Stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi, Samfylkingin, Vinstri græn, Björt framtíð og Píratar, vilja ólm fá kosningar fram hið fyrsta, en þurfa að sætta sig við að bíða fram á haustið, eftir tíðindi gærdagsins. Sigurður Ingi Jóhannsson leiðir nýja ríkisstjórn sem forsætisráðherra, eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vék úr henni, en reikna má með því að nýr ráðherrakapall skýrist í dag. Lilja Alfreðsdóttir tekur sæti í ríkisstjórn sem utanþingsráðherra, og verkaskipting stjórnarflokkanna eftir ráðuneytum verður áfram sú sama og verið hefur til þessa, eftir því sem fram kom í máli Sigurðar Inga og Bjarna Benediktssonar, í gærkvöldi.
Eins og staða mála er nú, gæti sá tími sem líður fram að kosningum skipt miklu máli fyrir stjórnarandstöðuna. Bjarni sagði í gær að stjórnarandstaðan væi „líka í rusli“, og vísaði til þess að ennþá væri góður meirihluti hjá stjórnarflokkunum í þinginu, sem gætu staðið af sér vantrausttillögu.
Krafa stjórnarandstöðunnar er ennþá sú að kosið verði strax, og hefur þetta komið skýrlega fram í viðtölum við forystufólk stjórnarandstöðunnar, ekki síst í gærkvöldi. Ríkisstjórn undir forystu Sigurðar Inga heldur um þræðina fram á haust meðan unnið verður að mikilvægum málum, þar helst aflandskrónuútboðinu sem er lykilatriði í áætlun stjórnvalda um afnám hafta. Von er á því máli á dagskrá á næstu tveimur til þremur vikum.
Forystufólk í stjórnarandstöðuflokkunum, þau Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Óttar Proppé – sem mest hefur verið áberandi í þessu máli fyrir hönd Bjartrar framtíðar – og Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson, hjá Pírötum, hafa talað með samstilltum hætti og segjast öll á því að þessi niðurstaða, það er að Sigmundur Davíð stígi til hliðar og Sigurður Ingi taki við forsætisráðuneytinu, sé ekki góð niðurstaða sem fólk sætti sig við. Það sáust engin skilti með óskum um að Sigurður Ingi yrði forsætisráðherra, sagði Helgi Hrafn, þegar þessi mynd var að skýrast.
Miklar sviptingar
Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að það sé farið að molna undan fylgi við ríkisstjórnarflokkanna. Þeir mælast nú með 26 prósent traust, samkvæmt könnun frá MMR í gær, sem er það lægsta sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa mælst með frá því þeir tóku við stjórnartaumunum 2013. Raunar hefur ríkisstjórn sjaldan mælst með svo lítið traust. Framsóknarflokkurinn er með 8,7 prósent fylgi og lækkar frá því í síðustu könnun í mars og Sjálfstæðisflokkurinn 22,5 prósent. Píratar eru langsamlega stærsti flokkur landsins með 36,7 prósent fylgi. Vinstri græn mælast með 12,8 prósent fylgi og Samfylkingin 9,9 prósent. Björt framtíð er yfir fimm prósent lágmarki, sem þarf til að ná fólki inn á þing, og mælist nú með 5,8 prósent fylgi. Stjórnarandstaðan er því með 65,2 prósent fylgi í þessari nýjustu könnun, en stjórnarflokkarnir 31,2 prósent.
Það þarf ekki að koma á óvart að stjórnarandstaðan hafi verið að knýja á um kosningar í ljósi þessarar stöðu.
Innanmein og valdabarátta
Innan Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, það er í grasrót flokkanna, hefur verið rætt um að þetta kunni að vera heppilegur tímapunktur til að þess að auka samstarf flokkanna, jafnvel sameinast. Líklegt verður að teljast að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, gæti orðið leiðtogi þeirra hreyfingar, í ljósi þess að mikið traust til hennar hefur verið staðfest síendurtekið í könnunum að undanförnu. En þetta hefur ekkert verið rætt formlega meðal þingmanna og ekki heldur í forystusveit þessara flokka á landsvísu. Frekar má orða það svo, að flokkarnir viti af möguleikanum, í ljósi þess hvernig hið pólitíska landslag hefur þróast, en hafi til þessa ekkert gert til að ýta honum í farveg til framkvæmdar.
Þvert á móti hefur Samfylkingin, sem hefur átt í stökustu vandræðum allt kjörtímabilið og mælst í lægstu lægðum í fylginu frá stofnun, horft til þess að endurnýja flokksstarfið og forystuna. Hafa Helgi Hjörvar, Oddný Harðardóttir og Magnús Orri Schram þegar boðið sig fram til formennsku þegar kosið verður um endurnýjun forystunnar.
Í ljósi þess hve lítið fylgi hefur verið við Bjarta framtíð allt kjörtímabilið, þá liggur fyrir að hún mun berjast fyrir lífi sínu í næstu kosningum, fari hún fram undir sömu formerkjum.
Píratar eru hins vegar með pálmann í höndunum. Þrátt
fyrir þriggja manna þingflokk, Birgittu, Helga Hrafn og Ástu Guðrúnu
Helgadóttur, þá er ljóst að valdaþræðirnir í stjórnmálum landsins gætu lent hjá
þeim í haust þegar kosið verður. Ef niðurstaðan yrði í samræmi við
kannanir þá fengju Píratar 28 þingmenn af 63 í heildina. Þau hafa rætt um það,
að ríkisstjórn með þeirra þátttöku þurfi að vera skipuð utanþingsráðherrum.
Ekkert hefur sést á spilin í þeim efnum, það er hvaða fólk það er sem kæmi til
greina sem ráðherrar, en Píratar þurfa að hafa nokkuð hraðar hendur, þegar kemur að skipulagi innra starfsins, í ljósi þess að kosið verður í haust.
En það má ekki gleyma þeim þekktu sannindum úr stjórnmálum, að staða mála getur breyst hratt og erfitt að er að sjá fyrir þróun mála, eins og atburðarás síðustu daga sýnir glögglega. Það sem virðist augljóst nú, gæti verið breytt innan skamms tíma.