Ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins mun ekki starfa áfram með Sigmund Davíð Gunnlaugsson í brúnni, það liggur nú fyrir, eftir darraðadans og dramatíska atburðarás í dag. Sem hófst raunar með skýrum yfirlýsingum Sigmundar Davíðs um að hann myndi ekki hætta og ekki ríkisstjórnin heldur.
Tillaga sem kom á óvart
Eftir fund með þingflokki Framsóknarflokksins tilkynnti Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, að hann myndi taka við sem forsætisráðherra og Sigmundur Davíð hætta. Þetta væri tillaga Framsóknarflokksins, eins og hún var á borð borin.Sé mið tekið af samtölum sem Kjarninn hefur átt í dag, bæði við stjórnarþingmenn og þingmenn stjórnarandstöðu, þá var þetta útspil aldrei mögulegt til þess að verða sáttagrundvöllur á Alþingi eða mæta kröfum um nýtt upphaf, eins og greina mátti með áberandi hætti í fjölmennustu mótmælum á Íslandi í seinni tíð í gær, og stjórnarandstaðan hefur lagt áherslu á. Tillagan kom flestum í stjórnarandstöðunni á óvart.
Erfitt að spá fyrir í óvissuskýi
Óvissuský, sem síðan getur horfið hratt, er nú yfir framhaldinu og í raun ótímabært að spá fyrir með mikilli vissu um það sem mögulega geti gerst. Hins vegar er stjórnarandstaðan uppi með skýra kröfu um kosningar og að almenningur ráði ferðinni í gegnum þær. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur talað fyrir því sérstaklega - bæði í viðtölum og á göngunum á Alþingi - að stjórnarandstæðingar standi saman í því að knýja fram vantraust á ríkisstjórnina og kosningar í kjölfarið. Flokkur hennar mælist með um 11 prósent fylgi þessi misserin.
Það sem flækir stöðuna hjá stjórnarandstöðunni er afar veik staða flokka innbyrðis, og ójafnvægi milli þingmannastyrks þeirra og síðan kannanna. Það sem er skýrast í þeim efnum er staða Pírata, sem mælast nú með 36,1 prósent fylgi, en eru með þriggja manna þingflokk. Samfylkingin er með afar veika forystusveit og lítið fylgi í sögulegu samhengi (9,5 prósent), og hefur ákveðið að styrkja innra starfið með kosningu nýs formanns og forystu á næsta landsfundi. Þegar hafa komið fram nokkrir flokksmenn sem vilja leiða flokkinn inn í nýja tíma, þar á meðal Helgi Hjörvar, Oddný Harðardóttir og Magnús Orri Schram. Eins og staða mála nú, er því Árni Páll Árnason, formaður flokksins, með afar veikt umboð til forystuverkefna í íslenskum stjórnmálum og ekki víst að kosningar sé það besta í stöðunni, sé horft á málin út frá hagsmunum Samfylkingarinnar sérstaklega.
Berst fyrir tilveru sinni
Björt framtíð (3,2 prósent) er í reynd að berjast fyrir tilveru sinni, þrátt að einstaka þingmenn flokksins hafa verið nokkuð áberandi í því verkefni þingsins, að reyna að byggja upp traust og trúnað að undanförnu, eftir að áhrifa Panamaskjalanna fór að gæta í íslenskri stjórnmálaumræðu. Sérstaklega má nefna Óttar Proppé í þeim efnum.Þessi staða gerir stjórnarandstöðunni erfitt fyrir að stilla saman strengi, og ná vopnum sínum fyrir kosningar sem geta farið fram innan tíðar, jafnvel skömmu fyrir forsetakosningar í júní eða nokkrum mánuðum eftir þær. En þrátt fyrir það, þá mælist stjórnarandstaðan nú samanlagt með 59,3 prósent fylgi, samkvæmt könnunum Gallup.