Allir stærstu fjölmiðlar Bandaríkjanna og Evrópu hafa fjallað um Panamaskjölin og upplýsingar sem í þeim er að finna um fólk sem geymir peninga í félögum á skilgreindum lágskatta- og skattaskjólum.
Á meðal svæða sem sérstaklega eru skilgreind með þessum hætti eru Bresku jómfrúaeyjarnar, þar sem Tortóla er á meðal. Nú hefur David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, viðurkennt að hafa átt hlut í einu slíku félagi, Blairmore Investment Fund, sem faðir hans var skráður fyrir. Hann seldi hlutinn fyrir 31.500 pund, eða sem jafngildir 5,5 milljónum króna, fjórum mánuðum áður en hann varð forsætisráðherra. Augljóst er strax, að málið verður erfitt fyrir hann.
Í morgun var mál Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem nú er nýbúinn að segja af sér sem forsætisráðherra, á forsíðu New York Times, og frá því greint að hann hefði látið undan þrýstingi um að segja af sér, eftir að hafa verið afhjúpaður sem eigandi Wintris Inc., til ársloka 2009, en eiginkona hans hefur átt síðan í séreign. Málið var líka til umfjöllunar í gær.
Eins og kunnugt er, var farið yfir þessi mál í Kastljósi í samstarfi við Reykjavík Media, síðastliðinn sunnudag. Lítið hefur verið rætt um það í erlendum fjölmiðlum að félagið hafi lýst 500 milljóna króna kröfu í slitabú bankanna, á meðan stjórnvöld unnu lausn á vandanum sem þau sköpuðu fyrir þjóðarbúið, í tengslum við áætlun um afnám hafta. Tilvist þess, og að það hafi verið skráð í aflandsfélag (offshore company) þykir vera fréttnæmt eitt og sér.
Ekki er ólíklegt að fleiri stórtíðindi muni berast vegna þessara gagna, sem
svipta hulunni af því hvernig auðugt fólk og fyrirtæki geymi auðævi sín með
leynd.
Pólitískt átak á heimsvísu
Samhengið sem umfjöllunin birtist í tekur mið af því pólitíska átaki sem hefur verið í gangi á heimsvísu, meðal annars undir forystu ríkisstjórnar Baracks Obama Bandríkjaforseta, um að þrengja að þessum svæðum sérstaklega og uppræta starfsemina. Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu 5. apríl síðastliðinn,sem hann hélt meðal annars til að ræða lekann á Panamaskjölunum, sagði hann að þegar allt kæmi til alls þá væri það millistéttarfólkið sem þyrfti að borga fyrir það, að ríkt fólk og fyrirtæki, nýttu sér skattaskjól og lágskattasvæði. Þau væru að nýta sér glufur (loopholes) í lögunum og það þyrfti að gera allt sem mögulegt væri, til að loka á þennan möguleika. Allir þyrftu að leggja sitt af mörkum til samfélagsins.
Snýst um slæma bankastarfsemi og svik
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Obama gerir skattaskjól að umstalsefni, því hann hefur opinberlega verið með baráttu gegn þeim sem hluta af stefnu ríkisstjórnar sinnar frá því árið 2010, þegar hann hrinti úr vör átaki til að uppræta skattsvik sem bankar á Wall Street aðstoðuðu við. Frá þeim tíma hafa margir bankar þurftu að greiða sektir til ríkissjóðs Bandaríkjanna, þar á meðal margir evrópskir bankar. Bankarnir HSBC og Credit Suisse hafa báðir þurft að greiða sektir í ríkissjóð, en HSBC þeim mun meira, og eru öll kurl ekki komin til grafar enn hvað hann varðar. Samtals nema sekir ríflega fimm milljörðum Bandaríkjadala, sem sem nemur meira en 600 milljörðum króna.
Í Panamaskjölunum kemur meðal annars fram, að fyrrverandi bankastjóri HSBC, Michael Geoghegan, hafi nýtt sér aflandsþjónustu, til að vista eignir sínar í Bretlandi, meðal annars átta milljón punda fasteign í Kensington. Talið er að hann hafi komist hjá skattgreiðslum með þessum hætti. Málið er áfall fyrir þá sem berjast nú fyrir því að Bretland fari úr Evrópusambandinu, en Geoghegan hefur verið áberandi í hópi þeirra.
Girða fyrir möguleikann.
Meginsjónarmiðin sem stjórnvöld í Bandaríkjunum, og víða um heim, horfa til í rannsóknum sínum á starfsemi sem þessari, er að afla upplýsinga um hvernig staðið er að málum, svo það sé hægt að girða fyrir það í lögum að skattaundanskotin endurtaki sig. Áherslurnar eru á að breyta kerfinu, og reyna að endurheimta peninga sem ríkissjóður annars ætti rétt á.
En eins og með margt sem snýr að lögum um skattamál, þá eru þetta ekki einföld mál. Þannig eru mörg skattaskjól í Bandaríkjunum sjálfum, svo sem í Nevada og Delaware, þar sem fjölmörg skúffufyrirtæki eru skráð til að lágmarka umsýslukostnað og skatta. Umræða um þetta hefur verið lifandi í Bandaríkjunum, en þar er mikil hefð fyrir innbyrðissamkeppni ríkja um regluverk fyrir fyriræki.
Það sem Bandaríkin, og önnur ríki heimsins sem styðja
samstarf um að girða fyrir skattaskjól, þar á meðal Íslands, vilja helst taka á eru
aflandsfélagastarfsemi hjá ýmsum sérfræðingum þar sem eignafólk og fyrirtæki nýta
sér ríka leynd til að gefa eignir ekki upp til skatts af fullu.
Líklegt er að þetta muni taka töluverðan tíma, enda er leyndin óvinur númer eitt
í þessu. Rannsóknarblaðamennskan virðist hafa opnað á mikið magn gagna um
leynilega starfsemi, og má telja líklegt að mikils titrings muni gæta vegna
þeirra næstu vikur og mánuði.