Hann lifði þó af.
Allt breyttist þó þegar tveir meðlimir gengisins, bræðurnir Shri og Lalla Ram, sneru aftur eftir fangelsisvist. Þeir voru úr efri stétt sem kallast Thakur og voru ósáttir við leiðtogaskiptin og ítök Phoolan. Þeir hófu að hrekja Mallah menn úr genginu en fengu efri stéttar menn inn í staðinn. Vikram og Phoolan voru orðin einangruð í genginu og fór svo að Ram bræður drápu Vikram. Þeir fluttu Phoolan svo til heimaþorps síns, Behmai. Þar var henni haldið í húsi og hópnauðgað af Thakur mönnum um nokkurra vikna skeið. Hún náði þó að flýja frá Behmai með hjálp vini Vikrams, Man Singh Mallah. Þau tvö ákváðu að stofna eigið gengi bátamanna og Phoolan hugði á hefndir.
Valentínusardagur
Þann 14. febrúar árið 1981, sjö mánuðum eftir að Phoolan Devi slapp frá Behmai, sneri hún aftur til þorpsins ásamt hinu nýja gengi sínu. Þau voru öll klædd sem lögregluþjónar og Phoolan fór fremst í flokki. Hún var 17 ára gömul, með varalit, rautt naglalakk og hríðskotabyssu úr seinni heimstyrjöldinni hangandi um sig miðja. Öllum þorpsbúum var stefnt að helgiskríni gyðjunnar Shiva, gyðju eyðilegginar. Þar ávarpaði hún þá með gjallarhorni:
„Hlustið á strákar! Ef þið elskið líf ykkar, færið okkur þá allt ykkar reiðufé, silfur og gull. Og hlustið aftur! Ég veit að Lala Ram Singh og Shri Ram Singh eru í felum hér í þorpinu. Ef þið færið mér þá ekki, mun ég stinga rifflinum upp í rassinn á ykkur og rífa hann í sundur. Þetta er Phoolan Devi sem talar. Móðir Durga sigrar!“
Einungis tveir meðlimir gengisins fundust í þorpinu og Phoolan reiddist mjög. Hún lét því safna saman öllum karlmönnum af Thakur stétt í þorpinu. Þetta voru alls 22 menn og voru þeir allir skotnir þar á staðnum.
Fjöldamorðið í Behmai olli straumhvörfum í indversku samfélagi. Ekki einungis vegna hins mikla mannfalls, heldur einnig vegna þess að það var táningsstúlka úr lægstu stétt sem stóð að því og fórnarlömbin voru öll karlmenn úr efri stétt. Fátt annað komst að í fréttatímum indverskra fjölmiðla og hneisan þótti svo mikil að ráðherra Uttar Pradesh héraðs þurfti að segja af sér. Í kjölfarið hófst umfangsmikil lögregluleit að Phoolan og gengi hennar og rúmlega 10.000 dollara fundarlaun voru í boði fyrir þann sem kæmi upp um þau. En Phoolan komst undan að miklu leyti vegna hjálpar frá bátamönnum og fólki úr öðrum lægri stéttum sem földu hana. Hún var orðin að hetju fátæka fólksins á svæðinu, nokkurs konar Hrói höttur. Hún fékk viðurnefnið ræningja drottningin og sögur af henni fengu goðsagnakenndan blæ á svæðinu. Phoolan Devi var orðin ein umtalaðasta manneskja landsins.
1980s :: Dacoit Phoolan Devi . In 1981 She Killed 22 Villagers in Behmai Village to Avenge Her Gang Rape pic.twitter.com/xnABvQQjgN
— Ravi Nandha (@ravi_nandha) February 6, 2016
Uppgjöf og fangelsi
Þann 12. febrúar árið 1983, tveimur árum eftir fjöldamorðið í Behmai, fylgdust um 10.000 manns og um 70 fréttamenn með því þegar Phoolan Devi gaf sig fram við yfirvöld í borginni Bhind. Með henni voru Man Singh Mallah sem þá var orðinn ástmaður hennar, fjölskylda hennar og þeir örfáu úr gengi hennar sem ennþá voru lifandi. Phoolan var illa til reika og augljóst að þessi tvö ár í felum fyrir lögreglunni höfðu verið henni erfið. Hún hafði þó sett ýmis skilyrði fyrir uppgjöf sinni, þar á meðal að enginn úr gengi hennar fengi dauðarefsingu, að hámarksrefsingin yrði 8 ára fangelsi fyrir hvern meðlim og að hún fengi litla landspildu til eignar. Phoolan og félagar hennar lögðu niður vopn sín og skotfæri fyrir framan tvær myndir. Önnur var af Mahatma Gandhi en hin af hindúagyðjunni Durga sem Phoolan tilbað mest.
Ljóst var að viðburðurinn olli indversku lögreglunni og yfirvöldum miklum vonbrigðum. Flestir bjuggust við að sjá heillandi en jafnframt ógnvekjandi skæruliðadrottningu færða í járn. En raunin var sú að Phoolan leit meira út eins og lítill, frekur og kjaftfor óþekktarpjakkur. Var þetta virkilega manneskjan sem hafði haldið gervöllu Uttar Pradesh héraði í heljargreipum í tvö ár og margsinnis komist undan klóm lögreglumanna?
Goðsögnin um ræningjadrottninguna var þó alls ekki dauð og átti meira að segja eftir að eflast til muna. Phoolan var færð í fangelsi og ákæra með um 50 atriðum birt. En þrátt fyrir mikinn þrýsting frá aðstandendum fórnarlambanna frá Behmai þorðu yfirvöld ekki að rétta yfir henni. Hún var óvænt orðin að hetju hinna ósnertanlegu og réttarhöld hefðu getað valdið miklum óeirðum. Á þessum tíma voru áhrif lægri stéttanna að eflast til muna í stjórnmálum landsins og stjórnmálamenn þurftu að reiða sig á atkvæði þeirra. Því sat Phoolan í fangelsi án réttarhalda í 11 ár. Lífið í fangelsi reyndist henni þó ákaflega erfitt. Ítrekað var reynt að ráða hana af dögum og hún veiktist einnig af krabbameini. Árið 1994 var henni loks sleppt og allar ákærur dregnar til baka. Þetta kom öllum á óvart en þó ekki nærri jafn mikið á óvart og næsti kafli í lífi hennar.
Þingmaður
Árið 1996 var Phoolan Devi kjörin þingmaður á indversku löggjafarsamkunduna Lok Sabha. Hún bauð sig fram í sæti Mirzapur kjördæmis í Uttar Pradesh fyrir hinn nýstofnaða sósíalistaflokk Samajwadi. Samajwadi flokkurinn sat í skammlífri samsteypustjórn vinstri og sósíalistaflokka til ársins 1998 þegar boðað var til kosninga og Phoolan missti sæti sitt. Hún vann það þó aftur í kosningum ári seinna en sat þá í stjórnarandstöðu. Framboð Phoolan fékk strax mikla athygli og hún varð að táknmynd fyrir vaxandi áhrif lægstu stéttanna og þá sérstaklega kvenna. Í ljósi fortíðar hennar gat hún þó ekki málað sig sem neinn friðarpostula heldur frekar sem hefndarengil. Hún minnti fólk stöðugt á óréttlæti stéttaskiptingarinnar og stöðu ungra stúlkna í Indlandi, sérstaklega í dreifbýlinu. Aldrei fyrr höfðu lægstu stéttirnar mætt svo vel á kjörstað og það voru þær sem fleyttu Phoolan inn á þing.
Á þessum tíma var Phoolan orðin gjörbreytt. Hún hafði gifst stjórnmálamanni að nafni Umed Singh og lifði borgaralegu lífi. Hún klæddist tískufatnaði og sótti snyrtistofur. En hún var enn ólæs og störf hennar innan þingsins voru mjög takmörkuð. Hún var þeim mun meira áberandi utan þingsins. Hún ferðaðist mikið um, þ.m.t. til Evrópu, og hélt ræður um órættlæti og bág kjör lægri stéttanna. Einnig átti hún það til að mæta án fyrirvara í ýmis fangelsi og heimtaði að fá að hitta félaga sína sem þar sátu inni. Hún var því í meira lagi óvanalegur þingmaður.
Saga Phoolan Devi hlaut sviplegan endi þann 25. júlí árið 2001. Þrír grímuklæddir menn réðust að henni fyrir utan heimili hennar í Delhi og skutu hana til bana. Mennirnir flúðu vettvanginn og komust burt en skömmu síðar gaf einn af þeim sig fram. Sá heitir Sher Singh Rana af stétt Thakur og fullyrti hann að morðið hafi verið hefnd fyrir atburðinn í Behmai þorpi 20 árum fyrr. Viðbrögðin við morði hennar voru hörð og víða brutust út óeirðir í Uttar Pradesh héraði. Leiðtogar Samajwadi voru fljótir að kenna ríkisstjórninni um og sökuðu stjórnarflokkinn BJP um að hafa viljandi slakað á öryggisgæslu hennar. Þeim samsæriskenningum var þó algerlega hafnað af BJP. Sher Singh Rana sat lengi í fangelsi án réttarhalda en árið 2014 var hann loks dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á ræningjadrottningunni.
Phoolan Devi "bandit queen of India" who later became a member of parliament & was assassinated in 2001 #IWD2016 pic.twitter.com/rQpNwPwLVm
— lavender menace (@ghouInextdoor) March 8, 2016